Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Fátækum refsað með loftslagsaðgerðum

Fátækum refsað með loftslagsaðgerðum

Aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum eru óskilvirkar, óhagkvæmar og stuðla beinlínis að ójöfnuði. Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur ASÍ á sviði umhverfismála, segir frá furðulegri nálgun íslenskra stjórnvalda sem gengur þvert á markmið hugmyndafræði réttlátra umskipta. 

 

ALÞÝÐUSAMBAND Íslands styður markmið um sjálfbærni og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með réttlát umskipti að leiðarljósi. Réttlát umskipti (e. Just Transition) er hugmyndafræði sem hefur lítið verið rædd í íslensku samfélagi en er lykilhugtak í loftslagsmálum. Hugtakið var fyrst notað í baráttu bandarísku verkalýðshreyfingarinnar á níunda áratug síðustu aldar fyrir stuðningi við verkamenn sem höfðu misst vinnuna vegna nýrrar og strangari umhverfislöggjafar. Krafðist verkalýðshreyfingin þess að stuðningskerfi yrði sett á fót fyrir þá sem misstu vinnuna og eru réttlát umskipti því oft tengd við störf og starfsöryggi.

Réttlát umskipti snúast þó um fleira. Segja má að í hnotskurn snúist réttlát umskipti um að hámarka efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning af loftslags- og tæknibreytingum og lágmarka neikvæð áhrif breytinganna á almenning og launafólk. Réttlát umskipti fela þannig í sér að réttindi og lífsviðurværi launafólks og almennings séu tryggð í gegnum þær samfélagsbreytingar sem ráðast þarf í vegna loftslagsbreytinga samhliða hröðum tæknibreytingum. Hugmyndafræðin felur þannig í sér þá kröfu að stefnumótun og aðgerðir vegna loftslags- og tæknibreytinga byggi á réttlæti og jöfnuði, að ávinningi af breytingunum sé skipt með réttlátum og sanngjörnum hætti.  

Mynd: DSC8016
Auður Alfa Ólafsdóttir. Mynd/Lárus Karl.

Árið 2021 gáfu ASÍ, BHM og BSRB út skýrslu um réttlát umskipti þar sem fjallað var um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum í samhengi við efnahagsleg og félagsleg áhrif og tillögur settar fram um hvernig megi vinna að þeim.  

Réttlátum umskiptum má skipta upp í fjórar víddir eða flokka sem fela í sér mismunandi réttlætiskröfur. Í þessari grein verður áhersla lögð á að fjalla um efnahagslegt réttlæti í tengslum við loftslagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda og hvernig kostnaður og ávinningur, tækifæri og byrðar af loftslagsaðgerðum dreifist milli hópa hér á landi.     

Loftslagsaðgerðir eru mikilvægt tól til að vinna bug á loftslagsvandanum og er það hagur samfélagsins alls að ráðist sé í aðgerðir. Loftslagsaðgerðir hafa þó ýmis hliðaráhrif með sér í för og þarf að horfa til ýmissa sjónarmiða við val á þeim. Mikilvægt er að þær skili sem mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með sem minnstum tilkostnaði, bæði efnahagslegum og samfélagslegum. Mismunandi loftslagsaðgerðir hafa ólík áhrif á mismunandi samfélagshópa og tekjuhópa en fleiri þættir eins og búseta, aldur og kyn geta skipt máli. Áhrif loftslagsaðgerða geta verið jákvæð eða neikvæð og geta þær ýtt undir ójöfnuð eða aukið jöfnuð og ýtt aukið eða dregið úr velferð. Það hvaða áhrif loftslagsaðgerðir koma til með að hafa veltur á því hvers konar aðgerðir stjórnvöld velja að ráðast í 

Fjölmargar birtingarmyndir ójöfnuðar

Birtingarmyndir ójöfnuðar í samhengi við loftslagsbreytingar eru fjölmargar. Í alþjóðlegu samhengi koma loftslagsbreytingar verst niður á fátækari ríkjum heims þrátt fyrir að vestræn og efnaðri samfélög beri mesta ábyrgð á vandanum. Kolefnisspor efnameiri einstaklinga er einnig stærra en tekjulægri hópa og munar þar mest um flug en bílaeign og stærra húsnæði vegur einnig þungt.  Loftslagsaðgerðir fela oft í sér álögur í formi skatta sem koma iðulega verr niður á þeim tekjulægri en þeim efnameiri. Þá geta fyrirtæki sem menga velt auknum kostnaði vegna loftslagsaðgerða yfir á almenning í formi hærra verðs án þess að það komi niður á hagnaði þeirra.  

