Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Árni og Ingvar: Skjól í tilverunni

Árni og Ingvar: Skjól í tilverunni

Stríð

„Þið megið ekki fara upp!“ öskraði konan í móttökunni. „Það er bannað að fara inn á herbergi flóttafólksins.“ Árni var staddur í móttökunni á hótelinu á Rauðarárstíg sem hýsti fyrsta flóttafólkið sem kom frá Úkraínu. Uppi á herbergi var fjölskylda Árna, mamma, pabbi og systir með börnin tvö. Árni og Ingvar sambýlismaður hans höfðu farið út og sóttu fjölskylduna við pólsku landamærin og komið þeim til Íslands í skjól frá stríðinu.   

„Ég er að heimsækja móður mína, hún er veik og hún kemst ekki niður.“ Fjölskylda Árna kom til Íslands í mars og fékk inni á hótelherbergi á Rauðarárstíg. Konan í móttökunni hóf leit í tölvunni sinni að einhverju máli sínu til stuðnings sem bannaði Árna að líta eftir móður sinni. „Ertu með eitthvað, reglugerð sem staðfestir þetta?“ Annar starfsmaður rétti fram blað þar sem lesa mátti á sex tungumálum að gestkomandi mætti ekki fara inn á herbergi gesta hótelsins. „En hérna er ekkert, enginn stimpill, engin dagsetning, hver sem er gæti skrifað þetta. Getur þú sýnt mér eitthvað trúverðugt,“ óskaði Árni eftir kurteisislega en það virtist aðeins æsa upp ólund konunnar og skömmu síðar var lögreglan mætt í anddyri flóttamanna-hótelsins. „Lögreglumaðurinn kom þétt upp að okkur með útþaninn brjóstkassa. Þau voru mjög ógnandi og við yfirgáfum hótelið. Þetta er í fyrsta sinn sem við upplifum harðræði á Íslandi.“

Hommaparadísin

Árni rifjar upp þegar hann og Ingvar sambýlismaður hans komu fyrst til Íslands fyrir átta árum og sýndu tollverðinum í Keflavík gullið sem hann dró upp úr vasa sínum. Tollvörðurinn hallaði sér fram, leit á hringana og spurði: „Eru þið að gifta ykkur? Árni hvíslaði: „já“. Og búa á Íslandi? Já, kannski.“ Þá sagði tollvörðurinn: „Velkomin í homma paradísina, velkomnir til Íslands.“  

„Ég man þetta allt mjög vel,” segir Árni. Ég sagði „kannski erum við komnir heim.“ Síðan eru liðin nokkur ár og þeir Ingvar og Árni dásama slæmt veður og gott veður, snjóinn og bjartar sumarnætur á Íslandi. „Í dag er Ísland heimili okkar. Ég á hvergi annars staðar heima,“ segir Árni.  

Árni í Úkraínu

Í hverri viku dreymir Árna endurtekna martröð að komast hvergi frá Úkraínu og eitthvað slæmt komi fyrir hann og Ingvar. Þegar Árni nefnir Ingvar segir hann „minn“ svo ofur blíðlega. „Eitthvað illt hafði hent mig og Ingvar „minn“ og við vorum lokaðir inni í Úkraínu og komumst hvergi.“  

Allir vissu að ég væri hommi þegar ég var að alast upp, allir nema ég. Ég var bara venjulegur strákur, ég vissi ekki að hommar væru til,“ segir bóndasonurinn Árni. Heima á landareign móður sinnar var hann með grasagarð stærri en grasagarðinn í Reykjavík. „Ég safnaði 800 plöntutegundum og ræktaði meðal annars sítrónur og Kiwi í gróðurhúsi.“ Árni var orðinn 25 ára þegar hann kom út úr skápnum. Menntaður grasafræðingur og háskólakennari með hring í eyranu og strípur. „Rektor kallaði mig inn á skrifstofu og spurði mig hvort ég væri hommi. Ég játaði því og mér var gert að segja upp starfinu. Í Úkraínu er ekki bannað með lögum að vera hommi en samfélagið hafnar þér. Ég missti vinnuna, ég var rekinn úr Sósíalistaflokknum, flæmdur úr stjórnmálaþátttöku og lífi fjölskyldu minnar hótað ef ég hefði mig ekki hægan. Fjölskyldunnar vegna fór ég til Rússlands.“

