Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Fremstar meðal jafningja

Fremstar meðal jafningja

Frá kvennafundi ASÍ. Ljósmyndir/Lárus Karl

 

Í kringum kjaraviðræður í lok síðasta árs bar á gagnrýnisröddum um einsleitni samninganefnda þar sem karlar þóttu áberandi og konur lítið sýnilegar. Ásýndin þótti líkjast myndum frá því á 7. áratug síðustu aldar en ekki nú eftir áratuga jafnréttisbaráttu. Til allrar hamingju endurspeglar þessi ásýnd ekki allan sannleikann því í hreyfingunni starfar fjöldi kvenna bæði í formannsstólum, stjórnum og öðrum trúnaðarstörfum, þó enn séu hlutföllin tæpast ásættanleg í ljósi jafnréttisvitundar nútímans. Fimm konur sem eru formenn í sínum félögum voru teknar tali í tilefni 1. maí og spurðar um stöðu kvenna í verkalýðshreyfingunni og þeirra eigin vegferð til áhrifa.  

  

Orðræðan gegn konum miklu illskeyttari

Nafn: Halldóra Sigríður Sveinsdóttir. 

Staða: Formaður í Bárunni, stéttarfélagi.  

Lengd formannssetu: Frá 2010 til dagsins í dag.

Lífsmottó: Vertu þú sjálfur. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?  

Staða kvenna innan ASÍ er að mörgu leyti sérstök. Sem betur fer hefur staðan breyst og konum fjölgað í forystu félaga á landsvísu og það er mjög jákvætt. Hins vegar er ennþá langt í land að fullu jafnrétti sé náð. Það sem hindrar konur að bjóða sig fram í forystu er að orðræðan gegn þeim er miklu illskeyttari og þær eru oftar en ekki kenndar við einhverja pólítíska flokka, taldar boðberar einhverjar stefnu sem auðveldar að keyra niður mannorð þeirra og kemur þeim ekkert við.  Með öðrum orðum eru þær að mati karlægra sjónarmiða ekki sjálfstæðar heldur boðberar annarra.  Síðan eru þær mun gjarnari að verða fyrir aftökum á netmiðlum ef karllægum sjónarmiðum er ekki fylgt eftir.

Mynd: Halldóra Báran
Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?

Árið 2010 var komið að máli við mig og ég beðin um að taka við formennsku í félaginu. Ég hafði ekki leitt hugann að því en ákvað að slá til eftir smá umhugsunarfrest. Ég er fljót að segja já ef til mín er leitað.  Það kemur manni skemmtilega á óvart hvað þetta er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt starf. Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt til þess að takast á við. Maður hefur kynnst fullt af góðu fólki og eignast góða vini.  

Réttlætiskenndin í blóð borin

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Það eru forréttindi að alast upp í sjávarþorpi eins og Þorlákshöfn. Umræður á mínu æskuheimili voru um fiskveiðar, vinnu við fiskveiðar og kaup og kjör. Við vorum svo lánsöm í skólanum okkar að hafa róttækan vinstri sinnaðan kennara flest grunnskólaárin sem sáði góðum og gildum  fræjum. Réttlætiskenndin er mér í blóð borin og ég hef aldrei getað látið kyrrt liggja ef á einhverjum er brotið. Ég hef verið svo heppin að kynnast mörgu góðu og heiðarlegu fólki. Fyrirmyndir eru margar þá sérstaklega þær sem eru alltaf sjálfum sér samkvæmar, heiðarlegar og góðar manneskjur. Svo einfalt er það. 

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Konum í hreyfingunni hefur ekki auðnast að sýna hverri annari þann styrk sem til þarf til þess að greiða götu annarra kvenna. Þegar Drífa Snædal var hrakin úr embætti heyrðist ekkert frá neinum hópi kvenna innan hreyfingarinnar. Ég hefði  viljað sjá sterka kvennahreyfingu stíga fram og segja „þetta líðum við ekki“ Konur ná ekki að vera fyrirmyndir vegna þeirrar menningar sem hefur viðgengist innan hreyfingarinnar. Það eru þeir sem ná að berja sér á brjóst helst í fjölmiðlum án nokkurrar innistæðu sem eru „hetjurnar“ en ekki þær/þeir sem sannarlega eru hetjurnar.    

