Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Áfram stelpur!

Áfram stelpur!

Þátttakendur á fyrsta leiðtogafundi kvenna innan ASÍ í marsmánuði 2023. Ljósmyndir/Lárus Karl

 

Ný jafnréttisnefnd Alþýðusambandsins er til marks um ásetning innan forystu verkalýðshreyfingarinnar að leggja aukinn þunga í þennan mikilvæga málaflokk. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, jafnréttisfulltrúi Alþýðusambands Íslands, segir frá því hvernig kvenauðurinn skal nú virkjaður. 

 

 

Af stað í oddaflug

jafnréttisnefnd Alþýðusambandsins var skipuð í upphafi ársins með þeim hvatningarorðum að hún léti rækilega til sín taka. ASÍ skyldi skipa sér fremst í oddaflugi jafnréttisbaráttunnar.  

Áður heyrði jafnréttisnefnd undir Vinnumarkaðs-, atvinnumála- og jafnréttisnefnd en ákveðið var að kljúfa málaflokkinn út úr þeirri nefnd í þeim tilgangi að gera málaflokknum hærra undir höfði. Málefnasvið nefndarinnar lýtur að jafnrétti á víðum grunni og nefndin beinir sjónum sínum að þeim hópum sem eru undirskipaðir í samfélaginu þ.m.t. konum, samkynhneigðum og kynsegin, innflytjendum og flóttafólki.  

Nefndinni er eðli máls samkvæmt upp á lagt að setja málefni kvenna á oddinn, bæta stöðu kvenna innan hreyfingarinnar, skapa rými til kvennasamstöðu og hvetja konur til áhrifa, án þess þó að vanrækja aðra hópa. Sterk og samstillt rödd kvenna innan hreyfingarinnar skili sér svo í enn beittari rödd út á við, inn á vinnumarkaðinn og út í samfélagið, þar er enn verk að vinna. Þessi grein lýtur þar af leiðandi að innspýtingu í kvennabaráttu Alþýðusambandsins og verkefnunum fram undan.  

Mynd: Guðrún Margrét 2
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, jafnréttisfulltrúi Alþýðusambandsins.

Kynjabókhaldið segir sína sögu

Aukinni áherslu á jafnréttismál af hálfu forystu hreyfingarinnar ber að fagna og áhugavert er velta fyrir sér ástæðunum að baki. Gæti kynjabókhald ASÍ 2022 hafa vakið hreyfinguna til vitundar um nauðsyn þess að gera betur í kynjajafnréttismálum? Kynjabókhaldið sýnir að þrátt fyrir að konur séu tæpur helmingur félagsfólks eru þær aðeins 19% þeirra sem sitja í stjórnum landssambanda ASÍ, 35% í stjórnum aðildarfélaga og deilda og 33% meðlima miðstjórnar. Þegar litið er yfir tímabilið 2011 – 2022 má sjá að kynjahlutföll félagsfólks haldast nokkuð stöðug á þessu 11 ára tímabili; konur eru í kringum 46% félagsfólks en rúmur þriðjungur í stjórnum félaga og deilda. Í miðstjórn má sjá meiri sveiflur í kynjahlutföllunum, en þar voru konur 40% árið 2012, fóru niður í 20% árið 2017 og eru nú í 33%, eins og fyrr segir.  

Frá fundi kvenleiðtoga innan Alþýðusambandsins. Guðný Óskarsdóttir, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Halldóra S. Sveinsdóttir.

Kvenauðurinn virkjaður

Jafnréttisnefnd ákvað að láta ekki sitt eftir liggja, nýta sér kærkominn meðbyr og skipuleggja aðgerðir sem miða að því að kynda undir baráttugleði kvenna og styðja þær til aukinna áhrifa innan hreyfingarinnar.  

Kvenleiðtogafundir  

Hugmyndin um að leiða kvenleiðtoga innan ASÍ saman með reglubundnum hætti vaknaði á fyrsta fundi nýrrar jafnréttisnefndar og ákveðið var að hópurinn skyldi hittast tvisvar á ári, að vori og á hausti. Hópi kvenleiðtoga ASÍ tilheyra kvenkyns formenn og varaformenn félaga og deilda, konur í miðstjórn og jafnréttisnefnd, bæði aðal- og varamenn, og til umfjöllunar yrðu kvenréttindamál í deiglunni hversu sinni og auk þess yrði reglulega leiðtogafræðsla fyrir hópinn.  

