Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Verkó á Siglufirði - Horfinn heimur

Verkó á Siglufirði - Horfinn heimur

Á Siglufirði, nyrsta bæjarfélagi landsins, voru reistar þrjár verkamannablokkir árið1948. Þetta var við Hvanneyrarbraut og þrjátíu fjölskyldur,130 einstaklingar, eignuðust heimili. Í fyrsta sinn var almennu verkafólki gert kleift að eignast sómasamlega íbúð í bænum. „Verkamannbústaðir risu og þar varð til innilegt og samheldið samfélag fólks,“ segir Albert Einarsson sem fæddist 1949 á Siglufirði, sama ár og foreldrar hans fluttu inn í kjallaraíbúð í verkamannablokk við Hvanneyrarbraut.  

Síldin á Sigló sópaði að verkafólki. Skráðir íbúar með fasta búsetu voru á fjórða þúsund  um miðja síðustu öld og sambærilegur fjöldi farandverkafólks dvaldi tímabundið í bænum. Af lýsingum þess tíma að dæma var Siglufjörður eitt iðandi mannhaf með sjötíu starfandi verslunum og ekki færri en tvær hattabúðir. Þessu fylgdi húsnæðisþörf sem verkalýðshreyfingin mætti með byggingu á húsnæði eins og blokkunum á Hvanneyrarbraut.

Albert á Hvanneyrarbraut 62

Albert Einarsson hefur búið í Noregi í tuttugu og sjö ár en hugur hans er alls ekki brottfluttur og æskuminningarnar frá Verkó hafa birst í ljóðum hans og minningabrotum. Á vefsíðu Tröllaskaga er þessa íbúðarlýsingu Alberts að finna: „Eitt svefnherbergi, eldhús og stofa, og svo auðvitað baðið, búrið og gangurinn. Stofan var alltaf lokuð og alls ekki til að leika sér í, mamma vildi hafa einn friðsælan reit í íbúðinni. Pabbi og mamma réðu svefnherberginu. Ég og Sigga Dísa (systir hans) vorum þar fyrstu árin. Hún er tveimur árum yngri en ég. Eftir að við Sigga Dísa vorum orðin það gömul að við þyrftum meira pláss tóku pabbi og mamma upp á því að innrétta svefnherbergi fyrir okkur í búrinu, sem var inn af eldhúsinu. Hillurnar sem geymdu mat og dót voru teknar niður og inn voru settar tvær kojur. Búrið var heldur mjótt og því sköguðu kojurnar út um dyraopið og inn í eldhúsið. Kojurnar voru samt nógu breiðar fyrir okkur krakkana og þetta var nú aldeilis munur. Hillurnar voru svo settar upp í geymslunni undir tröppunum. Þetta var lítil kompa sem eiginlega var ekki neitt, og varla hægt að standa uppréttur nema við dyrnar, en pabbi notaði kompuna samt sem verkstæði, eða þannig. Allar íbúðirnar uppi höfðu geymsluherbergi niðri í kjallara.“

Brynhildur á Hvanneyrarbraut 54

Albert var tólf ára og fjölskylda hans flutt í stærra húsnæði ofar í bænum þegar Brynhildur Baldursdóttir fæddist árið 1961 í blokkinni á Hvanneyrarbraut númer 54. Brynhildur er yngst fimm systkina og eina barn móður sinnar sem aldrei fór í burtu og býr ennþá heima á Sigló. Um tvítugt eignaðist hún Óla sinn sem gekk alltaf undir nafninu Óli Biddýar og eina skiptið sem hún leiddi hugann að flutningum frá Siglufirði var þegar móðir hennar lést og enginn úr fjölskyldu hennar bjó lengur á Siglufirði. En þær væringar komu til vegna þess að hana langaði að vera nær Óla sínum og barnabörnunum í Reykjavík. Til þess kom aldrei að Brynhildur brygði búi af því Óli og fólkið hans flutti til baka, heim á Sigló og þar með var litla fjölskyldan hennar sameinuð á ný.

Síbreytilegur heimur

Brynhildur heilsar öllum þeim sem verða á vegi hennar á Siglufirði. Ef hún kannast ekki beint við ungu aðkomukonuna á Kaffi Fríðu á Skírdag þekkir hún örugglega til foreldra hennar eftir smávegis ættfræðigrúsk. Í páskafríinu fjölgar í bænum, ættingjar og brottfluttir snúa til baka með skíði og bretti og sumir eiga jafnvel hús eða íbúð til afnota sem stendur auð þess á milli. Brynhildur hefur starfað sem upplýsingafulltrúi á bæjarskrifstofunni frá því hún man eftir sér og hefur fylgst af stóískri ró með bænum sínum í sífelldri aðlögun að breyttum atvinnuháttum. Síld kom og fór og kom og fór, kvótinn hvarf og fiskvinnslan lokaði en ferðamannþjónustan fer vaxandi og eitthvað hefur íbúum fjölgað aftur; nú eru skráðir til heimilis eitt þúsund og þrjú hundruð íbúar á Siglufirði.