Mótmæli gulu vestanna” í Frakklandi árið 2018 er gott dæmi um baráttu fyrir réttlátum umskiptum í orkumálum. Þá brutust út mótmæli eftir að stjórnvöld kynntu skattahækkanir á jarðefnaeldsneyti í nafni umhverfissjónarmiða en skattarnir komu illa við launafólk í úthverfum Parísar sem þarf að keyra langar vegalengdir til vinnu. Á sama tíma hugðust stjórnvöld losa um vinnulöggjöfina og draga úr réttindum launafólks auk þess að lækka skatta á fyrirtæki. Þetta óréttlæti hleypti illu blóði í franskan almenning sem safnaðist saman á strætum Parísar í mótmælum sem vöktu heimsathygli. Einhverjir hafa haldið því fram að mótmælin hafi verið andspyrna við aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Hreyfingin  mótmælti því í yfirlýsingu og sagðist kalla eftir raunverulegum aðgerðum í loftslagsmálum sem beindust að stórmengurum í stað málamynda aðgerða sem kæmu verst niður á þeim tekjulægri.  

90% losunar frá atvinnulífi, 10% frá heimilum

Til að tækifærum og byrðum sem felast í loftslagsbreytingum sé skipt með réttlátum hætti þarf að horfa til þess hvar ábyrgðin á vandanum liggur og hverjir eru best í stakk búnir til að bera byrðarnar af því að takast á við vandann.  

Til að varpa ljósi á ábyrgð vandans hér á landi er nærtækt að skoða frá hvaða uppsprettum losun gróðurhúsalofttegunda kemur. Vegna alþjóðlegra skuldbindinga er losun gróðurhúsalofttegunda annars vegar flokkuð í losun sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á að draga úr og hins vegar í losun sem fellur undir ETS kerfið (e. Emission Trading System) eða viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir sem lönd innan Evrópu hafa komið sér saman um. Ef öll losun gróðurhúsalofttegunda frá íslensku hagkerfi er skoðuð, óháð hver ber ábyrgð á að draga úr henni, má sjá að árið 2022 nam hún 7.992 kílótonnum hitunargilda (CO2 ígildi sem taka tillit til mismunandi hlýnunarmáttar ólíkra gróðurhúsalofttegunda).  

Eins og sjá má á stöplaritinu hér að ofan stafar mest losun frá framleiðslu málma, 33% en þar á eftir kemur losun frá landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum með samtals 20% losunar. Losun frá flutningum á sjó og með flugi eru samanlagt 17% og losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum heimilum nemur 10% af heildarútlosun frá íslensku hagkerfi. Þegar litið er til þeirrar losunar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á að draga úr og Aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum snýr að, má sjá að stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda kemur frá vegasamgöngum eða 31%. Um helmingur af þeirri losun má rekja til íslenskra heimila eða 16%. Á eftir vegasamgöngum stafar mest losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum, 21% en þar á eftir kemur landbúnaður með 19% 

Íslensk heimili greiða meiri umhverfisskatta en atvinnulífið

Þrátt fyrir að stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda komi frá íslensku atvinnulífi greiða heimilin stærstan hluta umhverfisskatta á Íslandi eða 59% árið 2020. Umhverfisskattar samanstanda af orkusköttum, flutningssköttum, mengunarsköttum og auðlindasköttum. 

Til orkuskatta teljast skattar sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda og felast í sköttum á bensín, olíu og aðra orkugjafa fyrir samgöngur eins og kolefnisgjaldi, olíugjaldi og vörugjaldi á bensín og olíuvörur. Tekjur ríkisins af sölu á losunarkvóta (ETS) teljast einnig til orkuskatta. Flutningsskattar eru skattar tengdir notkun farartækja eins og bifreiðagjöld, vörugjöld af ökutækjum, kílómetragjald og skipagjald. Mengunarskattar eru lagðir á losun mengandi efna (annarra en gróðurhúsalofttegunda) og samanstanda af sorphreinsunargjöldum, úrvinnslugjöldum og skilagjöldum á einnota umbúðir. Að lokum eru auðlindaskattar sem eru m.a. tengdir veiðum, breytingum á landslagi og vinnslu jarðefna en veiðigjöld teljast ekki til auðlindaskatta. Meginuppistaða auðlindaskattsins er gjald sem lagt er á rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis. 

