Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Við vinnum

Við vinnum

Kæru félagar og landsmenn allir,

Við finnum það flest að nú eru tímamót. Faraldur er í rénun og stríð er hafið í Evrópu. Víða má greina  bæði hugmyndafræðileg og persónubundin átök og við höfum ekki farið varhluta af því í okkar eigin hreyfingu svo hriktir í. Á sama tíma er mikilvægara en oft áður að við sinnum okkar hlutverki, að launafólk eigi hreyfiafl til að tímamótin marki upphaf að auknum lífsgæðum en ekki lakari. Hvar sem litið er í heiminum er verkalýðshreyfing það sem skilur á milli þess að lífið verði betra eða verra fyrir allan almenning. Þar sem hreyfingin er veik hafa kjör staðið í stað eða jafnvel versnað, ójöfnuður aukist og lýðræði veikst. Þar sem hreyfingin er sterk sögulega hefur launafólk notið ágóða af framleiðniaukningu, tæknibreytingum og framförum. Jöfnuður er meiri og velsæld almennari. Það er því til mikils að vinna að halda í sterka og sameinaða hreyfingu og þar má ekki týna sér í persónulegum deilum. Veikari hreyfing býður hættunni heim á auknum ójöfnuði og lakari lífsgæðum. Svo einfalt er það.  

Og við verðum að bera virðingu fyrir því sem áður hefur verið gert bæði í kjarasamningum og í samstarfi og samtali við stjórnvöld og marka veginn fram á við. Húsnæðismál hafa verið einn af hornsteinum okkar baráttu alla tíð. Á grundvelli kjarasamninga og fyrir þrotlausa baráttu verkalýðshreyfingarinnar hefur verið gert stórátak eftir stórátak í húsnæðismálum.  Því miður erum við enn á þeim stað að félagslegt stórátak þarf til vegna húsnæðisskorts og þeirrar staðreyndar að venjulegt launafólk á varla séns á húsnæðismarkaðnum. Búseta í ósamþykktu húsnæði er staðreynd og fólk greiðir allt of hátt hlutfall tekna sinna í húsnæði. Ungt fólk kemst ekki að heiman og framtíðin er sett á bið. Við vitum þetta öll og höfum vitað í lengri tíma en samt búum við enn við þann veruleika að húsnæðismarkaðurinn er leikvöllur fjármagnseigenda frekar en öryggi fyrir fólk. Um leið og setja á bönd á leiguupphæðir eða takmarka hvað einstaklingar eða fyrirtæki geta átt margar íbúðir í gróðaskyni verður allt vitlaust. Tala nú ekki um þegar krafan er reist um að fólk greiði einungis fjórðung tekna sinna í húsnæði þá er það nánast eins og að tala gegn náttúrulögmálum. Það er mikil tregða til að líta á húsnæði sem öryggi fyrir fólk en ekki fyrir fjármagnseigendur. Þess vegna er starf okkar mikilvægt og sú krafa sem ótrúlegt en satt virðist róttæk að fólk búi við húsnæðisöryggi. Það er löngu tímabært að við hættum að ráðast í átök í húsnæðismálum, við eigum að geta ráðið við langtímastefnumótun, enda ekki svo flókið að spá fyrir um þörfina á húsnæði. Verkefnið er að mæta henni og gera það á félagslegum forsendum.

Við vinnum

Yfirskrift dagsins í dag er “við vinnum”. Launafólk í okkar samfélagi og reyndar heiminum öllum heldur öllu gangandi, vinnur verkin sem oft og tíðum eru ósýnileg en jafn nauðsynleg. Fyrir vinnu skal bera virðingu og vinnandi fólk alls staðar skal njóta öryggis.

En yfirskriftin vísar líka í þá sigra sem vinnandi fólk hefur unnið í gegnum tíðina í gegnum okkar öflugu verkalýðshreyfingu.  Ég nefni  almannatryggingar, fæðingarorlof, veikindarétt, rétt til að dvelja heima með veiku barni, símenntun og fræðslu og  vinnuvernd. Fyrir öllum þessum þáttum var barist – ekkert kom að sjálfu sér - samhliða hinni  eilífu baráttu fyrir því að launafólk fái sanngjarnt endurgjald fyrir sitt vinnuframlag. Það er kjarninn í okkar baráttu og hún hefur borið þann árangur að hér á landi hafa laun hækkað í takt við aukna framleiðni sem tæknibreytingarnar hafa skapað. Þetta er ekki hinn almenni veruleiki í löndum heims , enda barma íslenskir atvinnurekendur sér undan því við hvert tækifæri að þeir einir og fjármagnseigendur hafi ekki mátt maka krókinn. Og nú stöndum við í miðri baráttunni fyrir því að fjórða iðnbyltingin svokallaða verði til að auka lífsgæði okkar allra, ekki bara sumra. Að þegar aukin verðmæti verða til í samfélaginu  njótum við þess saman - eða með orðfæri kapítalista - að þegar kakan stækkar að þá fái allir stærri bita.