Einstæð móðir á vergangi

Þegar Brynhildur var sex ára breyttist hagur fjölskyldunnar skyndilega þegar faðir hennar lést eftir stutt veikindi. Kristín móðir hennar sem fram að því var heimavinnandi með börnin þurfti ein að halda utan um fjölskyldu sína. Kristín missti húsnæðið á Hvanneyrarbraut og þau fengu inni hér og þar í bænum á meðan Kristín vann ýmis verslunarstörf og safnaði fyrir útborgun í nýrri blokkaríbúð við Hvanneyrarbraut númer 58. Á meðan Kristín stritaði og safnaði og fjölskyldan bjó í bænum eins og það kallast sótti Brynhildur alltaf félagsskap inn eftir, heim á Bakka að hitta vini sína. Blokkirnar á Bakka voru hennar heimili. Best var að vera innan hverfis og aldrei þurfa að sækja neitt út fyrir það segir Brynhildur en í æsku hennar var bakarí og kaupfélag handan við hornið, allt innan seilingar Bakkahverfisins.

Tvítug með dreng

Brynhildur var tvítug þegar hún eignaðist eina barnið sitt, hann Óla og keypti sjálf eins herbergja kjallaraíbúð undir þau í blokkinni á Bakka sem borgaði sig í samanburði við það leiguverð sem henni var boðið upp á í bænum á þeim tíma. Þegar Óli var tæplega tveggja ára kynntist hún manninum sínum, honum Jóhanni matráðsmanni og saman fluttu þau upp á hæð, í tveggja herbergja íbúð á númer 54, íbúð foreldra hennar þegar hún fæddist. Þá þegar hafði Brynhildur búið í þremur íbúðum í Verkó á Hvanneyrarbraut og á endanum var hún komin í hring, aftur íbúðina þar sem líf hennar hafði byrjað tuttugu tveim árum fyrr. Við hliðina á ungu fjölskyldunni í næstu blokk bjó Kristín móðir hennar í íbúðinni sem hún keypti ein á sínum tíma undir sig og börnin fyrir launin af verslunarstörfum sínum.

Bakkabörnin og nikkuspil

Fyrir aftan blokkirnar á Hvanneyrarbraut er tún í halla sem endar í bakka fyrir ofan stórgrýtta fjöruna. Undir bökkunum var leikið með Matchbox-bíla og í fjörunni stiklað milli steina. Á túninu voru krakkarnir í Brennó og Einni krónu. Allir léku sér reyndar oftast saman, óháð aldri og hinir fullorðnu áttu til að koma út og taka þátt í leikjunum. Það var einmitt þetta samfélag sem var svo heillandi fyrir Brynhildi og Albert sem lýsir góðviðrisdegi við Hvanneyrarbraut á þessa leið:  

„Eftir hádegi var óskalagaþáttur sjómanna (kannski bara einu sinni í viku). Á góðviðrisdegi sátum við í garðinum hjá Elíasi og hlustuðum á þáttinn og þegar þátturinn var á enda tók Elías fram harmonikkuna og spilaði allan þáttinn fyrir okkur á ný. Við ákváðum einu sinni að gera okkur eitthvað meira úr þessu og buðum upp á veitingar. Við blönduðum saft og „drykk” (sem var duft með sykri sem varð að gosi þegar því var hellt í vatn) og skárum lakkrísbita sem við höfðum náð að kaupa í Kaupfélaginu í tvennt. Lakkrísinn seldum við á sama verði og einn heilan lakkrís og fyrir glas af „drykknum“ var sama verð. Ekki urðum við ríkir af þessum viðskiptum, enda fáir viðskiptavinir með kaupgetu.“

Vopnin kvödd

Siglufjörður þeirra Brynhildar og Alberts var fjórskiptur. Húnahverfi í Suðurbænum, Brekkuhverfi hjá Kirkjunni, síðan kom Villimannahverfi og Bakkahverfið nyrst og bardagar voru háðir á milli hverfa. Brynhildur lýsir friðarumleitunum á milli bardagafylkinga þegar Bakkadrengir beittu henni og vinkonu hennar sem voru tólf ára fyrir sig. Þær Bakkastúlkurnar gengu fremst með strákana í humátt á eftir sér með hvítan fána eftir endilöngum fjallveginum á móti óvinahernum og samið var um frið. Brynhildur er næstum því viss um að þetta hafi verið síðasti hverfabardaginn og vopnin hafi verið kvödd eftir þetta.  

