Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Sigrún og Reinhold: Veröld í verkó

Sigrún og Reinhold: Veröld í verkó

Stálsmiðurinn og saumakonan

„Ég var bara venjulegur kommi, félagi í Fylkingunni en lét undan og mætti á ráðstefnu hjá Húmanistum. Aðdragandinn var grein eftir mig sem birtist í Þjóðviljanum þar sem ég tjáði mig um fátækt. Í framhaldinu fékk ég símtal frá Júlla í Húmanistahreyfingunni og vildi hann fá mig með erindi á ráðstefnu Húmanista. Ég er bara stálsmiður, sagði ég og reyndi að komast undan þessu og þá vildi Júlli að ég kæmi og læsi upp blaðagreinina.“ Reinhold man lítið eftir sjálfri ráðstefnunni nema þarna var kona út í sal. Hann talaði ekkert við konuna og heldur ekki á fundi Húmanista sem hann þáði síðar að sækja í þeirri von að sjá Sigrúnu aftur.   

Sigrún rifjar upp hvenær þau skiptust á orðum í fyrsta sinn. „Við fórum í viðtal á Rás Tvö, eitthvað í sambandi við þessa ráðstefnu. Rás Tvö var nýstofnuð, ég man að Georg tæknimaður var voða gæjalegur með sítt hár í kjallaranum í Efstaleiti og ég fékk far með þér heim,” segir hún. 

„Já, við töluðum saman í fyrsta sinn í bílnum eftir viðtalið. Ég hafði engan áhuga á þessum hugsjónum, ég var aðeins að svindla mér inn í hennar heim og gerði allt til þess að vera nálægt Sigrúnu,“ segir Reinhold og veltist um af hlátri. „Þú varst duglegur að gutla á gítar,“ segir Sigrún og tekur undir hláturinn. „Ég gerði allt, samdi og spilaði lög fyrir hreyfinguna og gaf út blað, ég var eins og grár köttur heima hjá Sigrúnu og tók þátt í nýja heiminum sem hana dreymdi um að gera að veruleika.“ 

Forleikurinn að ástarsambandinu voru hugsjónir hennar. „Ég vildi gera heiminn mennskan,“ segir hún og Reinhold passaði inn í þennan góða heim og eftir góðan aðdraganda varð úr ástarsamband. Þau áttu margt sameiginlegt, ungt verkafólk, hugsjónafólk og einstæðir foreldrar á leigumarkaðnum. Sigrún í leiguíbúð í Vogunum með dóttur sína og Reinhold með soninn í Breiðholtinu og leigusamning sem hljóðaði upp á þrjá mánuði í senn. 

Leigumarkaðurinn var á þeim tíma líkt og núna ávísun á óöryggi, sérstaklega hjá Reinhold. Í því umhverfi eru fasteignakaup nánast borgaraleg skylda allra fjölskyldna og upp rann sú stund að Reinhold og Sigrún vildu sameina fjölskyldur sínar undir sama þaki og festu kaup á íbúð.

Vesalingarnir í Ártúnsholti

Árið 1983 hófust byggingar hjá verkamannabústöðum á tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðum í raðhúsum og fjölbýlishúsum að norrænni fyrirmynd með rauð þök í Ártúnsholti. Framkvæmdir hófust eftir nokkrar deilur í borgarráði um stærð hverfisins og fjölda íbúða. Mæltu nokkrir borgarfulltrúar með færri íbúðum en 137, því svona margir vesalingar á einum stað væri ávísun á aukinn félagslegan vanda. Þessar athugasemdir fengu veikan hljómgrunn og samþykkt var að byggja allar 137 íbúðirnar. Davíð Oddsson borgarstjóri, þá 37 ára gamall, var viðstaddur hátíðlega athöfn þegar fyrstu tvær fjölskyldurnar tóku við lyklinum að eigin húsnæði árið 1985.  

Sigrún og Reinhold áttu kost á því að sækja um íbúð hjá verkamannabústöðum. Reinhold segir hvorugt þeirra vera af ríku fólki komið og enga sjóði að sækja í. „En það var einhver auka kraftur í okkur og okkur tókst að komast yfir hjallann. Fyrst fengum við neitun og þegar ég sagði frá því á kaffistofunni í vinnunni var mér sagt að ég þyrfti að ganga á milli manna.“ Sigrún segir málin hafa verið á þann veg: „ef þú þekktir Guðmund Jaka þá fékkstu inni.“  

„Ég held að ég hafi gengið á milli og talað við þrjá háttsetta kalla hjá verkó sem á endanum leiddi til þess að við vorum samþykkt og fengum loforð um íbúð. Hverfið var ennþá í uppbyggingu og við festum kaup á íbúðinni hálfu ári áður en við fengum afhent. Við áttum engan pening og ég var meir að segja með einhverjar smá skuldir á bakinu. En við klufum þetta,“ segir Reinhold eins og það hafi verið ótrúlegt.

Útborgun og afborgun

Ásett verð á þriggja herbergja íbúð var 3.181.000 krónur. Tíu prósent bar að greiða við undirskrift kaupsamnings. Bílskýli af einhverjum ástæðum þurfti að greiða að fullu við undirskrift, einar 268.000 krónur. Okkur lá svo mikið á að komast í eigið húsnæði að við tókum dýrari kostinn og þáðum íbúð með bílskýli, annars hefðum við þurft að bíða í hálft ár í viðbót eftir íbúð án bílskýlis. Samtals vorum við að greiða í útborgun 586.100 krónur með skammtímalánum eða 17 prósent af heildarverði. Síðan kom íbúðarlánið til 43 ára fyrir afganginum samtals 2.862.900 krónur,” segir Reinhold.  