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust? 

Hreyfingin, karlar og konur eru flest hugsjónafólk með sterka réttlætiskennd. Það er oftast ekki mikið um ólíkar áherslur heldur ólíka nálgun sem gerir það að verkun að staðan innan hreyfingarinnar verður óstöðug. Í öllum umræðum er nálgun kynjanna oft með ólíkum hætti. Konur vilja skoða málið, lúslesa allt og hafa á hreinu hvernig á að framkvæma hlutina á meðan karlar fara yfir „stóru myndina“. Konur eru almennt ekki stóryrtar.  Kynjahlutföll þurfa að sjálfsögðu að vera sem jöfnust en sum sambönd/félög samanstanda af miklum meirihluta karlkyns félaga sem skekkir að sjálfsögðu heildarmyndina, því miður.  

Fyrsti kvenleiðtogafundur ASÍ

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?   

Það er eiginlega alveg undarlegt að ekki hafi tekist að sameina konur í sterka heild sem hefur rödd. Kvennaráðstefnur hafa verið nokkrar á undanförnum árum en einhvern veginn hefur samstaðan ekki náð flugi sem segir að það er ekki nóg. Eftir síðustu kvennaráðstefnu var ályktun ráðstefnunnar ekki tekin til efnislegrar umræður heldur beittu ákveðnir aðilar öllu sínu valdi til þessa að gera þetta allt ótrúverðugt og marklaust. Fyrsti kvenleiðtogafundurinn var haldinn núna í mars sá fyrsti í sögu ASÍ. Það voru áhugaverðir fyrirlestrar um allt sem við kemur okkur í hreyfingunni. Hvernig við hugsum kynslóð eftir kynslóð og þær hindranir sem okkur er í blóð bornar án þess að taka eftir því. Hvernig „kvenlæg störf“ eru vanmetin þegar kemur að jafnvirði starfa og hvar er sóknarfæri fyrir okkar láglaunaða kvennahópa. Það eru mörg krefjandi verkefni framundan og áskorunir fjölmargar. Kvennleiðtogafundurinn hitti alveg í mark var virkilega hvetjandi, fróðlegur, faglegur og vonandi sá fyrsti af mörgum.  

Fullt af sterkum konum innan hreyfingarinnar

Nafn: Guðbjörg Kristmundsdóttir 

Staða: Formaður VSFK  

Lengd formannssetu: Síðan apríl 2019 

Lífsmottó: Reyni bara að vera besta útgáfan af sjálfri mér. 

   

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?   

Mér finnst staða kvenna innan hreyfingarinnar góð í dag. Hún hefur þó ekki alltaf verið það. Ég hef ekki upplifað það að eiga erfiðara að komast til áhrifa vegna þess að ég er kona. Mér finnst frekar vera horft til einstaklingsins frekar en kyns. Auðvitað eru karla,,klúbbar“ innan hreyfingarinnar eins og annars staðar. En það eru líka kvenna,,klúbbar“. Fólk nær misvel saman og vinátta myndast og fólk sækir í sér líka. Mér finnst það ekki neikvætt. Það eru fullt af sterkum konum innan hreyfingarinnar og ég held að það yrði nú fljótt að heyrast í þeim ef ætti að fara að skipa í eitthvað eða ekki skipa í eitthvað vegna kyns.  

Mynd: Guðbjörg
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð? 

