Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Draumurinn um 30 stunda vinnuviku

Kristján Bragason, framkvæmdastjóri Norrænna samtaka starfsfólks í hótel, veitinga, og ferðaþjónustugreinum hefur kynnt sér umræðuna í Evrópu um styttingu vinnuvikunnar.

Draumurinn um 30 stunda vinnuviku

Kristján Bragason, framkvæmdastjóri Norrænna samtaka starfsfólks í hótel, veitinga, og ferðaþjónustugreinum hefur kynnt sér umræðuna í Evrópu um styttingu vinnuvikunnar.

Kristján Bragason framkvæmdastjóri Norrænna samtaka starfsfólks í hótel, veitinga- og ferðaþjónustugreinum

Í Svíþjóð hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir boðið starfsfólki upp á 30-35 stunda vinnuviku án launaskerðingar, bæði tímabundið og ótímabundið.

Síðustu misserin hefur stytting vinnuvikunnar verið talsvert í umræðunni, bæði á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu. Á Alþingi liggur nú fyrir frumvarp til laga um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35. Víða um heim hafa verið gerðar tilraunir með 30 stunda vinnuviku. Meðal annars bárust nýlega fréttir af því að verkalýðsfélög í þýska bílaiðnaðinum hefðu samið um 28 stunda vinnuviku. Ástæðurnar fyrir þessum breytingum eru óskir almennings um betri samræmingu vinnu og einkalífs. Fjölmargar viðhorfskannanir sýna að ungt fólk í Evrópu velur sveigjanlegan vinnutíma og aukinn frítíma fram yfir starfsframa og hærri laun. En hver er staðan í raun og veru í Evrópu og á Norðurlöndunum?

Af hverju er vinnuvikan svona löng á Íslandi?

Íslendingar vinna langan vinnudag og yfirvinna er mjög algeng. Þrátt fyrir að vinnutími hafi minnkað mest á Íslandi af öllum löndum í Evrópu á síðustu 10 árum, vinnur launafólk í fullu starfi á Íslandi ennþá lengsta vinnudaginn  í Evrópu.

Heimild: Eurostat

Það er ekkert eitt svar við þeirri spurningu um hvers vegna Íslendingar vinna meira en aðrar þjóðir. Skýringarnar er ekki að finna í lögum um lengd vinnuvikunar, né í almennum ákvæðum kjarasamninga, þó ýmsir kunni að telja að það sé raunin. Í flestum ríkjum Evrópu kveða lög á um 40 tíma vinnuviku, þó fjölmargir kjarasamningar innihaldi ákvæði um styttri vinnutíma. Þegar virkur vinnutími á Íslandi samkvæmt almennum ákvæðum kjarasamninga er borinn saman við sambærileg vinnutímaákvæði á hinum Norðurlöndunum er ekki heldur að finna skýringu á þessum mikla mun. Til dæmis ber sænsku launafólki að skila 40 virkum vinnutímum á viku að viðbættum kaffi- og matartímum á meðan launafólk á hinum Norðurlöndunum, þar með talið Íslandi, ber einungis að skila um 37 tímum.

Heimild: Eurostat

Á hinn bóginn er mjög sjaldgæft að launafólk í Svíþjóð vinni mikla yfirvinnu, á meðan um 14% af íslensku launfólki vinnur að jafnaði meira en 50 klst á viku. Það má því halda því fram að helstu skýringar á styttri vinnutíma á hinum Norðurlöndunum sé að finna í ólíkri menningu, vinnustaðasamningum, lægri greiðslum vegna yfirvinnu og óþægilegs vinnutíma, sem og strangari vinnuverndarákvæðum vakta- og næturvinnufólks.

 

Aukin framleiðni eða aukinn kostnaður

Margvísleg tilraunaverkefni hafa verið framkvæmd á síðustu árum til að meta kosti og galla þess að stytta vinnuvikuna. Í Svíþjóð hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir boðið starfsfólki upp á 30-35 stunda vinnuviku án launaskerðingar, bæði tímabundið og ótímabundið. Fyrirtæki og stofnanir hafa bent á að helstu kostir við styttingu vinnuvikunnar sé bætt líðan og heilsa starfsfólks, sem hafi skilað sér í færri veikindadögum, minni starfsmannaveltu og aukinni starfsánægju. Allt eru þetta þættir sem stuðla að bættri framleiðni og skilvirkni. Á hinn bóginn hafa flestar þær tilraunir sem gerðar hafa verið í Svíþjóð einnig sýnt fram á að þessi framleiðniaukning vegur ekki upp aukinn launakostnað og þörf fyrir fjölgun starfsfólks. Þá hefur skortur á vel menntuðu og sérhæfðu vinnuafli í mörgum tilfellum haft hamlandi áhrif á þessi tilraunaverkefni og leitt til aukinnar yfirvinnu.

Þegar verkalýðshreyfingin hefur sett fram kröfur um styttingu vinnutímans hafa atvinnurekendur komið með mótkröfur um að fyrirtæki fái sveigjanlegra vinnufyrirkomulag, nokkuð sem starfsfólkið er sjaldnast spennt fyrir.

