Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Fyrsti maí er töff

Fyrsti maí er töff

Hugleiðingar rithöfundar á 1. maí

Fyrsti maí er töff

- eftir Elísabetu Jökulsdóttur

„Það er ekki þjóðfélagið, það er pólitíkin sem aðskilur sig frá þjóðfélaginu, pólitíkin viðheldur misrétti og misrétti er einfaldlega glæpur …“

Ég varð öryrki fyrir nokkrum árum. Ég man ekki hvenær, geðlæknirinn minn hafði skrifað upp á endurhæfingarstyrk fyrir mig sem er undanfari örorkustyrks. Ég fékk strætómiða til að fara í örorkustrætó. Örorkupeninga til að kaupa örorkumat, borga örorkurafmagn, örorkuhita, örorkujólagjafir, örorkuíþróttaskó, örorkugreiðslur fyrir örorkufótbolta. Nema málið var að þetta var ekkert örorkulíf, ekkert örorkuþjóðfélag, það var bara ég sem lifði örorkulífi og fékk örorkuskammartilfinningu og fannst það væri mér að kenna.

Málið var að ég var fædd með sjúkdóm sem ég réði ekki við nema á köflum. Þetta var meðfæddur sjúkdómur og þetta var sko enginn örorkusjúkdómur, hann tók yfir allt og stofnaði mér í lífshættu mánuðum saman svo ég var mánuðum saman að jafna mig. Það er ekki þjóðfélagið, það er pólitíkin sem aðskilur sig frá þjóðfélaginu, pólitíkin viðheldur misrétti og misrétti er einfaldlega glæpur, mönnum er meðfætt að standa saman, hjálpa lítilmagnanum. Já, þetta var örorkulíf og ég neyddist til að steikja örorkupönnukökur og poppa örorkupopp í kvöldmatinn. Þetta var glæsilegt örorkulíf.

 

„Það eru sex þúsund fátæk börn á Íslandi og þótt ég vilji ekki taka mér þetta orð – fátækt – í munn þá er það raunveruleikinn.“

II

Ég man eftir 1. maí, ég fór alltaf í kröfugöngu og það var hátíð og fjör og töff, 1. maí var töff, og er það enn þá, ég var mikilvæg manneskja, við vinkonurnar vorum á móti misrétti. Eitt árið hættu þessar göngur, þá var ég örugglega löngu hætt að fara í þær. En ég man sérstaklega eftir göngu þegar ég var unglingur, þá bar ég litla bróður minn á háhesti niður allan Laugaveginn, og við vinkonurnar ætluðum að gera hann að byltingarforingja.

Síðan eignaðist ég barnabarn sem fór að vinna á leikskóla árið 2019 og var 22 ára gamall. Hann bjó hjá mér þegar þetta var, launin voru 250 þúsund, þetta var áður en Sólveigu Önnu tókst að hækka launin nú síðast. Ástríðan fyrir starfinu var mikil, oft kom hann heim og sagði mér sögur af litlu börnunum með stjörnur í augum, svo hrifinn af tilsvörum þeirra og dugnaði. En oft kom hann svo þreyttur heim að hann hafði ekki þrek til að borða en fór beint inn í rúm og svaf í tólf tíma. Hvílíkt óréttlæti, hugsaði ég og hélt ræðu á Lækjartorgi. Og þetta hefur ekkert breyst, árið 1988 skrifaði ég fjögurra dálka grein í Moggann til að benda á bág kjör leikskólakennara sem þá voru að passa börnin mín. Vinkona mín sem er öryrki freistaðist til að taka að sér smá vinnu tilað drýgja bæturnar og henni var samstundis refsað fyrir það með því að skerða bæturnar. Daglega birtast í blöðum viðtöl við öryrkja sem eiga kannski langveik börn eða eru að glíma við hættulega sjúkdóma, afleiðingar slysa og örorkubæturnar duga hvergi til. Það væri hægt að kalla þetta farsa og þess háttar, en það hjálpar ekki, þetta er glæpur, ríkisstjórnin er að fremja glæp og svik. Glæpur sem kallar fram misrétti og allir verða veikir. Þeir ríku verða siðferðilega veikir, en þrátt fyrir að við eigum þessa fínu prófessora í siðferði þá er eins og siðferðileg umræða nái aldrei almennilega í gegn, og það er þessi þreyta, af hverju hefur ríkisstjórnin komist upp með það að hækka ekki örorkubætur eins og lofað var? Það er aðskilnaður milli pólitíkur og siðferðis, það þýðir spillingu. Ég hef varla geð í mér hér að ræða Samherjabörnin en bara þetta orð framkallar einsog högg í hausinn, slíkt er óréttlætið.