Heimilin greiða 51% orkuskatta, 55% flutningsskatta og nær alla mengunarskatta eða 91%. Atvinnulífið greiðir 44% orkuskatta, 45% flutningsskatta, 9% mengunarskatta. Atvinnulífið greiðir alla auðlindaskatta en þeir felast í gjöldum á sjókvíaeldi og nema einungis 0,4% af umhverfissköttum. Hlutfall orkuskatta af umhverfissköttum er 54%, flutningssköttum 25% og mengunarsköttum 20%. 

Mynd: Réttlát 4

Skattar og álögur koma verst niður á tekjulægri hópum

Íslensk stjórnvöld beina stórum hluta loftslagsaðgerða að vegasamgöngum sem endurspeglast m.a. í fjölda loftslagsaðgerða sem snúa að vegasamgöngum og því fjármagni sem varið er í þær. Samgöngur eru vissulega stór uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda sem íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á að draga úr (31%) en þá standa 70% eftir. Samgöngur gegna veigamiklu hlutverki í daglegu lífi fólks og eru m.a. forsenda þess að fólk komist til og frá vinnu þannig að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast auk þess að stuðla að því fólk geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Samgöngur hafa einnig töluverð áhrif á kjör og lífsgæði en samgöngur eru annar stærsti útgjaldaliður heimilanna á eftir húsnæði auk þess sem við verjum töluverðum tíma í að ferðast með samgöngum.  

Margar af þeim aðgerðum sem beinast að samgöngum fela í sér beitingu hagrænna stjórntækja í formi fjárhagslegra hvata eða lata. Þeim er ætlað að hafa áhrif á hegðun, hvetja til hegðunar sem hefur jákvæð áhrif á umhverfið en letja til hegðunar sem hefur neikvæð áhrif á umhverfið. Kolefnisskattar eru dæmi um aðgerð sem er ætlað að draga úr hegðun sem hefur neikvæð áhrif á umhverfið, í þessu tilfelli aksturs á bensínbílum. Kolefnisskattar byggja á þeirri meginreglu að þeir sem mengi eigi að borga fyrir það og bera þannig kostnaðinn sem af menguninni hlýst (e. Polluter Pays Principle).  

Kolefnisgjöld á Íslandi með þeim hæstu í aðildarríkjum OECD

Það segir þó ekki alla söguna en OECD tekur saman upplýsingar um heildarverð kolefnis (e. Effective Carbon Rate) sem felur í sér alla skatta sem lagðir eru á jarðefnaeldsneyti. Þrátt fyrir að kolefnisskattur sé eini skatturinn sem er hugsaður sem loftslagsaðgerð eru áhrif allra skatta á bensín og olíur þau sömu. Ísland var með fimmta hæsta heildarverð kolefnis af öllum 37 aðildarríkjum OECD árið 2018 samkvæmt tölfræði stofnunarinnar.   

Gallinn við kolefnisskatta hér á landi er að valmöguleikar almennings til að breyta hegðun sinni  og keyra minna eða skipta yfir í aðra ferðamáta eru takmarkaðir og má velta fyrir sér hve skilvirkt tól þeir eru ef markmiðið er að hafa áhrif á hegðun. Ísland er fámennt og dreifbýlt land og sömuleiðis höfuðborgin en borgarskipulagið miðar í raun að notkun einkabílsins. Almenningssamgöngur eru ekki raunhæfur valkostur fyrir alla og langt er í að borgarlínan komist í gagnið og þá hafa ekki allir kost á að kaupa sér rafmagnsbíl enn sem komið er. Stór hluti fólks getur því ekki komist hjá síhækkandi bensínverði eða þeim mikla kostnaði sem felst almennt í að eiga og reka bíl sem gæti þó verið búbót fyrir marga sem reka jafnvel marga bíla. Kolefnisskattarnir virka því aðallega sem fjármögnun og fela í sér tekjuöflun fyrir ríkið.  

