Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Glæpasnúðar á vinnumarkaði

Glæpasnúðar á vinnumarkaði

Glæpasnúðar á vinnumarkaði

Hlaðvarpsviðtal við Hjalta Tómasson, starfsmann vinnueftirlits Bárunnar á Selfossi

„Það eru of margir svindlarar á íslenskum vinnumarkaði, það eru of mörg fyrirtæki sem reyna að hagnast óheiðarlega á þeim sem vinna verkin.“

Á síðustu tíu árum hafa stéttarfélögin í landinu í auknum mæli sinnt vinnustaðaeftirliti til að koma í veg fyrir að verið sé að svindla á launafólki en rannsóknir hafa sýnt að það er mest ungt fólk og útlendingar sem verða fyrir barðinu á launaþjófnaði, áreiti og misrétti ýmiss konar í vinnunni.

Til þess að koma í veg fyrir slíkt athæfi mætir vinnustaðaeftirlitið á vinnustaði og tékkar á ástandinu.

Hjalti Tómasson, starfsmaður Bárunnar á Selfossi, er einn þessara vinnueftirlitsmanna og hefur nokkuð langa reynslu. Hann hefur lent í skrautlegum og sorglegum uppákomum í sínum ferðum en hann þekkir líka vel sögu vinnustaðaeftirlits á Íslandi. Smelltu á spilarann hér að ofan til að hlusta á viðtalið.

„Það eru of margir svindlarar á íslenskum vinnumarkaði, það eru of mörg fyrirtæki sem reyna að hagnast óheiðarlega á þeim sem vinna verkin. Algengustu brotin snúast um rangar launagreiðslur, fólk er látið vinna langan vinnudag án þess að fá greitt í samræmi við það, það er verið að snuða fólk um neysluhlé, orlof og greiðslur fyrir hvíldartíma. Þetta er það algengasta. Svo eru önnur brot sem blasa ekki jafn vel við og það er þegar atvinnurekandi setur ýmsan kostnað í frádrátt frá launum sem hann ákveður upp á sitt einsdæmi. Þar má nefna kostnað fyrir húsnæði, líkamsrækt, óeðlilegan fæðiskostnað og jafnvel reiðhjólaleigu. Tilgangurinn með þessu er að borga eins lítið út í peningum og hægt er,“ segir Hjalti.

„Ég tók það saman fyrir tveimur árum að þá hafði vinnustaðaeftirlitið afskipti af fólki frá 111 þjóðlöndum en stærstur hlutinn kemur frá Austur-Evrópu.“

Nauðsynlegt að grípa fólkið við færibandið í Leifsstöð

Hjalti segir meira um svona svindl í ákveðnum greinum en öðrum og nefnir þar byggingageirann og ferðaþjónustuna. „Þau sem koma erlendis frá að vinna í þessum atvinnugreinum koma oft frá fátækari hluta Evrópu. Fólkið kemur úr umhverfi sem er mjög ólíkt íslenskum vinnumarkaði og því er auðveldara að blekkja það. Þegar þú færð til þín starfsfólk frá t.d. Póllandi eða Rúmeníu þá sækir þú það á flugvöllinn og keyrir á hótel eða í vinnubúðir. Þú er fyrsti aðilinn sem þetta fólk kemst í tæri við á Íslandi og það hefur því tilhneigingu til að trúa því sem þú segir og hefur ekki forsendur til að rengja það því það kemur úr umhverfi þar sem vinnumarkaðurinn er allt annar en okkar. Verkafólkið gerir bara það sem því er sagt fyrir þau laun sem því eru boðin. Það er því mikilvægt að grípa þetta fólk helst við færibandið í Leifsstöð og ASÍ var einmitt að vinna gott starf með Isavia í þeim efnum skömmu áður en allt fór á hliðina vegna Covid í mars 2020. Vinnustaðaeftirlitið vinnur líka mjög mikilvægt starf í að upplýsa þetta verkafólk um rétt þess á íslenskum vinnumarkaði og hvaða stéttarfélag væri rétt að setja sig í samband við.“