Ég var búin að vinna hjá félaginu í nokkur ár áður en ég gaf kost á mér sem formaður. Mér fannst starfið í hreyfingunni spennandi og áhugavert. Fyrrum formenn voru allir karlmenn en mér fannst fólk almennt jákvætt fyrir því að kona tæki við. Held að fólk hafi ekkert verið að velta fyrir sér kyni. Mér fannst það allavega ekki vera tiltekið sem aðalatriði eða einhver fókus-punktur.  

Fjölbreytnin mikilvæg

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Nei hún var það ekki. Ég vissi ekki einu sinni hvað stéttarfélag var fyrr en ég var orðin fullorðin. Ég fór ekkert að spá í þessi mál fyrr en á fullorðinsaldri og ég þurfti að fara að huga að eigin réttindum.  

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara þessari spurningu. Ég vona að ég sé fyrirmynd einhverra og ef ég get á einhvern hátt greitt götu annarra þá geri ég það. Auðvitað vill enginn að staða kvenna innan hreyfingarinnar fari í það form sem áður var og því er það hlutverk okkar allra að gæta að því að það gerist ekki.  

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust?

Ég held að hver og einn einstaklingur hafi sínar áherslur og sýn. Þvert á kyn. Það er mikilvægt að sem fjölbreyttastur hópur komi að störfunum og sem flestra rödd heyrist.  

Hvatning til áhugasamra

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?    

Það er mikilvægt að vera meðvitaður um stöðu kvenna innan hreyfingunnar og öll vinna því í hag er góð. Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á að hafa áhrif að gera það og það eiga allir að gera það.  

Skiptir miklu að konur komi saman

Nafn: Anna Júlíusdóttir. 

Staða: Tilvonandi formaður Einingar-Iðju 

Lengd formannssetu: Verður sett formaður á næsta aðalfundi 

Lífsmottó: Ég legg mig fram um að gera betur í dag en ég gerði í gær. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?   

Staða kvenna innan hreyfingarinnar er ekki nógu góð, fyrst og fremst er það vegna þess að það eru yfirleitt konur sem sjá um heimilið og 3.vaktina, því hafa þær ekki sömu tækifæri oft á því að sækja fundi og viðburði sem eru utan vanalegs vinnutíma, en oft eru trúnaðarstörf á vegum félaga á þeim tíma. Síðustu ár hefur staðan þó farið batnandi. 

Mynd: Anna Júliusdóttir
Anna Júlíusdóttir, verðandi formaður Einingar-Iðju.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?  

Ég hef verið varaformaður Einingar-Iðju síðan 2012, núverandi formaður er að hætta störfum og þess vegna teljum við hentugt að einstaklingur með reynslu hjá félaginu taki við formannsembættinu, því gaf ég kost á mér. Sú vegferð gekk vel og ég mun reyna mitt besta til að þjónusta félagsmenn vel áfram. Stjórn og starfsfólk félagsins á stóran þátt í því að ég treysti mér í tiltekið hlutverk. 

Sterk stéttarvitund

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Ég ólst upp á Siglufirði og stéttarvitund fólks var mjög sterk. Ég bar mikla virðingu fyrir formanni Vöku á sínum tíma og sýndi verkalýðsbaráttunni áhuga mjög snemma. Ég flutti til Akureyrar 1994 og fór strax að sinna trúnaðarstörfum fyrir Einingu, síðar Einingu-Iðju.  

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Já, ég tel það mitt hlutverk að stuðla að því að konur fái sömu tækifæri og karlmenn í verkalýðshreyfingunni. Ég hef og mun halda áfram að hvetja konur til að taka þátt ! 

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust?  

Vinnan er sú sama hvort sem karl eða kona eru að sinna þessu starfi, við erum öll sammála um að hlutverk okkur er að berjast fyrir bættum lífskjörum í landinu. Hvernig við gerum það getur verið misjafnt en ekki endilega vegna hvers kyn við erum, frekar hvernig hver og einn einstaklingur er. Ég tel mikilvægt að við reynum að hafa konur jafnt sem karla í að sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið, sýnin þarf að koma frá sem fjölbreyttasta hópnum.  

