Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Listamenn ræða umhverfismál á tímum veirunnar

Listamenn ræða umhverfismál á tímum veirunnar

Bjarki Bragason myndlistarmaður og Andri Snær Magnason rithöfundur velta vöngum

Heimsbyggðin glímir nú við sameiginlega ógn. Sumir halda því meira að segja fram að náttúran sé að senda okkur skilaboð með Covid-19 veirunni og það sé ekki skynsamlegt að ögra náttúrunni. Slíkt getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Þetta er líklega í fyrsta skipti í sögu mannkyns sem við sjáum jafn mikil og samhæfð viðbrögð íbúa jarðar við aðsteðjandi vanda. Og þessi samstaða – þessi viðbrögð við veirunni – gefa mörgum von. Heimsbyggðin glímir nefnilega við aðra risastóra ógn sem er ekki að fara neitt nema við gerum öll eitthvað róttækt. Það er ógnin sem lífi á jörðinni stafar af hlýnun loftslags.

Umhverfismál verða fyrirferðarmikil á næsta þingi Alþýðusambandsins. Þess vegna tók Vinnan hús á tveimur listamönnum sem hafa gert umhverfismál að yrkisefni í list sinni. Við ræðum hlýnun loftslags á jörðinni, mengun og neyslusamfélagið í skugga Covid-19 við Bjarka Bragason myndlistarmann, sem er sérstakur samstarfsaðili Listasafns ASÍ á þessu ári, og Andra Snæ Magnason rithöfund.

 

Bjarki Bragason, myndlistarmaður
Bjarki Bragason, myndlistarmaður

„Við erum að upplifa meiri breytingar núna sem einstaklingar en fyrri kynslóðir, breytingar sem við eigum erfitt með að skilja.“

Bjarki Bragason

Meira aðkallandi að bjarga flugfélagi en jörðinni

Bjarki Bragason segir að við séum að upplifa meiri breytingar núna sem einstaklingar en fyrri kynslóðir, breytingar sem við eigum erfitt með að skilja. Andri Snær tekur undir þetta og bendir á að jarðfræðilegur hraði breytinga sem áður voru mældar í þúsundum eða jafnvel milljónum ára séu nú að gerast á einum mannsaldri. „Það er áhugavert að nota Covid-19 í þessu samhengi. Við skiljum að við getum orðið veik á morgun. Við bregðumst við og læsum heiminum. En þegar vísindamaður á sviði loftslagsmála segir að eitthvað alvarlegt geti gerst í náttúrunni árið 2070 þá erum við ekki að tengja.“ Bjarki samsinnir þessu og bætir við. „Veiran hefur áhrif á skammtímamarkmið okkar sem er að lifa af. Það er hins vegar erfiðara að stöðva langtímamarkmið okkar sem sé að lifa vel. Og þar kemur neyslan inn. Hún er svo bólgin og erfitt að hemja hana. Okkur finnst meira aðkallandi að bjarga flugfélagi en jörðinni.“

„Við þurfum ekki að skella öllu í lás til að bjarga jörðinni. 5% breyting á neyslu og hegðun á ári ætti líklega að duga til að byrja að snúa þessu skipi. Og ekki gleyma að það er spennandi að vera hluti af kynslóð sem þarf að gera breytingar,“ segir Andri Snær. Bjarki tekur þennan bolta á lofti. „Viðbragð jarðarbúa við Covid-19 sýnir að við eigum séns í baráttunni við hlýnun loftslags á jörðinni. Við þurfum bara að vilja það. Ef við viljum draga úr neyslu okkar og breyta mynstrinu þá getum við það.“

Viðtalið við Bjarka Bragason og Andra Snæ Magnason má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Andri Snær Magnason, rithöfundur
Andri Snær Magnason, rithöfundur

„Og ekki gleyma að það er spennandi að vera hluti af kynslóð sem þarf að gera breytingar.“

Andri Snær
Næsta grein Vinnumansal algengara á Íslandi en flesta grunar