Það eru sex þúsund fátæk börn á Íslandi og þótt ég vilji ekki taka mér þetta orð – fátækt – í munn þá er það raunveruleikinn. Ég kallaði það að vera blönk eða eiga ekki peninga. Það er í lagi að tala um fátækt. Að segja orðin hjálpa og gerir þau raunveruleg. Og við getum barist við raunveruleikann.

„Í fyrsta túrnum lá hann ælandi úti um brúargluggann en ég sú eina sem var ekki sjóveik, bara af því ég vildi sýna hvað í mér bjó.“

Elísabet Jökulsdóttir
Elísabet Jökulsdóttir

“… það var saltfiskur í matinn sex daga vikunnar og á sunnudögum sauð ég saltkjöt úr tunnu, það var líka tunna með súru slátri sem var stundum í matinn, allt var þvegið í höndum og þegar ég þvoði mér þvoði ég mér upp úr vaskafati í eldhúsinu …“

II

Ég hef aldrei dýft hendi í kalt vatn.

Og ég hef aldrei staðið í verkalýðsbaráttu.

Mér var aldrei kennt að vinna.

Ég vann í frystihúsi í heilan vetur til að vera nálægt syni mínum sem bjó hjá afa sínum og ömmu í Bolungarvík vegna alkóhólisma míns. Okkur var aldrei kennt að skera úr beinagarð og hafi það verið gert fór það framhjá mér. Þetta var köld og blaut vist, skrifstofan var dularfull á efri hæðinni og þar voru þeir sem höfðu laun okkar í hendi sér.

Og ég fór einu sinni sem háseti á bát, bara til að gera eins og kærastinn minn því ég var svo hrædd um hann á sjónum að ég vildi prófa þetta líka. Ég var háseti og kokkur. Skipstjórinn vildi ekki ráða mig af því ég var kona en ég fékk það að endingu í gegn. Í fyrsta túrnum lá hann ælandi úti um brúargluggann en ég sú eina sem var ekki sjóveik, bara af því ég vildi sýna hvað í mér bjó. Ég greip sláturkeppina á lofti í eldhúsinu og eldaði hræðilegan mat. Svo stóð ég baujuvaktir, ég var ein uppi í brú, ein með skipið, og átti að fylgjast með baujunni, þetta var línubátur, og það sem heillaði mig mest voru jöklarnir sem risu eins og ískastalar í nóttinni. Ég fór ekki nema sex túra. Svo hélt ég bara áfram að drekka. Það er kannski helst það að ég hafi komist næst því að dýfa hendinni í kalt vatn, drykkjan var þrældómur.

Ég vann sem starfsstúlka í bakaríi og bakarinn sótti mig heim þegar ég mætti ekki, ég hafði ekki kynnst svona góðvild, ég hélt að allir yfirmenn væru stjórnsamir leiðindapúkar, ég vann líka í Veiðimanninum og fékk áhuga á að hnýta flugur, en eins og í bakaríinu vann ég bara í fjórar eða sex vikur. Og svona var vinnuferill minn á þessum tímum áður en ég söðlaði um og fór alfarið að skrifa.
En ég hafði líka unnið sem sendill og í sjoppu og út um lúgu á BSÍ þar sem þjóðin kom dauðadrukkin úr Nauthólslæknum að panta sér pulsu með öllu. Og ég vann á Kleppsspítala sem starfsstúlka og kynntist fólki með geðsjúkdóma, ári seinna var ég sjálf komin á Klepp. Veik af sorg, ástarsorg og dópneyslu. Ég hætti á Kleppi því ég þurfti að byrja í partíunum. Samt elskaði ég þetta starf og að vinna svona náið með fólki sem ég þráði svo að lækna. Svona kynntist ég hluta af þjóðinni en það er þjóðin sem ég get þakkað mest fyrir mín ritstörf, fólk sem ég hef hitt á förnum vegi, fólk sem hefur veitt mér innblástur, en í þessum störfum, þótt ég tolldi aldrei lengi, þá fékk ég samt innsýn í þessi störf, fólk sem vann eingöngu þessi störf.

