Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Það er maísólin okkar …

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur rifjar upp kjarabaráttu sína sem unglingsstúlka á Þingeyri árið 1980.

Það er maísólin okkar …

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur rifjar upp kjarabaráttu sína sem unglingsstúlka á Þingeyri árið 1980.

Pabbar okkar Gunnu eru hins vegar báðir eldheitir Allaballar. Þeir tveir og Geiri Magg, formaður Verkalýðsfélagsins, eru áskrifendur að Þjóðviljanum, dýrka Þórberg, Halldór Kiljan og Jóhannes úr Kötlum, og okkur hefur verið kennt að þekkja okkar rétt.

Vilborg Davíðsdóttir Þingeyri Þingeyri

,,Við förum ekki héðan fyrr en við fáum borgað það sem við eigum inni.“ Ég sló lófanum á skenkinn sem auðvaldið skýldi sér á bak við á skrifstofu Kaupfélags Dýrfirðinga. Ekki mjög fast samt því þótt ég væri fjúkandi reið þá vildi ég ekki að konan sem reiknaði út kaupið okkar í frystihúsinu færi að hringja í pabba og mömmu og segja þeim að ég væri dónaleg. En ég þekkti minn rétt og var harðákveðin í að standa við orð mín. Við vorum fimmtán og sextán ára, við Gunna vinkona, höfðum unnið í fiskinum í öllum skólafríum frá þrettán ára aldri, og vissum upp á krónu hvað við hefðum átt að fá útborgað þennan fimmtudaginn því við vorum búnar að liggja yfir útreikningunum. Og það vantaði upp á.

Togarinn hafði komið með mikinn grálúðuafla að landi og það hafði verið brjálað að gera, ýmist við handflökun eða heilfrystingu á þessum slepjulega fiski sem eyðilagði hlífðarfatnað á fáeinum dögum. Sama hversu vel maður reyndi að skrúbba með sápu að kvöldi þá sat alltaf eitthvað eftir af fitunni og áður en varði voru svuntur og stígvél alsett sprungum sem lak í gegnum – og ólyktin var engu lík. Í grálúðutörn var unnið frá sjö til sjö.  Að því kom að það dugði ekki til að hafa undan og verkstjórinn bað okkur að vinna fram eftir kvöldi í heilfrystingunni, við að raða grálúðu í pönnur, koma svo aftur í fyrramálið á sama tíma og venjulega. Það varð að bjarga verðmætum. Við litum hvor á aðra, töldum í huganum hversu margar hvíldarstundirnar yrðu þar til við áttum að vera mættar að morgni, og jánkuðum þegar í stað. Við vorum á unglingakaupi, 80% af því sem fullorðnir fengu, og munaði um hverja krónu upp í kostnaðinn við heimavist og mötuneyti í Menntaskólanum á Ísafirði. Hvíldartíminn yrði svo skammur að við myndum fá tvöfalt kaup daginn eftir og þótt okkur verkjaði í allan skrokkinn af þreytu þá létum við okkur hafa það.

,,Við bíðum hér báðar þar til við fáum það sem við eigum rétt á,“ segir Gunna vinkona, lágróma en af festu, við skrifstofustjórann sem nú er kominn fram í afgreiðsluna. Hann brosir þvingað. ,,Eruð þið með eitthvað vesen, stelpur mínar?“

Vilborg Davíðsdóttir Þingeyri Þingeyri

Þingeyri á níunda áratugnum. Nánast hver einasti þorpsbúi í þessu tæplega fimm hundruð manna plássi hefur atvinnu af fiskvinnslu og/eða sjómennsku. Þó kýs nær enginn verkalýðsöflin til forystu í pólitíkinni, svo undarlegt sem það nú er, varla að kommar og kratar komi manni að í sveitarstjórnina þótt þeir sameinist um framboð. Hér hafa Framsókn og íhald ráðið ríkjum kynslóð fram af kynslóð, samkvæmt einhvers konar hefðarrétti sem fáum kemur til hugar að efast um og ekkert hefur molast úr honum þrátt fyrir sífelldar gengisfellingar og óðaverðbólgu undanfarinn áratug í boði samvinnuhreyfingarinnar, útgerðar og atvinnurekenda.