Þetta er gert í gegnum launaumslagið og í gegnum skatta- og tilfærslukerfin sem verða enn mikilvægari  þegar færri hendur koma að því að framleiða vöru og þjónustu. Framtíðarsýnin hlýtur þá að vera að rými skapist til að stytta vinnuvikuna en með ágóðanum af aukinni framleiðni verði hægt að tryggja öllum lágmarksframfærslu, hvort sem fólk er innan eða utan vinnumarkaðar.

Í haust losna kjarasamningar og þá lítum við yfir þann árangur sem hefur náðst á gildistíma lífskjarasamninganna og brýnum kröfurnar fyrir næstu ár. Á vettvangi aðildarfélaga ASÍ er nú unnið að kröfugerðum sem síðan verða ræddar á stærri vettvangi. Smám saman dragast upp bæði stórar línur og smáar. Lífskjarasamningarnir voru góðir samningar sem hafa stuðlað að hækkun lægstu launa. Það er mín skoðun að halda eigi áfram á þeirri braut. Ekkert sýndi okkur betur en Covid-faraldurinn hversu mikið við reiðum okkur á vinnu þeirra lægst launuðu í íslensku samfélagi, þetta er vinnandi fólkið sem heldur öllu gangandi en er gert illmögulegt að ná endum saman.

Því miður hefur skort talsvert á efndir stjórnvalda gagnvart lífskjarasamningnum og það er umhugsunarefni nú þegar kjarasamningar eru að losna. Ef yfirlýsing stjórnvalda hefur ekkert raunverulegt gildi er tæpt að hún geti orðið til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Þá er hætt við að við missum sjónar á stóru myndinni og einblínum á kjarahækkanir sem hverfa jafnóðum vegna slælegrar efnahagsstjórnunar eða áframhaldandi húsnæðiskreppu.

Í fyrsta sinn síðan árið 2019 komum við saman 1. maí. Samkomutakmarkanir hafa sett mark sitt á starf verkalýðshreyfingarinnar og almennt á félagsstarf. Nú er líka í fyrsta sinn í langan tíma boðað til fjöldamótmæla þar sem almenningur rís upp gegn enn einni einkavinavæðingunni. Smám saman er verið að selja banka til að búa til gróða fyrir hina fáu á kostnað okkar allra. Þetta er gert gegn vilja almennings sem sér enga ástæðu til að ráðast í slíka sölu. Röksemdirnar eru gamalkunnar, það sé svo vont að ríkið eigi banka. En ef þú spyrð venjulegt fólk á Íslandi þá hefur það sannarlega farið verr út úr einkaeignarhaldi á bönkum, svo þessi rök halda engu vatni.

Við í ASÍ höfum stillt okkur upp með almenningi og mótmælt bankasölunni. Því miður eigum við fáa málsvara innan stjórnmálanna og við höfum ekki annan kost en að halda áfram að brýna raustina og segja nei við gömlum meðölum nýfrjálshyggjunnar.

Ágætu félagar,

Hreyfingin okkar er mikilvæg sem aldrei fyrr, en til að hún rísi undir sínu hlutverki verður okkur að auðnast að slíðra sverðin innan hennar. Annars rísum við ekki undir ábyrgðinni. Hreyfingin er mikilvægari en allir þeir einstaklingar sem veita henni forystu hverju sinni og hún þarf að lifa okkur öll. Vera sterk og öflugt tæki til að sækja fram um bætt lífskjör. Megi samveran 1. maí vera til að draga okkur saman og  stöðva sundrungu. Við vitum að hvert og eitt okkar má sín lítils í þeirri baráttu sem við þurfum að há fyrir íslenskt samfélag, en saman erum við öflug. Við vinnum og við munum vinna fleiri sigra fyrir vinnandi fólk og samfélagið allt.

Gleðilegan baráttudag!

Þú getur hlustað á ávarpið í spilaranum hér fyrir ofan.

Næsta grein Sigrún og Reinhold: Veröld í verkó