Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Framvarðasveitin

Framvarðasveitin

 Saga Kjartansdóttir (fyrir miðju) ásamt félögum í vinnustaðaeftirlitinu, þeim Alise Lavrova og Þórarni S. Thorlacius. Ljósmyndir/Lárus Karl.

 

 

Stéttarfélögin innan ASÍ gera á ári hverju kröfur um ógreidd laun sem nema hundruðum milljóna króna. Oft snúast þessi mál um skipulagðan launaþjófnað atvinnurekenda og önnur gróf réttindabrot. Saga Kjartansdóttir, verkefnisstjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ, segir frá mikilvægri varðstöðu um hagsmuni launafólks og baráttu gegn glæpastarfsemi. 

 

LAUNAÞJÓFNAÐUR og önnur brotastarfsemi á vinnumarkaði er síður en svo á undanhaldi og þörfin á öflugu eftirliti og viðurlögum við brotum hefur líklega aldrei verið meiri. Vöxtur í mannaflafrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð auk breyttrar samsetningar launafólks hefur hvort tveggja skapað áskoranir fyrir stéttarfélögin innan ASÍ, sem kosta kapps um að bæta og standa vörð um kjör launafólks. Vinnustaðaeftirlit er mikilvægur þáttur í þeirri varðstöðu og þar má segja að eftirlitsfulltrúar séu í framlínustörfum.   

Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnumarkaði frá 2010 gefa eftirlitsfulltrúum ASÍ og stéttarfélaganna heimild til að fara í fyrirvaralausar heimsóknir á vinnustaði. Áhersla verkalýðshreyfingarinnar hefur verið á að nota eftirlitið til að stuðla að heilbrigðari vinnumarkaði þar sem launafólk býr við öryggi og fær rétt greitt fyrir vinnu sína. 

Fjórðungur á vinnumarkaði

Í fyrra ræddu eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna við rúmlega 2.500 manns í tæplega 700 heimsóknum um allt land. Fjölgun erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði, en þeir verða fljótlega fjórðungur allra á vinnumarkaði, er sérstaklega augljós í þeim greinum sem eftirlitið nær til. Næstum helmingur þess starfsfólks sem eftirlitsfulltrúar hitta fyrir í heimsóknum sínum eru með erlent ríkisfang. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að í hópi eftirlitsfulltrúa séu einstaklingar með fjölbreytta tungumálaþekkingu. Eftirlitsfulltrúarnir leitast því við að tala við starfsfólk á tungumáli sem það skilur, stundum með aðstoð túlka og jafnvel Google Translate. 

Eftirlitsfulltrúar heimsækja vinnustaði í ferðaþjónustu, mannvirkjagerð og veitingaþjónustu. Þau gefa sig á tal við starfsfólkið, segjast vera á vegum stéttarfélaganna og vera komin til að ræða við það um þjónustu stéttarfélaganna, laun og kjör og svara spurningum sem launafólk kann að hafa. Þau upplýsa atvinnurekendur og launafólk um réttindi og skyldur og gera eftir atvikum athugasemdir og tilkynna viðeigandi ríkisstofnun ef ástæða er til. 

Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna gæta þannig hagsmuna launafólks og leggja áherslu á að vinna sér inn traust starfsfólksins á vinnustöðunum sem heimsóttir eru. „Við erum hér fyrir þig, á vegum þíns stéttarfélags.“ Þau gefa sér tíma og svara spurningum sem starfsfólk kann að hafa varðandi laun og önnur kjör en þau svara líka eftir bestu getu spurningum um réttindi á leigumarkaði, um íslenskukennslu og margt fleira. 

Já, það er þörf á eftirliti!

En af hverju sinna stéttarfélögin þessu reglubundna eftirliti með vinnumarkaði?  

Brot á vinnumarkaði eru alltaf skaðleg fyrir einstaklingana sem fyrir þeim verða en þau skaða einnig samfélagið. Launaþjófnaður er samfélagsvandi og svindl í einni grein þrýstir niður launastigi í henni. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og ef við gætum ekki að veikasta hlekknum er hætta á að keðjan slitni. Þá skekkja undirboð líka samkeppni því fyrirtæki sem greiða rétt laun þurfa að keppa við þau sem ekki gera það.  

Samkvæmt skýrslum Alþýðusambandsins gera stéttarfélögin launakröfur fyrir hundruð milljóna króna á hverju ári. 

Mynd: DSC8341
Saga Kjartansdóttir, verkefnisstjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ.

Hér þarf að taka fram að það er einungis þjófnaðurinn sem verður að launakröfu. Full ástæða er til að ætla að raunveruleg upphæð hlaupi á milljörðum enda ýmsar ástæður fyrir því að fólk sækir ekki rétt sinn. Samkvæmt skýrslum beinist launaþjófnaður helst gegn þeim sem ekki þekkja réttindi sín og eru síður í stakk búin til að sækja þau. Launaþjófnaður bitnar helst á ungu fólki og innflytjendum. Því má segja að launum sé helst stolið af þeim sem síst mega við því: lágtekjufólki með litla sjóði og/eða lítið bakland á Íslandi.  

Ójöfn staða launafólks og atvinnurekenda

Vinnustaðaheimsóknirnar sjálfar eru með ýmsu móti. Stundum kemur í ljós að starfsfólk hefur ekki fengið greidda desemberuppbót eða fær rangt greidda yfirvinnu. Eftirlitsfulltrúar gera stundum athugasemdir við rafræna vöktun enda er bannað að beina myndavélum að starfsfólki í því eina skyni að fylgjast með vinnuafköstum þess. Í öðrum tilvikum eru vinnupallar rangt upp settir og starfsaðstæður beinlínis lífshættulegar.  

