Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Stéttarfélögin gríðarlega mikilvæg í þessu velferðarspilverki okkar á Íslandi

Stéttarfélögin gríðarlega mikilvæg í þessu velferðarspilverki okkar á Íslandi

Stéttarfélögin gríðarlega mikilvæg í þessu velferðarspilverki okkar á Íslandi

Hlaðvarpsviðtal við Þorstein Sveinsson, starfsmann VR, og Finnborgu Elsu Guðbjörnsdóttur, starfsmann Verkalýðsfélags Suðurlands

Í hljóðstofu vefritsins Vinnunnar mættu tveir starfsmenn stéttarfélaga til að ræða um félögin sín, störfin sín, félagsmennina og erindi verkalýðshreyfingarinnar.

Og af hverju er kastljósi Vinnunnar beint að starfsfólki stéttarfélaga? Jú, Íslendingar eiga heimsmetið í stéttarfélagsaðild en hér á landi eru 85-90% launafólks aðilar að stéttarfélagi þannig að eitthvað erum við að gera rétt.

Finnborg Elsa Guðbjörnsdóttir er starfsmaður Verkalýðsfélags Suðurlands sem er með skrifstofu á Hellu og Þorsteinn Sveinsson er starfsmaður langstærsta stéttarfélags landsins VR, en það er félag með yfir 40 þúsund félagsmenn.

„Þetta var starfsfólk sem var bundið sínum atvinnurekanda hvað húsnæði snertir og þegar hótel lokuðu þá flutti fólkið einfaldlega burt.“

Finnborg Elsa Guðbjörnsdóttir
Úr sauðfjárbúskap í starf hjá stéttarfélagi

„Ég kem úr Skagafirðinum, var svo sauðfjárbóndi í Reykhólasveit í tíu ár en bý núna á Hellu ásamt eiginmanni en við eigum fjögur börn. Ég er búin að starfa hjá Verkalýðsfélagi Suðurlands í fimm ár,“ segir Finnborg þegar hún var spurð hvaðan hún væri.  

Þorsteinn segist vera Kópavogsbúi með stóru K-i en hann býr þar ásamt konu sinni og þremur börnum í Suðurhlíðunum þar sem hann segir besta veðrið á Íslandi vera. „Ég kem eiginlega bakdyramegin inn í verkalýðshreyfinguna. Ég byrjaði að vinna hjá VIRK – starfsendurhæfingarsjóði 2009 og fór svo í framhaldinu að vinna hjá VR í verkefnum fyrir VIRK en var svo plataður yfir í kjaramálin hjá VR þar sem ég hef verið síðan.“ Hann segir starfsmennina í þessu stærsta stéttarfélagi landsins vera um 50 talsins. Finnborg segir reksturinn á Hellu aðeins minni í sniðum en þar eru nú þrjú stöðugildi á skrifstofu verkalýðsfélagsins en félagsmennirnir erum um 1.100. Hún segir þessa félagsmenn starfa í flestum geirum samfélagsins á svæðinu, en þau séu reyndar ekki með skrifstofufólkið né sjómenn. „Ferðaþjónustan var mjög stór á Suðurlandi fyrir Covid og þegar allt stoppaði í mars í fyrra þá fór mikið af því fólki sem hafði starfað í geiranum bara heim og því hefur fækkað aðeins í félaginu okkar. Þetta var starfsfólk sem var bundið sínum atvinnurekanda hvað húsnæði snertir og þegar hótel lokuðu þá flutti fólkið einfaldlega burt,“ segir Finnborg.

„Meðvitund félagsmanna um réttindi sín alltaf vera að aukast. Þannig hafi VR farið markvisst inn í skólana til að uppfræða um vinnumarkaðinn og kenna um réttindi og skyldur launafólks.“

Þorsteinn Sveinsson
Flestir sem misst hafa vinnuna kjósa að vera áfram í félaginu

Þorsteinn segir þau hjá VR líka hafa fundið fyrir hruni ferðaþjónustunnar þar sem félagið sé með sérkjarasamning fyrir starfsfólk í gestamóttöku og öðrum þjónustustörfum tengdum ferðageiranum. Hann segir flesta sem hafi misst vinnuna kjósa að halda áfram að vera í félaginu, enda sé það mikilvægt upp á að halda ýmsum réttindum.

Þegar þau eru spurð hvernig félagsmenn nálgist þjónustu stéttarfélagsins segja þau það vera eftir ýmsum leiðum. „Sumir koma beint inn af götunni, aðrir hringja, það notar heimasíðuna og tölvupóst. Erindin eru alls konar, allt frá því að láta tékka hvort rétt laun séu greidd yfir í það að fá hjálp við að sækja um fæðingarorlof. Það er áberandi hvað margir þekkja illa sinn rétt og hvar eigi að leita svara við ýmsum réttindaspurningum. Og þetta eigi ekki bara við útlendingana. Sumir Íslendingar virðast bara sáttir við að fá útborgað á réttum tíma en finnst jafnvel ekki skipta öllu hvort þeir séu að fá rétt greitt,“ segir Finnborg. Hún segir fólk sem betur fer alltaf að verða betur meðvitað um þann rétt sem það á í sjúkrasjóðum félagsins enda hafi verið gert átak í að kynna það.

