Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Slagurinn um fótboltann

Slagurinn um fótboltann

Knattspyrnusagan og átökin um áhugamennsku eða atvinnumennsku

Slagurinn um fótboltann

- eftir Stefán Pálsson sagnfræðing og fótboltaáhugamann

„Segja má að orðasambandið „íslensku áhugamennirnir“ hafi haft sömu stöðu og það að tala um „strákana okkar“ öðlaðist síðar.“

Landsleikur Íslands og Svíþjóðar á Melavelli 1951.
Landsleikur Íslands og Svíþjóðar á Melavelli 1951.

„Íslensku áhugamennirnir stóðu sig með miklum sóma í gærkvöldi og voru langtímum saman ekkert síðri en austur-þýsku atvinnumennirnir. Var í raun mikil synd að íslenska liðið skyldi ekki skora í leiknum því að það fékk til þess mjög góð tækifæri.“ – Þessi frásögn Morgunblaðsins af knattspyrnulandsleik Íslendinga og Austur-Þjóðverja haustið 1982 var dæmigerð fyrir skrif íþróttafréttamanna um alþjóðlega kappleiki íslenskra liða um langt árabil.

Segja má að orðasambandið „íslensku áhugamennirnir“ hafi haft sömu stöðu og það að tala um „strákana okkar“ öðlaðist síðar. Einatt var þess getið að mótherjarnir væru atvinnumenn sem helguðu sig íþrótt sinni, væru jafnvel hálaunamenn. Oftar en ekki voru þjálfarar andstæðinganna látnir furða sig á því að áhugamenn hefðu yfir slíkri færni að búa.

Áherslan á hugdjarfa áhugamenn sem þyrðu að bjóða fagmönnum birginn var ekki bundin við íþróttafréttamenn sem reyndu að búa til stórsigra úr naumum töpum. Íslendingar máttu heita síðustu geirfuglarnir þegar kom að því að halda í áhugamennskuhugsjónina, sem fól í sér að rangt og ósiðlegt væri að fá greitt fyrir að iðka keppnisíþróttir. Átökin um atvinnumennskuna höfðu staðið í heila öld og þróast með ólíkum hætti frá einu landi til annars. Fyrst brutust þau út í heimalandi fótboltans, Stóra-Bretlandi.

„Íþróttir hafa fylgt mannkyninu um aldir eða árþúsundir, þar sem lengst af var talsverður munur á kappleikjum almennings og höfðingjanna, en íþróttir síðarnefnda hópsins voru yfirleitt nátengdar hernaði eða hugsaðar sem undirbúningur fyrir hermennsku.“

Frá upphafsdögum knattspyrnuiðkunar á Bretlandi á 19. öld.
Frá upphafsdögum knattspyrnuiðkunar á Bretlandi á 19. öld.
Óstýrilátir piltar

Knattspyrnuíþróttin á uppruna sinn í Bretlandi Viktoríutímans og varð til vegna sérstakra félagslegra aðstæðna, þar sem heldrimannasynir tileinkuðu sér ærslafulla boltaleiki alþýðunnar. Íþróttir hafa fylgt mannkyninu um aldir eða árþúsundir, þar sem lengst af var talsverður munur á kappleikjum almennings og höfðingjanna, en íþróttir síðarnefnda hópsins voru yfirleitt nátengdar hernaði eða hugsaðar sem undirbúningur fyrir hermennsku.

Um alla Evrópu tíðkuðust einhvers konar boltaleikir til sveita, þar sem (einkum) ungir karlmenn í þorpunum styttu sér stundir í leikjum sem gengu út á að tvö lið kepptust við að koma einhvers konar knetti í mark hins liðsins, ýmist með höndum, fótum eða með hjálp bareflis af einhverjum toga. Reglur þessara leikja voru ólíkar frá einni sveit til annarrar en yfirleitt voru þeir ofbeldiskenndir og höfðu yfirvöld einatt horn í síðu þeirra.
Í Bretlandi hafði skólakerfið þróast með þeim hætti að aðalsstéttin og ört vaxandi borgarastétt iðnbyltingarinnar sendi syni sína til náms í heimavistarskólum úti á landi. Nemendurnir voru uppivöðslusamir höfðingjasynir, fullkomlega meðvitaðir um að þeir væru fæddir til valda og ríkidæmis í yfirstétt voldugasta ríkis jarðar. Skólastjórnendurnir máttu hafa sig alla við að halda þeim á mottunni, en minni áhersla var lögð á innihald sjálfrar kennslunnar. Niðurstaða skólastjóranna varð sú að beita skipulögðum íþróttum til að halda uppi aga eða í það minnsta freista þess að þreyta vandræðagemsana.