Árni og Ingvar

„Mamma vissi alltaf að ég væri hommi en hún vill ekki ræða það. Þegar ég hringdi heim og sagði henni að við Ingvar værum búnir að gifta okkur þá fór hún að gráta.“ Ingvar brosir út í annað og segir að hún eigi tvö barnabörn og hún geti verið sátt. „Pabbi settist einu sinni niður með mér, ég held að hann hafi drukkið í sig kjark. Pabbi sagði við mig: ég veit hvernig þú ert, en ég stend alltaf með þér, þú ert barnið mitt. Ég fór út, ég gat ekki talað um þetta við hann.“  

Árni flutti yfir landamærin til Rússlands og fékk kennslu við háskólann í Kúrsk. Í Rússlandi er hvort tveggja slæmt, að vera hommi og Úkraínumaður. En Árni taldi þó að Kúrsk með 425 þúsund íbúa væri skárri en heimabærinn Berdychiv og hann fékk starf við háskólann um stund. 

Ingvar er Rússi og fæddist 1996 í Kúrsk. Ingvar rifjar upp atvik þegar hann var fimm ára og móðir hans var öskureið vegna tveggja kvenna og tals þeirra á úkraínsku. „Drullið ykkur heim, ef þið viljið ekki tala rússnesku,“ æpti hún. „Ég ólst upp í þessu umhverfi. Andúð á öllu sem ekki var rússneskt. Andúð á öllum sem ekki voru hvítir. Andúð á samkynhneigðum.” Skuggi færist yfir andlit Ingvars: „Þetta er ljótt.“   

Karllæg menning er allsráðandi í rússnesku samfélagi og slíkt hefur áhrif á viðhorf til kvenna og homma. „Lögreglan gekk í hús og þóttist vera að leita að barnaníðingum en í raun var hún að grafa uppi homma,“ segir Ingvar. Daglega missa að meðaltali tuttugu og tvær konur lífið í Rússlandi og hegningarlög um heimilisofbeldi voru felld úr gildi árið 2017. Í stað hegningarlaga eru núna viðurlög, sekt líkt og að leggja bílnum í ólöglegt stæði.  

„Ég er með skemmtilega sögu,“ segir Árni. „Þetta er ekki skemmtileg saga,“ segir Ingvar dræmt og hristi hausinn. Ingvar hefur ótrúlega gott vald á íslensku og kemur Árna stundum til aðstoðar. „Ég byrjaði með strák í Kúrsk og við byrjuðum að búa saman.” „Strákurinn var ekki ég,“ Ingvar tekur það fram. „Nei, ekki þú,“ segir Árni og heldur áfram með söguna: „Sonur leigusalans frétti að við værum hommar og kom blindfullur með exi og reyndi að brjóta niður hurðina og drepa okkur. Ég hringdi í lögguna og sagði að við værum hérna tveir saman og fyrir utan væri maður að reyna að drepa okkur. Löggan hló og spurði: „Eru þið hommar?“ Honum tókst samt að fá lögregluna til þess að mæta þegar Árni laug því að axarmorðinginn væri með skammbyssu. „Þá kom löggan eftir nokkrar mínútur og sagði okkur að taka fötin okkar og forða okkur. Við fengum annað herbergi á leigu en þá mætti öskufullur skríll sem ætlaði að kveikja í húsinu. Þegar ég hringdi í lögregluna spurði hún: Eru þið lifandi? Já við erum lifandi. Löggan svaraði: Við komum þegar það er lík. Nágrannarnir sem betur fer höfðu vit fyrir fullum lýðnum þegar þau sáu fram á eigið tjón ef brunninn færi að breiðast út. Í annað sinn var ég barinn svo illa fyrir að leiða mann að það tók lækninn fjórar klukkustundir að sauma saman andlitið á mér. Svona er að vera hommi í Rússlandi.”

Flóttinn frá Rússlandi

„Þegar stríðið braust út í Úkraínu 2014 var ljóst að okkur yrði varla vært áfram saman í Rússlandi,“ segir Ingvar. „Á þeim tíma bjuggum við Árni saman. Ég var ekkert að segja pabba að við værum hommar að undirbúa flótta til Íslands. En pabbi frétti það í gegnum bróður minn og mætti heim fyrir utan húsið með hinum karlmönnunum í fjölskyldunni. Ég var mjög hræddur. En ég hleypti honum einum inn. Pabbi taldi að Ingvar væri að fara með mig til Írlands til þess að selja mig. Hann ruglaði öllu saman, sagði að það væri terrorismi á Íslandi og vildi sækja mig heim. Ég var skelfingu lostinn um að komast ekki í burtu.“  

