Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Minnkaðu matarsóun og sparaðu pening í leiðinni

Minnkaðu matarsóun og sparaðu pening í leiðinni

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna matarsóunar er svo mikil að ef hún væri land kæmi hún í þriðja sæti á eftir Kína og Bandaríkjunum í mengun.

Tími er takmörkuð auðlind og sömuleiðis þeir peningar sem við vinnum okkur inn og skiptum tíma okkar út fyrir. Af einhverjum ástæðum virðumst við þó ekki alltaf bera virðingu fyrir tíma okkar né peningum en matarsóun er gott dæmi um það. Talið er að matarsóun nemi um 60 þúsund krónum á hvern einstakling á ári eða 240.000 krónum á fjögurra manna fjölskyldu. Sóunin gæti þó numið hærri upphæðum fyrir stærri fjölskyldur þar sem hún verður hlutfallslega meiri eftir því sem fjölskyldur eru stærri.

Um er að ræða risastórt umhverfismál en matarsóun fjögurra manna fjölskyldu myndar jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og útblástur frá meðal bensínbíl á einu ári (matarsóun í frumframleiðslu, vinnslu og dreifingu). Losun gróðurhúsalofttegunda vegna matarsóunar er svo mikil að ef hún væri land kæmi hún í þriðja sæti á eftir Kína og Bandaríkjunum í mengun. Þannig ef möguleikinn til að auka ráðstöfunartekjur þínar og fara betur með tíma þinn er ekki nægur hvati til að minnka matarsóun ættu umhverfisrökin að vera það.

En hvernig minnkum við matarsóun? Er það ekki flókið og leiðinlegt?

Nei, það er það ekki. Það tekur vissulega smá tíma að venja sig af ósiðum en samkvæmt rannsóknum tekur það samt sem áður ekki meira en 21 dag að festa nýjar venjur í sessi. Þess utan er það afar ánægjuleg tilfinning að ná að nýta matinn til fulls, matinn sem maður sjálfur er búinn að strita fyrir í vinnunni, matinn sem aðrir eru búnir að strita við að búa til, og já, matinn sem auðlindir jarðar hafa farið í að búa til.

Mynd: Matarsoun 01.png
Kláraðu matinn í ísskápnum áður en þú ferð út í búð og kaupir meira

Hver kannast ekki við að vera á leiðinni heim úr vinnunni, hugsa til ísskápssins sem inniheldur sittlítið af hverju en í raun ekkert ætilegt, ekki nóg í almennilega máltíð auk þess sem mann langar einfaldlega í eitthvað annað. Fara í framhaldinu í búðina til að kaupa eitthvað, koma heim með góssið og bæta því við það sem fyrir var í ísskápnum og hugsa eða jafnvel segja upphátt; ó var þetta til... og þetta, og þetta ... Málið er að þetta sittlítið af hverju er líka matur sem þarf að borða en fer því miður of oft í ruslið vegna þess hvernig við hugsum – eða hugsum ekki!

Við þurfum ekki heita máltíð á hverjum degi og erum ekkert of góð til að borða og nýta það sem er til. Það eru næringarefnin sem skipta máli og það er hellingur af næringarefnum í afgöngum, brauði, osti, skyri, afgangs áleggi, eggjum, grænmeti og ávöxtum og hverju því sem ísskápurinn þinn kann að geyma. Taktu t.d. eitt Tapas kvöld (Tapas er heiti yfir spænska smárétti sem ýmist eru bornir fram kaldir eða heitir) í viku og kláraðu það sem til er í ísskápnum áður en þú ferð og kaupir meira. Sumir kalla þetta TTÍ kvöld – eða „Tekið til í ísskápnum“.

Mynd: Matarsoun 02.png
Farðu oftar í búðina og kauptu minna í einu

Það er mikill misskilningur að það sé betra að fara sjaldan í búðina og kaupa mikið í einu. Þvert á móti eigum við að fara oftar í búðina og kaupa minna í einu. Rannsóknir sýna að þeir sem fara sjaldnar í búðina og reyna að spara með því að kaupa mikið magn í einu sóa almennt meiri mat en hinir sem fara oftar.