Mikilvægt að konur komi saman

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?  

Já það skiptir miklu máli að konur komi saman og fái hvatningu og styrk frá hverri annarri, þær sem eru búnar að vera lengi í verkalýðshreyfingunni eru innblástur fyrir yngri konur og geta vakið áhuga þeirra fyrir málefnunum, sem verður til þess að fleiri konur láta til sín taka.   

  

Þurfum hæfasta fólkið, ekki kynjakvóta

Nafn: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir.  

Staða: Formaður AFLs Starfsgreinafélags.  

Lengd formannssetu: Formaður frá 2. maí 1993. 

Lífsmottó: Stefna beint af augum. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?      

Ef við horfum á umhverfi aðildarsambanda ASÍ er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar misjöfn, til að mynda eru í 19 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins 9 konur og 10 karlar formenn. Þessi félög eru blönduð körlum og konum og hlutfall kynja ca 40- 60%  í báðar áttir 

Ef við lítum hins vegar á aðildarfélög Landssambands íslenskra verslunarmanna sem saman stendur af 3 verslunarmannafélögum og  7 deildum, þá eru allir 3 formennirnir karlar í hreinu verslunarmannafélögunum þrátt fyrir að mun stærri hluti félagsmanna sé konur. 

 

Mynd: Hjördís Þóra
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs Starfsgreinafélags

Í stærsta félagi verslunarfólks VR, er nýlega lokið formannskosningu milli karls og konu. Þar hefur, eftir því sem ég best veit ein kona verið formaður í langri sögu félagsins. Hún sat 2  kjörtímabil og það var m.a. notað í kosningabaráttunni gegn henni að laun hennar væru of há. Það segir okkur ýmislegt. 

Ég tel það ekki erfiðara fyrir konur að komast til áhrifa í hreyfingunni en að það sé erfiðara fyrir þær að komast að sem formenn, sérstaklega í félögum þar sem konur eru í meirihluta  sem virðast frekar kjósa karla séu þeir í boði sbr VR, KÍ  félög leikskólakennara og mögulega fleiri. Það má hins vegar ekki skilja mig á þann veg að það eigi að kjósa konur fram yfir karla bara af því að þær séu konur, heldur þann einstakling sem þú treystir best til að leiða verkefnið. 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?    

Ég var trúnaðarmaður á mínum vinnustað, þá fór ég að meira að velta kjaramálum fyrir mér, var fyrst kosin sem varamaður í stjórn félags – svo stjórn og fljótlega varaformaður. Þegar þáverandi formaður flutti búferlum fannst mér ekki annað í stöðunni en að slá til og gefa kost á mér í formennsku. Síðan eru liðin 30 ár og 2 stórar sameiningar á Austurlandi að baki, fyrst 1999 þegar 4 félög á suðursvæðinu sameinuðust, þá sóttist ég eftir formennsku í nýja félaginu og aftur 2007 þegar núverandi AFL var stofnað með frekari sameiningum. Enn á ný sóttist ég eftir því að leiða það félag. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að hafa kjark, þora að taka ábyrgð og að stíga fram á réttum tíma. 

Treysti á hyggjuvitið

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Ég er sveitastelpa og þar voru kjaramál út frá sjónarhóli launafólks aldrei rædd og nei, ég á mér enga fyrirmynd í baráttunni, hef rekið hana á hyggjuvitinu fyrst og fremst. 

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa? 

Nei ég hef aldrei leitt hugann að því en hef auðvitað hvatt bæði konur og karla til að taka þátt í starfi félagsins og hreyfingarinnar.

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust? 

