Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Brauðstrit og barátta í dúr og moll

Brauðstrit og barátta í dúr og moll

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar um verkalýðsbaráttu í íslenskum dægurlögum

Brauðstrit og barátta í dúr og moll: 1980–2000

„Ég sé þau þreytt með barnavagninn baksa heim á kvöldin / Þar bíða bréf með rukkunum sem birta ógreidd gjöldin / „Er lífið aðeins fallinn víxill?“ oft þau spyrja sig / Þau reyna að stefna í rétta átt, en hvað um mig og þig?“
Svo segir í upphafi hins harmræna „Hvað um mig og þig“, eitt af fjölmörgum meistarasmíðum Magnúsar Eiríkssonar, sem hefur betur en flestir náð að kjarna eitthvað séríslenskt ástand í list sinni. Lagið, sem er frábærlega sungið af Ragnhildi Gísladóttur, birtist á plötu Magnúsar, Smámyndir, árið 1982. Af hverju er ég að tala um þetta lag? Jú, grein þessi er beint framhald af grein sem ég skrifaði í Vinnuna fyrir ári síðan, hvar ég skoðaði hvernig brauðstrit og baráttuandi birtast í vel völdum íslenskum dægurlögum á tímabilinu 1950 til 1980. Hetjum hafsins var sleppt þar eins og líka hér enda myndu sjómannalög hæglega sigla yfir allar aðrar íslenskar starfsgreinar, væru þau hluti af jöfnunni, svo mörg eru þau. Almennur iðnaður og verkamannastörf á landi verða því í fókus hér, rétt eins og síðast. Eini munurinn er sá að nú færum við okkur inn á nýja áratugi, þann níunda og tíunda.

„Á 9. áratugnum var mikil áhersla á stíl og prjál í tónlistinni, sérstaklega er nýrómantíkin tók öll völd, og nýfrjálshyggjan reið röftum í Bandaríkjunum og Bretlandi. En annað kom á daginn og Íslendingar voru vel meðvitaðir um veröld hins vinnandi manns á þessum tíma.“

„Stál og hnífur“, óopinber þjóðsöngur hins íslenska verkamanns

Og þar fara mál að vandast og flækjast lítið eitt. Söngvar um brauðstrit taka nefnilega á sig margvíslegan blæ á þessum áratugum á meðan yrkisefnið var með einfaldari hætti fyrr á tímum eins og rakið var í síðustu grein. Rómantík og gáski einkenndi sokkabandsár íslensks popps og rokks hvar Bjössi keyrði glaðbeittur um á mjólkurbíl. Og á áttunda áratugnum tóku sveitir og listamenn sér einarða stöðu með vígasystkinum erlendis og sungu sósíalíska baráttusöngva undir áhrifum frá Woody Guthrie og Bob Dylan.

Greinarhöfundur var svo æstur síðast að hann fór fram úr sér og nefndi til sögunnar Hálft í hvoru hvers plata, Almannarómur, kom út árið 1982. Uppleggið þar er samt svo áttunda áratugslegt að hún fékk að fljóta með, auk þess sem ég var þá ekki búinn að taka ákvörðun um þetta greinarkorn og gat bara ekki hugsað mér að sleppa þessum mæta hópi.

Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa grein átti ég von á því að níundi áratugurinn yrði fátæklegur hvað umfjöllunarefnið varðaði. Mikil áhersla var á stíl og prjál í tónlistinni, sérstaklega er nýrómantíkin tók öll völd, og nýfrjálshyggjan reið röftum í Bandaríkjunum og Bretlandi. En annað kom á daginn og Íslendingar voru vel meðvitaðir um veröld hins vinnandi manns á þessum tíma. Bubbi Morthens var í fararbroddi en „Stál og hnífur“, óopinber þjóðsöngur hins íslenska verkamanns, kom út í upphafi áratugarins. Bubbi var frá fyrsta degi öflugur talsmaður vinnandi stétta og hefur verið fram á þennan dag. Ótal mörg lög í þessa veru komu frá honum á þessum árum, sjá t.d. „Giftu þig 19“ sem Das Kapital fluttu: „Vinnudagar allir eins / Kalt loftið syfjaðan bítúr / Að streðast á móti er ekki til neins / Þú verður að vinna, binda járnið maður“.

„Lagið er þjóðsöngur lyklabarnanna, X-kynslóðarinnar svokölluðu, sem þurfti að koma sér sjálf inn í kot þar eð báðir foreldrar voru útivinnandi, lengi lengi.“

Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson nokkur gaf út ansi magnaða plötu árið 1982, Vinna og ráðningar, sem innihélt lög eins og „Hemmi sópari“ og var einn langur óður til verkalýðsins mætti segja. Síðasta lag plötunnar, stutt, kallast „Súrmjólk“ en það lag og texta á Bjartmar Guðlaugsson. Frekar átti eftir að kveða að honum á áratuginum og hann reyndist völundur hinn mesti þegar kom að glúrnum, oft fyndnum en um leið raunsönnum textum um líf almúgamannsins. „Súrmjólk“ inniheldur t.d. þessar ódauðlegu línur: „Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin / Mér er sagt að þegja meðan fréttatíminn er / Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin / Og mamma er svo stressuð en þó mest á sjálfri sér.“ Lagið er þjóðsöngur lyklabarnanna, X-kynslóðarinnar svokölluðu, sem þurfti að koma sér sjálf inn í kot þar eð báðir foreldrar voru útivinnandi, lengi lengi. Lagið „Útilokaður“ með Purrki Pillnikk fjallar um einmitt þetta. Lagið er ekki ljóðræn vangavelta um að vera útilokaður frá samfélaginu heldur bókstaflega um að vera læstur úti! Bjartmar átti marga smellna söngva sem tóku á lífi hins venjulega fólks og t.d. segir í „Lífsreynslumolum“: „Olivia Newton John / Aldrei hefur handtak gert í fiski / Samt hún fær sitt fóður allt / Framborið á yfirstéttardiski.“