Skiptar skoðanir um mikilvægi vinnutímastyttingar

Eins og við er að búast eru skiptar skoðanir um áhrif og gildi þess að stytta vinnuvikuna. Þannig eru flestir atvinnurekendur á móti slíkum aðgerðum vegna kostnaðaraukans. Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur ekki heldur verið einhuga um gildi og mikilvægi styttri vinnuviku. Í flestum tilvikum þegar verklýðshreyfingin hefur sett fram kröfur um styttingu vinnutímans hafa atvinnurekendur komið með mótkröfur um að fyrirtæki fái sveigjanlegra vinnufyrirkomulag, nokkuð sem starfsfólkið er sjaldnast spennt fyrir.

Bílaiðnaðurinn í Evrópu hefur lengi verið leiðandi varðandi styttingu vinnuvikunnar, en starfsgreinin er vel skipulögð, með sterk stéttarfélög og sérlega hagkvæma kjarasamninga. Í febrúar síðastliðnum samdi IG Metall, eitt öflugasta stéttarfélag í heimi, við þýska bílaframleiðendur um aukinn sveigjanleika fyrir starfsfólk. Þannig geta starfsmenn óskað eftir því að stytta vinnuvikuna úr 35 tímum á viku niður í 28 tíma í allt að tvö ár, t.d. til að geta eytt meiri tíma með fjölskyldunni eða til að geta dregið úr vinnu á efri árum. Á móti getur fyrirtækið óskað eftir því að starfsmenn vinni allt að 40 tíma á viku á álagstímum.

Önnur stéttarfélög í Evrópu sem krefjast styttingu vinnutímans eru skrifstofufólk og sérfræðingar, sem og hópar sem vinna mjög líkamlega erfið störf eða næturvinnu. Á sama tíma hefur hin almenna verkalýðshreyfing verið tvístígandi varðandi styttingu vinnuvikunnar, enda er ólíklegt að slík aðgerð muni hjálpa stórum hópum láglaunafólks sem eiga erfitt með að lifa á þeim tekjum sem það hefur í dag.

Verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þannig að verðmætaaukningin vegna tækniþróunar verði nýtt til að tryggja jöfnuð, góð lífskjör, menntun og velferð í staðinn fyrir að ávinningurinn renni óskiptur í vasa fjármagnseigenda. Þannig mætti taka út hluta af ávinningi tæknivæðingarinnar með því að stytta vinnuvikuna.

Þá hafa stéttarfélög á hinum Norðurlöndunum einnig bent á að krafan um styttri vinnuviku sé í mótsögn við kröfuna um fullt starf fyrir alla sem vilja, en á síðasta áratug hefur hlutastörfum fjölgað mikið sérstaklega í þjónustu, verslun og umönnun. Margir þeirra sem ráðnir eru í hlutastörf vilja gjarnan vera í fullu starfi en fá ekki. Vandi margra er því of fáir vinnutímar per viku en ekki of margir. Margt bendir einnig til þess að ótryggar skammtímaráðningar í formi lausamennsku eða ýmis form verktakaráðninga verði mun algengari í framtíðinni en við þekkjum í dag. Allt eru þetta þættir sem munu flækja umræðuna um styttingu vinnuvikunnar. Því er nauðsynlegt að byrja á að tryggja að launafólk geti lifað mannsæmandi lífi af mánaðarlaunum án yfirvinnu áður en ráðist er í að stytta vinnutímann.

Eðlilegt að tæknivæðingin skili styttri vinnudegi

Aukin sjálfvirkni sem og notkun gervigreindar og vélmenna mun á næstu árum ná nýjum hæðum og hafa mikil áhrif á samfélagið og vinnumarkaðinn. Einn sterkasti drifkraftur þessarar þróunar er viðleitni fyrirtækja til þess að lækka kostnað, auka hagnað og arðsemi eigenda.  Gera má ráð fyrir því að fjölmörg af þeim störfum sem við þekkjum í dag muni hverfa um leið og ný sérhæfð störf verði til. Hætta er þó á því að atvinnuleysi og ójöfnuður aukist í kjölfar nýrrar tækni.

Verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þannig að verðmætaaukningin vegna tækniþróunar verði nýtt til að tryggja jöfnuð, góð lífskjör, menntun og velferð í staðinn fyrir að ávinningurinn renni óskiptur í vasa fjármagnseigenda. Þannig mætti taka út hluta af ávinningi tæknivæðingarinnar með því að stytta vinnuvikuna þannig að allir vinni minna en nú tíðkast í stað þess að sumir vinni mikið og aðrir ekki neitt.

Hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér þá er ljóst að á næstu árum munum við sjá auknar kröfur frá launafólki um styttri vinnuviku og verkalýðshreyfingin mun setja slíkar kröfur á oddinn. Hvernig þessi stytting verður útfærð er erfitt að segja, en ólíklegt er að ein lausn henti öllum starfstéttum. Stytting vinnuvikunnar er handan við hornið, kannski ekki á morgun en eftir nokkur ár. Draumurinn um 30 klukkustunda vinnuviku lifir enn, en fyrst þarf að tryggja að verkafólk geti lifað af dagvinnu sinni.

Næsta grein Við erum ekki búin að afgreiða #metoo