Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Við erum ótrúlega spennt

– segir Katrín Einarsdóttir, verðandi leigjandi hjá Bjargi íbúðafélagi

Við erum ótrúlega spennt

– segir Katrín Einarsdóttir, verðandi leigjandi hjá Bjargi íbúðafélagi

„Það var umfjöllun um Bjarg í fréttum síðastliðið sumar og það var kveikjan að því að ég sótti um. Ég sendi inn umsókn því þetta fyrirkomulag finnst mér mjög hentugt og sanngjarnt.“

Katrín Einarsdóttir leigjandi hjá Bjargi íbúðafélagi leigjandi hjá Bjargi íbúðafélagi

Það styttist óðum í að fyrstu leigjendur Bjargs íbúðafélags flytji inn í flunku nýjar íbúðir í Reykjavík og á Akranesi en reiknað er með að alls fari 172 íbúðir í leigu hjá Bjargi á þessu ári. Þá eru framkvæmdir í gangi við rúmlega 500 íbúðir og annar eins fjöldi er á hönnunarstigi. Þessar íbúðir verða reistar á Akureyri, Selfossi, Þorlákshöfn, Hafnarfirði og Sandgerði auk Akraness og Reykjavíkur.

Sem dæmi má nefna að leiga fyrir 3 herbergja íbúð við Móaveg í Reykjavík verður 162 þúsund kr. á mánuði og 126 þúsund kr. fyrir sömu stærð af íbúð á Akranesi. Leigutakar eiga svo rétt á húsnæðisbótum sem lækkar leigurverðið enn frekar. Það er því ljóst að tilkoma Bjargs inn á leigumarkaðinn mun auðvelda mörgum tekjulágum fjölskyldum lífsbaráttuna.

Vinnan hitti Katrínu Einarssdóttur að máli en hún er verðandi leigjandi hjá Bjargi.

Föst í foreldrahúsum eftir skilnað

Ég er 31 árs einstæð tveggja barna móðir. Börnin mín tvö eru 9 ára og 4 ára. Fyrir um ári síðan skildu ég og pabbi þeirra og í kjölfarið flutti ég í foreldrahús. Það átti að vera tímabundin lausn. Þar búum við enn því ég sá ekki fram á að ég hefði efni á því að leigja íbúð á almenna leigumarkaðinum sem myndi henta okkur þremur og væri ekki bílskúr eða lítil hola.“

Katrín segir ástandið á leigumarkaði hafa versnað hratt á síðustu árum, hún hafi ágætan samanburð því hún hafi verið á leigumarkaði í 9 ár.

 „Ég hef verið tiltölulega heppin að því leiti að ég hef ekki oft þurft að flytja á þessu tímabili. Það gerðist tvisvar því íbúðin seldist sem ég bjó í. Þriðju íbúðina flutti ég í 2013 og bjó þar þangað til ég flutti aftur til foreldra minna 2018.“

Einfalt og þægilegt umsóknarferli

Hvernig heyrðir þú fyrst af Bjargi íbúðarfélagi?

„Það var umfjöllun um Bjarg í fréttum síðastliðið sumar og það var kveikjan að því að ég sótti um. Ég sendi inn umsókn því þetta fyrirkomulag finnst mér mjög hentugt og sanngjarnt. Það er ákveðið öryggi að vita til þess að þetta er langtímaleiga og að leiguverðið sé viðráðanlegt.

Umsóknarferlið var alls ekki flókið. Ég sótti um 4. júlí 2018 og fór þá á biðlista fyrir þriggja og fjögra herbergja íbúðir við Móaveg í Grafarvogi og Urðarbrunn í Úlfarsárdal. Fimm mánuðum seinna fékk ég tölvupóst þar sem mér var sagt að ég uppfyllti skilyrði og kæmi til greina fyrir úthlutun á íbúð á Móavegi. Mánuði eftir það kom póstur um að ég hafi fengið úthlutaða íbúð.“

Telja niður dagana Katrín og fjölskylda er ótrúlega spennt og telur niður dagana í afhendingu.

Hversu stór er íbúðin sem þú færð?

Íbúðin sem ég fékk er þriggja herbergja og leiguverðið um 160 þús. kr. á mánuði. Það kemur fram á heimasíðu Bjargs að greiðslubyrði leigu muni ekki fara umfram 25%-30% af heildartekjum að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Það hljómar mjög vel í mín eyru.“

Hverju mun það breyta fyrir fjölskylduna þegar þið flytjið í nýju íbúðina?

„Það mun einungis hafa jákvæð áhrif á mig og börnin mín tvö að fá íbúð þar sem við þrjú getum stofnað heimili. Ég sé þetta sem lausn á mínum húsnæðismálum og meðan ég er í núverandi vinnu.“

Er fjölskyldan spennt?

„Já, við erum öll ótrúlega spennt og teljum niður dagana í afhendingu,“ segir Katrín Einarsdóttir.

Um Bjarg íbúðafélag

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

Næsta grein Ert þú með vinnuna í vasanum?