Þegar Hjalti er spurður hvort einhver ákveðin þjóðerni séu útsettari fyrir svikum og prettum svarar hann því til að það séu Austur-Evrópubúar sem lendi helst í slíku. „Þetta eru mest Pólverjar, Rúmenar, Ungverjar, Lettar, Litháar og Rússar. En íslenskur vinnumarkaður er ótrúlega fjölbreyttur þegar kemur að þjóðernum. Ég tók það saman fyrir tveimur árum að þá hafði vinnustaðaeftirlitið afskipti af fólki frá 111 þjóðlöndum en stærstur hlutinn kemur frá Austur-Evrópu. En varðandi réttindabrot þá koma Norður-Evrópubúarnir vopnaðir miklu meiri þekkingu og er því mun líklegri til að gera athugasemdir ef þeir telja á sér brotið. Þetta er einfaldlega menningarmunur, þeir koma úr umhverfi þar sem það er eðlilegt að spyrja spurninga.“

„Vinna á Íslandi á að vera launuð. Það er fullt af ungu fólki frá Norður-Evrópu, yfirleitt frá vel stæðum fjölskyldum, sem elskar íslenska hestinn og er tilbúið að koma hingað að moka hrossaskít fyrir ekkert.“

Moka hrossaskít fyrir ekkert

En hvað er það erfiðasta sem Hjalti hefur sjálfur þurft að glíma við í sínu starfi?

„Það er þegar stelpur sem eru á aldur við dætur mínar upplifa sig í erfiðri stöðu, hafa jafnvel orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Þetta eru oft krakkagrey langt í burtu að heiman og þegar þau lenda í erfiðum aðstæðum þá vilja þau bara fara heim til mömmu og pabba. Mér finnst erfiðast að labba inn í slíkar aðstæður, þurfa að vera faglegur en gleyma því ekki að maður er manneskja líka. Félagsleg aðkoma á eftir að verða stærri hluti af þessu starfi en nú er.“

Varðandi sjálfboðaliða sem hingað koma til að vinna án þess að þiggja laun fyrir segir Hjalti að vinnustaðaeftirlitið hafi þurft að hafa afskipti af slíku, enda ólöglegt að vinna annað en skilgreind góðgerðarstörf án þess að fá borgað fyrir. „Lögin eru alveg skýr hvað þetta varðar. Vinna á Íslandi á að vera launuð. Það er fullt af ungu fólki frá Norður-Evrópu, yfirleitt frá vel stæðum fjölskyldum, sem elskar íslenska hestinn og er tilbúið að koma hingað að moka hrossaskít fyrir ekkert. Þessir krakkar hafa vel efni á því að vera launalaus í 3-4 mánuði en vandamálið er þegar fyrirtæki fara að nýta sér slíkt í efnahagslegri starfsemi. Ef Blái herinn fær hins vegar hóp af ungu fólki til að ganga fjörur og tína rusl þá eru ekki gerðar athugasemdir við slíkt,“ segir Hjalti.

„Iðnaðarmenn áttu líklega heiður af fyrsta skipulagða vinnustaðaeftirlitinu upp úr 1940. „Þeirra áhyggjur sneru að því að allt í einu var fullt af mönnum sem voru farnir að kalla sig smiði í tengslum við Bretavinnuna.“

Vinnustaðaeftirlit jafngamalt hreyfingunni

Saga vinnustaðaeftirlits á Íslandi er Hjalta hugleikin og hann segir að líklega sé saga þess jafngömul sögu verkalýðshreyfingarinnar hér á landi. Það að fara út á vinnustaðina í þeim tilgangi að sjá hvort allt sé í lagi er ekkert nýtt. Mætir menn í verkalýðshreyfingunni, eins og Sigurður Bessason, fyrrverandi formaður Eflingar, og Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, hófu sinn feril í vinnustaðaeftirliti.

