Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Baráttan í skugga veirunnar

Baráttan í skugga veirunnar

Hugleiðingar rithöfundar á 1. maí.

Baráttan í skugga veirunnar

- eftir Einar Má Guðmundsson

„Fáir dagar eiga jafn mikla tónlist og jafn mörg ljóð, ég leyfi mér að segja jafn mörg fótatök í sögunni.“

Í dag hef ég kannað hin sannfróðu svið
og séð hina stóru og fáu.
En hvar eru hinir sem lögðu þeim lið?
Hvar leynast þeir mörgu og smáu?
Hví neitarðu, Saga, að sýna mér allt?
- Ég sakna þess barnslega og hlýja,
sem móðurlaust ók upp í síðkvöldið svalt
á silfurreið mánans - til skýja.

Þá sjónir mér lokast að liðinni öld,
ég legg frá mér bókina góðu.
Nú geng ég með ljós yfir landið í kvöld
og leita að gröfunum hljóðu,
er aðeins í hillingum hjartnanna sjást
og hníga að takmarki einu:
að geyma í mold sinni alla þá ást,
sem aldrei var getið að neinu.

Þetta er úr ljóðinu Þegnar þagnarinnar eftir Jóhannes úr Kötlum. Það á ekki síður við á 1. maí en Maístjarnan eftir Halldór Laxness þó að hvorki sé hægt að hugsa sér 1. maí án hennar eða hana án 1. maí, ekki frekar en Alþjóðasönginn. Fáir dagar eiga jafn mikla tónlist og jafn mörg ljóð, ég leyfi mér að segja jafn mörg fótatök í sögunni. Í ljóði Jóhannesar úr Kötlum er hvorki vorhret á glugga né napur vindur sem hvín, ekki erfiðir tímar og atvinnuþref, og þar er engin maísól sem skín. Samt felur þetta ljóð í sér sömu grundvallaratriðin og Maístjarnan og Alþjóðasöngurinn og önnur ljóð og lög sem við tengjum við 1. maí, hinn alþjóðlega baráttudag verkalýðsins, sem upphaflega var sumardagurinn fyrsti en breyttist í alþjóðlegan frídag og baráttudag verkalýðsins árið 1889 þegar hundrað ár voru liðin frá frönsku byltingunni og þess var minnst að bastillan féll. Þá var þess líka minnst að þremur árum fyrr kom til blóðugra átaka á milli lögreglu og verkafólks í Chicago þegar krafist var átta stunda vinnudags. Baráttuni hafa alltaf fylgt miklar vonir og ekki minni fórnir.

„Leðurblaka með veiru kemur á óvart en ekki hitt að það hrikti í hagkerfinu, þar er undirliggjandi sjúkdómur.“

Leðurblakan sem lokar hurðum og hliðum

Þó að tíminn líði þá er samhengi í sögunni. Baráttudagar bera alltaf í sér breytingar, og ef ekki breytingar þá von um breytingar, það sem getur gerst. Allt getur gerst, sumt óvænt, annað einsog við var að búast. Leðurblaka með veiru kemur á óvart en ekki hitt að það hrikti í hagkerfinu, þar er undirliggjandi sjúkdómur. Það er líka sama hvernig viðrar, í minningunni er 1. maí alltaf fullur af sól og birtu. Þannig er baráttuandinn, í eðli sínu bjartsýnn þó að það kunni að vera dimmt yfir og þungbúin ský við sjónhring. Svo eru það litlu þúfurnar sem velta þungu hlössunum, einsog leðurblakan og veiran eða hvað þetta nú var sem lokaði öllum hurðum og hliðum. Þetta er þekkt úr sögunni, samanber vatnið sem Rómverjar til forna drukku og var mengað blýi og gerði þá ófrjóa, og það eru alltaf erfiðir tímar og atvinnuþref, en birtan kemur innan frá og lýsir upp götur og torg þegar fjöldinn stendur saman, setur fram kröfur, stórar kröfur og smáar kröfur, raunsæjar og óraunsæjar, framkvæmanlegar og óframkvæmanlegar, já verum raunsæ og framkvæmum hið ómögulega, og breytum heiminum ef svo ber undir. Við þurfum á bjartsýni að halda og draumum og von, jafnvel þegar á móti og einmitt þegar á móti blæs.

