Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Myndlistin og sjálfsmynd þjóðar

Myndlistin og sjálfsmynd þjóðar

Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, og Elísabet Gunnarsdóttir, safnsstjóri. Ljósmynd/Lárus Karl

 

 

Listasafn Alþýðusambands Íslands og fræslusvið Alþýðusambandsins vinna nú að merku verkefni sem felst í að virkja samtal milli innfæddra Íslendinga og innflytjenda með hjálp myndlistar. Þær Elísabet Gunnarsdóttir og  Aleksandra Leonardsdóttir segja frá jafningjafræðslu og viðleitni til að örva áhuga á menningu Póllands og Íslands.  

 

VERKALÝÐSHREYFINGIN hefur í gegnum tíðina verið málsvari þeirra sem litla rödd hafa í samfélaginu. Alþýðusamband Íslands er fjöldahreyfing þúsunda launafólks og oft eru vinnustaðir og stéttarfélög fyrsta snerting innflytjenda við íslenskt samfélag. Síðastliðin ár hefur um fimmtungur launafólks verið af erlendum uppruna og þar eru pólskir innflytjendur langstærsti hópurinn. Pólverjar á Íslandi er fjölbreyttur hópur og tenging þeirra inn í íslenskt samfélag er missterk. Sömuleiðis er tilhneiging í íslensku samfélagi að líta á innflytjendur sem farfugla eða tímabundið vinnuafl.   

Ein helsta áskorunin í þessu samhengi er tungumálið og stundum virðist sem bæði Íslendingar og innflytjendur bíði eftir einhverjum töfralausnum í þeim efnum. En þó tungumálið sé mikilvægt þá er margt fleira sem þarfnast athygli og þar er menningarlæsi ofarlega á lista. Það er tilfinnanleg þörf fyrir fræðslu til handa báðum hópunum og aðkallandi að skapa hlutlausan vettvang sem hvetur til jafningjafræðslu, örvar tjáningu og samtal. Það vantar vettvang sem ýtir undir áhuga á fjölbreyttri menningu og tungumálum þessara tveggja þjóða. 

Mynd: Dziwny Ogród
Furðulegur garður (1902-03) eftir Józef Mehoffer (1869-1946). Verkið er í safneign Þjóðminjasafnsins í Varsjá.

Sjálfsmynd, sjálfsálit, sjálfstraust

Sjálfsmynd er hugtak sem hefur sína merkingu í listum, samfélagsfræði og sálfræði. Það er heildarhugmynd einstaklings um sjálfan sig. Þar koma við sögu fjölmargir þættir, s.s. persónuleiki, áhugamál, skoðanir, gildismat, uppruni, kyn, aldur, störf, eigin saga o.s.frv. Sjálfsmyndin er þannig byggð upp af fjölmörgum atriðum sem við teljum eiga við um okkur. Sjálfsmynd er flókið fyrirbæri og hefur áhrif á sjálfsálit okkar og sjálfstraust og á sér mismunandi birtingamyndir sem oft er ekki hægt að skilja án þess að hafa innsýn í þá sögu og menningu sem liggur að baki. 

Listamenn tjá sig á marga mismundi vegu. Tjáningin opinberar tilfinningar og upplifanir þeirra og segir í leiðinni sögu þess tíma sem verkin eru sköpuð. Þessar sögur endurspegla oft stöðu samfélagsins og veita innsýn inn í þann veruleika sem listamaðurinn bjó við þegar verkin urðu til. 

 

Þannig getur myndlistarsagan hjálpað okkur að skilja okkar eigin rætur, útskýrt sjálfsmyndina. Allar þjóðir eiga sín frægu verk sem allir kunna að nefna. Þessi verk vekja ákveðnar tilfinningar, stolt, gera fólki kleift að tilheyra einhverjum hópi og gefa innsýn inn í okkar eigin sögu sem þjóð á meðal þjóða.  

