Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Fjölbreyttur bakgrunnur kvenna sem starfa í stéttarfélögunum

Fjölbreyttur bakgrunnur kvenna sem starfa í stéttarfélögunum

Fjölbreyttur bakgrunnur kvenna sem starfa í stéttarfélögunum

Þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum árum hafa ekki farið fram hjá neinum. Breytt samsetning launafólks hefur kallað á nýja þekkingu og færni hjá starfsfólki stéttarfélaganna. Hópur öflugra hugsjónakvenna gegnir lykilhlutverki í þjónustu við félaga af erlendum uppruna, þar sem fjölbreytt tungumálakunnátta skiptir sköpum.

Sex konur sem starfa hjá stéttarfélögum víðs vegar um landið voru teknar tali og spurðar nokkurra spurninga.

Mynd: Agnieszka Tyka.jpeg
Agnieszka Tyka, Verkalýðsfélag Vestfirðinga

1. Við hvað starfar þú?
„Ég vinn á skrifstofu Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Ísafirði. Ég er þjónustufulltrúi þar og geri allt sem til fellur í svona starfi, tek til dæmis á móti félagsmönnum og leiðbeini þeim með ýmis atriði. Stór hluti félagsmanna hjá okkur á Vestfjörðum eru Pólverjar og pólskukunnátta mín nýtist vel. Annars sinni ég líka að hluta til starfi eftirlitsfulltrúa og að auki vinn ég við ræstingar.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Íslendingur frá Póllandi á Íslandi.“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Ég hef mjög lítið ferðast um Ísland svo ég á ekki uppáhaldsstað hér en nú þegar ekki er mælt með því að ferðast til útlanda þá mun það örugglega breytast og kannski finn ég minn „sérstaka“ stað á Íslandi.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Að njóta hvers dags í mínu lífi í botn.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður og framkvæmdastjóri hjá VerkVest, það er ekki spurning. Þessi maður á gullmedalíu skilið.“

Magdalena Kwiatkowska, Efling – stéttarfélag

1. Við hvað starfar þú?
„Ég er verkefnastjóri fræðslumála hjá Eflingu. Meginhlutverk teymisins er að þróa, framkvæma og hafa eftirlit með fræðslu- og félagastarfi á vegum stéttarfélagsins í því skyni að valdefla félaga til virkni í stéttabaráttu. Annað helsta hlutverk teymisins er að halda utan um fræðslusjóði félagsins og leggja til breytingar á úthlutunarreglum í takt við breytingar á sviði fræðslumála. Jafnframt að finna og styrkja leiðtoga og tengja saman einstaklinga og hópa í því skyni að efla samtakamátt. Ég tek þátt í markaðssetningu og kynningu námskeiða, veiti aðstoð við þýðingar og túlkun á texta og mæltu máli á íslensku/ensku yfir á pólsku/ensku.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Roller coaster – around the world. Ég hef búið, lært og unnið í borgum eins og London, Leeds, Varsjá, Vancouver og Reykjavík. Ég hef unnið bæði láglaunastörf og rekið mitt eigið fyrirtæki, barist við að ná endum saman og fagnað. Ég hef kynnst stöðu og merkingu orðsins „útlendingur” mjög vel.“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Ég elska Ísland almennt. Ég flutti burt og kom aftur, sumir segja að ef þú flytur burt frá eyjunni þá kallar hún á þig, ég er alveg sammála því. Ég á auðvitað uppáhaldsstað á Íslandi, til dæmis Vestfirði og Seyðisfjörð, en í sumar fann ég strönd fyrir austan fulla af svönum og með hvítum sandi, sem leit út eins og algjör paradís, friður og frelsi, engin furða að fuglar hafi valið þennan stað.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Þessi spurning minnir mig á Miss World keppnina. Við horfðum á hana í Póllandi þegar ég var lítil, alveg eins og þið horfið á Eurovision hér, en það er nú allt svo „passé“. Svo ég svara eins og Ungfrú heimur svarar alltaf: engin fátækt í heiminum. Ég er bara að grínast! Mín væri þó: að þessi goðsögn um allan heim, að Ísland sé land velferðar, best í mannréttindum, meira að segja lágu launin séu mjög há, fínar og hagkvæmar íbúðir; ég vildi bara að það væri allt satt! En ég held að þessi ósk sé ekki ómögulegt verkefni. Ísland er mjög lítið land, við getum öll búið hér í friði og í vellíðan. Við ættum öll að muna: „There are no poor countries, they are just mismanaged.“ Mig langar líka að bæta við: Ég vona að við sleppum bráðum úr Covid-fangelsinu og getum leyft okkur að lifa og ferðast.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Ég er frá Póllandi. Við þekkjum vel mátt samstöðunnar, skipulags og verkfalla. Árið 2019 var það erlent fólk á Íslandi sem var í meirihluta þeirra sem fyrst kusu með því að fara í verkfall. Við ættum að sameinast, hugsa um hvað við viljum og læra hvert af öðru. Við ættum að gera grín úr grænbók stjórnvalda (Grín-bók), setja viðurlög við launaþjófnaði og berjast fyrir fleiri góðum og hagkvæmum íbúðum fyrir fjölskyldur. Við eigum líka að þýða kjarasamninga og allar upplýsingar svo erlent fólk geti vitað öll sín réttindi!“

