Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Úlfur: Barnið í Hruninu

Úlfur: Barnið í Hruninu

Draumurinn um húsið

 „Afi, af hverju er ekki bara hægt að prenta peninga? Þetta var stuttu eftir hrun og fjölskyldur landsins vantaði peninga. Mér fannst þetta auðleysanlegt mál.“ Úlfur var rétt átta ára gamall og ræddi efnahagshrunið við afa sinn árið 2008. Fjármálahrunið sem bitnaði á þúsundum Íslendinga og tíu þúsund fjölskyldum sem misstu heimili sín. Afi Úlfs mælti ekki með peningaprentun og rökstuddi mál sitt með „einhverri hagfræðikenningu“ sem átti litla samleið með hinum tæra barnshug Úlfs.  

Hrunið 2008 hafði skelfilegar afleiðingar fyrir fjölskyldu Úlfs sem háði upp frá því daglega baráttu við fátækt og óöryggi, baráttu sem ennþá stendur yfir þrátt fyrir tímabundið vopnahlé sem hófst þegar foreldrar hans lýstu sig gjaldþrota. „Fyrir rúmlega tveim árum neyddust þau til þess að gera sig gjaldþrota og upp úr því fór ástandið fyrst að batna.“  

Hrunsaga foreldra Úlfs er saga af ungum hjónum sem keyptu eitt elsta hús í Hafnarfirði. Þau fengu húsið frekar ódýrt enda illa farið og þurfti nánast að endurbyggja frá grunni. Ungu hjónin sem höfðu vanist frá blautu barnsbeini að leggja á sig vinnu og hafa fyrir lífinu voru komin með framtíðarverkefni að byggja sér og börnunum tveim samastað í tilverunni í bænum þar sem stórfjölskyldan þeirra býr og hjartað slær.  

„Foreldrar mínir voru mjög ung þegar þau eignuðust mig. Hvorugt með framhaldsskólamenntun, ungt verkafólk sem treysti á eigin dugnað. Öllum leiðslum og rörum var skipt út og einangrun og innréttingar endurnýjaðar.“ Úlfur á góða minningu af kamínu sem var notuð um tíma til þess að kynda upp húsið.  

Þegar hrunið skall á voru þau föst á ómögulegum stað varðandi endurfjármögnun á framkvæmdum. Þau vantaði eitthvað upp á til þess að húsið væri metið fokhelt sem þurfti til þess að fá endurfjármögnun og klára. Einhvers staðar þar á milli strönduðu framkvæmdir. Lánin ruku upp, þau misstu eignina og hinn fagri draumur gat af sér tólf ára martröð.

Fátækt í bernsku

„Ég upplifði mikið óréttlæti.” Úlfur var bráðþroska barn og skynjaði hvernig hinn venjulegi leikmaður blæddi fyrir hrunið á meðan hinir eiginlegu gerendur, stóru laxarnir sluppu oft vel. Foreldrar hans misstu heimili sitt þegar hann var átta ára og í einu vetfangi var líf þeirra varðað af vanskilaskrá og leigusala án undankomuleiðar og „þá tekur við hræðilegt tímabil í þeirra lífi.“  

Úlfur telur leigumarkaðinn vera harðsvíraða fátækragildru. Foreldrar hans greiða 320 þúsund á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð sem veldur því að þeim tekst seint og illa að leggja fyrir og safna fyrir húsnæði. „Mamma lenti í hræðilegu bílslysi 2004 og hefur verið óvinnufær og föst í því hlutverki. Veikindin tengjast ekki hruninu en í kjölfarið veiktist fjárhagsstaða þeirra til muna. Mamma var aðeins með sínar örorkubætur og þá þurfti pabbi bara að hlaupa hraðar. Hann var stundum í tveimur ef ekki þremur störfum. Hann er skiltamálari og keyrir leigubíl og auk þess tók hann að sér lakkvinnu og sprautaði bíla og bílaparta. Það er mér ennþá ráðgáta hvernig hann komst lifandi í gegnum verstu árin.“  

„Hrunið mótaði mig mjög mikið. Ég sá aldrei bankainnistæðu þeirra og vissi aldrei nákvæmlega stöðuna en gerði mér alveg grein fyrir því að foreldrar mínir væru að missa húsið sitt og við værum í einhverju limbói og eins og hendi væri veifað var fjárhagurinn kominn í vaskinn. Á þessum árum hætti ég að treysta valdinu og ráðafólki og hef svo sem ekki fengið álit á því aftur.“ 

„En það voru hlutir sem ég gat ekki hugsað mér að leggja á fjölskylduna eins og mat og skólaferðalög, aukakostnað sem fylgir börnum og einhver þarf að leggja út fyrir. Maturinn í skólanum var í áskrift og væntanlega hefðu þau veitt mér hann ef ég hefði óskað eftir því en ég spurði ekki um það, ég var meðvitaður um stöðuna.“ Öll auka útgjöld fyrir fjölskylduna þýddi einfaldlega verri matur í viku eða litla systir fengi ekki það sem hana vantaði, einhver eða eitthvað þyrfti að blæða fyrir hans kröfur. „Ég upplifði ekki skömm en hins vegar eitthvað hrópandi óréttlæti. Vinir mínir áttu allir flottara dót en ég og við höfum aldrei leyft okkur að fara saman fjölskyldan til útlanda svo eitthvað sé nefnt.“ Úlfur segist sem betur fer búa að sterku fjölskylduneti sem hafi gert gæfumun. „Afi og amma keyptu alltaf skó og skólatöskur á okkur krakkana.“ 