Ég lærði kannski soldið um vinnu þegar ég var norður á Ströndum, ég lærði um selveiðar, æðarvarp og reka. Rekinn varð vinur minn og það var ævintýri að ganga rekann, eins konar hugleiðsla eins og það er að ganga fjörur. En ég var sextán ára og bjó um vetur norður á Ströndum, nánar tiltekið á Seljanesi við Ingólfsfjörð, þar var ekkert rafmagn nema klukkutíma og klukkutíma úr ljósavél sem varð að snúa í gang með handafli, annars kveiktum við á kertum eða olíulömpum, það var enginn sími nema sveitasími þar sem allir hlustuðu hver á annan, eins konar Feisbúkk þeirra tíma, það var ekkert vatn nema úr læk og stundum var frosið í læknum, mjólkin var geymd í læknum, það var engin hitaveita nema olíueldavélin sem kynti upp ofnana á daginn en á nóttunni var helkuldi, það varð að hita allt vatn á eldavélinni, maturinn var geymdur í búri sem stundum varð tómlegt og þá varð að sækja matinn á sleðum og jeppanum Gulbrandi ef það var fært, (það var mús í búrinu). Ég var ekki ein því við vorum þarna tvö, ég og Kristinn bóndi og veiðimaður, sem las fyrir mig Íslendingasögurnar og Einræður Starkaðar, og hvinurinn úr olíueldavélinni var sálin í húsinu, kærastinn kom stundum á snjósleða yfir fjöllin, það varð að baka allar kökur, öll brauð, flatkökur, það var saltfiskur í matinn sex daga vikunnar og á sunnudögum sauð ég saltkjöt úr tunnu, það var líka tunna með súru slátri sem var stundum í matinn, allt var þvegið í höndum og þegar ég þvoði mér þvoði ég mér upp úr vaskafati í eldhúsinu, flesta daga snjóaði, og var kalt, stundum komu ótrúlegar lygnur og sjórinn bylgjaðist út að Drangaskörðum, við sáum ljósin á Munaðarnesi hinum megin fjarðarins, annars höfðum við ekki samskipti við neinn, venjulega á nóttunni var ísbjörn við útidyrnar en veiðihundarnir fjórir sem sváfu laust í anddyrinu trylltust og geltu af miklum móð þegar hann kom. Þarna lifði ég eina mína hamingjusömustu daga.

Hamingjan hefur fylgt mér við skriftir og þar hef ég dýft hendi í kalt vatn. Ég hef lært að vinna, ég hef lært af öðrum bókum að skrifa, lært af yfirlesurum, mamma kenndi mér það, vinnan sjálf, einstaka námskeið, fór líka í áfengismeðferð en eins og ég segi: Fólk sem ég hitti á förnum vegi, ókunnugt fólk sem sýndi því áhuga sem ég var að gera. Þetta er held ég eina vinnan sem ég hef þroskast almennilega í, lært að vinna, ég hefði getað lært að vinna í frystihúsinu eða úti á sjó, í bakaríinu, í lúgusjoppunni en ég staldraði aldrei nógu lengi við. Skriftirnar hafa falið í sér þá launabaráttu að nú þegar ég er beðin um að koma fram einhvers staðar, lesa upp eða miðla því sem ég hef fram að færa, þá spyr ég hvort ég fái borgað.

Næsta grein Alþýðumatur - heima og að heiman