Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Samgöngusparnaður sem um munar!

Samgöngusparnaður sem um munar!

Mynd: Reykjavík.jpg

Verðlagseftirlit ASÍ

Samgöngusparnaður sem um munar!

- Hversu mikið má spara með því að fækka bílum á heimilinu eða sleppa því alfarið að reka bíl?

Samgöngur eru næststærsti útgjaldaliður íslenskra heimila á eftir húsnæðiskostnaði. Ýmsar leiðir eru þó til að draga úr samgöngukostnaði og ferðast með öðrum hætti en með bíl. Með tilkomu rafskutlna og rafhjóla, fleiri og betri hjólastíga og deilibílaleiga, auk hefðbundinna bílaleiga, er það orðinn mun raunhæfari kostur að vera án bíls en áður eða fækka bílum á heimilinu. Mikill sparnaður felst í því að nota aðra samgöngumáta en bíl þrátt fyrir að reiknað sé með kostnaði við strætókort, notkun leigubíla, leigu á bílaleigubíl einn mánuð á ári auk kostnaðar við að eiga og reka reiðhjól.

Fólk er auðvitað í misgóðri stöðu til að gera breytingar sem þessar og geta sumar fjölskyldur ekki verið án þess að eiga bíl, jafnvel tvo, á meðan öðrum dugir einn og enn aðrar geta alveg sleppt því að eiga bíl. Það er þó vel þess virði að kanna möguleikann á því að blanda saman samgöngumátum í stað þess að keyra um á bíl og lækka þannig samgöngukostnað og draga úr mengun í leiðinni.

Sumir upplifa jafnvel tímasparnað og minna stress við að ferðast með öðrum samgöngumátum en bíl þar sem tíminn sem fer í að ferðast í og úr vinnu getur nýst sem hreyfing ef viðkomandi labbar, hjólar á áfangastað eða hleypur á eftir strætó og þarf því síður að nota tíma eftir vinnu til að fara út að hreyfa sig eða fara í ræktina. Að ferðast með öðrum ferðamátum en bíl er ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu og nýtist ferðatíminn þannig til ókeypis heilsuræktar. Þá er hægt að nýta tímann í strætó í símahangs, lestur, svara tölvupóstum eða bara til að slaka á. Þá þarf aldrei að þrífa bílinn, skafa snjó af bílnum, leita að bílastæði eða fara með bílinn á verkstæði.

Mynd 1
Mynd 1
Fjölbreyttir ferðamátar í stað bílsins

Mörgum getur þótt það stórt skref að ferðast öðruvísi en á bíl og þá skiptir máli að setja sér raunhæf markmið og „leyfa“ sér til dæmis að taka leigubíl þegar þess er þörf. Þeir sem ætla að stunda alfarið bíllausan lífsstíl þurfa mögulega að nýta fleiri ferðamáta en þeir sem ætla sér aðeins að fækka bílum á heimilinu. Ferðalengd, veður og tilgangur ferðar geta kallað á ólíka ferðamáta og er því ágætt að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika og fjölbreytni í ferðamátum.


Kostnaður við rekstur á bíl

Á mynd 1 má sjá árskostnað við að eiga og reka bíl og áætlaðan árskostnað við aðra samgöngumáta til samanburðar. Við útreikningana er stuðst við þrjá verðflokka bifreiða sem eru keyrðar 15.000 km á ári og eru á eignarári 5. Miðað er við að bílarnir gangi fyrir bensíni og að bíll 1 kosti 3.100.000 kr., að bíll 2 kosti 4.000.000 kr. og að bíll 3 kosti 5.600.000 kr. Hafa skal í huga að rafmagnsbílar eru ódýrari í rekstri en bensínbílar en geta verið dýrari í innkaupum þó það sé ekki sjálfgefið vegna skattaívilnana sem bjóðast við kaup á slíkum bílum. Þeir eru þó að sjálfsögðu mun umhverfisvænni kostur! Nánari upplýsingar um forsendur útreikninga má sjá aftast í greininni.