Ég held að það skipti mestu máli úr hvaða umhverfi fólk kemur, flestir ef ekki allir formenn aðildarfélaganna SGS koma beint af gólfinu eins og það er kallað, hafa baslað við  að koma sér upp húsnæði og haft lítið á milli handanna og þekkja það af eigin raun. Það skiptir máli að geta sett sig í spor félagsmannsins en ég er ekki hlynnt kynjakvótum almennt, því að við þurfum á því að halda að velja hæfasta fólkið hverju sinni. Margar konur í hreyfingunni hafa allt aðrar áherslu en ég og það tel ég gott, við þurfum fjölbreyttan hóp með misjafna sýn á hin ýmsu mál. 

Formennska ekki fjölskylduvæn

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?  

Já, ég tel það af hinu góða til að stappa stálinu í konur sem þess þurfa en konur jafnt sem karlar þurfa að byrja heima fyrir, t.d á vinnustaðnum, gefa kost á sér sem trúnaðarmaður, - í trúnaðarráð félagsins – samninganefnd- stjórn ef metnaður og áhugi er fyrir því. 

Formennska í stéttafélagi er ekki fölskylduvænt hlutverk, sérstaklega ekki þegar félagssvæðið er víðfeðmt og fjarri höfuðborgarsvæðinu þar sem megnið af samstarfinu fer fram og það reyndist oft erfitt að samræma þetta tvennt. Ég held að það sé bara almenn erfitt að samræma fjölskylduábyrgð og félagsstörf sem kalla á vinnu utan hefðbundins vinnutíma. 

 

 

Jöfn tækifæri allra til að sinna trúnaðarstörfum

Nafn: Silja Eyrún Steingrímsdóttir.  

Staða: Formaður Stéttarfélags Vesturlands.  

Lengd formannssetu: Nýtekin við sem formaður.  

Lífsmottó: Lífið er núna & Njóta ekki þjóta.  

  

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?     

Ég tel að staða kvenna sé ekki slæm innan verkalýðshreyfingarinnar og það skynja ég til dæmis frá síðustu kvennaráðstefnu sem var haldin á Hótel Hamri á vormánuðum 2022 og þeirri framhaldsvinnu sem hefur átt sér stað eftir þann fund. Þar voru saman komnar fjöldinn allur af sterkum konum sem vilja láta heyra í sér. Ég held það sé aðeins erfiðara fyrir konur að komast til áhrifa innan hreyfingarinnar og þær þurfa meira að stappa niður fæti og taka plássið sem er ekki alltaf auðvelt. En ég held að hluti vandans sé líka að þær séu ragar við að gefa kost á sér og ég hvet kynsystur mínar til að segja já og þora. Ég er þakklát þeim konum sem hafa rutt brautina fyrir okkur sem yngri erum og við eigum að halda áfram á þeirri leið að gefa konum pláss.  

 

Mynd: Silja Eyrún Vesturland
Silja Eyrún Steingrímsdóttir, formaður Stétttarfélags Vesturlands.

En eftir að hafa fylgst með fjölmiðlum í nokkurn tíma þá finnst mér almenningur og sérstaklega konur oft verri og dómharðari við konur en karlmenn sem eru að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa og velti því fyrir mér af hverju það er og hvort sama fólk myndi segja þetta við viðkomandi einstakling úti á götu og það leyfir sér að segja í kommentakerfinu. Konur sem hafa hátt og láta á sér bera eru oft hart dæmdar og ég skil mjög vel að konur séu ekki tilbúnar til að setja sína persónu inn í slíka umræðu enda eru flestar þær konur sem ég hef kynnst í kringum hreyfinguna þarna af heilum hug og hjarta að berjast fyrir bættum kjörum fyrir alla.  

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?  

Þetta er svona eitt af því sem ég lenti „óvart“ í eins og stundum gerist í lífinu. Ég sótti um tímabundið starf sem skrifstofustjóri hjá Stéttarfélagi Vesturlands fyrir tæpum 8  árum sem síðan ílengdist og hér er ég enn. Þegar fráfarandi formaður ákvað að gefa ekki kost á sér áfram var leitað til mín og kannaður minn áhugi á því að verða formaður. Eftir að hafa legið undir feld í smá tíma ákvað ég að stíga út fyrir þægindarammann og gefa kost á mér enda fannst mér það vera góð þróun með þá reynslu sem ég er með í farteskinu frá síðustu árum.  