Með því að fara oftar í búðina hefur þú betri yfirsýn yfir hvað það er sem þig vantar hverju sinni auk þess sem þú gerir raunhæfari áætlanir yfir hvað þú og þín fjölskylda munuð koma til með að borða. Kauptu inn fyrir einungis 2-4 daga í einu. Þá minnka líkurnar á því að maturinn skemmist hjá þér.

Mundu líka að tilgangurinn með ísskáp er að kæla matinn þangað til við borðum hann. Ísskápurinn er ekki vörugeymsla. Þó þú eigir stóran ísskáp er ekki nauðsynlegt að hafa hann troðfullan af mat. Ef hann er troðfullur er það sennilega ávísun á að eitthvað í honum komi til með að skemmast. Þá sýna rannsóknir að fjölskyldur sem eru með meira í ísskápnum borða meira!

Gerðu innkaupalista og/eða taktu mynd af ísskápnum (og þurrvöru skápnum!) áður en þú ferð í búðina og haltu þig við listann. Ekki er verra að vera búinn að narta í eitthvað áður en farið er að versla til að vera ekki svangur og kaupa einhvern óþarfa. Þá er sniðugt að skoða hvað maður á til og skipuleggja næstu máltíðir og innkaupin út frá því, t.d. með því að nýta restar af rjóma eða osti í sósur við nýja rétti, nýta grænmeti á síðasta snúningi í grænmetissúpur o.s.frv.

Það hefur sýnt sig að það að kaupa ekki of mikinn mat í búðinni skiptir hvað mestu máli í að minnka matarsóun svo ef það er eitthvað eitt sem þú vilt „mastera“ úr greininni skaltu velja þessi ráð um innkaupin!

Taktu til í ísskápnum Taktu t.d. eitt Tapas kvöld í viku og kláraðu það sem til er í ísskápnum áður en þú ferð út í búð og kaupir meira inn. Sumir kalla þetta TTÍ kvöld – eða „Tekið til í ísskápnum“.
Mynd: Matarsoun 03.png
Skipulegðu ísskápinn þinn og gangtu rétt um hann

Það hvernig við umgöngumst ísskápinn okkar hefur mikil áhrif á hversu miklu við sóum af mat. Hafðu ísskápinn þinn hreinan, snyrtilegan og lausan við óreiðu og þú munt hafa meiri lyst á matnum sem er inni í honum. Þegar við opnum ísskápinn teyjgum við okkur frekar í það sem er fremst en það sem er innar. Raðaðu nýjum vörum aftarlega í ísskápinn og settu eldri vörur fremst svo þær verði borðaðar fyrst. Notaðu frystinn líka óspart og frystu t.d. megnið af því brauði sem þú kaupir (getur skellt því beint í ristina úr frystinum). Frystu kjöt og fisk sem þú ætlar ekki að borða samdægurs eða daginn eftir og hentu mat inn í frysti sem þú sérð fram á að þú náir ekki að elda.

Mynd: Matarsoun 04.png
Langhlaup ekki spretthlaup

Síðasta ráðið er að gefa nágrönnum, fjölskyldu eða vinum mat ef þú sérð ekki fram á að ná að elda hann og/eða borða áður en hann skemmist. Já, eða fuglunum.

Að lokum skaltu hafa hugfast að það að draga úr (útrýma óþarfa) matarsóun á heimilinu er langhlaup en ekki spretthlaup. Ekki gefast upp þó að einstöku banani eða paprika lendi í ruslinu eða þú kaupir eitthvað í búðinni sem þú áttir fyrir. Að draga úr matarsóun krefst örlítillar hugsunar og þolinmæði á meðan við erum að venja okkur á nýja siði en er algjörlega þess virði.

Næsta grein „Um tíma leigði ég með 9 manns“