„Nám er yfirleitt mjög strangt í Rússlandi, öðruvísi en hér á Ísland,“ segir Ingvar glettinn. Ég var í lyfjanámi í læknaháskólanum og mátti ekki missa af einni kennslustund án þess að það bitnaði á framvindunni sem skipti sköpum til þess að komast til Íslands. Ég var í þá mund að sækja um íslenskunám í HÍ og þurfti nauðsynlega að ljúka þessu ári í læknaháskólanum í Kúrsk. Ég gat ekki leyft pabba að koma í veg fyrir að við kæmumst burt. Ég kom pabba út og talaði ekki við hann fyrr en hálfu árið síðar, til þess að kveðja hann. Hann var þá nokkurn vegin búinn að átta sig á því að ég væri hommi og jafna sig á því að ég myndi flytja úr landi.“  

„Við Árni fórum með kisu í fóstur til mömmu hans Árna, við vissum að það væri nánast ómögulegt að taka hana með til Íslands. Þetta var allt svo skrýtið,“ segir Ingvar.Landamæraverðirnir í Úkraínu klöppuðu kisu, heimtuðu ekki mútur og óskuðu okkur góðs gengis. Allt var eins og það átti að vera. Frá Kænugarði tókum við flugið til Keflavíkur.“

Skjólið á Íslandi

Eftir íslenskunámið hafa þeir Árni og Ingvar dvalið á Íslandi í samtals 8 ár. Í dag hafa þeir báðir stöðu við Klettaskóla og 2017 keyptu þeir 70 fermetra Íbúð með stórum gluggum við Naustabryggju. „Fyrst leigðum við herbergi og síðan fengum við inni á stúdentagörðum. Þegar okkur var ljóst hversu mikið við værum að tapa af peningum á leigumarkaðnum, söfnuðum við fyrir útborgun og einhvern veginn fengum við lán fyrir íbúðinni, en þetta var líka áður en fasteignir rukku svona upp í verði.”  

Í stað stórrisa eru gluggarnir þaktir blómum og jurtum grasafræðingsins. Undir stofuborðinu eru þrjár stórar krukkur með lifandi kombucha sveppi og klukkan átta kvikna plöntuljósin í tólf tíma og slokkna þegar plönturnar fara að sofa. Á veggnum sem snýr að frumskóginum eru rússnesku bókmenntarisarnir, Tolstoy, Gorki, Gogol, Dostojevski, Chekov og allir hinir. Ritsöfnin koma frá ömmu Ingvars en hann viðurkennir að hann sakni rússneskrar menningar. Hann er lestrarhestur og segir Rússa eins og hann miða aðra þjóðir út frá bókmenntarfi. Vigdísi Grímsdóttur er í miklu uppáhaldi á meðan hann hefur minna álit á Arnaldi. „Ég les aðallega íslensku til þess að læra íslensku,“ segir hann afsakandi eins og hann vilji ekki vera ókurteis og síður gera lítið úr íslenskum rithöfundum. 

Árni reyndi fram að þessu að gleyma Úkraínu og byggja þeim Ingvari í staðinn fagurt líf eins og plöntunum sem hann hlúir að í stofunni heima á Naustabryggju. HInu fagra lífi stendur hinsvegar ógn þessa dagana og Árni er fastur í hringiðu stríðsins hvert sem hann lítur.

Stríðið kemur til Íslands

Síðan Ingvar vaknaði óvenju snemma þann 22 febrúar, hefur stríðið búið um sig í íbúðinni, í vinnunni, með fjölskyldunni og öllum kimum dagsins. Þeir sinna afleiðingum stríðsins á hverri stundu, heyra í fólkinu heima í Úkraínu, fólkinu í Rússlandi, þeir mæta á mótmæli, sauma fána úr bláu og gulu satin, sinna flóttamönnum sem koma til landsins og fjölskyldu Árna á Rauðarárstíg. Þeir standa fyrir utan rússneska sendiráðið vitandi það að „sendiherrann er ekki í húsinu,“ segir Ingvar.  

„Ég leit á mig sem Íslending og reyndi að hugsa sem minnst um Úkraínu. En núna er mér illt,” segir Árni og bendir á hjartastað. „Ég er með stöðugan verk.” „Þú sagðir að þetta væri eins og að missa einhvern sem maður elskar mjög mikið,“ segir Ingvar. „Já eins og þegar ég missti afa minn sem ég elskaði mjög mikið. Þegar afi dó fékk ég þennan verk. Þannig líður mér þegar ég hugsa um Úkraínu í dag, fólkið mitt, allt sem er horfið, ég fékk senda mynd af skólanum heima og heimavistin hafði verið jöfnuð við jörðu. Kannski var ég alltaf hálfur heima í Úkraínu,“ segir Árni einsog í uppgjöf.“ Kannski er aldrei alveg hægt að yfirgefa uppruna sinn.