Mynd: Magdalena Kwiatkowska.jpg
Mynd: Marta Katarzyna.JPG
Marta Katarzyna Kuc, Báran og Verkalýðsfélag Suðurlands

1. Við hvað starfar þú?
„Ég starfa sem þjónustufulltrúi og eftirlitsfulltrúi hjá tveimur stéttarfélögum: Bárunni á Selfossi og Verkalýðsfélagi Suðurlands á Hellu. Starf mitt felur í sér mörg verkefni. Meðal annars sé ég um að afgreiða menntastyrki og sjúkrastyrki, kjaramál, sjúkradagpeninga, trúnaðarmannamál og orlofshús.
Einnig aðstoða ég Pólverja, sem er stór hópur í stéttarfélögum okkar. Ef þörf er á fer ég líka í vinnustaðaeftirlit.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„2001: árið sem allt breyttist (fjölskyldan okkar tók stórt skref og tók þá ákvörðun að flytja til Íslands) eða Ég og landið sem ég elska (þessi tilfinning fylgir mér á hverjum degi😊 ÉG ELSKA ÍSLAND).“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Ég á ekki sérstakan uppáhaldsstað á Íslandi. Í hvert skipti sem mér sýnist að þetta sé staðurinn sem mér líkar best, uppgötva ég nýjan. Ég elska að horfa á fjöllin og jökla, sérstaklega á Eyjafjallajökul. Það er leyndardómur í þeim.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Ég myndi óska þess að foreldrar mínir flyttu til Íslands.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Það eru margir sem hafa barist fyrir verkalýðsmálum. Mínar helstu fyrirmyndir eru Lech Wałęsa og Anna Walentynowicz. Þegar kemur að íslenskri verkalýðsbaráttu er ég ánægð með að sjá öflugar konur sem sitja í stjórn eða eru formenn í sínu stéttarfélagi og taka virkan þátt í mótun og stefnu verkalýðshreyfingarinnar fyrir komandi ár.“

