Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Réttlát umskipti

Réttlát umskipti

Höfundur: Auður Alfa Ólafsdóttir

Réttlát umskipti

Hvernig tryggjum við að aðgerðir í loftslagsmálum séu réttlátar og stuðli að velferð og jöfnuði?

Loftslagsbreytingar er ein stærsta áskorun samtímans. Þær munu hafa víðtækar afleiðingar á samfélög, efnahag, vinnumarkað, atvinnu, lífskjör og afkomu almennings um heim allan og er Ísland þar ekki undanskilið. Loftslagsáhrif og þær mótvægisaðgerðir sem ráðist verður í til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stemma stigu við loftslagsbreytingum munu hafa ýmis hliðaráhrif sem mun gæta á vinnumarkaði og hjá almenningi öllum. Hliðaráhrif loftslagsbreytinga og mótvægisaðgerða koma til með að hafa mismunandi áhrif á ólíka hópa samfélagsins. Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta auðlindanýtingu geta falið í sér tækifæri til að skapa sjálfbærara og réttlátara samfélag, auk þess að ýta undir velferð og bæta lífskjör almennings í landinu. Það hvernig útfærsla og framkvæmd aðgerða í loftslagsmálum fer fram mun skera úr um hver útkoman verður.

Þetta er kjarni hugmyndafræði um Réttlát umskipti (e. Just transition); að tryggja að loftslagsaðgerðir byggi á réttlæti og jöfnuði og að ávinningi af breytingum á samfélagi og efnahag vegna loftslagsbreytinga sé skipt með réttlátum hætti. Alþýðusamband Íslands styður markmið stjórnvalda um samdrátt í útlosun gróðurhúsalofttegunda en leggur áherslu á að aðgerðir sem stuðla eiga að sjálfbærni og samdrætti í útlosun byggi á forsendum réttlátra umskipta.

En hvað felst í réttlátum umskiptum og hvernig eru þau í framkvæmd?

Mynd: Kökurit2_minna.jpg

Eins og kemur fram í nýrri skýrslu þriggja heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi (ASÍ, BSRB og BHM) um réttlát umskipti, kom um 90% heildarlosunar í íslenska hagkerfinu árið 2017 frá einungis sex greinum. Þessar sex greinar sköpuðu 25% af heildarframleiðsluvirði landsins árið 2017 og í þeim störfuðu 20% fólks á íslenskum vinnumarkaði. Þarna vega samgöngur, álframleiðsla, landbúnaður og fiskveiðar þyngst. Til samanburðar kom rúmlega 8% losunar frá heimilum en sú mengun er að mestu tilkomin vegna bílanotkunar almennings.

Mynd: Mynd_Green_Vs_Polluted_City.png

Margt af því sem er í aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum snýr að samgöngum. Dæmi um slíkt eru kolefnisskattur, skattaívilnanir fyrir vistvæn ökutæki, efling almenningssamgangna og uppbygging samgönguinnviða eins og rafhleðslu-, vetnis- og metanstöðva og hjólastíga. Þessar aðgerðir eru misáhrifaríkar og hafa ólík áhrif á mismunandi hópa. Þannig bitna aðgerðir eins og kolefnisskattur til að mynda helst á lágtekjuhópum sem hafa ekki möguleika á að skipta yfir í rafbíla á meðan efri tekjuhópar nýta sér frekar skattaafslætti, sem ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki fela í sér. Þá gengur hægt að efla almenningssamgangnakerfið sem er grundvöllur þess að fólk hafi raunhæfan möguleika á að breyta samgönguvenjum og draga úr akstri einkabílsins.

Í aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum er kapp lagt á að draga úr losun frá samgöngum og er mestu fjármagni varið í þær aðgerðir. Aðgerðir til að draga úr losun frá öðrum geirum, eins og sjávarútvegi og landbúnaði, eru í mörgum tilfellum óljósar og óútfærðar þó þar séu ótvíræð sóknartækifæri. Þó mikilvægt sé að draga úr losun frá samgöngum er einnig nauðsynlegt að draga úr losun annarra stórra mengunarvalda eins og þeim atvinnugreinum sem nefndar voru hér að ofan.

Heimild mynd: Measures, drivers and effects of green employment: evidence from US local labor markets, 2006–2014. Francesco Vona, Giovanni Marin, Davide Consoli. Journal of Economic Geography.
Heimild mynd: Measures, drivers and effects of green employment: evidence from US local labor markets, 2006–2014. Francesco Vona, Giovanni Marin, Davide Consoli. Journal of Economic Geography.

Til þess að loftslagsaðgerðir séu í anda réttlátra umskipta þurfa þær að byggja á jafnræði þar sem allir taka þátt í því að draga úr losun, atvinnugreinar, fyrirtæki og neytendur. Dreifa þarf byrðum og tækifærum sem felast í aðgerðunum með jöfnum og sanngjörnum hætti. Þá þurfa aðgerðir að vera mótaðar með tilliti til áhrifa á mismunandi hópa samfélagsins þannig að kostnaður komi ekki verst niður á viðkvæmum hópum á meðan aðrir hópar njóta þeirra ívilnana sem í boði eru. Það er því nauðsynlegt að framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu af aðgerðum sem nær til samfélagslegra áhrifa aðgerða en ekki eingöngu efnahagslegra þátta. Þá getur þurft að grípa til mótvægisaðgerða til að jafna stöðu mismunandi hópa t.d. með beingreiðslum til þeirra sem bera skarðan hlut frá borði vegna kolefnisskatta.