Pabbar okkar Gunnu eru hins vegar báðir eldheitir Allaballar. Þeir tveir og Geiri Magg, formaður Verkalýðsfélagsins, eru áskrifendur að Þjóðviljanum, dýrka Þórberg, Halldór Kiljan og Jóhannes úr Kötlum, og okkur hefur verið kennt að þekkja okkar rétt. Ég tileinkaði mér raunar fræðin tæpra tólf ára, úr bók sem pabbi rétti að mér: Kapítalismi, sósíalismi, kommúnismi: bók fyrir börn og fullorðna, útgefandi Starfshópur alþýðumenningar. Í sumarferðum Alþýðubandalagsfélagins, þar sem að minnsta kosti helmingur ferðafélaganna myndi ekki kjósa til vinstri þótt lífið lægi við, tökum við stöllurnar undir af öllu hjarta þegar Maístjarnan er sungin í rútunni:

 

 ,,Í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands...“

 

Ég fór samt ekki í kröfugöngu á 1. maí fyrr en ég var tvítug, flutt suður til Reykjavíkur til að fara í háskólann. (,,Menntunina getur enginn tekið frá þér,“ sagði pabbi. ,,Það gæti komið kreppa aftur.“) Þess háttar var aldrei til siðs í litla sjávarplássinu við Dýrafjörð, þótt maður heyrði af því að Ísfirðingar héldu baráttufund í sínu Alþýðuhúsi. Og ég var varla raunverulegur þátttakandi, fannst mér, heldur fremur áhorfandi: komin með sumarvinnu á Þjóðviljanum og skrifaði norpandi í kuldanum á Lækjartorgi hjá mér slitur úr þrumuræðu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur til að prenta í Blaðinu okkar.

Rúmum áratug síðar fórum við saman í gönguna með heimagert kröfuspjald, ég og börnin mín tvö. Tíu ára maísólinni minni þótti nóg um ellefu tíma vinnudag sinnar þá sjálfstæðu móður sem fréttamanns hjá Íslenska útvarpsfélaginu og málaði með stórum, hvítum stöfum á pappaspjald: Styttri vinnutíma!!! Litli bróðir hennar réð hinni hliðinni og þar var sett fram krafa með síst minni áhersluþunga, í skærgulu: Sól í sumar! Veðurguðirnir ýrðu yfir okkur heldur meira sólskini en atvinnurekendur, það man ég, á því herrans ári 1997.

,Við bíðum hér báðar þar til við fáum það sem við eigum rétt á,“ segir Gunna vinkona, lágróma en af festu, við skrifstofustjórann sem nú er kominn fram í afgreiðsluna.

Áratug eftir það, þá við framhaldsnám í Edinborg (og kreppan skammt undan þótt við vissum það ekki þá), rak ég augun í tilkynningu þar sem ég átti erindi um að skrifstofan yrði lokuð næsta mánudag, 7. maí. En 1. maí var í dag, þriðjudag, og allt opið á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Af hverju yrði lokað í næstu viku? ,,Bank holiday,“ sagði starfsmaðurinn sem ég spurði. Nú, þá út af 1. maí? Hann horfði á mig hálfhissa og virtist ekki skilja spurninguna. Nei, það er bara alltaf frídagur fyrsta mánudag í maí, var svarið. Á leiðinni heim sá ég sirka tólf manns í þyrpingu með skilti á lofti utan við verslunarmiðstöð í miðbænum; vegfarendur hröðuðu sér framhjá með innkaupapokana sína og gáfu þeim ekki nokkurn gaum. Ég furðaði mig á þessu skeytingarleysi Skota sem þó er kannski engin furða: með því að færa frídaginn frá 1. maí hefur fólk misst sjónar af tilgangi hans og merkingu: mikilvægi samstöðunnar í baráttunni fyrir betri kjörum.

,,Við bíðum hér báðar þar til við fáum það sem við eigum rétt á,“ segir Gunna vinkona, lágróma en af festu, við skrifstofustjórann sem nú er kominn fram í afgreiðsluna.

Hann brosir þvingað. ,,Eruð þið með eitthvað vesen, stelpur mínar?“

Við áréttum okkar mál. Sá sem ekki fær fullan hvíldartíma á rétt á tvöföldu kaupi næsta dag, unglingar jafnt sem fullorðnir. Jafnvel enn frekar en fullorðnir.

Skrifstofustjórinn hristir höfuðið. ,,Vitleysa er þetta. Þið áttuð þá ekkert að mæta fyrr en klukkan tíu morguninn eftir kvöldvinnuna.“

En verkstjórinn – sem iðulega átti til að slá lófa þéttingsfast á bakhluta okkar stelpnanna þegar hann gekk hjá – hafði sagt okkur skýrt og skorinort að mæta í bítið, klukkan sjö. Og við erum búnar að tala við trúnaðarmanninn okkar, skelegga bónusdrottningu, sem stendur með okkur og sýndi okkur hvíldartímaákvæðin í samningum. Við ætlum ekki að gefa okkur, munum bíða hér á fínu skrifstofunni ykkar í grálúðuþefjandi frystihúsasloppunum og fitugum stígvélum þar til réttlæti næst.

Þau líta hvort á annað, pirringur í svipnum – og síðan uppgjöf.

Það hafðist, með samstöðu og einingu.

Næsta grein Óréttlæti er óréttlátt