List er hins vegar eitthvað sem allir mega hafa skoðanir á, en fáir þora að láta þær uppi. Fæstir telja sig hæfa til að tjá sig af einhverju viti um list. Við gerum þá kröfu til sjálfra okkar að vita eitthvað, búa yfir fagþekkingu, læra meira, áður en við tjáum okkur um það.  

Sama gildir hvort við höfum flutt frá Raufarhöfn til Akureyrar, höfum alltaf búið á sama stað, eða höfum nýlega flutt frá öðru landi eða annarri heimsálfu. Við erum óörugg þegar kemur að því að fjalla um myndlist. Í þessu erum við nokkuð jöfn. 

Samtal um tvo myndlistarheima

Elísabet Gunnarsdóttir, safnsstjóri Listasafnsins ASÍ, hafði lengið unnið með þá hugmynd að virkja samtal milli innfæddra Íslendinga og innflytjenda með hjálp myndlistar. Listasafn ASÍ geymir margar af perlum íslenskrar myndlistar frá síðustu öld og safnið var stofnað í þeim tilgangi að færa myndlistina til almennings í landinu. Hugmyndin vakti athygli Aleksöndru Leonardsdóttur sem var þá nýráðin til starfa á fræðslusviði ASÍ en hún er sjálf af pólskum uppruna. Þær þróuðu hugmyndina áfram í samstarfi og fengu ómetanlega aðstoð frá Wiolu Ujazdowsku, sem er pólsk listakona og myndlistafræðingur og veitti leiðsögn um ríka myndlistarsögu Póllands. 

Kjarninn í verkefninu er myndlist tveggja ólíkra, en þó um margt líkra menningarheima þar sem við teflum saman myndlistarheimunum tveimur. Verkin í stofngjöf Ragnars í Smára til ASÍ 17. júní 1961 segja sögu Íslendinga þegar þjóðin vann að því að móta samfélag sem sjálfstæð þjóð. Wiola Ujazdowska lagði sitt af mörkum með því að notast við nokkur mismunandi þemu, velja pólsk verk og para þau saman við íslensk verk úr safneign Listasafns ASÍ.

Persónulegar upplifanir

Í fyrsta áfanga verkefnisins hafa verið búin til fjögur stutt myndbönd þar sem sagt er frá tveimur verkum, einu verki úr safneign Listasafns ASÍ og einu pólsku verki frá svipuðum tíma eða í sama þema. Til að fjalla um verkin fengum við félaga í aðildarfélögum ASÍ af pólskum og íslenskum uppruna sem flestir höfðu lítið lært eða skapað myndlist. Þátttakendur fengu stuttan texta til undirbúnings með staðreyndum eins og upplýsingum um höfund viðkomandi verks og tilurð þess. Auk þess voru verkin sett í samhengi við listasöguna og samfélagið á þeim tíma sem verkin voru sköpuð. Þátttakendur öfluðu sér líka upplýsinga sjálfir og voru svo beðnir um að fjalla um staðreyndirnar og persónulega upplifanir í sambandi við verkin fyrir framan myndavélina. Heimildarmyndirnar má finna á heimsíðu safnsins - www.listasafnasi.is

Hér er hlekkur á heimildarmynd þar sem Gróa Sigurbergsdóttir og Ilona Piech fjalla um verk Kjarvals og Mehoffer.  

Mynd: Kjarval
Þingvellir (1960-62) LA-282 eftir Jóhannes S. Kjarval (1885-1972).

Fræðsla með hjálp myndlistar

Nú færum við okkur áfram í annan áfanga. Það stendur til að bjóða upp á námskeið á vegum Félagsmálaskóla Alþýðu þar sem stiklað verður á stóru um íslenska myndlistarsögu og samfélagsmótun og hún borin saman við það sem var að gerast í myndlist og pólsku samfélagi á svipuðum tíma. Haldnir verða fyrirlestrar, unnin verkefni og hvatt til jafningjafræðslu, samanburðar og samræðna með myndlistina að leiðarljósi.  

Næsta grein Áfram stelpur!