Fjárhagsáhyggjur hafa fylgt mér alla tíð.” Úlfur var aðeins 13 ára þegar hann byrjaði að vinna hjá Skemu. Hann vissi að hann þyrfti að leggja hart að sér og lagði mikið kapp á námsárangur og sætti sig ekki við neitt minna en hæstu einkunnir. Hann hljóp yfir bekk í grunnskóla, kláraði menntaskóla á þrem árum og 18 ára skráði hann sig í háskóla. Eftir eitt og hálft ár í tölvufræði í HR rakst hann á vegg. „Ég gekk einfaldlega of nærri mér og þurfti að fara í leyfi til þess að vinda ofan af og finna réttan kjöl. Með námi hafði ég alltaf unnið og þetta var bara einfaldlega of mikið. Félögum mínum í útlöndum sem eru í sama geira og ég finnst óskiljanlegt að ég hafi byrjað að vinna í bransanum aðeins 13 ára gamall.“

Námsfólk á leigumarkaði

„Námið fer ekki neitt, það bíður aðeins betri tíma. Þegar ég brann yfir í náminu var ég að vinna allavega þrjátíu prósent vinnu með því. Eftir þriggja mánaða leyfi komst ég að því að nám og vinna fara ekki vel saman. Ég bjó heima í foreldrahúsum þegar ég var í námi sem ég kemst ekki upp með lengur eftir að foreldrar mínir eignuðust þriðja barnið sitt. Systir mín er tveggja ára og hana vantar sitt eigið herbergi.“ Það er einfaldlega ekki pláss fyrir Úlf lengur í foreldrahúsum. „Í dag leigi ég með vinum mínum á Völlunum í Hafnarfirði. Við erum þrjú í heimili og ég er í fullu starfi sem verkefnastjóri hjá Skemu.“ 

Eina leiðin til þess að vera námsmaður á leigumarkaði og lifa sómasamlegu lífi er að leigja fleiri saman. „Við erum þrjú í heimili, og vinir mínir eru bæði í námi á meðan ég er á vinnumarkaðnum,” segir Úlfur. Við erum með það fyrirkomulag að ég vinn og borga hlutfallslega meira af útgjöldum heimilisins á meðan þau eru námsmenn, en þegar námi þeirra lýkur og þau fara sjálf út á vinnumarkaðinn þá kemur að mér að slaka á í vinnu og takast á við námið. Ég er í fullu starfi hjá Skemu og hef unnið mig upp í það að vera verkefnastjóri fyrir utan það að ég elska að vinna mikið og finn mér alltaf einhver aukaverkefni og kennslu, þannig að staða mín er frekar góð í dag. Ekkert okkar vill taka námslán og steypa sér í skuldir og þetta fyrirkomulag gengur mjög vel hjá okkur.  

Afleiðingar af hruninu og því ástandi sem því fylgdi fyrir fjölskyldu mína hefur gert mig að baráttumanni. Ég er afar stoltur af mínu fólki, láglauna verkafólki sem hefur harkað af sér mótlæti og lifði af ofbeldið sem hrunið beitti þau. Mitt fólk hefur styrkst við þessa reynslu og samkenndin mótað okkur. Ég tek þátt í allskonar starfi og berst fyrir félagslegu réttlæti og vil ekki neinum að upplifa fátækt eins og ég gerði sem barn. Fastur samastaður í tilverunni er að borða tvisvar í mánuði með afa og langafa í Lionsklúbbnum. Ég er lang yngstur af ljónunum, 24 ára og næsti maður í aldri er yfir sjötugt. En ég elska félagsskapinn og nefndarstörfin okkar sem snúast í kringum þarfir samfélagsins, safna pening og kaupa húsgögn fyrir heimili fatlaðra, æfingatæki fyrir elliheimili og fyrir mæðrastyrksnefnd á jólum. Auðvitað, er þetta allt nokkuð sem eðlilegu samfélagi bæri að útvega en í okkar tilfelli gerir ekki. Að gefa af sér er svo gott.” 

 

 

 

Hrunið í tölum

Á fyrstu tíu árum eftir hrun var árangurslaust fjárnám gert 117 þúsund sinnum hjá einstaklingum. Um þrjú þúsund voru lýstir gjaldþrota og 8.800 eignir einstaklinga voru seldar á nauðungaruppboði. Þar bætast reyndar við um 400 fasteignir sem seldar voru á nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar skuldara.

Að auki höfðu 349 fasteignir skuldara verið seldar til kröfuhafa í tengslum við greiðsluaðlögun. 

Því alls 9.195 tilvik um nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar á tíu ára tímabili eða að jafnaði um 920 á ári þegar úttekt fyrir alþingi var gerð sem þýddi að heildarfjöldinn var vel komin yfir 10.000 í byrjun 2018.  

 

https://www.althingi.is/altext/148/s/1370.html 

Samanlagðar heildartölur fyrir einstaklinga á árunum 2008-2017 eru sem hér segir: 

Nauðungarsölur: 8.846 

Gjaldþrotaskipti: 2.973 

Árangurslaus fjárnám: 116.939 

Næsta grein Öruggt skjól