Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Hin hliðin - Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar

Sólveig Anna vann yfirburða sigur í formannskjöri í stéttarfélaginu Eflingu í byrjun mars og tók við embætti í þessu næst stærsta stéttarfélagi landsins í lok apríl. Hér sýnir hún lesendum Vinnunnar hina hliðina á sér.

Hin hliðin - Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar

Sólveig Anna vann yfirburða sigur í formannskjöri í stéttarfélaginu Eflingu í byrjun mars og tók við embætti í þessu næst stærsta stéttarfélagi landsins í lok apríl. Hér sýnir hún lesendum Vinnunnar hina hliðina á sér.

Gælunafn: Alltaf kölluð Solla.

Fæðingastaður: Fædd í Reykjavík.

Aldur: Verð 43 ára 29. maí.

Menntun: Ómenntuð verkakona.

Starfsferill: Ég hef unnið við skrifstofustörf, afgreiðslustörf og svo hef ég í næstum áratug unnið á leikskólanum Nóaborg þar sem ég hef verið almennur starfsmaður, stuðningsfulltrúi og nú síðast deildarstjóri. Svo hef ég unnið fullt af ólaunaðri vinnu; sjálfboðaliðastörf í skóla barnanna minna í Minnesota og sjálfboðaliðastörf sem aðgerðasinni hér í Reykjavík. Ekki má heldur gleyma allri ólaunuðu félagslegu endurframleiðslunni sem ég hef unnið við sem kona sem rekur heimili og á fjölskyldu.

Fyrirmyndin: Ég er mjög hrifnæm og á margar fyrirmyndir, allskonar fólk sem á það flest  sameiginlegt að vera róttæklingar og uppreisnarseggir. En helsta fyrirmyndin mín er satt best að segja hið alþjóðlega próletaríat, sem hefur í gegnum aldirnar risið upp aftur og aftur, þrátt fyrir allskonar margþætta og hrikalega kúgun, og krafist þess að fá að njóta samfélagslegs og efnahagslegs réttlætis, með stórkostlegum árangri.

Helsta afrek? Að vera oftast frekar glöð og hress.

Stærstu mistök? Nú hljóma ég eins og markþjálfi en mistök eru til að læra af og þegar við erum búin að því eru þau ekki lengur mistök heldur aðeins hluti af því að vera manneskjan sem við erum.

Draumurinn? Akkúrat núna er stærsti hversdagslegi draumurinn minn draumur um einhverskonar sveita/náttúrulíf. En stærsti risadraumurinn er draumurinn um samfélag byggt á gildum samvinnu og samhygðar þar sem öll leggja til samfélagsins eftir bestu getu og öll njóta þess sem þau þurfa.

Kennarinn? Ég vitna í Rósu Lúxemburg (mjög mikilvægan kennara): Sagan er besti kennarinn.

Óttinn? Ég slasaðist illa í vetur og er ennþá alveg fáránlega hrædd við líkamlegan sársauka. Það er mjög vont að meiða sig! Annars er ég sjaldan hrædd, eftir að ég tók þá sérlega gáfulegu ákvörðun að hætta að horfa á hryllingsmyndir og komst að því í kjölfarið að það er í raun frekar lítið af draugum, fjöldamorðingjum og öðrum ófreskjum að reyna að næla í mig.

Bókin: Ég á margar uppáhaldsbækur en uppáhaldsrithöfundarnir mínir akkúrat núna eru Ursula K. Le Guin og China Mieville. Þau skrifa bæði vísindaskáldsögur en mjög ólíkar, Ursula með fágaðan og hófstilltan stíl og China eins og ímyndunarafls-sprengja. Svo eru þau bæði stórkostlega róttæk og með merkilegar og djúpar skoðanir á samfélaginu (Ursula er ný látin, 88 ára að aldri).

Kvikmyndin: Ég held ég segi Drive og skammist mín svo fyrir það að eilífu. Er strax farin að skammast mín …

Tónlistamaðurinn: Félagi Boots Riley. Og mörg önnur!

Platan: Platan sem hafði mest áhrif á tónlistasmekkinn minn var Surfer Rosa með Pixies þegar ég var 14 ára. Þá opnaðist ný veröld dásamlegrar brjálsemi.

Lagið? Það fer nú bara eftir skapi. Í gær hlustaði ég á Silver Springs með Fleetwood Mac og ákvað að það væri uppáhaldslagið mitt. Talaðu við mig aftur á morgun.

Landið? Landið sem er íslensk sveit um sumar.

Borgin? Æ, eru borgir eitthvað sérstaklega skemmtilegar?

Staðurinn á Íslandi? Brekkan sem ég lá í síðasta sumar, í dásamlegu veðri, um hásumar, í Þjórsárdalnum. Klukkutími af hreinni og undursamlegri vellíðan. Hlakka mjög mikið til að finna nýjar brekkur í sumar.

Flippið? Ég hef nú verið nokkuð aktívur flippari frá unga aldri þannig að mér dettur ekkert sérstakt í hug. Ég trúi mjög mikið á að fylgja innsæinu og innsæið mitt er þannig að það leiðir mig oft á nýjar og ókannaðar flipp-slóðir.

Áhugamálið? Pólitík og baráttan gegn ofurvaldi kapítalismans. Algjörlega þráhyggjukennt áhugamál.

Hippi eða pönkari? Mér finnst margt mjög heillandi við báðar stefnurnar. Þegar ég var yngri hefði ég sagt pönkari, var mjög höll undir þá menningarstrauma sem pönkið fæddi, bæði í tísku og tónlist en eftir því sem ég eldist hafa vaknað ýmsar hipp-ískar kenndir eins og innileg og heit náttúrudýrkun.

Íþróttaafrekið? Haha! Þau sem þekkja mig vita að íþróttaáhugi minn er nákvæmlega enginn. Ég reyndi að horfa á einn fótboltaleik, þegar síðasta boltabylgja reið hér yfir en dó næstum úr leiðindum. Er samt ánægð með að hafa prófað, til að geta strax hætt. Ég þarf að hreyfa mig mjög mikið en það er ekki íþrótt, bara ofvirkni.

Stefnan? Ég stefni í átt að meira frelsi; frelsi fyrir mig til að liggja oftar í brekku í sveit og samfélagslegu frelsi frá mannfjandsamlegum gildum nýfrjálshyggjunnar. Ég trúi því að fólk eigi sjálft að stjórna lífi sínu og stefnu þess. Til þess að það sé hægt þurfum við að hafa tíma og frið til að blómstra á eigin forsendum og til þess að fá þennan tíma þurfum við að tryggja öllum góða og mannsæmandi afkomu og tryggja að gæðum samfélagsins sé skipt jafnt á milli fólks svo að allt líf okkar sé ekki undirselt því að vera vinnuafl. Raunverulegt efnahagslegt frelsi allra er grundvöllur að réttlátu samfélagi fyrir allt fólk.

Næsta grein Stéttarfélög og grænmetisbændur taka höndum saman