Foreldrar á flótta

„Við sóttum fjölskyldu mína fyrir tveim vikum til Póllands,“ segir Árni. „Foreldrar mínir eru ekki með síma og kunna enga ensku. Þau eru eins og börn lögð upp í þetta ferðalag. Við tókum við þeim við landamærin. Mamma var mjög treg að koma og systir mín með börnin tvö vildi alls ekki koma án mömmu. Svo nálguðust sprengjurnar og við snérum mömmu sem gafst upp að lokum og þau komu. Mamma fór með kisu og dýrin sem voru lifandi til nágranna sinna en áður hafði  henni verið tilkynnt að slátra ætti öllum dýrum, það vantaði mat ofan í herinn. Kúm og svínum var slátrað. Ein kýrin átti eftir að bera, þetta var hryllilegt. Það er ekki hægt að tala um þetta við mömmu hans, hún fer bara að gráta,“ segir Ingvar.  

Þau yfirgáfu húsið og jörðina og tóku aðeins það nauðsynlega með sér. Engin veit um ástandið, hvernig þar er umhorfs núna. Hvort eitthvað sé eftir af húsinu eða hvort að það sé búið að ræna öllu líkt og í eyðibýlunum í Tsjernobyl þegar allt var skilið eftir, blóm, bækur, föt og ræningjar fóru um eignirnar frjálsri hendi. „Rússar eru geðveikir.“ Árni leiðréttir Ingvar, „Ekki geðveikir, þeir eru með plan að drepa og hræða fólk til uppgjafar.“

Rússaskömmin

„Ég veit ekki hvernig hægt er að stoppa þetta þjóðarmorð. Þetta er mín þjóð. Ég finn svo mikla skömm.“ Samviskubitið nagar Ingvar. „Við vorum ekki að mótmæla, kannski höfðum við tækifæri til þess að stoppa þetta, en ég gerði ekkert, ég bara fór. Þetta ástand er ekki mitt val en samt var ég ekki að þrýsta á stjórnvöld til þess að breyta neinu þarna.“  

„Ég reifst við pabba minn um daginn í símanum. Hann ætlaði að heimsækja okkur til Íslands í september en það verður ekkert af því. Hann stendur með glæpamönnum og ég skellti á hann. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Bíða eða reyna að koma vitinu fyrir hann. Þetta er allt kynslóð foreldra minna að kenna. Þau gerðu ekki neitt, þau stóðu hjá og horfðu á ofbeldið. Í Rússlandi má ekki rugga bátnum. Pabbi varð öskureiður þegar ég sagði honum í símtali að við Árni hefðum farið á Austurvöll að mótmæla um daginn þegar blaðamennirnir voru kallaðir inn af lögreglunni vegna Samherjamálsins. „Þú mátt ekki láta sjá þig, þetta er hættulegt, öskraði hann alla leið frá Rússlandi.“ 

Árni er ekki eins viss um að þeir hefðu geta haft einhver áhrif. „Besti vinur minn er háskólakennari og sagnfræðingur í Rússlandi, mjög vel lesinn, hugsjónamaður sem krafðist breytinga í réttindabaráttu samkynhneigðra.“ „Hann er meira að segja Úkraínumaður,“ segir Ingvar. „Já einmitt, en núna er hann á sömu skoðun og rússneska ríkissjónvarpið og varðandi hommana segir hann: þeir eru í lagi en þurfa bara að giftast konu og halda því leyndu.“

Þetta er ljótt

Á Rauðarárstíg ríkja afleiðingar stríðsins. Gestrisnin tók á sig andlit hinna óvinveittu í móttökunni á Rauðarárstíg viku eftir mamma Árna kom til landsins, daginn sem löggan og konan í móttökunni meinuðum honum fara upp líta eftir henni. Valdið tók af þeim ráðin. Af því bara, eins og svo oft áður. Án skýringa, án mennskunnar. Fantaskapurinn var mættur holdi klæddur. „Þetta er ljótt,“ segir Ingvar.

 

 

 

Harmleikurinn í Úkraínu

Frá upphafi stríðsins höfðu í april 10 milljónir úkraínubúa yfirgefið heimili sín vegna stríðsins og helmingur þeirra eða 5 milljónir hafa yfirgefið Úkraínu í skjól til annarra landa.

Næsta grein Landið undir fótum okkar