Hóað var til fyrsta kvenleiðtogafundarins í byrjun marsmánaðar og var þema fundarins endurmat á virði kvennastarfa, sem er eitt umfangsmesta verkefni stjórnvalda um þessar mundir og er unnið í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Verkefnið lýtur að því að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Þrír fyrirlesarar með sérþekkingu á málefninu voru fengnir á fundinn með erindi. Fundurinn var vel heppnaður að mati þátttakenda en þangað mættu sautján kvenleiðtogar, auk framkvæmdastýru ASÍ, starfskvenna jafnréttisnefndar og túlks. Framkvæmdastýra SGS var fundarstjóri. Næsti kvenleiðtogafundur eru fyrirhugaður í september nk.  

Kvennaráðstefna ASÍ

Jafnréttisnefnd stefnir á að halda næstu kvennaráðstefnu á haustmánuðum. Hefð er fyrir því að þær séu haldnar á 2–3 ára fresti en nefndin telur vel koma til álita að halda kvennaráðstefnur árlega héðan í frá. Hamra þurfi járnið á meðan það er heitt og mikilvægt sé að skapa vettvang þar sem konur, bæði félagslega kjörnar og starfskonur stéttarfélaga, geta hist og rætt málefni er lúta að velferð og réttindum kvenna. Nefndin hefur rætt að þema ráðstefnunnar í ár verði ofangreint vanmat á kvennastörfum. Ráðstefnugestir fengju almenna kynningu á verkefninu og að því loknu yrði þeim gert að leysa verkefni um hvernig hægt sé að nota „leiðrétt” verðmætamat launakonum í ASÍ til heilla. Afurð kvennaráðstefnu væri því sérsniðin verkfæri í baráttunni við hinn lífseiga launamun kynjanna með áherslu á kvennastéttir innan okkar raða þar sem launum hefur kerfisbundið verið haldið niðri.  

Kvennavettvangur ASÍ á Facebook 

Til að virkja sem flestar konur í hreyfingunni um allt land, bæði félagslega kjörnar og starfsmenn stéttarfélaga, var ákveðið að stofna fésbókarsíðu sem ber nafnið Kvennavettvangur ASÍ. Síðan verður sett í loftið í aðdraganda þings ASÍ og konum innan ASÍ boðið. Hlutverk hópsins er að vera samræðu- og fræðsluvettvangur kvenna í verkalýðshreyfingunni.  

Hugmyndin um stofnun kvennavettvangs kviknaði á kvennaráðstefnu Alþýðusambandsins 2022. Í ályktun ráðstefnunnar sagði m.a.:

Meginniðurstaða kvennaráðstefnu ASÍ 2022 er að þörf er á því að konur í hreyfingunni starfi að sínum hagsmunum með skipulegum hætti.  Kvennaráðstefnan leggur til að undirbúningshópur útfæri sérstakan vettvang fyrir þetta starf. Sá vettvangur mun styðja við tengslanet kvenna í hreyfingunni með varanlegum hætti og styrkja konur til áhrifa í hreyfingunni.  

Undirbúningshópur þessi var stofnaður stuttu eftir ráðstefnuna og fundaði hópurinn tvisvar sinnum. Niðurstaðan var að fésbókarsíða væri ákjósanlegt form slíks vettvang. Fámenn ritnefnd hefur verið mynduð úr ranni kvenna í undirbúningshópnum. Á síðunni verða í gildi ákveðnar „húsreglur”, færslur verða yfirfarnar af ritnefnd áður en þær eru birtar og ómálefnalegar athugasemdir hiklaust fjarlægðar.  

Stærstu kynjajafnréttismálin

Leiðrétting á skökku verðmætamati kvennastarfa sem greint var frá  hér að ofan er án efa umfangsmesta eitt stærsta verkefni jafnréttisnefndar næstu misserin. Konur búa enn við launamisrétti þó að launajafnrétti hafi verið leitt í lög fyrir 60 árum og þótt saxast hafi töluvert á launamun kynjanna. Engin ástæða er þó til að gera lítið úr þeim muni sem enn er til staðar. Samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar 2021 er óleiðréttur launamunur kynjanna á almenna markaðnum 13,9%. Fyrir konu með 650.000 kr. á mánuði þýðir þetta að hún missir af 108.000 kr. á mánuði, 1,3 milljónum á ári og 65 milljónum á starfsævinni.  

Aðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til hafa ekki tekið kerfisbundið á því grundvallarmisrétti sem viðgengst í skökku verðmætamati kvennastétta þvert á atvinnugreinar og vinnustaði. Jafnlaunastaðallinn einskorðast t.d. við kennitölu atvinnurekanda og nær því takmarkað að draga úr launamun kynjanna sem er tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar þar sem konur og karlar starfa í ólíkum störfum í mismunandi atvinnugreinum. Rannsóknir sýna, bæði íslenskar og erlendar, að ein helsta skýring launamunar kynjanna er  kynskiptur vinnumarkaður. 

Þessi hugmyndafræðilega þróun sést greinilega í nýlegum jafnréttislögum nr. 150/2020. Þar segir í 1. mgr. 6. gr. laganna að „konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf“. Þessi breyting, að fara frá skilgreiningunni að kynin skuli njóta sömu kjara fyrir sambærileg störf yfir í jafn verðmæt störf án þess að skilyrt sé að starfsfólk starfi hjá sama atvinnurekanda, krefst nýrrar nálgunar í aðgerðum sem ætlað er að útrýma launamun kynjanna. 

Verkefni þetta er unnið í nokkrum áföngum. Nú er í gangi þróunarverkefni í samstarfi við fjórar opinberu stofnanir er ætlunin að þróa íslensku leiðina til að greina alla þætti starfa, líka þá þætti sem gætu verið vanmetnir, bæta kerfin og verkfærin til að fanga jafnvirðisnálgun jafnréttislaga.  

Bætt viðbrögð ASÍ við #MeToo málum 

Verkalýðshreyfingin hefur tekið þátt í samfélagsumræðunni um #MeToo allt frá fyrstu bylgju og raunar mun fyrr. Sumarið 2021 gerði Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, könnun á umfangi og eðli þeirra mála sem berast aðildarfélögum ASÍ og BSRB og leiddi hún í ljós erfiðleika við að segja til um umfanga, misbrest á skráningum og skorti á skýrum ferlum. Skýrt ákall kom frá aðildarfélögunum sem tóku þátt eftir aðstoð við meðferð og úrvinnslu slíkra mála og merkja mátti skýran vilja til að gera betur. Einnig kom fram að þolendur endi oftar en ekki á að bera byrðarnar í slíkum málum og þóttu svarendum könnunarinnar það afar miður.  

Nú stendur til að styrkja stéttarfélögin í móttöku slíkra mála. Undirbúningur að vinnustofu er nú í fullum gangi sem haldin verður í haust um um eðli, afleiðingar og úrræði tengdu kynferðislegu áreitni/ofbeldi á vinnustað. Einnig verður fræðslu um lög og reglugerðir þar að lútandi og kennsla í verkferla/viðbragðsáætlunargerð, um skyldur atvinnurekanda og hvernig æskilegt sé að taka á móti þolanda og veitt verður grunnkennslu um áfallahjálp. Vinnustofan er samstarfsverkefni VIRK, ASÍ og BSRB og er í boði fyrir ráðgjafa virk og alla starfsmenn heildarsamtakanna ASÍ og BSRB. Markmið vinnustofunnar er að styrkja fólk í að taka á móti þolendum á sem faglegasta máta, með staðgóða þekkingu á málaflokknum í farteskinu í kjölfar vinnustofunnar.  

VIRK hyggst svo, þar fyrir utan, sérþjálfa starfsmann í hverri starfsstöð VIRK um allt land og til hans getur allt launafólk leita í a.m.k. eitt viðtal, í eins konar fyrstu „hjálp”. Starfsfólk viðeigandi stéttarfélags getur þá ýmist vísað launafólki sem lent hafa kynferðislegur áreitni/ofbeldi á hinn sérþjálfaða starfsmann eða leitað ráða hjá honum þegar mál af slíku tagi berast á borð stéttarfélaga.    

Lokaorð

Sterkari og samstilltari konur í verkalýðshreyfingunni, hvort sem um ræðir kvenleiðtoga, konur í trúnaðarstörfum eða starfskonur stéttarfélaganna, mun skila sér í beinskeyttri og skarpari rödd út á við, bæði gagnvart viðsemjendum og stjórnvöldum. Samtakamátturinn mun svo skila sér í sterkari heild, allri hreyfingunni til hagsbóta.

Næsta grein Fremstar meðal jafningja