Mynd 2
Mynd 2
Mynd 3
Mynd 3
Kostnaður við aðra samgöngukosti en bílinn

Skoðum síðan árskostnað við ýmsa samgöngumáta (mynd 2). Gerum ráð fyrir því að fólk sem ætlar sér að ferðast með öðrum hætti en með bíl geti valið úr nokkrum möguleikum eftir því sem hentar best við mismunandi aðstæður. Reiknum með kostnaði við að taka leigubíl af og til, leigu/notkun á rafskutlu eða deilibílaleigu. Gerum einnig ráð fyrir kostnaði við árskort í strætó, árskostnaði við að eiga og viðhalda ágætis reiðhjóli/rafmagnshjóli og kostnaði við leigu á bílaleigubíl einn mánuð á ári (t.d. í sumarfríinu eða jólamánuðinum). Ef einn bíll er til staðar á heimili er minni þörf á sumum samgöngumátum og má í slíkum tilfellum reikna með að ekki sé þörf á bílaleigubíl og að minni kostnaður fari í leigubíla og leigu á rafskutlum/deilibílum á ári.

Í þessu dæmi er ekki gert ráð fyrir samgöngustyrk en samgöngustyrkur fæst ef launagreiðandi og launamaður gera með sér samning sem felur í sér greiðslur launagreiðanda vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar og/eða í þágu launagreiðanda, ef almenningssamgöngur eða aðrir vistvænir ferðamátar eru notaðir í 80% af heildarfjölda ferða. Styrkurinn telst ekki til skattskyldra tekna og nemur upphæð styrksins 8.500 kr. á mánuði ef launamaður skuldbindur sig til að fara 80% ferða til og frá vinnu með þessum hætti. Einnig er hægt að velja að fara færri daga með öðrum ferðamátum en bíl.

Á mynd 3 má sjá dæmi um árskostnað fyrir mismunandi fjölskyldustærðir við aðra samgöngumáta en bíl, bæði fyrir fjölskyldur sem ætla að vera án bíls og fyrir þær sem hafa hug á að fækka bílum á heimilinu.

Mynd 4
Mynd 4
Dæmi um fjölskyldu sem fækkar bílum úr tveimur í einn

Ef kostnaður við að reka og eiga bíl er borinn saman við samgöngukostnað með blöndu af öðrum ferðamátum sést að spara má háar fjárhæðir með því að losa sig við einn bíl af heimilinu. Með því að fækka bílum úr tveimur í einn getur fjölskylda samsett af tveimur fullorðnum og tveimur börnum dregið úr kostnaði um 924.292 kr.–1.486.380 kr. á ári, eða um 77–123 þúsund kr. á mánuði, mismikið eftir því hvernig bíl um ræðir (mynd 4). Það samsvarar launahækkun á ári upp á um 1,3–2,2 milljónir kr. á ári. Ef samgöngusamningur er gerður við vinnuveitanda er sparnaðurinn enn meiri en hann er ekki tekinn með inn í dæmið.

Eins og sjá má á mynd 3 er gert ráð fyrir einu samnýtanlegu strætókorti fyrir fullorðna, strætókortum fyrir eitt barn og eitt ungmenni, árskostnaði við hjól/rafhjól fyrir alla fjölskyldumeðlimi og kostnaði við að taka leigubíl eða leigja rafskutlu af og til.

Mynd 5
Mynd 5
Dæmi um einstakling sem losar sig við bílinn

Ef við skoðum hvað má spara með því að losa sig alfarið við einkabílinn má sjá að einstaklingur sem ákveður að nýta aðra samgöngumáta getur sparað um 869.292–1.431.380 kr. á ári, eða 72–119 þúsund á mánuði (mynd 5). Það samsvarar launahækkun upp á um 1,2–2,1 milljón á ári. Í stóru töflunni má sjá þann kostnað sem gert er ráð fyrir í aðra ferðamáta hjá bíllausum einstaklingi. Ef samgöngusamningur er gerður við vinnuveitanda er sparnaðurinn enn meiri en hann er ekki tekinn með inn í dæmið.

Mynd 6
Mynd 6
Dæmi um fjölskyldu með eitt barn sem losar sig við bílinn

Fjölskylda með eitt barn sem losar sig alfarið við einkabílinn sparar um 729.292–1.291.380 kr. á ári, eða 61–107 þúsund kr. á mánuði, mismikið eftir því hvers konar bíl hún losar sig við (mynd 6). Það samsvarar launahækkun upp á um 1–1,8 milljónir á ári. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir strætókorti fyrir tvo fullorðna og kostnaði við tvö hjól/rafhjól en sumum fjölskyldum gæti nægt að deila fullorðinskorti í strætó. Þá er gert ráð fyrir aðeins minni kostnaði í leigubíla/rafskutlur/ deilibíla en þegar enginn bíll er á heimilinu. Ef samgöngusamningur er gerður við vinnuveitanda er sparnaðurinn enn meiri en hann er ekki tekinn með inn í dæmið.