Íþróttirnar sem fyrir valinu urðu voru boltaleikir alþýðunnar í grenndinni, þó yfirleitt í snurfusaðri útgáfum til að laga sig að íþróttavöllum skólanna og til að draga úr allra svæsnasta ofbeldinu. Það þótti jú verra að örkumla eða hreinlega drepa námspiltana. Afleiðingin varð skólasamfélag þar sem drengir vörðu heilu og hálfu dögunum í æfingar og keppni í frumstæðum íþróttum sem þróuðust með tímanum í fótbolta, rúbbí og krikket sem áttu sífellt minna skylt við upphaflegu kappleiki bændanna.

Reglur og skipulag

Sem fyrr segir höfðu gömlu boltaleikirnir verið ólíkir frá einu héraði til annars, enda lítill tilgangur með því að samræma reglur. Hugmyndin um að leggjast í ferðalag til að keppa í boltaleik var gjörsamlega fráleit. Með íþróttavæðingu bresku drengjaskólanna breyttist þetta. Ungir menn vildu halda í fjör æskuáranna, keppa við gamla skólabræður og skora á hólm kunningja sem útskrifaðir voru úr öðrum skólum. Járnbrautanetið sem breiddist út um landið gerði slíkar keppnisferðir mögulegar og kappleikir voru hentug leið til að rækta tengslanetið fyrir unga athafnamenn og embættismenn á uppleið. Stofnuð voru félög um boltaæfingar af þessum toga, saman mynduðu þau íþróttasambönd og stöðluðu reglur. Knattspyrnuíþróttin var fædd.

Það voru forstjórarnir og yfirmennirnir sem fluttu skipulagðar boltaíþróttir með sér til ört vaxandi iðnaðarbæjanna í Norður-Englandi, en fljótlega fóru verkamennirnir að veita boltasparkinu athygli. Þótt kjör alþýðufólks í Bretlandi iðnbyltingarinnar væru vissulega kröpp, hafði það engu að síður nokkur fjárráð og frítíma. Afþreying var hins vegar mjög af skornum skammti önnur en að fara á krána.

Ekki leið á löngu uns almúginn fór ýmist að eltast við bolta eða stytta sér stundir við að horfa á aðra gera slíkt hið sama, jafnvel gegn vægu gjaldi. Yfirstéttarmennirnir voru meira en til í að leika listir sínar fyrir framan áhorfendur en fyrir þeim var fótbolti tómstundariðja sem gaman væri að grípa í endrum og sinnum en fólkið var óseðjandi og fékk aldrei nóg af leikjum. Athafnamenn voru fljótir að sjá góða tekjulind. Nóg væri af verkamönnum sem gætu vel hugsað sér að drýgja tekjurnar með fótbolta eða jafnvel að gera slíkt að aðalstarfi. Margir sáu einnig kostina við að alþýðumenn ættu kost á að fara á völlinn, ekki hvað síst ef slíkt yrði til að draga úr drykkjuskap og studdu því bæði kirkjudeildir og verkalýðsfélög við stofnun fótboltaliða.

„Nógu slæmt var að þurfa að keppa við ófágaða alþýðumenn, en hálfu verra þegar verkamannaliðin úr norðrinu urðu fljótlega miklu sterkari en yfirstéttarliðin úr suðrinu …“

Iðnbyltingin á Bretlandi á 19. öld breytti mörgu í samfélaginu.
Iðnbyltingin á Bretlandi á 19. öld breytti mörgu í samfélaginu.
Árekstur menningarheima

Óhætt er að segja að yfirstéttarmönnunum úr gömlu drengjaskólunum hafi þótt lítið til þessarar nýju samkeppni koma. Nógu slæmt var að þurfa að keppa við ófágaða alþýðumenn, en hálfu verra þegar verkamannaliðin úr norðrinu urðu fljótlega miklu sterkari en yfirstéttarliðin úr suðrinu, enda spiluðu þau og æfðu miklu meira og höfðu úr fleiri mönnum að velja. Fyrstu viðbrögð forréttindastéttarinnar, sem fór með völdin í Enska knattspyrnusambandinu, var að reyna að banna þessa nýju keppinauta. Atvinnumennska átti að heita óheimil, þótt öllum væri ljóst að þær reglur væru þverbrotnar.
Að mati gömlu stjórnendanna taldist það kjarni hreinnar íþróttamennsku að hún væri stunduð sjálfrar sín vegna og það væri úrkynjun að þiggja greiðslur fyrir að keppa: sönn íþrótt ætti að vera hafin yfir peninga. Áhugamennskuhugsjóninni var þannig pakkað í umbúðir göfugrar hugmyndafræði, en í raun fól hún í sér tilraun yfirstéttanna til að sitja ein að íþróttunum. Það var lítil fórn fyrir vellríka aðalsmenn og broddborgara að sparka í bolta án þess að þiggja borgun, en fyrir aðra þjóðfélagshópa var slíkur munaður óhugsandi. Átök af þessu tagi stóðu um fjölmargar íþróttagreinar stóran hluta tuttugustu aldar og birtist hvergi betur en í sögu Ólympíuhreyfingarinnar, sem reyndi að nafninu til að halda í áhugamannareglur löngu eftir að bestu íþróttamenn voru orðnir hálaunafólk með svimandi háa styrktar- og auglýsingasamninga.

