Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Mímír opnaði dyr og ný tækifæri

Mímír opnaði dyr og ný tækifæri

Geir Sigurður Gíslason
Geir Sigurður Gíslason

Geir Sigurður og Jovita segja frá reynslu sinni af Mími-símenntun

Mímir-símenntun er fræðslufyrirtæki sem starfar á sviði framhaldsfræðslu og starfsmenntunar. Mímir skapar tækifæri til náms fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu auk þess að hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar og starfsþróunar. Annað meginmarkmið skólans er að bjóða upp á fjölbreytta kennslu í íslensku sem öðru máli, sem og tungumálanámskeið. Þannig hefur Mímir-símenntun reynst hvalreki fyrir fjölmarga sem héldu að skóli og nám væri ekki fyrir sig auk þess að opna dyr fjölmargra útlendinga að íslensku samfélagi.

Vinnan hafði samband við tvo útskrifaða nemendur úr Mími til að forvitnast um reynslu þeirra af skólanum. Jovita Marcikoniene er 47 ára Lithái og Geir Sigurður Gíslason 29 ára Hafnfirðingur.

„Ég hafði akkúrat engan áhuga á skóla, ég var einn af þessum vandræðakrökkum, bekkjartrúðurinn ef svo má segja.“

Geir Sigurður Gíslason

„Ég var ein með tvö börn, 7 ára stelpu og 14 ára strák, þegar ég kom hingað.“

Jovita Marcikoniene
Jovita Marcikoniene
Jovita Marcikoniene

Féll ofan í lest með 30 kg kassa í fanginu

Hvers vegna ákváðuð þið að fara í nám hjá Mími?

Jovita: „Ég valdi Mími af því ég var búin að heyra góða hluti um skólann og að það væri auðvelt að stunda námið með vinnu. Mímir bauð upp á alls konar námskeið í vinnunni minni og þannig frétti ég af þeim. Ég hóf námið árið 2017 og lauk því á tveimur árum. Ég flutti til Íslands fyrir 14 árum eftir að ég skildi við manninn minn. Ég var með tvö börn, 7 ára stelpu og 14 ára strák, þegar ég kom hingað. Ég var búin að heyra góða hluti um Ísland og að það væri gott að búa hérna með börn þannig ég tók ákvörðun og flutti hingað fyrir betra líf. Námið í Mími hjálpaði mér enn frekar í aðlöguninni hér.“

Geir: „Ég ákvað að fara í nám hjá Mími eftir að ég lenti í slysi á sjó. Ég hætti í Flensborg á þriðju önn og fór að vinna í frystihúsi í Hafnarfirði. Ég hafði akkúrat engan áhuga á skóla, ég var einn af þessum vandræðakrökkum, bekkjartrúðurinn ef svo má segja. Ég var ekki í óreglu en mér var alveg sama um skólann. Var alltaf eitthvað að prakkarast og var erfiður við kennarana. Ég átti erfitt með lestur, skrift og að halda athygli. Ég var greindur með lesblindu en fékk svo seinna meir ADD greiningu. Fljótlega eftir að ég byrjaði í frystihúsinu fékk ég tækifæri til að fara einn túr sem háseti á frystitogara og þá var ekki aftur snúið. Ég var þar í 5 ár í mikilli vinnu. Að vera á frystitogara er það skemmtilegasta sem ég hef gert og lífið þar átti vel við mig. Mikil keyrsla, rútína, spenna, frábær félagsskapur og góð laun sem mér fannst réttlæta það að hafa aldrei klárað menntaskólann. En sem sagt, ég féll ofan í lest á fjórða degi túrs með 30 kg kassa í fanginu og fékk slæman áverka á hægra hné. Ég kláraði samt túrinn. Var bara færður til í starfi og stóð eiginlega bara í vinstri fótinn þá 26 daga sem eftir voru. Var á verkjalyfjum allar vaktir. Ég þurfti að fara í aðgerð á hnénu þegar ég kom í land og á meðan á því bataferli stóð ákvað ég að fara í Mími til þess að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt. Ég samdi þó um að fá að hætta í Mími um leið og ég gæti farið út á sjó aftur og þá mögulega klára Mími seinna,“ segir Geir þegar hann rifjar upp þessa örlagaríku sjóferð. „En svo gekk batinn hægt, dvölin í landi lengdist og skólagangan hjá Mími þar með.“

Stóðst námið væntingar ykkar?

Jovita: „Já, í rauninni var það mun betra en ég átti von á. Svo kynntist ég nýju fólki, íslenskan mín varð betri og ég almennt betri í starfinu mínu. Þetta var bara jákvætt og gott skref fyrir mig.“

Geir: „Algjörlega, og mér fannst það léttara en ég bjóst við. Ég var búinn að gefa hugmyndina um frekari skólagöngu upp á bátinn því ég hélt ég yrði langelstur í bekknum og það fannst mér ekki skemmtileg tilhugsun. Í Mími var ég næstyngstur af 20 manneskjum í mínum hóp sem var gaman. Kannski hafði skóli lífsins þessi áhrif eða ég bara neitað að taka inn upplýsingar sem krakki eða gert nám að of stóru fjalli í hausnum á mér. En mér brá hversu vel ég stóð mig í Mími. Kennararnir og andrúmsloftið var allt annað en ég mundi eftir frá menntaskóla. Ég held það hafi breytt miklu að allir sem voru hjá Mími vildu vera þarna. Áður fyrr var skólinn kvöð fyrir mér. Manni var sagt að ef maður kláraði ekki menntaskóla þá yrði ekkert úr manni. Ég elti því bara hópinn en nýtti allar afsakanir til þess að mæta ekki og læra ekki,“ segir Geir kíminn.