Tugir milljarða í ívilnanir vegna „vistvænna“ ökutækja

Kolefnisskattar nýtast þó til að fjármagna loftslagsaðgerðir, sem er ekki vanþörf á enda hafa framlög ríkisins til loftslagsmála aukist mikið síðustu ár. Stjórnvöld hafa til að mynda veitt 34 milljörðum króna í niðurfellingu á virðisaukaskatti af þúsund rafmagns- vetnis- og tengiltvinnbílum á síðustu 10 árum til fyrirtækja og einstaklinga. Gallinn er sá að lang stærstur hluti þessara ívilnana hefur runnið til tekjuhærri hópa en fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Kveiki nýverið. Þar kom fram að stærstur hluti ívilnananna hefur runnið til tekjuhás fjölskyldufólks og einstaklinga. Þá hafa íbúar í tekjuhæstu hverfum og sveitarfélögum landsins nýtt ívilnanirnar í mestum mæli og höfuðborgarbúar frekar en landsbyggðarfólk.  

Umhverfisskattar eins og kolefnisgjöld eða sorphreinsunargjöld og einnig veggjöld sem stendur til að koma á fót, eru allt dæmi um flata skatta. Upphæð flatra skatta tekur ekki mið af getu einstaklinga eða fyrirtækja til að borga skattana heldur er í hlutfalli við þá fjárhæð sem er skattlögð. Flatir skattar taka þannig hærri prósentu af tekjum tekjulægri hópa og koma því verr niður á efnaminna fólki en öðrum. Í úttekt sinni um efnahagsumhverfið á Íslandi árið 2019 segir OECD að hærra kolefnisgjald auki skattbyrði ef tekjum ríkisins af gjaldinu er ekki dreift til baka til heimila og fyrirtækja sem greiða það. Þessi aukna skattbyrði bitnar að jafnaði mest á tekjulágum hópum þar sem þeir verja gjarnan stærri hluta tekna sinna í kolefnisfrekar vörur og þjónustu en aðrir þjóðfélagshópar.  

Lítið gagnsæi varðandi ráðstöfun fjármuna í loftslagsmál

Sumar loftslagsaðgerðir, eins og kolefnisskattar og sorphreinsunargjöld, eru til þess fallnar að skila tekjum í ríkissjóð á meðan aðrar aðgerðir eins og fjárfestingar fela í sér kostnað sem ríkissjóður tekur oft þátt í að fjármagna. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hve miklu fé íslenska ríkið ver í loftslagsaðgerðir eða fjárfestingar tengdar loftslagsmálum, í hvers konar aðgerðir fjárframlögin fara eða hverjir njóta góðs af þeim. Til að stuðla að gagnsæi varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna í þágu loftslagsmarkmiða lét Loftslagsráð vinna fyrir sig greinargerð um opinber fjármál og loftslagsmál 

Í greinargerðinni kemur að framlög til loftslagsmála hafi numið 18 milljörðum árið 2022 og 19 milljörðum árið 2022 sem nemur um 0,5% af landsframleiðslu það ár. Þar munar mestu um skattalega hvata sem felast m.a. í skattaívilnunum vegna rafbíla, hjóla og heimahleðslustöðva og endurgreiðslu á tekjuskatti fyrirtækja vegna kolefnisjöfnunar. Framlög ríkisins vegna skattaívilnana voru þannig 8,5 milljarðar árið 2022 og 10,5 milljarðar árið 2021. Næst stærsti hluti fjárframlaga ríkisins rann í loftslagsaðgerðir í landbúnaði (landgræðsla, skógrækt og garðyrkja) og námu þær 4,3 milljörðum árið 2022. Þá fóru 4 milljarðar í samgönguverkefni árið 2022 en þar undir eru framlög í Orkusjóð, Borgarlínu, göngu- og hjólastíga og Vestmannaeyjaferju svo eitthvað sé nefnt. Að lokum fóru 1,3 milljarðar í bein framlög til loftslagsmála en fjármögnun innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna, Loftslagssjóður og Loftslagsráð fellur undir þann flokk.  

Mynd: Fjarlog Newsize

Skattalegir hvatar úr 3,4 milljörðum í 10,5 milljarða á fjórum árum

Framlög ríkisins til loftslagsaðgerða, skv. skilgreiningu fjármálaráðuneytisins sem er birt í skýrslunni, jukust um 70% frá árunum 2017/2018 til áranna 2021/2022 en þar munar mest um skattalega hvata sem fóru úr 3,3 milljörðum árið 2017 í 10,5 milljarða árið 2021. Taka ber fram að yfirlit skýrslu Loftslagsráðs yfir framlög ríkisins til loftslagsmála er ekki endilega tæmandi. Misjafnt er hvernig fjárframlög til loftslagsmála eru flokkuð og eins og bent er á í skýrslunni jukust framlög ríkisins til loftslagsmála verulega eftir að þau voru endurskilgreind. Í skýrslunni er bent á að í sumum tilvikum geti verið um ofmat á kostnaði að ræða eins og í tilviki fjármagns sem rennur til uppbyggingar á samgönguinnviðum á borð við Borgarlínu og Vestmannaeyjaferju en slík fjárframlög gegna ekki einungis því hlutverki að draga úr losun. 