Þá verður að hafa í huga að þrátt fyrir að neytendur hafi heilmikil áhrif með sinni hegðun geta þeir ekki borið hitann og þungann af þeim breytingum sem þarf að ráðast í. Mikilvægt er að atvinnuvegir og fyrirtæki geri allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr losun með breytingum í rekstri og framleiðslu. Þrátt fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum hafi í einhverjum tilfellum í för með sér aukinn kostnað geta þær líka skapað tækifæri til að draga úr kostnaði heimila og geta greiðvirkar hagkvæmar almenningssamgöngur t.d. gert fólki kleift að fækka bílum og lækka þannig samgöngukostnað. Til þess að aðgerðirnar feli ekki bara í sér kostnað og óhagræði er nauðsynlegt að raunhæfir jákvæðir valkostir séu til staðar fyrir bæði fólk og fyrirtæki til að geta breytt hegðun sinni.


Öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni og góð og græn störf


Atvinnulíf og samsetning starfa á vinnumarkaði munu taka miklum breytingum á næstu árum. Einhver störf munu hverfa, sum störf breytast, og ný verða til. Nauðsynlegt er að breytingar á vinnumarkaði leiði til fjölgunar á góðum grænum störfum sem standa undir góðum lífskjörum og auka velferð og jafnrétti. Græn störf varðveita og/eða endurheimta umhverfisgæði, stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, aukinni verðmætasköpun með sjálfbærri nýtingu auðlinda og draga úr sóun. Græn störf snúa einnig að því að umbreyta samfélaginu, innviðum þess, fyrirtækjum og híbýlum þannig að við séum betur í stakk búin til að takast á við loftslagsbreytingar. Nauðsynlegt er að græn störf séu líka góð störf en með því er átt við að þau séu launuð með sanngjörnum hætti, tryggi félagslega vernd og réttindi starfsmanna, bjóði upp á gott og öruggt vinnuumhverfi, tryggi jöfn tækifæri og stuðli að jafnrétti, styðji við persónulega þróun í starfi og auki velferð.

Grænum störfum fjölgar nú þegar hér á landi og má nefna störf sem miða að því að hámarka nýtingu á auðlindum og snúa að framleiðslu á orku, matvælum, fóðri og snyrtivörum. Þá má einnig nefna störf sem tengjast vinnslu úr hliðarafurðum á sjávarafla, endurvinnslu plasts, viðskiptum með og sölu á notuðum vörum, störf tengd sjálfbærri orkuvinnslu og störf sem snúa að nýsköpun, hönnun og ráðgjöf. Á myndinni hér að neðan eru nokkrar áhugaverðar staðreyndir um græn störf og áhrif þeirra á vinnumarkað og efnahag.

Mörg störf eru nú þegar nokkuð græn og hafa litla beina útlosun í för með sér. Þar má nefna ýmsa þjónustustarfsemi, menningar- og tómstundastarfsemi, störf í almannaþjónustu, upplýsingastarfsemi og fjarskipti og sérfræði-, vísinda- og tæknistarfsemi. Þrátt fyrir litla beina útlosun er svigrúm til umbóta og er hægt að gera þessi störf enn grænni. Þá liggur einnig fyrir að draga þarf úr losun í ýmsum mikilvægum atvinnugreinum sem menga hlutfallslega mikið, eins og þeim sem nefndar voru hér að ofan.

Það er ljóst að mörg tækifæri felast í þeim breytingum sem munu verða á vinnumarkaði á næstu árum. Þá er nauðsynlegt að stjórnvöld ráðist í markvissa stefnumótun og hnitmiðaðar aðgerðir til að tryggja að þau tækifæri verði nýtt. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið varðandi samdrátt í losun og hefur þegar birt aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Þær aðgerðir sem þar birtast eru þó hvorki fullnægjandi til að ná markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda né útfærðar á þann hátt að þær stuðli að réttlátum umskiptum. Þá eru stjórnvöld stutt á veg komin í stefnumótun fyrir atvinnulíf og vinnumarkað sem er þó nauðsynlegt skref til að nýta þau tækifæri sem breytingarnar fela í sér.

Verkefnið fram undan er að móta atvinnustefnu sem styður við sköpun grænna, góðra starfa um allt land, móta fjárfestingarstefnu sem stuðlar að réttlátum umskiptum og eflir nýsköpun. Þjóðinni allri til heilla. Þá er nauðsynlegt að efla og bæta menntakerfið og auka þannig tækfæri fólks til endurmenntunar og símenntunar. Íslensk stjórnvöld eiga mikið verk fyrir höndum til að tryggja að aðgerðir í loftslagsmálum og breytingar á atvinnulífi og vinnumarkaði séu byggðar á réttlátum umskiptum. Til að tryggja að svo verði þarf verkalýðshreyfingin að taka þátt í kerfisbreytingunum. Fulltrúar launafólks verða að eiga sæti við það borð.

Næsta grein Fordæmalaust atvinnuleysi erlends launafólks á Suðurnesjum