Svo eru það málin þar sem starfsfólk sýnir einkenni ótta gagnvart yfirmönnum, hefur aldrei séð launaseðil og veit ekki hvað það er með í laun.  

Þegar launafólk ákveður hvort það eigi að sækja rétt sinn þarf það alltaf að taka inn í matið hættuna á að það missi vinnuna og tekjurnar. Áhættan verður enn meiri þegar starfsmaður býr í húsnæði á vegum atvinnurekanda, sem verður sífellt algengara, og þegar viðkomandi á jafnvel dvalar- og atvinnuleyfi undir atvinnurekandanum. 

Harkan á vinnumarkaði

Oft er eftirlitsfulltrúum mætt með kurteisi af hálfu atvinnurekenda en það gerist þó reglulega að eftirlitsfulltrúar fá fjandsamlegar móttökur. Starfsfólk þorir stundum ekki að tala við eftirlitsfulltrúa af ótta við yfirmann sem er á staðnum. Slíkt andrúmsloft er oftar en ekki til marks um að eitthvað sé verulega athugavert við aðstæður starfsfólksins. Það kemur fyrir að eftirlitsfulltrúar þurfa að hringja á lögreglu til aðstoðar við að fá aðgang að vinnustaðnum.  

Skipuleg glæpastarfsemi er hluti af íslenskum vinnumarkaði og stundum komast eftirlitsfulltrúar í snertingu við þá hörku sem henni fylgir. Fyrir kemur að eftirlitsfulltrúar komi við kaunin á glæpamönnum vinnumarkaðarins og að þeir fái í kjölfarið símtöl, jafnvel seint á kvöldin, ýmist frá lögfræðingum eða eigendunum sjálfum, þar sem tilgangurinn er augljóslega að hræða fulltrúa stéttarfélagsins til hlýðni. Höfum í huga að eftirlitsfulltrúar hafa ekki gengið gegnum margra ára lögreglunám og bera ekki vopn heldur þurfa þau að treysta á innsæi sitt, réttlætiskennd og auðvitað þekkingu á kjaramálum.  

Öflugt vopn gegn mansali

Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld sýnt áhuga á að efla stórlega baráttuna gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi og það er í takt við þróunina víðast hvar á Vesturlöndum. Ákvæði almennra hegningarlaga um mansal hefur verið breytt í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum og lögregla hefur innleitt sérstakt verklag í málum þar sem grunur er á um mansal. 

Mansal og alvarleg misneyting launafólks er staðreynd á íslenskum vinnumarkaði og vinnustaðaeftirlit ASÍ og stéttarfélaganna sendir reglulega tilkynningar til mansalsteymis lögreglu. Erfiðlega hefur reynst að draga gerendur til ábyrgðar; nýlega var fyrsta mansalsdómi frá árinu 2010 snúið við í Landsrétti og sakborningur sýknaður af ákæru um mansal.  

Með heimsóknum sínum á vinnustaði eru eftirlitsfulltrúar afar vel til þess fallnir að koma auga á vísbendingar um mansal þar sem þær eru. Reynslan sýnir að oft kemst upp um alvarlegustu brotin á vinnumarkaði í vinnustaðaeftirliti enda eru þolendur mansals og annarrar alvarlegrar misneytingar oft ekki í stakk búnir til að leita aðstoðar af sjálfsdáðum.  

Ákveðnir hópar eru berskjaldaðri en aðrir þegar kemur að mansali. Flóttafólk, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fólk sem talar hvorki ensku né íslensku er þar á meðal.  

Í alvarlegustu málunum sem upp koma í vinnustaðaeftirliti er nauðsynlegt að geta átt í öflugu og skilvirku samstarfi við stofnanir ríkisins, t.d. lögregluna, skattinn og Vinnumálastofnun. Vinnustaðaeftirlitið á í góðu samstarfi við ýmsa aðila innan þessara stofnanna en það má gera svo miklu betur! Nauðsynlegt er að tryggja að nægilegt fjármagn sé sett í eftirlit hjá þessum stofnunum og að þær hafi heimildir til að deila upplýsingum með verkalýðshreyfingunni.  

Hvað vantar upp á?

Vinnustaðaeftirlitið hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í baráttunni gegn launaþjófnaði og mansali.  

Eftirlitið byggir á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnumarkaði frá 2010 og var þá ætlað að ná til þeirra greina þar sem hættan á brotum var talin mest; mannvirkjagerð, ferðaþjónustu og veitingarekstur.  

Vinnumarkaðurinn er í sífelldri þróun og nú er orðið brýnt að taka upp og endurskoða samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um vinnustaðaeftirlit. Samkomulagið nær ekki yfir ákveðnar starfsgreinar sem það ætti og þyrfti að gera. Þar má sérstaklega nefna fiskvinnslu, fiskeldi og almennar verslanir.  

Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna eftirlitið megi ekki ná yfir allan vinnumarkaðinn. Gott samfélag getur ekki liðið skipulögð réttindabrot gegn launafólki og hlýtur alltaf að leitast við að verja þau sem höllum fæti standa sökum uppruna, skorts á tengslaneti eða af öðrum sökum.  

Næsta grein Fátækum refsað með loftslagsaðgerðum