„Ég vil ekki vera gæinn sem situr svekktur heima mörgum árum seinna muldrandi „ég hefði átt að ...“

Geir Sigurður Gíslason

„Svo kynntist ég nýju fólki, íslenskan mín varð betri og ég almennt betri í starfinu mínu.“

Jovita Marcikoniene

Góður stuðningur í náminu skipti sköpum

Hvaða námsbraut hjá Mími völduð þið og hvers vegna?

Jovita: „Ég valdi félagsliðabrú vegna þess að ég vildi klára menntun og vera með betri þekkingu í starfinu mínu. Námið er sniðið að þörfum fólks sem starfar við umönnun aldraðra, sjúkra, fatlaðra og/eða við heimaþjónustu. Það er einingabært og kennt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Nemendur útskrifast sem félagsliði. Ég kláraði félagsliðabrú hjá Mími á vorönn 2019 og vinn á Eir-hjúkrunarheimili.“

Geir: „Ég valdi Menntastoðir staðnám. Gat valið um að taka það á 6 mánuðum eða 12. Auðvitað valdi ég 12 því þá þurfti ég að mæta minna og vera styttra í einu.“

Hvernig fannst ykkur svo námið?

Geir: „Mér gekk vel og það kom mér í raun á óvart hversu vel ég stóð mig. Námið var skemmtilegt og þar skiptu góðir kennarar auðvitað mestu. Það var mikið djókað og það myndaðist mjög fljótt skemmtilegur bekkjarfílingur.“

Jovita: „Ég fékk mikinn stuðning og hvatningu frá kennurum og starfsfólki Mímis og þess vegna gekk mér vel.“

„Ég fór beint úr Mími í HR og kláraði Háskólagrunninn með 8,3 í meðaleinkunn sem kom skemmtilega á óvart.“

Geir Sigurður Gíslason

„Ég myndi mæla með þessu námi fyrir alla sem hafa áhuga á starfinu sem þetta nám tengist ...“

Jovita Marcikoniene

Ef ég geri ekkert – gerist ekkert

Finnst ykkur mikilvægt að fullorðnir fái annað tækifæri til náms?

Geir: „Já, því ungir krakkar eins og ég vita oft ekkert hvað þeir vilja gera eða verða þegar þau eru orðin stór. Við erum ekki öll á sama stað í lífinu og aðstæður okkar mismunandi. Annað tækifæri til náms er því mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að þegar einar dyr lokast standi aðrar opnar. Ég valdi ekki að hætta á sjó, heldur hnéð á mér og læknar. Þetta var eins og að horfa á bestu bíómynd í heimi en svo fer rafmagnið af húsinu og þú getur ekkert gert í því. Ég veit ekki af hverju, en það var eitthvað inni í mér sem sagði mér að gera sem best úr aðstæðunum. Ég hugsaði, ef ég geri ekkert þá gerist ekkert. Það að ég hafi byrjað í Mími áður en ég fékk staðfestinguna á því að geta aldrei stundað sjómennsku aftur hjálpaði eflaust til. Það hefði verið erfiðara að byrja í Mími ósáttur og svekktur út í lífið. Mímir var þessar opnu dyr fyrir mig – þegar lífið mitt stoppaði gjörsamlega.“

Jovita: „Já, mér finnst það mjög mikilvægt. Ég fann hvernig námið jók sjálfsöryggið, ég varð víðsýnni en um leið með gagnrýnni hugsun en áður. Og svo urðu félagsleg tengsl miklu meiri og betri, sem er mikilvægt. Ég bæti mig líka í mínu starfi, er faglegri og svo hækka launin aðeins við að ná sér í meiri menntun.“

Hverju breytti þetta nám hjá Mími fyrir ykkur?

Jovita: „Ég varð fyrst fremst betri í að tileinka mér nýja þekkingu og færni sem auðvitað nýtist í starfi en eykur líka sjálfstraustið.“

Geir: „Námið gaf mér nýja framtíðarsýn. Ég fór beint úr Mími í HR og kláraði Háskólagrunninn með 8,3 í meðaleinkunn sem kom skemmtilega á óvart. Ég var ennþá ekki alveg viss hvað ég vildi gera og prófaði mig áfram í HR og komst að því að ég hef áhuga á viðskiptafræði og að vera frumkvöðull. Núna er ég búinn með næstum tvö og hálft ár á viðskiptafræðibraut í HR. Er búinn að minnka við mig skólann og vinn núna í dag sem markaðsstjóri og tek tvo áfanga á önn. Gamli Geir hefði nýtt sér þessa afsökun að vera kominn í gott starf og hætt í skólanum. Að lengja námið um eitt ár skiptir mig engu máli og það er líka enginn að pæla í því hversu lengi þú ert að klára námið þitt. Ég vil ekki vera gæinn sem situr svekktur heima mörgum árum seinna muldrandi „ég hefði átt að ...“

Mælið þið með þessu námi?

Jovita: „Já, algjörlega því það var auðvelt að vera í náminu með vinnu. Ég myndi mæla með þessu námi fyrir alla sem hafa áhuga á starfinu sem þetta nám tengist og bara þá sem vilja læra eitthvað nýtt.“

Geir: „Já, ég geri það. Aðallega fyrir þá sem á einhverjum tímapunkti hafa gefist upp á námi, hafa lent í áfalli sem hefur breytt stöðu þeirra í vinnu og fyrir þá sem fengu góða vinnu ungir en eru komnir með leiða. Fyrir mig var upplifunin við að byrja að stunda nám hjá Mími mjög ólík og mun betri en þegar ég hóf nám í menntaskóla.“

Næsta grein Baráttan í skugga veirunnar