„Ef við förum aftur til 1920, skömmu eftir stofnun ASÍ, þá höfðu menn áhyggjur af vinnuaðstæðum og vinnuhörku sem var hér landlæg bæði til sjós og lands. Hér voru krakkar sendir út á vinnumarkaðinn um leið og þeir höfðu burði til – að sitja heima með hendur í skauti var ekki í boði. Úti á sjó stóðu menn við þar til það var búið að fylla skipið og skipti þá engu hvort það tók þrjá daga eða viku. Vökulögin, sem voru sett 1921, voru fyrsti stóri sigur hins unga Alþýðusambands. Fram að því voru engin takmörk fyrir því hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Dæmi voru um að sjómenn á togurum stæðu sólarhringum saman í aðgerð og að hásetar hafi dottið sofandi ofan í kösina með hníf í hendi eftir slíka þrælavinnu. Þetta vinnuálag gekk vitanlega mjög nærri líkamlegri heilsu manna enda entust þeir ekki nema örfá ár við slík störf. Það var ekkert til sem hét gamlir sjómenn og þeir létu þetta yfir sig ganga vegna ótta við atvinnumissi. Vökulögin tryggðu 6 tíma lágmarkshvíld á sólarhring á togurum. En afskipti verkalýðsfélaga í árdaga hreyfingarinnar var einmitt af aðbúnaði, vinnutíma og jafnvel öryggismálum,“ segir Hjalti. Hann bætir við að iðnaðarmenn hafi líklega átt heiður af fyrsta skipulagða vinnustaðaeftirlitinu upp úr 1940. „Þeirra áhyggjur sneru að því að allt í einu var fullt af mönnum sem voru farnir að kalla sig smiði í tengslum við Bretavinnuna. Á þessum tíma var iðnmenntun í mikilli sókn og þessi þróun fór ekki vel í fagfélögin sem fóru í eftirlitsferðir til þess að stoppa það að menn sem ekki hefðu til þess réttindi væru að selja sig sem smiði. Það er því fátt nýtt undir sólinni.“

„Hjalti segir að frasinn „Hvaða rugl er nú þetta?“ hafi oft heyrst í byrjun þegar starfsmenn í vinnustaðaeftirliti mættu á vinnusvæði.“

Vöknuðu við vondan draum á Kárahnjúkum

Þegar talið færist nær okkur í tíma staldrar Hjalti við árið 2003 þegar ítalska verktakafyrirtækið Impregilo vann hér við að reisa Kárahnjúkavirkjun. Hann segir Íslendinga hafa vaknað við vondan draum þegar þeir urðu vitni að vinnubrögðum þess fyrirtækis og hvernig það leit á starfsmenn sína, nánast eins og einnota verkfæri. Þ.e. það kreisti úr starfsmanninum það sem það gat en tók eins litla ábyrgð á honum og mögulegt var. Ef eitthvað kom upp á losaði fyrirtækið sig við starfsmanninn og náði sér í nýjan. „Afl-starfsgreinafélag tók slaginn þarna fyrir austan og var með trúnaðarmann á staðnum sem barðist í að laga hlutina. Þegar framkvæmdum lauk og menn fóru yfir hlutina þá blöskraði flestum, m.a.s. stjórnmálamönnunum. Í framhaldinu voru sett lög um starfsmannaleigur 2006 og 2010 eru sett lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum sem höfðu þann megintilgang að fylgjast með að fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði fari eftir lögum, reglum og kjarasamningum. Framkvæmdin og eftirfylgnin var svo sett í hendurnar á aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. ASÍ og SA. Vopnuð þessum lögum höfum við verið á ferðinni í meira en áratug en þau gefa okkur aðgengi að fyrirtækjunum sem við höfðum ekki áður. Okkur er heimilt að kalla til yfirvöld – lögreglu, skattinn eða vinnueftirlit – ef við sjáum ástæðu til.“

En hvernig hefur starfsmönnum vinnustaðaeftirlitsins verið tekið í þessum heimsóknum?

Hjalti segir að frasinn „Hvaða rugl er nú þetta?“ hafi oft heyrst í byrjun þegar starfsmenn í vinnustaðaeftirliti mættu á vinnusvæði. Það var svo fjarri mönnum að einhver frá stéttarfélaginu á svæðinu dúkkaði upp fyrirvaralaust og væri að kanna stöðuna. „Þetta viðhorf hefur sem betur fer breyst. Atvinnurekendur eru sífellt að verða opnari fyrir þessu og að fá svona heimsóknir er nú viðurkenndur þáttur í því að eiga og reka fyrirtæki. En svo eru auðvitað alltaf nokkrir sem eru óheiðarlegir og ég vil kalla glæpasnúða. Þetta hefur tengst uppgangi ferðaþjónustunnar fyrir Covid. Þar sem það er peningur, þangað sækir svona lið. Þetta eru fyrirtækin sem við höfum auga með og tökum á þegar þarf. Þau sem eru með rekstrarmódelið þannig uppsett að launakostnaður er keyrður niður með góðu eða illu. Þessir aðilar brjóta kjarasamninga, brjóta lög og níðast á fólki, sem er glæpsamlegt. Því miður eru sumir enn í Impreglio hugsuninni, þ.e. að starfsfólk sé bara eitthvað einnota. Þú tekur út úr því það sem þú þarft og nærð því svo bara í nýtt.“