Eftir snörp átök í Englandi urðu atvinnumannaliðin í norðrinu ofan á og gömlu drengjaskólafélögin urðu að lokum neðanmálsgrein, sögufræg smálið í áhugamanna- og bumbuboltadeildum. Í hverri borg og bæ risu upp knattspyrnufélög sem drógu að sér þúsundir áhorfenda um hverja helgi og greiddu leikmönnum sínum laun, sem voru lág en tryggðu þó betri lífskjör en venjulegu alþýðufólki. Knattspyrnufélögin komu sér saman um launaþak og strangt var fylgst með því að það væri virt, auk þess sem samningsfrelsi knattspyrnumanna var afar takmarkað og möguleikum þeirra á að færa sig milli liða ýmsar skorður settar.

Ekki var óalgengt að miða laun leikmanna við u.þ.b. ein og hálf laun iðnaðarmanns, sem er auðvitað langur vegur frá þeim fjárhæðum sem knattspyrnustjörnur samtímans eiga að venjast. Þar sem þorri leikmanna kom úr verkalýðsstétt gáfu slík laun þó færi á að lyfta sér upp um stétt og koma sér bærilega fyrir að keppnisferli loknum, þótti gott ef leikmenn næðu að leggja fyrir til að eignast litla verslun eða knæpu. Þessi staða var við lýði á Bretlandi vel fram á seinni hluta tuttugustu aldar, en á níunda áratugnum hófst launaskrið sem enn sér ekki fyrir endann á og skýrist annars vegar af auknum peningum í íþróttinni og sterkari samningsrétti leikmanna sem bæði vannst fyrir tilstilli leikmannasamtaka og fyrir dómstólum.

„Hollendingar afnámu bann við atvinnumensku árið 1954 og fóru þá á fáeinum árum frá því að vera ein veikasta knattspyrnuþjóð álfunnar í að verða stórveldi í heimsfótboltanum."

Johan Cruyff frægasti knattspyrnumaður Hollands.
Johan Cruyff frægasti knattspyrnumaður Hollands.
Ólík sjónarmið

Sunnar í Evrópu reyndist andstaðan við atvinnumennsku minni. Yfirstéttin í þeim löndum hafði hvorki möguleika né áhuga á að einoka boltaíþróttir. Þar var það ekki skólakerfið sem breiddi út fótboltann, heldur kenndu breskir sjómenn ungmennum í hafnarborgum að sparka í knött. Sterk hefð fyrir flutningum milli landa og heimsálfa og litlar hömlur á för farandvinnuafls gerði það að verkum að lönd eins og Ítalía og Spánn drógu snemma til sín erlenda leikmenn víðs vegar að úr heiminum.

Í Norður-Evrópu var atvinnumennska hins vegar litin hornauga mun lengur. Hollendingar afnámu bann við henni árið 1954 og fóru þá á fáeinum árum frá því að vera ein veikasta knattspyrnuþjóð álfunnar í að verða stórveldi í heimsfótboltanum. Í nágrannalandinu Vestur-Þýskalandi átti áhugamennska að heita ríkjandi til ársins 1963 þegar Bundesligunni var komið á laggirnar. Sú áhugamennskuhugsjón var þó fremur í orði en á borði, þar sem stöndugari félögin sýndu mikla hugkvæmni í að fara á svig við reglurnar. Knattspyrnumenn fluttust landshorna á milli til að ganga til liðs við félög sem ekki máttu greiða þeim nema smáupphæðir, en voru í leiðinni rækilega styrktir til að koma undir sig fótunum í einhvers konar rekstri eða fengu hálaunuð málamyndastörf hjá fyrirtækjum á vegum eigenda nýja félagsins. Svipaða sögu mátti segja austan járntjaldsins, þar sem allt íþróttafólk átti að heita áhugamenn en íþróttalið voru nátengd opinberum stofnunum eða ríkisfyrirtækjum sem afreksfólkið var sagt starfa hjá.