Reiknaðu dæmið þitt!

Hægt er að raða samgöngukostum á fleiri máta og fyrir fleiri fjölskyldustærðir. Sumir telja sig kannski ekki þurfa hjól og aðrir ekki strætókort. Einhverjir nota rafskutlur kannski meira en hjól og enn aðrir nota mest leigubíla og strætó en síður rafskutlur og hjól. Þá er líklegt að margir eigi hjól eða taki strætó af og til þrátt fyrir að eiga bíl og er sá kostnaður því kannski að hluta til þegar til staðar og getur sparnaðurinn við að losa sig við bílinn því verið enn meiri. Hvort sem fólk vill kaupa sér aðeins dýrara hjól, fara oftar með leigubíl eða sleppa því að eiga strætókort er ljóst að mikill sparnaður næst með því að sleppa því að eiga og reka bíl.

Töluvert svigrúm er til að eyða pening í aðra samgöngumáta og ná samt að spara háar fjárhæðir í hverjum mánuði og nýta í annað. Fyrir utan sparnaðinn eru góðar líkur á því að þú hreyfir þig meira með breyttum ferðavenjum, sem er jákvætt fyrir andlega og líkamlega heilsu. Settu dæmið upp fyrir þig/þína fjölskyldu og sjáðu hversu mikið þú getur sparað! Vert er að benda á að launagreiðendur og launafólk geta samið um allt að 8.500 króna skattfrjálsa greiðslu upp í kostnað ef launþegi nýtir almenningssamgöngur eða vistvæna samgöngumáta á borð við að ganga eða hjóla þegar hann ferðast milli heimilis og vinnustaðar eða í þágu launagreiðanda.

Forsendur og heimildir

Kostnaður við að reka bíl
Stuðst er við útreikninga Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) á kostnaði við rekstur og eign fólksbifreiða árið 2021. Útreikningarnir taka tillit til kostnaðar vegna notkunar, þ.e. bensíns, viðhalds og viðgerða og hjólbarða, trygginga, skatta og skoðana, bílastæða og þrifa, verðrýrnunar og fjármagnskostnaðar. Nánari upplýsingar um forsendurnar má finna á vefsíðu FÍB.

Kostnaður við hjól/rafskutlur/deilibílaleigur og leigubíla
Árskostnaður við hjól/rafhjól er miðaður við hvað gæti kostað að meðaltali á ári að kaupa og viðhalda hjóli sem hugsað er til að komast á milli staða. Kostnaður við leigubíla/rafskutlur/deilibílaleigu er hugsaður sem einskiptis kostnaður yfir heilt ár ef fólk vill taka leigubíl, leigja rafskutlu eða nýta deilibíl hjá deilibílaleigu. Miðað er við 10.000 kr. á mánuði fyrir fjölskyldur/einstaklinga sem eru ekki með bíl en 5.000 kr. fyrir þá sem ætla að vera með einn bíl á heimilinu.

Kostnaður við strætó
Þar sem tveir fullorðnir eru á bíllausu heimili er miðað við að báðir aðilar séu með árskort í strætó og eigi hjól. Þar sem tveir fullorðnir eru á heimili og ætla að fækka bílum um einn er miðað við að það sé einungis þörf á einu samnýtanlegu strætókorti en báðir eigi hjól. Þar sem eru tvö börn á heimili er miðað við að annað þeirra sé á aldrinum 6–11 ára og hitt á aldrinum 12–17 ára. Kostnaður í strætó er miðaður við 12 mánaða árskort samkvæmt gjaldskrá Strætó.

Kostnaður við mánaðarleigu á bíl
Sumar bílaleigur bjóða upp á leigu á bíl til 1–3 mánaða. Almennt er ódýrara að leigja bíl að vetri til en á sumrin en þó er hægt að fá ágætt verð á bílum í mánaðarleigu yfir sumartímann líka. Verðið sem miðað er við miðar við meðalverð á mánaðarleigu á bíl og er fengið eftir óvísindalega athugun á bílaleigum landsins. Í einhverjum tilfellum getur mánaðarleiga á bíl kostað meira og í einhverjum tilfellum minna. Miðað er við að bensín sé innifalið í verðinu í dæminu.

Heimildir:
Korterskortin eru frá Hjólafærni en Pálmi Freyr Randversson gerði fyrsta korterskortið sem er notað í greininni og gildir fyrir Reykjavík. Kortin eru frá Samsýn.

Næsta grein Brauðstrit og barátta í dúr og moll: 2000–2020