Þorsteinn segir að þegar Covid skall á hafi öll þjónusta VR færst á netið og í síma en fyrir þetta ástand hafi félagsmenn sótt mikið á skrifstofu félagsins. Hann segir meðvitund félagsmanna um réttindi sín alltaf vera að aukast. Þannig hafi VR farið markvisst inn í skólana til að uppfræða um vinnumarkaðinn og kenna um réttindi og skyldur launafólks. Hluti af því sé að bera sjálfur ábyrgð á því að ekki sé verið að svindla á manni. Þessi vinna hefur borið árangur að sögn Þorsteins.

Algengt að brotið sé á rétti útlendinga sem hér starfa

Skýrsla sem ASÍ gerði árið 2019 sýnir að það eru einkum ungt fólk og útlendingar sem verða fyrir launaþjófnaði. Verða Finnborg og Þorsteinn vör við þetta í sínum störfum?

„Þetta eru mikið útlendingar en við sjáum bara það sem kemur inn á borð til okkar,“ segir Finnborg. „Það er verið að borga undir töxtum og ekki verið að virða hvíldartíma svo eitthvað sé nefnt. Ég hef ekki séð svona brot beinast að unga fólkinu. En margir útlendingar sem hér vinna vita að það er verið að brjóta á þeim en gera ekkert í því, m.a. vegna þess að þeir eru háðir vinnuveitandanum um fæði, húsnæði og laun. Þeir meta það sem svo að ef þeir segja eitthvað þá verði þeir einfaldlega reknir. Þetta verkafólk segir ekki neitt fyrr en daginn sem það hættir í vinnunni,“ segir Finnborg.

Þorsteinn segist ekki sjá mörg mál hjá VR þar sem verið er að borga undir töxtum en vissulega sé tekist á um túlkun kjarasamninga. „Vissulega þekki ég til mála þar sem verið er að borga undir töxtum og það er dapurlegt og enn verra er að það skuli ekki vera nein refsing fyrir slíkt því það er ekkert annað en þjófnaður. Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir ákvæði um févíti en lítið orðið ágengt. Á meðan taka þessir fáu en óprúttnu atvinnurekendur sénsinn því það er engin refsing. Margir atvinnurekendur hafa hins vegar samband við VR til að gera hlutina rétt og það er að sjálfsögðu jákvætt,“ segir Þorsteinn.

„Ég skrifaði einu sinni ritgerð um komu traktorsins í sveitirnar og hvað hann leysti margar hendur af hólmi. Þegar tölvan kom breytti hún líka miklu en það skapast alltaf ný störf á móti þeim sem hverfa …“

Þorsteinn Sveinsson

„Þeir meta það sem svo að ef þeir segja eitthvað þá verði þeir einfaldlega reknir. Þetta verkafólk segir ekki neitt fyrr en daginn sem það hættir í vinnunni.“

Finnborg Elsa Guðbjörnsdóttir
Eðlileg þróun frekar en bylting

Það hefur töluvert verið rætt um 4. iðnbyltinguna – að störf séu að hverfa og önnur að verða til. Verða þau mikið vör við þetta í sínum störfum?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ekki á okkar svæði,“ segir Finnborg. Þorsteinn segir hins vegar 4. iðnbyltinguna vera komna. „Þessi bylting er hafin og við sjáum það glögglega í verslunum og á flugvöllum svo dæmi séu nefnd. Ég skrifaði einu sinni ritgerð um komu traktorsins í sveitirnar og hvað hann leysti margar hendur af hólmi. Þegar tölvan kom breytti hún líka miklu en það skapast alltaf ný störf á móti þeim sem hverfa og við munum ábyggilega sjá meiri sérhæfingu starfa í framtíðinni. Það er kannski réttara að tala um þróun en byltingu því að þessar breytingar eru að gerast hægt en örugglega yfir langan tíma,“ segir Þorsteinn.

Hann segir hlutverk stéttarfélaga hafa breyst nokkuð á síðustu árum og nú sé það í auknum mæli hlutverk félaganna að koma fólki sem hefur dottið út af vinnumarkaði aftur til virkni í gegnum starfsendurhæfingu. Finnborg segir að umfang starfs stéttarfélaga sé sífellt að verða meira og þau láti fleiri samfélagsmál til sín taka en áður. Áherslan á umhverfismál sé gott dæmi. Stéttarfélögin eru ekki bara að gera kjarasamninga og afgreiða styrki.

Þau eru bæði sammála um að það sé gefandi að vinna hjá stéttarfélagi en líka krefjandi. „Þetta starf getur oft reynt verulega á,“ segir Finnborg. „Við fáum allan pakkann yfir okkur. Stundum verða okkar skjólstæðingar reiðir þegar mál fara ekki alveg eins og þeir vilja. Við lendum líka í reiðum atvinnurekendum og okkur er stundum hótað. En það er auðvitað yndislegt þegar við náum að hjálpa fólki.“

Þorsteinn segist ekki hafa lent í hótunum en bendir jafnframt á að langflest mál sem koma inn á borð VR séu leyst án aðkomu lögmanna eða dómstóla. En sú leið er auðvitað farin ef allt um þrýtur. Það er tilfinning þeirra Finnborgar og Þorsteins að fólk vilji vera í stéttarfélagi og finnist öryggi í því. Við erum því að gera eitthvað rétt.

Næsta grein Samgöngusparnaður sem um munar!