Á Norðurlöndunum var minni þolinmæði fyrir sýndargjörningum af þessum toga. Félög sem staðin voru að því að brjóta reglurnar gátu lent í miklum vandræðum, en málin flæktust örlítið þegar kom að heimamönnum sem freistuðu gæfunnar erlendis. Árið 1948 urðu Svíar Ólympíumeistarar í knattspyrnu, ekki hvað síst vegna þríeykisins Gunnars Gren, Gunnars Nordahl og Nils Liedholm, sem þegar voru fengnir til liðs við ítalska stórliðið A.C. Milan. Þar með voru þeir orðnir atvinnumenn og ekki gjaldgengir í lið Svía á HM í Brasilíu sumarið 1950 sem náði þó bronsverðlaunum. Átta árum síðar, þegar Svíar voru í hlutverki gestgjafa á HM, var ákveðið að víkja reglunum til hliðar. Sænskir atvinnumenn í öðrum löndum (lesist: á Ítalíu) var leyft að vera með og heimaliðið nældi sér í silfurverðlaun. Atvinnumennska varð loks viðurkennd í sænskum fótbolta árið 1967.

„Bent hefur verið á að öflugt velferðarkerfi í norrænu ríkjunum hafi verið forsenda þess að þau gátu haldið eins lengi í áhugamennskuna og raun ber vitni.“

Frá leik Vals og KR á Íslandsmótinu í knattspyrnu 1979.
Frá leik Vals og KR á Íslandsmótinu í knattspyrnu 1979.
Á áhrifasvæði Dana

Danir og Norðmenn tóku harðlínustefnuna. Leikmenn frá þessum löndum komu ekki til greina í landsliðið meðan þeir störfuðu sem atvinnumenn erlendis og raunar var deilt um hvort sá sem einu sinni hefði gerst atvinnumaður gæti orðið fullgildur áhugamaður á nýjan leik. Danmörk stofnsetti atvinnudeild árið 1978 og ekki liðu mörg ár þar til gullkynslóð þeirra kom fram. Norðmenn biðu til ársins 1992. Bent hefur verið á að öflugt velferðarkerfi í norrænu ríkjunum hafi verið forsenda þess að þau gátu haldið eins lengi í áhugamennskuna og raun ber vitni. Þannig hafi áhugamennskan ekki verið leið til að halda verkalýðsstéttinni frá afreksíþróttum líkt og raunin var í Bretlandi, heldur hafi hún snemma getað tekið fullan þátt í þeim.

Þegar kom að stjórnun knattspyrnumála voru Íslendingar lengi á dönsku áhrifasvæði. Freistandi er að túlka vandræðagang KSÍ í tengslum við þátttöku Alberts Guðmundssonar í landsliðinu eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku árið 1953 í því ljósi. Albert var þjóðhetja á Íslandi og dáðasti leikmaður landsins, en var stopult valinn í landsliðið og landsliðsnefndin einatt afar tvístígandi. Ekki kom til greina að viðurkenna opinberlega að KSÍ liti svo á að árin í atvinnumennskunni dæmdu Albert úr leik en það er þó langrökréttasta skýringin á tregðunni.

Segja má að það hafi fyrst verið á tíunda áratug síðustu aldar sem það varð félagslega viðurkennt í íslenskum fótbolta að greiða knattspyrnumönnum laun. Má færa fyrir því rök að það endurmat hafi verið óvænt aukaafleiðing af falli járntjaldsins, sem leiddi til þess að flóðbylgja austur-evrópskra leikmanna barst vestur á bóginn.

Leikmenn þessir voru reiðubúnir til að spila fyrir aðeins brot af því sem erlendir atvinnuknattspyrnumenn höfðu sett upp fáeinum misserum fyrr. Engum gat dulist að meginástæðan fyrir komu þessara manna til Íslands var að spila fótbolta gegn greiðslu og því fráleitt að gefa annað í skyn. Leikmennirnir nutu einnig samúðar, einkum þeir sem komu frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu eftir að borgarastyrjöld braust þar út, þar sem líta mátti á þá sem hálfgerða flóttamenn og því sanngirnismál að þeir fengju að leggja stund á fag sitt: að spila fótbolta gegn greiðslu.

Með júgóslavnesku leikmönnunum í byrjun tíunda áratugarins var ísinn brotinn. Innan við tíu árum eftir að áhugamennskan hafði enn verið veigamikill þáttur í sjálfsmynd íslenskra knattspyrnumanna var farið að líta á fótboltaiðkun sem viðurkennda atvinnugrein og innan fárra ára varð það nánast stolt stuðningsmanna einstakra félaga að þau væru traustur launagreiðandi og gerðu vel við sína starfsmenn. Síðasta vígi atvinnumennskunnar í Evrópu var fallið.

Næsta grein Hin hliðin á Margréti Halldóru Arnarsdóttur