Sú vegferð gekk vel og mér hefur fundist fólk taka vel í þessar breytingar. Það kom ekkert mótframboð svo listi trúnaðarráðs var sjálfkjörinn.  

Móðirin er fyrirmyndin

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?   

Já og nei, hörð verkalýðsbarátta var ekkert partur af lífinu þegar ég var ung en umræðan um kaup og kjör, atvinnuöryggi, verkföll og fleira var oft tekin á heimilinu, sérstaklega við pabba. 

Pabbi var iðnaðarmaður og starfaði í járnblendinu þegar ég var að alast upp. Hann var með mjög sterka réttlætiskennd og verkalýðssinnaður. Ég man eftir að hafa farið með honum í 1.maí kröfugöngur á Akranesi þar sem ég ólst upp sem ég skildi kannski ekki alltaf þá og svo fór maður bara beint í bíó í boði verkalýðsfélaganna. Mamma er bankastarfsmaður og í dag viðskiptafræðingur og hún var í mörg ár trúnaðarmaður á sínum vinnustað.  

Foreldrar mínir skildu þegar ég var 12 ára og mamma var mjög dugleg að bæta við sig menntun með vinnu til að geta framfleytt okkur systkinunum sem einstæð móðir. Hún hefur alltaf verið mín fyrirmynd í lífinu enda var ég harðákveðin, eftir að fylgjast með hennar vegferð, að halda áfram í námi eftir grunnskólann. Mamma kláraði stúdentinn þegar ég var að byrja í framhaldsskóla og svo viðskiptafræðina stuttu eftir að ég lýk minni BA gráðu.  

Ég get samt ekki sagt að ég hafi átt einhverja eina sérstaka fyrirmynd sem voru í baráttunni opinberlega þegar ég var ung heldur hef ég frekar meira litið upp til og horft til allskonar fólks sem er að gera vel.  

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?   

Já, ég lít á mig sem fyrirmynd og vonandi mun mitt starf leiða til þess að aðrar konur hafi áhuga á að taka þátt. Verkslýðsbaráttan snertir okkur öll og hún hófst fyrir meira en 100 árum síðan og lýkur aldrei. Við þurfum því að gera unga fólkið okkar meðvitað og fræða það áfram. Ég tel svo sannarlega að hafa konur í áberandi stöðum inn í hreyfingunni komi til með að halda áfram að greiða götur ungra kvenna sem hafa áhuga.  

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust?  

Ég tel að allir formenn burt séð frá kyni séu að berjast fyrir því sama en hafa auðvitað mismunandi skoðanir eins og þeir eru margir. En mögulega hafa konur aðra sýn heldur en karlar og ég held það sé ekkert óeðlilegt við það, kynin eru ólík. Auðvitað skiptir máli að hafa allskonar fólk sem brennur fyrir málefninu í áhrifastöðum innan hreyfingarinnar því við erum að þjónusta stóran, breiðan hóp og því eðlilegt að forystan endurspegli hann. Það er ekki gott að hafa of einsleitan hóp með einsleita sýn. Mér finnst kyn ekki eiga að skipta máli og allir eiga að fá jöfn tækifæri til að sinna þessum trúnaðarstörfum.  

Konur efli tengslanetið

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?    

Já, ég held það skipti öllu máli. Það að hittast og sjá aðrar konur sem eru í sömu stöðum, með sama áhugann á verkalýðsmálum og bera saman bækur sínar er gulls í gildi. Ég held það hjálpi líka að spegla sig í öðrum konum sem eru að gera það sama og þú. Þá skiptir líka máli að konur efli tengslanet sitt og því finnst mér að öll félög eigi að upplýsa konur innan sinna félaga um þetta kvennastarf.