Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Vinnumansal algengara á Íslandi en flesta grunar

Vinnumansal algengara á Íslandi en flesta grunar

Rætt við Maríu Lóu Friðjónsdóttur, verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits ASÍ, og Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, sérfræðing í dómsmálaráðuneytinu

Mansal er ein alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis og mikið vandamál víða um lönd. Vinnumansal hefur að nokkru leyti fallið í skuggann af kynlífsmansali og barnaþrælkun en þær skilgreiningar eru hvað þekktastar og fyrirferðarmestar í umræðu um mansal.

Birtingarmyndir vinnumansals hér á Íslandi eru oftast þær að einstaklingar eru blekktir til að koma til landsins, loforð og samningar eru svikin og þessu fólki oft haldið í einangrun og án upplýsinga um rétt sinn. Þetta fyrirbæri fyrirfinnst á Íslandi í meira mæli en flestir gera sér grein fyrir.

Vinnustaðaeftirlit ASÍ og fleiri aðilar hafa ítrekað bent stjórnvöldum á þetta mein á vinnumarkaði og að við því þurfi að bregðast. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja hefur verið hik á raunverulegum viðbrögðum stjórnvalda við vanda sem fer vaxandi.

María Lóa Friðjónsdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ, segir að allt að 400 manns tengist vinnumansali á Íslandi. Stundum sé þetta hrein og klár nauðungarvinna sem fólk lendir í. „Það eru dæmi um að fórnarlömbin komi út í mínus eftir mánaðarvinnu þar sem alls kyns kostnaður sé dreginn frá „launum“. Ég get t.d. nefnt dæmi um konu sem var að vinna á gistihúsi úti á landi. Eftir tveggja mánaða vinnu stóð hún uppi með 30 þúsund krónur í vasanum,“ segir María Lóa.

Að stærstum hluta eru það Íslendingar sem standa á bak við vinnumansal hér á landi. Þar eru verktakar og vinnumiðlanir fyrirferðarmestar. Nokkur mál tengd þessum ófögnuði koma inn á borð vinnustaðaeftirlits ASÍ í hverjum mánuði. María Lóa gagnrýnir andvaraleysi stjórnvalda í málaflokknum og hægagangi í kerfinu þó hún segi vissulega hafa rofað til á síðustu mánuðum.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, er ekki sammála þessari gagnrýni. Hún segir að aðgerðaráætlun um vinnumansal sé í vinnslu innan stjórnkerfisins og menn sjái til lands í þeirri vinnu. „Það þarf að vanda til verka, endurskoða löggjöf, auk þess sem margar stofnanir þurfi að koma að. Samhæfingarmiðstöð verði komið á fót þar sem heildstætt utanumhald verður um mansalsmál á einum stað. Þessi samhæfingarmiðstöð á að taka til starfa á þessu ári,“ að sögn Svölu Ísfeld.

Viðtalið við Maríu Lóu og Svölu Ísfeld má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

María Lóa Friðjónsdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ
María Lóa Friðjónsdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ
Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu

„Ég get t.d. nefnt dæmi um konu sem var að vinna á gistihúsi úti á landi. Eftir tveggja mánaða vinnu stóð hún uppi með 30 þúsund krónur í vasanum.“

María Lóa Friðjónsdóttir
Næsta grein Mímír opnaði dyr og ný tækifæri