Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Hvernig verður vinnumarkaðurinn 2030?

Halldór Oddsson lögfræðingur hjá ASÍ og Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ hafa kynnt sér þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni.

Hvernig verður vinnumarkaðurinn 2030?

Halldór Oddsson lögfræðingur hjá ASÍ og Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ hafa kynnt sér þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni.

Gervigreind: Gervigreind er sú geta véla og tækja að skilja, hugsa og leysa vandamál, þ.e.a.s. sýna vitræna hegðun.

Róbert Farestveit

Fjórða iðnbyltingin fær mikið vægi í umræðunni um þessar mundir. Gervigreind, vélmennavæðing og aukin sjálfvirkni munu fela í sér miklar áskoranir og ganga sumir svo langt að spá því að helmingur allra núverandi starfa geti verið sjálfvirkjuð í náinni framtíð. Aðrar rannsóknir ganga ekki jafn langt en benda þó á að störf munu gjörbreytast og kalla á nýja færni vinnandi fólks. Það er ekki að ástæðulausu að fyrirtæki og þjóðir leiti nú allra leiða við að undirbúa sig undir komandi breytingar, enda lífskjör fólks í húfi.

Ólík samsetning efnahagslífs þjóða gerir það að verkum að áhrifin verða ekki þau sömu allsstaðar. Sumar þjóðir munu nýta tækifærin á meðan staða annarra mun versna.  Sú sjálfvirknivæðing sem þegar hefur átt sér stað er sýnilegust í framleiðslustörfum. Vélar hafa leyst af hólmi venjubundin störf í framleiðslu um áratuga skeið en nærtæk dæmi á íslenskum vinnumarkaði er hvernig störfum í íslenskum sjávarútvegi hefur fækkað um nær helming á síðustu 20 árum.

Endurmenntun mikilvæg í framtíðinni

Framfarir á sviði gervigreindar, fjarskipta og upplýsingatækni gera það að verkum að ýmis þjónustustörf kunna að verða sjálfvirkjuð á næstu árum og neytendur hafa tækifæri til þess að spara tíma og kostnað með að nýta sér verslun eða þjónustu í gegnum netið. Bankaútibúum fækkar, netverslun fer vaxandi og fyrirtæki munu í auknum mæli að tileinka sér stafrænar lausnir með það að markmiði að fækka starfsfólki.

Í skýrslu World Economic Forum, The Future of Jobs var því spáð að til ársins 2020 geti 7,1 milljón starfa tapast vegna tækniframfara á meðan einungis tvær milljónir starfa verða til. Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar var sú að menntun, símenntun og endurmenntun sé nauðsynleg til að draga úr neikvæðum áhrifum örra tæknibreytinga.   

Það er ljóst að tæknibreytingar munu ekki endilega að vera á forsendum launafólks og því þarf verkalýðshreyfingin að vera tilbúin að takast á við breyttan heim með nýjum áherslum og baráttumálum.  Áskoranir verkalýðshreyfingar snúast því ekki einungis um störf og sjálfvirkni heldur um getu hennar til að aðlagast alþjóðlegri vinnumarkaði, breyttu eðli vinnunnar, þörfum nýrra kynslóða ásamt því að viðhalda samstöðu og jöfnuði.

 

Framtíðin er núna

Hugtakið bylting gefur það e.t.v. til kynna að breytingar geti gerst á einni nóttu. Að því leyti getur umræðan orðið villandi. Fólk fer að bíða eftir stóra atburðinum sem breytir öllu á meðan hið rétta er að breytingarnar gerast yfir ár og áratugi sem í samhengi sögunnar er einungis andartak. Þannig var það með fyrstu iðnbyltinguna og tilkomu prentverksins svo dæmi séu tekin. Fyrir okkur sem lifum byltinguna má jafnvel segja að breytingarnar læðist að okkur og því í raun nauðsynlegt að vera vakandi fyrir stefnum og straumum vinnumarkaðarins.

Einn lærdóm má draga af fyrri iðnbyltingum og það er að ekki er hægt að tryggja að allir hópar eða öll svæði njóti góðs af stórum samfélagsbreytingum tengdum tæknibreytingum. Til skemmri tíma geta tæknibreytingar haft neikvæð áhrif á ákveðna hópa, landssvæði og/eða atvinnugreinar. Sú hætta er því fyrir hendi að atvinnulíf þróist með þeim hætti að þúsundir hafi ótrygga vinnu og litla sem enga framfærslu.

Af þeim tæknibreytingum sem líklegar eru til að hafa áhrif í náinni framtíð er mikilvægt og skoða nánar tvær þeirra vegna þess að þær eru þegar farnar að hafa áhrif á vinnumarkaði. Annars vegar sjálfvirknivæðingin sem kemur til með gervigreind og vélmennavæðingu og hins vegar breytingum sem verða á störfum vegna örrar þróunar hins svokallaða deilihagkerfis. Hvað bæði þessi atriði varðar getum við auðveldlega fullyrt að framtíðin er núna, breytingar á mörgum störfum hafa verið gríðarlegar og mikil framleiðniaukning átt sér stað í mörgum greinum sem áður áttu undir högg að sækja.

Hættan er að í allri umræðunni um jákvæðu hliðar fjórðu iðnbyltingarinnar gleymist hlutur alþýðunnar sem getur átt undir mikið högg að sækja. Sterk og sameiginleg rödd alþýðu fólks hér á landi sem og erlendis verður áfram nauðsynleg til að tryggja sanngjarna skiptingu auðkökunnar. Of víða erlendis hafa millitekju og tekjulægri hópar ekki notið góðs af framleiðniaukningu og lífskjör margra hópa ekki batnað um áratugaskeið.