Þau voru allavega flutt inn þegar Gleðibankinn var framlag Íslendinga til evrópsku söngvakeppninnar. „Mig minnir að kaupin hafi gengið í gegn árið 1985 og við flytjum hingað inn saman árið 1986 og það sem gerði gæfumuninn var að við greiddum ekkert af íbúðarláninu fyrstu tvö árin. Þetta var dálítið sveitó, hverfið var enn þá í uppbyggingu þess vegna var fast fasteignaverð enn þá á reiki hjá þeim og það liðu tvö ár áður en við borguðum af íbúðarláninu. Við fengum svigrúm til þess að einbeita okkur að því að greiða niður skammtímalánin,“ bætir hann við.  

Baráttuþrek ungu fjölskyldunnar fór í það að kljúfa afborganir í stað þess að berjast fyrir betri heimi, allavega um stund. „Fyrstu tíu árin voru töff. Í samhengi við verðlagið í dag þá færi svipuð íbúð á 70 milljón krónur og við hefðum þurft að reiða fram heilar 12 milljónir. Við keyptum auðvitað engar mublur og við keyrðum á bíldruslum sem ég gerði við á kvöldin til þess að komast leiðar okkar næsta dag.“  

Reinhold starfaði í Stálsmiðjunni á þeim tíma og Sigrún hafði yfirumsjón með sníðastofu hjá Sjóklæðagerðinni. „Ég elskaði tímann minn á sníðastofunni þar sem við vorum að sníða kápur og stakka. Þegar sameining Sjóklæðagerðarinnar og 66 gráður Norður gekk í garð var starfsemi á sníðastofunni færð til Lettlands.“  Sigrún færði sinn til innan fyrirtækisins, á skrifstofuna þar sem hún starfar enn í dag. „Ég myndi tryllast ef mér yrði sagt upp.“

Frumbyggjar í Ártúnsholti

„Auðvitað var mikill léttir að eignast loksins eigið húsnæði. Þessi hús eru mjög vel byggð sem hægt er að merkja á því að allar hurðir og innréttingar standa ennþá sína plikt, nærri fjörutíu árum síðar. Hér hefur engu hefur verið haggað! Svona á að byggja hús,“ segir Reinhold. „Auk þess reis leikskóli og skóli í hverfinu en mestmegnis var þetta barnafólk sem hingað flutti, fólk sem var að stækka við sig innan verkamannabústaðakerfisins, hér var varla kaupandi yfir fertugt.“ 

„Mér fannst þetta litla raðhús voða krúttlegt,“  segir Sigrún. Eftir flutningana í Álakvísl stækkaði fjölskyldan þegar þeim fæddist lítill drengur og var þá geymslu umbreytt í fjórða herbergið. Fyrir börnin var það ekki síður öryggisatriði að eiga fastan samastað í tilverunni. Börnin þrjú tóku þroska sinn út og eignuðust margt af sínu samferðafólki í lífinu á þessum bernskuárum Ártúnsholtsins.   

„Hér myndaðist samfélag, samgangur og samkennd. Einu sinni á ári komu allir út að sópa götur hverfisins og síðan var grillveisla í kjölfarið. Við lékum við börnin fram að hátta tíma en síðan sneru sumir sér að flöskunni sem gat endað í allsherjar fylliríi sem var svona og svona.“ Þetta samfélag tók á sig aðra mynd þegar verkamannabústaðirnir fóru á markað árið 1999. Margir seldu, fólk flutti og nýtt fólk kom í staðinn. Hverfisandinn sem fylgdi frumbyggjunum gufaði upp.  

„Í dag eru börnin floginn úr hreiðrinu en við erum hérna enn þá. Þetta hljómar eins og einhver leiðindi,” segir Sigrún, búa á sama stað og vinna á sama stað en það þarf ekki að þýða að við séum eitthvað leiðinleg fyrir vikið. Við fórum sem betur fer aldrei út í neitt brask með eignina sem er kannski ástæðan fyrir því að við eigum mjög gott líf í dag.“

Búsetuöryggi er mannréttindi

Reinhold telur vöntun á öruggu húsnæði fyrir millitekjufólk. „Síðustu ár hefur fasteignaverð hækkað. Bullverð. Það er ekkert aðhald á þessum svokallaða frjálsa markaði. Eftirspurnin er meiri en framboðið og verðið hækkar eftir því. Ungt barnafólk ætti ekki að þurfa að vera í spennu yfir því hvar það sefur á nóttunni. Öruggt heimili er mannréttindi og það ætti ekki að vera hagnaðardrifið. „Ef þessar grunnþarfir eru ekki uppfylltar lendir fólk í sálrænum og geðrænum vanda.“  

Sigrún tekur undir með honum: „Þar er ég þér hjartanlega sammála, sem ég er nú ekki í öllu. Ef maður á ekki klæði og fæði og húsnæði á Íslandi þá erum við illa stödd, og reyndar hvar sem er í heiminum. Það er skylda þjóðfélagsins að uppfylla þessi mannréttindi.“

 

 

 

Endalok verkamannabústaða

Árið 1929 var sam­þykkt frum­varp um stofnun verka­manna­bú­staða á Íslandi, og fyrsti vísir að félags­legu íbúða­kerfi varð að veru­leika. Í 70 ár óx það kerfi, mest á níunda og tíunda ára­tug síð­ustu ald­ar, og innan þess gat tekju­lágt fólk bæði keypt eða leigt hús­næði á verði sem það réði við. En mik­il­væg­ast var hús­næð­is­ör­yggið sem því fylgdi. Davíð Oddsson var forsætisráðherra, 51 árs gamall þegar ríkisstjórn undir hans forystu árið 1999 lagði niður verkamannabústaðakerfið.

Næsta grein Árni og Ingvar: Skjól í tilverunni