Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Brauðstrit og barátta í dúr og moll

Arnar Eggert Thoroddsen aðjúnkt við HÍ fjallar um verkalýðstengda texta í íslenskum dægurlögum frá árunum 1950–1980

Brauðstrit og barátta í dúr og moll

Arnar Eggert Thoroddsen aðjúnkt við HÍ fjallar um verkalýðstengda texta í íslenskum dægurlögum frá árunum 1950–1980

Loftur Guðmundsson snaraði textanum yfir á íslensku en skildi pólitíska broddinn eftir, Bjössi er stuðbolti; keyrir bílinn kæruleysislega og gælir við kvenfólk.

Mynd: Mánar 1971.jpg

„Þó ég þræli, alla mína ævi/hef ég hvorki ofan í mig né á,“ sungu hinir Selfyssku Mánar fyrir hartnær 48 árum síðan. Lagið er „Villi verkamaður“ og platan samnefnd sveitinni. Platan er ein af mektarplötum íslenska hipparokksins, óvenju vel útfærð og unnin plata. Hljómsveitir íslenskar voru að færa sig yfir í þyngri og framsæknari tónlist á þessum árum og það er einhver tímalaus galdur sem leikur um plötuna. Innihaldið þungt og framsækið rokk sem einkennist sumpart af ungæðislegum textum sem voru móðins á þeim tíma. Meðlimir voru rétt skriðnir yfir tvítugt en spyrja einlæglega í upphafi plötu „Af hverju er lífið allt svo undarlegt?“ og velta því fyrir sér, af hverju sumir finni aldrei frið. Einfalt og barnalegt – eða einlægni sem fer beint að kjarnanum? Lagið um Villa er nefnilega síst barnalegt, heldur lýsir á napran – og raunsæjan hátt – hlutskipti verkamannsins. Af hverju er staða hans svona „undarleg“? Hann þarf að sætta sig við „hjólbeinótt læri“, „gamla gúmmískó“ og hann þarf að „þræla og púla fyrir konum og krökkum“. Og „í gegnum lífið ég hef barist í bökkum.“ Ekki nóg með það, „mitt líf er eilíf kvöl, því bakið er brotið.“ Mánar hnykktu svo á þessu máli 45 árum síðar, á plötu sinni Nú er öldin önnur. Í samnefndu lagi segir: „Nú er öldin önnur og enn er stiginn dans/þó ekki breytist hagur hins hrjáða verkamanns.“ Villi verkamaður er enn á meðal vor, en ekkert hefur breyst.

Gáskafullur Bjössi á mjólkurbílnum

Í þessari grein er gerð tilraun til að skoða hvernig brauðstrit og baráttuandi birtast í vel völdum íslenskum dægurlögum á tímabilinu 1950 til 1980. Við ætlum að gerast landkrabbar og sleppa því að horfa til hafs, enda væri það frístandandi grein (og margar jafnvel) ef ætti að gera sjómannalögum ærleg skil. Nei, almennur iðnaður og verkamannastörf á landi verða í fókus, hvort heldur bjartar hliðar þessa eða dökkar. Rómantík og gáski lék um þau lög sem tóku á veröld verkamanna í upphafi íslenskrar rokkaldar, og sýnin tiltölulega einföld. Sjá t.d. glaðbeitnina í Bjössa mjólkurbílstjóra, sem Haukur Morthens söng um. Lagið er ítalskt að uppruna, frá 1952, og fjallar um gjánna á milli almennings og stjórnmálamanna. Loftur Guðmundsson snaraði textanum yfir á íslensku en skildi pólitíska broddinn eftir, Bjössi er stuðbolti; keyrir bílinn kæruleysislega og gælir við kvenfólk. Bjössi kann á „bil og svanna tökin“.

Þannig var þetta fyrst um bil hér á landi. Myndin af verkamanninum var rómantísk, skáldleg, og rýnt í hið bjarta fremur en hið skuggalega. Erlendis var fólk eins og Woody Guthrie farið að semja alvörugefnari texta, um kröpp kjör og velsæld, og þá í formi alþýðutónlistar, en hér á landi sinntu dægurlagasöngvarar hinum vinnandi manni með einfaldari hætti. Gunnar póstur, einnig sungið af Hauki, er reyndar um margt raunsærri lýsing en sú sem Bjössi þarf að sætta sig við. Lagið er í millitakti, nokk melankólískt og rætt er um „vetrarmyrkur, hörku og byl“. Í endann er talað um að afrek hests og manns séu nú gleymd. En þetta er samt nostalgísk upprifjun, sveipuð ljóma fyrst og síðast. Sama má segja um viðlíka söngva tileinkuðum Bellu símamær, Luktar-Gvendi og fleiri fulltrúum hefðbundinna starfa, sem í dag eru að mestu uppgufuð.