Mágusinn okkar, Megas, lagði og gjörva hönd á plóg. Í „Björg“ af hinni frábæru Loftmynd talar hann um að bera sig eftir björginni og ef menn standi í stykkinu sjái Guð um rest (öfugt við það sem Hrekkjusvín sögðu, „Guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir“).

„Tíundi áratugurinn er fátækari, einhverra hluta vegna. Var rofið á milli mótmælasöngva sjöunda og áttunda áratugarins, sem sá níundi byggði dálítið á, einfaldlega orðið of skart?“

Laddi söng um ólíkar starfsstéttir

Fleiri lög komu úr hinum og þessum áttum sem snertu á hinu daglega púli. Dúkkulísur sungu um Pamelu í Dallas, Bjarni Tryggva lagði öll spil á borð á Mitt líf – bauðst eitthvað betra? og Gunni Þórðar henti meira að segja í púkkið er Pálmi Gunnars söng um Steina Strætó í allsvakalegu eitíslagi: „Í hraustlegu brjósti er hjartað svo kramið og blátt. Helblátt“ segir þar m.a., tilraun til að gægjast inn í tilfinningalíf þessara oft sviplausu almannaþjóna okkar.

Gleymum heldur ekki Ladda okkar en fólki hættir til að afskrifa tónlistarlegt framlag þessa mikla meistara. Hann hefur sungið ófáum iðn- og verkamannastörfum óð og hafa bréfberar, rafvirkjar, ökuþórar, húsverðir, leynilöggur og matsveinar allir fengið sínar dúsur. En þið sjáið að þetta er tvískipt ef ekki þrískipt. Eitt er að nefna stéttir til og setja þær í léttan, grínaktugan búning (lög Ladda eru á þann veginn í ætt við „Bjössa á mjólkurbílnum“ og ámóta), annað að orða hlutina sterkt og ástríðufullt (Bubbi) eða þá setja þá í kaldhæðinn, stingandi búning eins og Bjartmar átti til með að gera og það glæsilega.

Áður við kveðjum níunda áratuginn vil ég leyfa S/H draumi að eiga lokaorðin, þá frábæru rokksveit sem Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, keyrði. Í laginu „Glæpur gegn ríkinu“ segir: „Fimmtíu stunda vinnuvika / Á bakinu í hálfa öld / Vakna snemma alla morgna / Sturtan er alltaf köld.“

Brjálaðar ömmur og IKEA

Tíundi áratugurinn er fátækari, einhverra hluta vegna. Var rofið á milli mótmælasöngva sjöunda og áttunda áratugarins, sem sá níundi byggði dálítið á, einfaldlega orðið of skart? Og þó, kemur ekki hressilegt útspil úr óvæntri átt í upphafi hans, og það frá sjálfri Stjórninni. Eða hvað er „Yatzy“ annað en glæsileg mynd af ströggli vísitölufjölskyldunnar, líkt og Spilverkið og Bjartmar höfðu hanterað með?: „Þau spila yatzy og krakkinn fær sleikjó / Þau slást um hvort á að þvo upp leirtauið / Þau spila yatzy og skreppa í bíó / Og króinn fylgir með.“ Í textanum koma brjálaðar ömmur, IKEA og vangaveltur um „kerfið“ og uppeldið líka við sögu. Magnað.

Vont en það venst

Dúettinn Súkkat átti þá nokkur vel heppnuð innslög í baráttuna á áratuginum. Tónlistin Megasar- og vísnavinaleg og „Vont en það venst“ líkast til skýrasta dæmið um vel dimma kaldhæðnina sem þeir félagar bjuggu yfir: „Stórbóndinn ljóti, stífur og þver / Stjarfur af illsku alla daga er / Hjúin lemur og hjúin ber / Heiðrum hann, veljum íslenskt“. Kristján Kristjánsson, KK, var þá með eyrað við jörðu og söng verkafólki fagra söngva af einurð og heiðarleika. Um Vegbúann segir: „Þú færð aldrei að gleyma / Þegar ferðu á stjá / Þú átt hvergi heima / Nema veginum á / Með angur í hjarta / Og dirfskunnar móð / Þú ferð þína eigin / Ótroðnu slóð.“

Líkt og síðast, þessi upptalning er á engan hátt tæmandi en gefur vonandi einhverja mynd af straumum og stefnum hvað þessi mál varðar. Að sjálfsögðu stefnum við á að klára þetta mál svo að ári og horfa þá til síðustu tveggja áratuga. 

Næsta grein Hin hliðin á Vilhjálmi Birgissyni