Hverfaskiptingin var hins vegar algjör fram að því og ekki dugði minna en fjórar áramótabrennur á Siglufirði á þeim tíma sem Brynhildur og Albert uxu úr grasi, ein brenna á hverfi. Eitt árið kom upp þvílíkt uppistand þegar Húnarnir stálu úr brennunni okkar segir Brynhildur og minnist hún þegar einn pabbinn úr Verkó brjálaðist af reiði og stormaði niður í Húnahverfi alveg óður og endurheimti þýfið. Brennan á Bökkum náði virðuleika sínum aftur.

Gamla íbúðin á 54

Brynhildur fékk að skoða gömlu íbúðina sína á númer 54 en þar býr ung móðir sem heitir Eva. Þessa páskahelgi er dóttir Evu að keppa með eldra barnabarni Brynhildar í handbolta á Ísafirði og auðvitað þekkir Brynhildur Evu eins og reyndar allt á Siglufirði. Þær skiptast á fréttum af mótinu. Brynhildur yljar sér við minningarnar og rifjar upp  hvernig íbúðin var skipulögð á hennar tíma. Eva er nýbúin að færa vegg, stækka baðherbergið og leggja niður búrið sem í æsku Alberts var breytt í svefnpláss með kojum. Á ganginum hjá Evu er skrifað með skrautskrift á vegginn ljóð sem byrjar á þessa leið: Heima þar sem ástin býr og minningar verða til…

Þegar Kristín, móðir Brynhildar, fór á elliheimili fluttu þau Jóhann og keyptu sér hæð aðeins neðar í götunni aðallega til þess að hafa nægt rými fyrir fjölskylduna, systkini Brynhildar og Óla sem bjó um tíma í Reykjavík. Einhvers staðar þarf fólkið að gista þegar það heimsækir bæinn sinn. En núna er Óli kominn aftur heim á Sigló, í eigið húsnæði og hún þarf ekkert endilega allt þetta pláss þar sem dótið safnast upp.  Stundum hvarflar að henni að minnka við sig og flytja aftur í Verkó. „Kannski,“ segir hún varlega eins og það gæti gerst ef hún hækkar róminn en hún er með glampa í augum. Hvað gerist í þeim málum er allt á huldu.

Grimmir tímar

Önnur hlið á þessari sögu er hins vegar óþægileg staðreynd. Í dag lifa ótalmargar fjölskyldur og einstæðir foreldrar á Íslandi við svipuð kjör og Brynhildur og Kristín gerðu á sínum tíma. Munurinn er hins vegar sá að fyrir afnám Byggingarsjóðs verkamanna gat efnalítið verkafólk og einstæðir foreldrar eignast öruggt heimili yfir fjölskyldu sína með hjálp íbúðalána. Í dag er sá möguleiki fyrir löngu úr sögunni þegar fjölskyldur þurfa að borga upp undir sjötíu prósent af tekjum sínum á leigumarkaði; samfélagið hefur svikið fólk um öruggt skjól.

Albert og félagi hans fyrir utan Hvanneyrarbrautina á góðum degi.

Ylhýrt brennuljóð

Albert flutti til Noregs á sínum tíma í leit að betri lífsskilyrðum. En hugurinn er heima á Íslandi og æskuminningarnar yrkir hann í ljóð. Ljóðið um áramótabrennuna er að finna í ljóðakverinu, Abbi, Ljóðamyndir frá liðinni tíð á Siglufirði en kverið gaf hann út í fyrra:

Það er tími  

fyrir áramótabrennur  

að brenna gamalt ár  

brenna gamlar minningar  

 

brenna gamalt 

brenna 

 

Börnin safna í brennu  

Trékössum 

Ónothæfu timbri  

Síldartunnum  

Pappakössum  

 

Stórir strákar 

Duglegar stelpur  

Safna 

 

Okkar tunnum var rænt!  

Þær voru komnar í aðra brennu 

Í skjóli myrkurs  

Tveir og tveir krakkar 

Með sleða 

Um fjallið  

Í myrkri  

Tvær tunnur á sleða 

Tuttugu sleðar  

Fóru um hlíðina  

Hljótt 

 

Okkar tunnur  

Komnar  

Í okkar brennu  

Okkar stóru brennu 

Okkar stærstu brennu 

 

Litli trítli 

Tifar stuttum skrefum  

Með brennudót 

Skókassa með dóti 

 

Upp í fjall  

Upp í brennu.

Næsta grein Veikt húsnæðiskerfi grefur undan velferð