Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Brauðstrit og barátta í dúr og moll: 2000–2020

Brauðstrit og barátta í dúr og moll: 2000–2020

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar um verkalýðsbaráttu í íslenskum dægurlögum

Brauðstrit og barátta í dúr og moll: 2000–2020

Allt er þá þrennt er. Það er spennandi að klára þennan greinaflokk okkar sem byrjaði á því að
ég skoðaði hvernig brauðstrit og baráttuandi birtast í vel völdum íslenskum dægurlögum á tímabilinu 1950 til 1980. Á síðasta ári var svo farið í árin 1980–2000 og því erum við komin að rökréttum leiðarlokum. Hvernig fara nýskáldin, tónlistarmenn framtíðarinnar, með hina vinnandi stétt í söngvum sínum? Ef þau gera það á annað borð? Ég árétta líkt og áður, hetjum hafsins er sleppt, enda bókstaflega sægur til af slíku efni. Almennur iðnaður og verkamannastörf á landi verða því í fókus hér, rétt eins og áður. Og lítum á, eru auglýsingateiknarar, forritarar og sprotafólk kannski frekar undir en gröfumenn og smiðir?

„Fljótt á litið skera síðustu tuttugu ár sig nokkuð frá síðustu greinaflokkum.“

Ham
Ham
Dauðyflin
Dauðyflin

Söngur um helvíti verkalýðsins
Byrjum þessa yfirreið á fremur óvæntu en hressilegu útspili. Hljómsveitin goðsagnakennda HAM er ekki sérstaklega þekkt fyrir verkalýðssöngva en endaði samt síðustu plötu sína, Söngvar um helvíti mannanna (2017), á einum slíkum. Lagið fjallar um vörubílstjóra sem leggur upp í hálfgerða feigðarför gegn betri vitund en er greinilega undir hælnum á vinnuveitandanum. „Var orðið seint um kvöld er kallinn fékk mig inn til sín / 30 tonn af stáli þurfti fyrir morguninn / Tók að mér djobbið þótt að væri orðinn uppgefinn / Hlóð draslið hratt, settist undir stýrið, lagði af stað.“ Söngur um helvíti verkalýðsins?

Fljótt á litið skera síðustu tuttugu ár sig nokkuð frá síðustu greinaflokkum. Árin 1950–1980 var oft sungið til verkafólks á rómantískan hátt. Á áttunda áratugnum færðist svo meiri alvara í leikinn hvar hippískir mótmælasöngvar runnu nánast inn í meginstrauminn. Heldur minna var um þetta á næstu árum, utan að hetjur eins og Bubbi og Bjartmar lögðu nokkra rækt við málaflokkinn. Tveir síðustu áratugir hafa siglt um svipuð mið. Það er seint hægt að tala um senu sem sinni þessu af einhverri elju, frekar að textar sem eru óður til þessara stétta skjóti upp kolli hér og hvar og ómögulegt að sjá eitthvað munstur út. Tvennt fer reyndar gegn þessu. Í dýpstu neðanjarðarfylgsnum, hjá pönksveitum eins og Börn, Hryðjuverk, Blóð og Dauðyflum (svo ég hendi inn einhverjum nöfnum eftir minni) er oft og tíðum farið í grjótharða texta sem andæfa kerfinu og syngja þeim undirokuðu lof. Oft með fremur almennum hætti. Og ein sveit, Rass, sem inniheldur m.a. meðlimi úr áðurnefndri HAM, gaf út heila plötu sem var tileinkuð allra handa andstöðu og heitir hún að sjálfsögðu Andstaða! (2004). Vissulega með tungu uppi við tönn en samt, mikið sem þessi plata er gríðarlega hressandi („Óréttlæti er óréttlátt“ segir í „Óréttlæti“!).

„Textinn er í senn galgopalegur og eiturhvass.“

Baggalútur
Baggalútur

Reiðin vegna hrunsins fékk útrás í textum
Og svo er það HRUNIÐ, þið munið, og það kynti dálítið undir skáldabálinu einhver misseri á eftir. Meðvitaðir alþýðusöngvar hafa því ólgað nokkuð hjá nútíma neðanjarðarpönkurum en fengu líka mikla innspýtingu á árunum eftir efnahagshörmungarnar. Textarnir voru þá oftast ekki hylling á verkalýðshetjunni heldur fremur reiði fyllt gagnrýni á það fólk sem rændi marga hvunndagshetjuna lífsviðurværinu; bankamenn, forstjóra og útrásarvíkinga (í „Höfðatorg“ með Blóð tapar verðbréfamiðlarinn Trausti Rúnar aleigunni og íhugar sjálfsvíg). Dr. Gunni gaf þá út fjögurra laga plötu, Að gefnu tilefni – 4 mótmælalög, sem inniheldur titlana „Helvítis gráðugu fífl“, „Legókubbar auðvaldsins“, „Gamli góði Villi“ og „Handrukkarar lýðræðisins“. Dr. Gunni reiddi þetta fram með glæsilegri blöndu af háði og alvöru, eitthvað sem einkennir jafnan beittustu ádeilulögin.