Loftslagsráð bendir á að bæta þurfi gagnsæi og framsetningu upplýsinga um kostnað og tekjur vegna aðgerða í loftslagsmálum. Þá hafa alþjóðastofnanir í auknum mæli fjallað um hvernig tekjum hins opinbera af loftslagsaðgerðum er ráðstafað og á mikilvægi þess að tekjur af loftslagsaðgerðum séu nýttar með markvissum hætti til að ná tilgreindum markmiðum. Alþjóðastofnanir hafa einnig sagt að horfa þurfi til stuðnings almennings við stefnumótun og val á aðgerðum og bent á að eyrnamerking tekna til tiltekinna aðgerða stuðli að meira gagnsæi og fyrirsjáanleika en að láta tekjunnar renna beint í ríkissjóð.  

Ríkulegur stuðningur við sjávarútveg

Íslenskur sjávarútvegur er sú atvinnugrein sem losar næst mest af gróðurhúsalofttegundum á eftir vegasamgöngum. Í yfirlitinu um fjárframlög ríkisins til loftslagsmála sem birt er í greinargerð Loftslagsráðs en koma frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er skattalegra hvata í sjávarútvegi ekki getið (fyrir utan framlög vegna rafvæðingar hafna og Orkusjóð sem sjávarútvegsfyrirtæki geta og hafa sótt styrki í). Íslenskur sjávarútvegur nýtur þó ýmiskonar fjárhagslegs stuðnings frá hinu opinbera vegna loftslagsmála í formi styrkja og ívilnana sem nema umtalsverðum fjárhæðum. Fyrir það fyrsta stuðlar umgjörð fiskveiðistjórnunarkerfisins og fyrirkomulag gjaldtöku af sjávarútvegi að fjárfestingu í greininni og ívilnar sjávarútveginum þannig í raun fyrir að ráðast í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þýðir að veiðigjöld sjávarútvegsins lækka ef sjávarútvegsfyrirtæki ráðast í aðgerðir eða fjárfestingar með það að markmiði að draga úr mengun. 

Stjórnvöld samþykktu einnig breytingu á lögum um tekjuskatt sem heimilar rekstraraðilum að  reikna fyrningargjald á stofnverð eigna sem teljast umhverfisvænar og er aflað á árunum 2021-2025 með það að markmiði að stuðla að grænni fjárfestingu. Þessi ákvæði ná til allra fyrirtækja og fyrirtækja í sjávarútvegi þar með talið. Lagabreytingarnar höfðu þó þau hliðaráhrif með sér í för að tekjuskattsstofn útgerða lækkaði og sú upphæð sem veiðigjöld eru reiknuð af lækkaði einnig og veiðigjöldin með.  

Þá nýtur sjávarútvegurinn góðs af ýmsum styrkjum og endurgreiðslum vegna nýsköpunar, rannsókna og þróunar sem Rannís sér um að úthluta. Verkefni tengd sjávarútvegi hlutu 20% allra styrkja á árunum 2011-2019 og nam heildarfjármagnið 2,5 milljörðum króna. Eins og kemur fram í umfjöllun Kjarnans hefur árlegur kostnaður vegna skattafrádráttar af nýsköpunarverkefnum sem Rannís sér um að meta, aukist um 10 milljarða frá 2015. Skattafrádrátturinn var aukinn tímabundið til að bregðast við áhrifum Covid faraldursins en hefur verið framlengdur í tvígang og gildir nú út árið 2025. Skatturinn hefur gert athugasemdir við fyrirkomulag þessara endurgreiðslna og styrkveitinga og bent á að heimildin kunni að vera misnotuð enda sé erfitt að staðfesta og hafa eftirlit með hvort kostnaður sem fyrirtæki telji til styrkhæfs kostnaðar eða ekki. Þá séu engin viðurlög við misnotkun á heimildinni til að skapa varnaðaráhrif. Sjávarútvegurinn er einnig undanþeginn greiðslu úrvinnslugjalds vegna sérsamnings við Úrvinnslusjóð. Eins og kom fram í umfjöllun Heimildarinnar um málið sleppur sjávarútvegurinn við að borga hundruð milljóna í úrvinnslugjald vegna sérsamningsins auk þess að borga lægra gjald fyrir urðun veiðarfæra til Sorpu. 