„Það sem ég hef aldrei getað skilið er að menn geri greinarmun á því hvernig þú stelur pening. Það er í lagi að stela svona en ekki hinsegin.“

Pólitískur áhugi í núlli

Þegar Hjalti er spurður út í hið gildishlaðna orð þrælahald og hvort hann hafi upplifað eitthvað í líkingu við það á Íslandi hváir hann.

„Ef ég réði skilgreiningunni sjálfur þá myndi ég segja já. Ég hef komið inn á staði þar sem þú getur tikkað í ansi mörg box yfir skilgreiningu á mansali eða það sem áður var kallað þrælahald. Ég hef þurft að koma þessum upplýsingum á rétta staði en því miður hafa lögregla og dómsyfirvöld ekki verið í stakk búin að taka á þessum málum. Staðreyndin er sú að það hefur ekki tekist að ná fram dómi í neinu svona máli fyrir utan kannski einu sinni. Ríkislögreglustjóri gaf út skýrslu á síðasta ári þar sem kom fram að Ísland væri í auknum mæli áfangastaður vinnumansals. Það segir okkur að við séum að komast í hóp með stóru strákunum þegar kemur að því að kaupa og selja vinnuafl. Af skýrslunni má lesa að stéttarfélögin séu í raun eini aðilinn sem hafi reynt að sporna við þessari þróun. Pólitíski áhuginn á þessum málum er í núlli,“ segir Hjalti og er mikið niðri fyrir. Og hann heldur áfram að tala um vinnumansalið. „Ef við ætlum ekki að missa þennan vinnumarkað okkar í eitthvað sem við þekkjum í löndum sem við viljum ekki bera okkur saman við þá verðum við að fá einhver tæki í hendurnar, einhverja ferla til að setja svona mál inn í þar sem þau verða unnin.“ Hjalti segir mikilvægt að blanda ekki saman vinnumansali og launaþjófnaði en að gagnvart báðum þessum þáttum gæti tregðu í kerfinu. „Hvað varðar launaþjófnaðinn er tregða í ákveðnum stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, svo ég nefni einhverja. Það sem ég hef aldrei getað skilið er að menn geri greinarmun á því hvernig þú stelur pening. Það er í lagi að stela svona en ekki hinsegin. Að stela vinnuframlagi er alveg jafn alvarlegt og ef ég stæli kreditkortinu þínu og færi að taka út af því.“

En hverju myndi Hjalti breyta ef hann gæti?

„Það sem við þurfum að gera sem samfélag er að taka ákvörðun um að það sé ekki í lagi að fara illa með fólk. Það er ekki í lagi að stela vinnuframlagi fólks. Það eina sem útlendingar sem hingað koma til að vinna hafa að bjóða er vinnuframlagið. Ef það er misnotað og sú misnotkun látin viðgangast er ég ekki viss um að við búum í góðu samfélagi. Það er allavega ljóst að mikilvægi vinnustaðaeftirlits fer vaxandi þar sem vinnumarkaðurinn er alltaf að verða flóknari. Vinnumarkaðurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu 10-15 árum, störf eru að hverfa, önnur verða til og fólk er farið að vinna meira heima eins og við höfum séð síðasta árið. Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé með augun á boltanum þegar kemur að þessum breytingum. Ekki bíða eftir því að við verðum neydd til að gera eitthvað heldur verum þátttakendur í breytingaferlinu. Því breytingarnar munu verða hvað sem okkur finnst um þær. Þetta er að gerast núna og með sífellt meiri hraða. Verkalýðshreyfingin er í eðli sínu íhaldssöm, sem er gott, en við eigum það til að vera svolítið sein til. Af þessum vagni megum við ekki missa. Vinnustaðaeftirlit er gríðarlega mikilvægt í því að vera virk í þessum breytingum,“ segir Hjalti Tómasson að lokum.

Næsta grein Fyrsti maí er töff