Raunsæi tók við af rómantík á 8. áratugnum

Menn hertu lítið eitt á sér á sjöunda áratugnum. Gvendur á eyrinni var hafnarverkamaður, þó hann hafi verið gamall skútukall. Ég er nánast að svindla með því að nefna hann hér, sjórinn er eiginlega of nálægt, en lagið er bara svo gott! Myndin er í öllu falli dökk, Gvendur er búinn á því er við hittum hann, þrælar við affermingar og sefur lítt. En hraðspólum fram í áttunda áratuginn og þá er annar bragur á textum; gagnrýnisbundið raunsæi í stað saklausrar rómantíkur. Mannakorn, þessi alíslenska hljómsveit, er t.d. nokkuð rík af textum sem draga upp hráslagalegar myndir af hversdagshetjum úr alþýðuranni. Braggablúser dæmi þar um, eins Einbúinn. Kontóristinn, af fyrstu plötunni (1975), er fínasta lýsing á raunum möppudýrsins. „Krónubaslið kennt hefur mér eitt/og kannski mig til niðurstöðu leitt/að bestu árum æfi minnar/hef ég í innantómri kontórvinnu eytt.“

Þess ber þá að geta, að Íslendingar voru alveg með á nótunum á áttunda áratugnum, og við áttum listamenn sem stunduðu meðvitaða mótmælatónlist, eins og annars staðar. Litlir kassar með Þokkabót er ágætt dæmi um þetta og mýmörg dæmi eigum við frá þeim áratug sem innihalda almennar pólitískar ályktanir um verund verkamannsins í popplagaformi, ef svo mætti segja.

Spilverk þjóðanna lagði hressilega í púkkið hvað þetta varðar og mörg laga þeirra hnykkja glæsilega á þessu, enda tón- og textasmiðir sveitarinnar hæfileikaríkir með eindæmum. Menn nota glettni og kímni á mjög áhrifaríkan hátt, eins og heyra má svo vel á síðustu plötum Spilverksins og „hliðar“-plötunni Lög unga fólksins, sem unnin var af Hrekkjusvínunum. Sjá t.d. Verkarinn, lag af Götuskómog sungið af Agli. Hann leggur af stað í bítið en „úr býtum lítið ber“ og við tekur tilbrigði við „fram þjáðir menn, í þúsund löndum“. Þetta var árið 1976 en ári síðar, á Hrekkjusvínum, er að finna mun beittari texta, sem ortir voru af Pétri Gunnarssyni. Þessi sósíalíska vitundarvakning, dulbúin sem barnaplata, er uppfull af algerum perlum hvað umfjöllun þessarar greinar varðar. „Finnst þér ekki pínulítið skrítið? Hvað sumir vinna mikið en fá þó lítið?“ spyr Egill í Gagn og gamanog í Krómkallarkoma meitlaðar hendingar í unnvörpum. „Guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir“, „í Hagkaup mamma hálfan daginn vann“, „hvert mannsbarn skuldar heila milljón“ og „verðbólgan étur litlu börnin sín“. Magnað.

Haukur Morthens Loftur Guðmundsson snaraði textanum sem Haukur söng yfir á íslensku en skildi pólitíska broddinn eftir, Bjössi er stuðbolti; keyrir bílinn kæruleysislega og gælir við kvenfólk. Bjössi kann á „bil og svanna tökin“.

Menn nota glettni og kímni á mjög áhrifaríkan hátt, eins og heyra má svo vel á síðustu plötum Spilverksins og „hliðar“-plötunni Lög unga fólksins, sem unnin var af Hrekkjusvínunum.

Mynd: Hrekkjusvín.jpg
Lína vann í pökkuninni og Valdi er á heflinum

Engin plata íslensk gerir þó betur í þessum efnum en Bráðabirgðabúgí Spilverks þjóðanna (1979) sem reyndist svanasöngur þeirrar sveitar. Stórkostleg konseptplata, sem rekur raunir – og gleði – fjölskyldu sem flytur vestur af fjörðum og í borgina. Lína vann í pökkun og Valdi var skafari og örlögum þeirra, einmanakennd og firringu, er lýst á kjarnyrtan hátt í upphafs- og titillagi sem er ekki nema tvær og hálf mínúta (en virkar mun lengra). Þvílík snilld!

Ég ætlaði að halda mig við þetta 30 ára tímabil sem ég nefndi í upphafi en verð að svindla smá (aftur!). Hljómsveitin Hálft í hvoru gáfu út plötuna Almannarómurárið 1982, en upplegg allt og textainnihald er mjög í anda áttunda áratugarins. Þar er að finna lög eins og Verkamaður(sungið af Bergþóru heitinni Árnadóttur) og Palli Hall, þýðing á laginu Casey Jones (The Union Scab). Og leyfum S/H Draumi að eiga lokaorðin, eða eins og segir í Glæpur gegn ríkinu: „Fimmtíu stunda vinnuvika/Á bakinu í hálfa öld/Vakna snemma alla morgna/Sturtan er alltaf köld.“

Þessi úttekt er að sjálfsögðu ekki tæmandi, en athyglisvert er að sjá hversu tvískipt þetta er. Fyrst um sinn, bláeyg birta yfir öllu en síðar meir, nepja og neikvætt ljós. Verkamaðurinn jafnan þvældur og þreyttur og undir hælnum á óskilgreindu yfirvaldi. Sjómannalögin voru oft sveipuð ævintýraljóma, mögulega til að laða unga menn að þeim mikilvæga atvinnuvegi en lítið er um slík tilþrif þegar upp á land er komið. Forvitnilegt væri að sjá með hvaða hætti landkrabbalög hafa verið á undanförnum áratugum, og væri það efni í framhaldsgrein.

Hlustaðu á lögin á Spotify