Halldór Oddsson og Róbert Farestveit hafa kynnt sér þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni.

Deilihagkerfi/tengihagkerfi: Kerfi sem byggir á því að tengja einstaklinga og/eða fyrirtæki saman í gegnum þar tilgerðan vettvang sem er nær alltaf í gegnum veraldarvefinn. Dæmi um fyrirtæki sem hafa látið til sín taka á vettvangi deilihagkerfisins á kostnað annarra hefðbundinna fyrirtækja eru Uber og Airbnb.

Halldór Oddsson
Fast ráðningasamband í hættu

Á meginlandi Evrópu hefur deilihagkerfið þegar náð traustri fótfestu.  Það hefur klárlega aukið framboð og lækkað verð á ýmiss konar þjónustu sem milli- og hátekjuhópar sækja gjarnan í. Á sama tíma hefur það haft mikil neikvæð áhrif á lágtekjuhópa sem vinna t.d. á hótelum eða í þjónustustörfum. Mörg fyrirtæki hafa því í krafti tækninnar kosið að láta reyna á grunnhugtök vinnuréttarins eins og t.d. hver er atvinnurekandi og hver er starfsmaður. Baráttan fyrir festu og öryggi í ráðningarsambandi hefur í mörgum tilfellum verið ýtt aftur um áratugi.

Stéttarfélög hafa mátt standa í löngum og erfiðum málaferlum við alþjóðleg stórfyrirtæki eins og Uber og Deliveroo sem því miður virðast reka fjandsamlega stefnu gagnvart sínu starfsfólki. Þrátt fyrir að hið svokallaða deilihagkerfi hafi ekki fest sig í sessi hér á landi með sama hætti og í mörgum nágrannalöndum okkar verður ekki horft framhjá því að vísir af því er komið nú þegar. Samfélagsmiðlar og aukin og auðveld samskipti eru talsvert notaðir af fyrirtækjum og einstaklingum til að ná sér í starfsfólk. Oft er þá um að ræða verkefnabundna ráðningar til mjög skamms tíma og jafnvel síendurteknar tímabundnar ráðningar sem alla jafna væri eðlilegt að væri samfelld ráðning. Þessi þróun reynir vissulega á starfsaldurstengd réttindi enda framkvæmdin byggð á því að um fast og reglubundið ráðningarsamband sé að ræða. Má þar nefna réttindi eins og veikindarétt, desember- og orlofsuppbætur og uppsagnarfrest. Ekki er nema að mjög takmörkuðu leyti gert ráð fyrir verkefnabundnum ráðningum í íslenskum vinnurétti og útkoman verður því eins og dæmin í nágrannalöndunum sanna að fólk í verkefnabundinni ráðningu nýtur nær engra réttinda.

Áskoranirnar eru nú þegar til staðar

Hvað deilihagkerfið varðar hafa ekki eingöngu skapast áskoranir um klassísk kjaramál heldur hefur líka í verulegu mæli reynt á stoðir velferðarsamfélaga eins og almannatryggingar og skattskil. Mörg stærstu fyrirtækja deilihagkerfisins hafa ekki talið sér skylt að axla ábyrgð á slíku eins og önnur fyrirtæki jafnan gera. Er því hér um að ræða endurtekningu gömlu glímunnar um að koma í veg fyrir að launafólki sé ýtt út í gerviverktöku sem mörgum atvinnurekendum hefur þótt freistandi í gegnum tíðina.

Til viðbótar framangreindu má heldur ekki gleyma að vöxtur deilihagkerfisins skapar bæði áskoranir og tækifæri fyrir stéttarfélög og launafólk að sækja fram hvað bætt kjör varðar. Stéttarfélög sem grípa tækifærið og huga að nýjum og breyttum baráttuaðferðum eiga alla möguleika á því að nýta breytingarnar til að knýja á um stórbætt kjör sinna félagsmanna en þau sem aðlagast ekki hinum nýja veruleika eiga á hættu að hverfa með vexti deilihagkerfisins og breyttum atvinnuháttum.

 

Hvar mun næsta kynslóð leita tækifæranna?

Á síðustu 20 árum hefur fjölbreytni starfa í íslensku efnahagslífi aukist til muna. Þar munar mest um mikla fjölgun sérfræðistarfa, tæknistarfa og starfa í þjónustu. Sé horft áratug fram í tímann er eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvar tækifærin verða fyrir næstu kynslóð. Getum við gengið að því sem vísu að hér verði blómleg byggð og hátæknistörf um allt land eða mun internetið og öflug fjarskipti leiða til þess að störf verði unnin úr fjarlægð eða yfir landamæri. Í Bandaríkjunum er því spáð að fleiri störf gætu tapast í þéttbýli heldur en í dreifbýli þar sem sjálfvirkjun þjónustugreina muni hafa mest áhrif.

Í nýrri rannsókn OECD reyndust áhrif tækniþróunar á vinnumarkaðinn afar breytileg eftir löndum, einungis 6% starfa voru í hættu í Noregi miðað við 33% í Slóvakíu.  Staðreyndin er sú að allt of lítið er gert í því að leggja mat á lengri tíma þróun á vinnumarkaði og enn minna gert í því að bregðast við því sem þó er fyrirsjáanlegt. Á 19. öld fluttust þúsundir yfir hafið í leit að betra lífi í nýjum heimi. Á 20. öld fluttust þúsundir úr sveit í borg í leit að tækifærum. Munu tækifærin verða á Íslandi fyrir næstu kynslóð eða mun unga fólkið leita þeirra í öðrum löndum?

Næsta grein Draumurinn um 30 stunda vinnuviku