„Enn ber fólkið sem ber samfélagið á herðunum minnst úr býtum. Þetta sást svo vel í baráttu verkafólks í vetur.“

Ef vel er staðið saman er átakið létt

En þá aftur að ljóðinu, um þegna þagnarinnar, hverjir eru það, hvað er verið að segja þar? Í því birtist ást og innileiki, vinna, sköpun og barátta, barátta fjöldans, hinna mörgu og smáu, þeirra sem skapa verðmætin og byggja upp samfélögin en er aldrei getið að neinu, vantar í sögubækur, í hátíðaræður valdhafa, sem gerðu allt sjálfir, og fá engar sjálfkrafa launahækkanir; og þess vegna þarf að berjast, standa saman og berjast. Ef vel er staðið saman er átakið létt. Þeim er ekki þakkað fyrir dugnað sinn og elju nema þegar störfin verða að lífshættulegri fórnfýsi en þá sést líka hve vanmetin þau eru. Efnahagslífið á Ítalíu var í gjörgæslu alþjóðastofnana áður en veirufaraldurinn gaus upp og yfirvöldum var skipað að skera niður í heilbrigðiskerfinu af þessum sömu alþjóðastofnunum sem nú reyna að klóra sig fram úr sinni eigin vitleysu.

En áfram með ljóðið, því hve oft höfum við ekki heyrt um harðduglega auðmenn sem til voru í gamla daga og rifu upp fyrirtæki og byggðarlög og fóru með himinskautum og stimpluðu sig rækilega inn í tímann og söguna, inn í vitund okkar allra, en þá gleymist að dugnaður þeirra var annarra, þeirra mörgu og smáu „sem aldrei var að getið að neinu“, þeirra sem grófu skurðina, reistu veggina og verkuðu fiskinn og pökkuðu honum inn og gerðu kláran til útflutnings. Þetta fólk á þó sinn dag, sinn fyrsta sumardag, sinn 1. maí.

„Sú barátta er bæði sóknarbarátta og varnarbarátta, varnarbarátta vegna þess að á krepputímum er vegið að kjörum og réttindum vinnandi fólks en sóknarbarátta vegna þess að nú þarf að jafna það sem til er ...“

Afrakstur baráttunnar einkavæddur og seldur

Gamlar spurningar, segir einhver, en það er heldur ekkert nýtt undir sólinni. Enn ber fólkið sem ber samfélagið á herðunum minnst úr býtum. Þetta sást svo vel í baráttu verkafólks í vetur. Hvað blasir við þegar enginn hirðir ruslið, enginn þrífur skólana eða er til staðar fyrir börnin í leikskólunum? Það er líka þessi barátta sem skilað hefur árangri og ekki bara í einum kjarasamingum heldur í þeirra löngu baráttu sem hefur skilað okkur heilbrigðiskerfi, skólakerfi, símalínum, sundlaugum, lífeyrissjóðum, í stuttu máli sagt, velferðarkerfi sem gróðaöflin reyna að hrifsa til sín og skera niður af því að réttindin sem náðst hafa eru styrkur baráttunnar og ekkert annað. Þegar þau eru tekin er baráttan veik.

Fyrir hrunið 2008 var talað um góðæri, sem var í raun ekkert góðæri, en fólst í því að taka þennan afrakstur baráttunnar, sameign fólksins, og einkavæða og selja. Þótt stór hluti þess væri hagbóla, byggð á draumórum, þá má ekki gleyma því að undirstaðan voru raunverulegar eignir fólksins: Fiskurinn, lífeyrissjóðirnir og ríkisfyrirtækin. Nú þarf að gefa upp á nýtt, endurheimta það sem glatað er. Nú er það ekki ástin á tímum kólerunnar heldur baráttan á tímum veirunnar. Sú barátta er bæði sóknarbarátta og varnarbarátta, varnarbarátta vegna þess að á krepputímum er vegið að kjörum og réttindum vinnandi fólks en sóknarbarátta vegna þess að nú þarf að jafna það sem til er og er, eðli málsins samkvæmt, ekki síst fólgið í því að endurskoða aðganginn að auðlindunum og dreifa afrakstri þeirra jafnar út til samfélagsins.

Er nokkuð annað í stöðunni?

Næsta grein Friður og landtaka geta ekki farið saman