Aleksandra Radovanovic, AFL – Starfsgreinafélag

1. Við hvað starfar þú?
„Ég starfa hjá AFLi starfsgreinafélagi á Egilsstöðum. Ég er viðskiptafræðingur að mennt og starfa sem aðalbókari félagsins. Verkefni mitt er að tryggja að öll viðskipti AFLs séu rétt skráð í bókhaldinu, að allt stemmi upp á krónu svo að félagsmenn okkar geti alltaf haft innsýn og fylgst með hvernig peningum þeirra er varið.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Ég kem frá Serbíu, fallegu landi á Balkanskaganum. Landið mitt hefur gengið í gegnum alls konar erfiðleika í gegnum tíðina, kreppur, stríð og mikið atvinnuleysi. Ég er ein af þeim mörgu ungmennum sem ákváðu að loknu námi að flytja frá heimalandinu og til annarra Evrópulanda í von um að fá betri framtíð fyrir sig og fjölskylduna sína. En af hverju valdi ég Ísland, hmm … það er vegna þess að ég elti ástina mína. Maðurinn minn kom hingað fyrst og ekki var hægt annað en að fylgja hjarta mínu.“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er akkúrat þar sem ég bý með fjölskyldunni minni, manninum og dætrum okkar þremur, Jönu, Hristinu og Lenku, sem allar eru fæddar hér á Íslandi. Frá því að ég kom til landsins árið 2007 hef ég búið á Austurlandi. Við bjuggum á Seyðisfirði fyrstu fimm árin og þessi litli bær á sérstakan stað í hjarta mínu. Fallegir firðir, sjór, fjöll, fossar, yndislegar náttúruperlur og Hallormstaðaskógur gera Egilsstaði og allt Austurland að fallegasta stað á Íslandi. Jafnvel þó ég sé stúlka frá stórborg og það sé margt sem ég sakna hér í litlu samfélagi, þá jafnast ekkert á við öryggið og friðinn sem við eigum hér.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Ég sakna fjölskyldu og vina mikið og ein ósk væri að ég gæti heimsótt þau oftar en ég geri í dag. Beint flug til Serbíu myndi auðvelda það. Þá væri hægt að „skreppa“ í langt helgarfrí og koma öllum á óvart.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Í verkalýðsbaráttunni styð ég alla þá sem leggja sig fram um að berjast fyrir jafnrétti fólks til að búa í öruggu samfélagi, vinna, geta keypt húsnæði, mat og lyf. Grunnþarfir fólksins ættu að vera til staðar fyrir alla, ekki bara þessi ríkustu. Ég trúi á alla þá sem eru að berjast fyrir betra Íslandi, stéttlausu samfélagi þar sem allir eru jafnir.“

Mynd: Aleksandra Radovanovic.jpg
Mynd: Nicole Kristjánsson.jpg
Nicole Kristjánsdóttir, Eining-Iðja

1. Við hvað starfar þú?
„Ég vinn hjá Einingu-Iðju á Akureyri sem ráðgjafi í starfsendurhæfingu. Það er krefjandi og áhugavert starf að aðstoða fólk við endurkomu í vinnu. Ég hef verið í þessu síðan 2009 og finnst mjög spennandi að kynnast nýju fólki á hverjum degi í mismunandi aðstæðum. Það er mjög gefandi að hjálpa til við að leysa úr málum fólks.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Ævintýri með hestum, kindum og tveimur ösnum í stíl Rosamunde Pilcher. Það væri metsöluástarsaga og kvikmyndaverkefni fyrir Baltasar, löðrandi í svita, tárum og (hjarta)blóði … ef ég kem þessu einhvern tíma á pappír.“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Hvalvatnsfjörður, mínar „heimaslóðir“ hér á landi, Loðmundarfjörður fyrir austan, Kerlingarfjöll og svo margir fleiri.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Fyrir utan heimsfrið, bara klukkutíma með mömmu sem fór frá okkur allt of snemma.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Allar konur sem voru og eru að berjast fyrir jafnrétti á íslenskum vinnumarkaði, við erum komin svo langt miðað við aðra, erum fyrirmynd úti í heimi, en samt langt frá því að ná okkar draumum.“

Malgorzata Beata Libera, AFL – starfsgreinafélag

1. Við hvað starfar þú?
„Ég vinn hjá AFLi – Starfsgreinafélagi á Reyðarfirði. Í starfi mínu felst almenn þjónusta og starfsmenntamál.“

2. Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Hvar eru lyklarnir mínir?“

3. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?
„Það eru margir fallegir staðir en einn sá fallegasti er Ásbyrgi.“

4. Ef þú ættir þér eina ósk, hvers myndir þú óska?
„Hamingju og lífsgleði fyrir alla.“

5. Hver er þín helsta fyrirmynd í verkalýðsbaráttunni?
„Ótrúleg pólsk kona að nafni Anna Walentynowicz – Solidarność.“

Mynd: Malgorzata Beata Libera.jpg
Næsta grein Slagurinn um fótboltann