Grallaraspóarnir í Baggalúti brugðust og hratt við og gáfu út lagið „Það koma vonandi jól“ korteri eftir hrun. Textinn í senn galgopalegur og eiturhvass: „Allt þetta útrásarpakk / Át á sig gat / Svo loftbólan sprakk / Nú eru lífskjörin skert / Mannorðið svert / Hvað hafið þið gert?“. Nefndur Baggalútur hafði gefið út plötuna Pabbi þarf að vinna nokkrum árum fyrr, eða 2005, þar sem svitastorkinn launaþrællinn var settur undir gamansamt mæliker. Þessi setning, „pabbi þarf að vinna“, hittir þráðbeint í mark. Allir tengja við þetta og höfundur þessa pistils mælti þessa setningu t.d. í milljónasta skipti við dætur sínar er hann settist niður að kvöldlagi til að framleiða þessa grein!

Bubbi stendur þá vaktina alltaf og ætíð. Á 1000 kossa nótt er pabbi ekki að vinna heldur mamma. Í „Mamma vinnur og vinnur“ segir „Mamma vinnur og vinnur / Og við gerum aldrei neitt / Mamma mín vinnur og vinnur / Og er alltaf svo þreytt“. Kaldhamraðra gerist það ekki. Það þarf ekki alltaf að vera grín.

„Hvort það sé birtingarmynd þessara einstaklingsmiðuðu tíma sem við lifum á, þessari öld einstaklingshyggjunnar, þá urðu þeir – og eru – á stalli hjá þeim sem una hinum harðduglega, vinnandi Íslendingi.“

Mugison
Mugison

Uppreisnarklanið á skítadreifurunum
Galleríið hefur þannig verið skrautlegt á þessu tímabili. Sveitta groddapönksveitin Pink Street Boys söng um kassastarfsmann í „Kassastarfsmaður“. Tvíhöfði gerði skrifstofutrúbadornum skil. Rúnk söng um bréfbera á meðan Sváfnir Sigurðarson rifjaði upp gamla – og góða – daga í „Malbiksvísur“. Og Moses Hightower syngur um næturvaktina í Nóatúni í „Háa C“.

Tveir eru þeir menn sem hafa verið giska áberandi í íslenskri dægurtónlistarmenningu undanfarin tuttugu ár eða svo. Mugison og Jónas Sig. Og margt eiga þeir sameiginlegt. Báðir stigu þeir t.d. fram sem eftirlæti bæði pælara og almúga. Hvort það sé birtingarmynd þessara einstaklingsmiðuðu tíma sem við lifum á, þessari öld einstaklingshyggjunnar, þá urðu þeir – og eru – á stalli hjá þeim sem una hinum harðduglega, vinnandi Íslendingi („dugnaður“ er orð sem hlýtur að hafa verið fundið upp á Íslandi). Ekki bara að þeir tækju málstað vinnandi stétta í viðtölum og í textum (þið munið kannski eftir lagi Jónasar, „Baráttusöngur uppreisnarklansins á skítadreifurunum“) heldur komu þeir einnig fram sem slíkir sjálfir. Mugison var/er farandsöngvari í grunninn, vinnur fyrir sér með tónlist, og stígur stoltur niður sem slíkur. Listamaður? Já. Vinnandi maður? Ó já!

Cyber
Cyber
Úlfur úlfur
Úlfur úlfur

Gengur þetta upp?
GusGus hömruðu þetta vinnustolt listamannsins inn – þá staðreynd að þetta er endalaust púl – á plötunni 24/7 („On the job /24/7“) en það eru mögulega rapplistamennirnir okkar sem hafa farið með þetta allra lengst. Dásemdarsveitin Cyber helgaði heila plötu skrifstofufólki (Bizness, 2018) og vottuðu hamborgarasteikjurum virðingu sína í myndbandinu „Psycho“. „Brennum allt“ með Úlfur Úlfur snerti á myrkraheimum vinnandi fólks og Emmsjé Gauti talar af krafti um vinnumanninn – sjálfan sig – í „Lágmúli“ þar sem hann halar inn seðla með tónlistinni sinni enda sé hann að byggja. Þessi staða listamannsins sem hins vinnandi manns er svo alger hjá einum farsælasta rappara landsins, Herra Hnetusmjör, í laginu „Keyra“ sem út kom 2018: „Þú veist ekki hvað ég vinn mikið í rauninni / Sit á mörgum lögum eins og prinsessan á bauninni / Flexa nóg, reppa Kóp, fyrir dough.“

Þetta eru skrítnir tímar. Ég er búinn að tala um örgustu anarkistasveitir sem syngja hryggjarstykkjum atvinnulífsins lof en einnig um ofurvinsælar gleðisveitir sem gera slíkt hið sama. Og enda á að tala um efnaðan ungrappara sem syngur harðduglegri alþýðuhetju – sjálfum sér – lof. Gengur þetta upp? Auðvitað!

Og er þá komið að leiðarlokum. Eðlilega er þessi yfirferð síst tæmandi en gefur vonandi einhverja innsýn í hvernig þessum málum hefur verið háttað undanfarna áratugi.