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust samanlagt um 68,7 milljarða króna árið 2021 sem er mesti hagnaður atvinnugreinarinnar í meira en áratug. Arðgreiðslur úr sjávarútvegi til eigenda fyrirtækjanna námu 18,5 milljörðum sama ár og veiðigjöld 7,7 milljörðum.

Engin kolefnisgjöld á losun frá álverum sem losa mest

Eins og áður sagði er losun gróðurhúsalofttegunda frá málmframleiðslu langstærsti losunarþátturinn frá íslensku hagkerfi. Losun frá stóriðju, þ.m.t. málmframleiðslu fellur undir viðskiptakerfi ETS um losunarheimildir og var íslenskum álfyrirtækjum eins og öðrum fyrirtækjum í kerfinu, úthlutað losunarheimildum endurgjaldslaust. Ekkert kemur þó í veg fyrir að íslensk stjórnvöld leggi kolefnisgjöld á losun frá álverum en kolefnisgjöld á þennan mengandi iðnað gætu skilað miklum tekjum í ríkissjóð sem gætu nýst í aðrar loftslagsaðgerðir. Álfyrirtæki sleppa ekki einungis við að borga kolefnisgjöld heldur greiða þau takmarkaða tekjuskatta í ríkissjóð en lágar skattgreiðslur álfyrirtækja hér á landi hafa vakið töluverða athygli í gegnum árin.  

Milljarður í niðurgreiðslu á rafbílum til bílaleiga sem hagnast um milljarða

Fleiri atvinnugreinar hafa notið góðs af fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda vegna loftslagsmála og samþykkti ríkisstjórnin t.d. nýlegastyrkja bílaleigur um 1 milljarð til að kaupa rafbíla. Þau fjárframlög renna úr Orkusjóði. Meðal þeirra bílaleiga sem á að styrkja eru fyrirtæki sem högnuðust um marga milljarða á síðasta ári og fengu mikla styrki í Covid faraldrinum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ívilnanir vegna rafbíla séu óhagkvæm og óskilvirk leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það voru m.a. niðurstöður rannsóknar Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands frá 2022 sem mat stuðning við kaup á rafbílum sem með óhagkvæmustu aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum ásamt banni við urðun á lífrænum úrgangi. Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir að meiri árangri megi ná í loftslagsmálum með hagkvæmari aðgerðum og að notkun óhagkvæmra aðgerða dragi úr getu okkar til að beita þeim aðgerðum sem borga sig.  

Loftslagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda ýta undir ójöfnuð

Fjárframlög íslenskra stjórnvalda vegna loftslagsmála hafa aukist gríðarlega á síðustu árum sem og tekjur ríkissjóðs af loftslagsaðgerðum. Loftslagsaðgerðir stjórnvalda hafa þó ekki skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en talið er að met verði slegið í olíunotkun á Íslandi á þessu ári. Íslensk stjórnvöld láta þá sem bera ábyrgð á vandanum heldur ekki axla hana. Þvert á móti eru þeir sem bera minnsta ábyrgð á vandanum látnir bera þungar byrðar í formi skatta og álaga. Á sama tíma greiða stórar atvinnugreinar sem skila gríðarlegum hagnaði og losa mikið af gróðurhúsalofttegundum lítið fyrir þá mengun sem af þeirra atvinnustarfsemi hlýst en njóta góðs af loftslagsaðgerðum stjórnvalda í formi fjárfestinga, styrkja og ívilnana. Tekjutilfærslur fara því frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri og fyrirtæki og fjármagnsöfl halda áfram að hagnast sem aldrei fyrr.   

Aðgerðir stjórnvalda eru því ekki einungis óskilvirkar og óhagkvæmar heldur eru þær óréttlátar og stuðla að ójöfnuði, þvert á markmið réttlátra umskipta.  

Ljóst er að aðgerða er þörf til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi eins og annars staðar í heiminum ef jörðin á að halda áfram að vera byggileg. Við erum nú þegar farin að sjá alvarlegar afleiðingar af loftslagsbreytingum og sameiginlegt átak allra er því nauðsynlegt til að ráða bug á loftslagsbreytingum. Áherslur stjórnvalda eru þó ekki til þess fallnar að leysa vandann né ná samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir.  

 

Næsta grein Hark og réttleysi