Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Réttlæti, jöfnuður, velferð

Réttlæti, jöfnuður, velferð

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. Myndir/Lárus Karl.

 

Kæru félagar og landsmenn allir, 

Bætt kjör láglaunafólks hafa löngum verið einn af hornsteinum þeirrar baráttu sem Alþýðusambandið heldur uppi almenningi í landinu til heilla. Á þessum degi launafólks sem við höfum kosið að tengja þessu sinni því verkefni okkar að tryggja réttlæti, jöfnuð og velferð á Íslandi hlýtur athyglin að beinast að viðkvæmustu hópum samfélagsins nú þegar verðbólga geisar með tilheyrandi hækkunum á vöru, þjónustu og vöxtum. Ástandið er um margt ískyggilegt og í mínum huga er enginn vafi á að verkalýðshreyfingin þarf að treysta samstöðuna í komandi átökum við öfl sem engan áhuga sýna á að létta þeim lífsbaráttuna sem höllum fæti standa.  

Forystufólki núverandi ríkisstjórnar verður tíðrætt um „stöðugleika” og viðhald hans var á sínum tíma sögð helsta röksemd fyrir samvinnu þeirra þriggja flokka sem að henni standa. Líkt og almenningur veit og finnur á eigin skinni hefur „stöðugleiki” ekki verið fyrir hendi um talsvert skeið í efnahagsmálum þjóðarinnar.  

Seðlabanki Íslands hefur tekið u-beygju í vaxtastefnu sinni með þeim afleiðingum að fasteignakaupendur neyðast til að leita á ný í verðtryggð lán. Eftir mikla og hraða lækkun vaxta sem gerði óverðtryggð lán að fýsilegum kosti í augum margra fasteignakaupenda hefur bankinn ítrekað hækkað vexti með hrikalegum áhrifum fyrir afkomu fjölda fólks. Höfum í huga að því fer fjarri að áhrif vaxtahækkana séu fram komin af fullum þunga; á næstu misserum mun greiðslubyrði margra aukast gríðarlega þegar breytilegir vextir óverðtryggðra lána verða uppfærðir. Verðbólga og vaxtahækkanir rata iðulega beint inn í leiguverð húsnæðis og er nú svo komið að margir leigjendur eiga í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman.  

Neyðarástand í húsnæðismálum

Við bætist síðan húsnæðisskortur sem vitanlega bitnar verst á þeim sem lökust hafa kjörin; ungu fólki, einstæðum foreldrum, öryrkjum, kaupendum fyrstu fasteignar, aðfluttu verkafólki og leigjendum. Margt launafólk býr í atvinnuhúsnæði við aðstæður sem beinlíns geta ógnað lífi þess líkt og alþekkt er. Á opinberum vettvangi þykir nú sjálfsagt og eðlilegt að ræða ágæti þess að koma upp gámabyggðum á jaðarsvæðum. Félagslegar afleiðingar slíkrar „húsnæðisstefnu” virðast ekki eiga erindi á dagskrá þjóðmálaumræðu. 

Alþýðusambandið hefur lengi haldið fram því sjónarmiði að örugg búseta - húsnæðisöryggi - falli undir mannréttindi. Telja eigi húsnæði nauðsyn en ekki fjárfestingu. Því beri að laga húsnæðiskerfið og stuðning innan þess að þörfum fólks en ekki auðmagns. Við höfum lagt til „leigubremsu” sem í einfölduðu máli felur í sér skilyrðingar við hækkun leiguverðs húsnæðis. Við höfum vakið máls á „tómthúsgjaldi” þannig að eigendur íbúðarhúsnæðis sem ekki er í notkun fái hvata til að setja það á leigumarkað en greiði gjald ella. Að auki höfum við kynnt ráðstafanir til að vinna gegn því að fjármagnseigendur sanki að sér íbúðarhúsnæði til útleigu og nýti sér neyð fólks. 

Verkalýðshreyfingin hefur ekki látið sitt eftir liggja í húsnæðismálum og má þar minna á Bjarg íbúðafélag og glæsilegt framtak VR sem hafið hefur framkvæmdir vegna fjölbýlishúsa með leiguíbúðum fyrir félagsfólk í Úlfarsárdal. Ástæða er til að binda vonir við frekari umsvif stéttarfélaga á þessu sviði.  

Ofantalin atriði gætu verið liður í heildstæðri húsnæðisstefnu til lengri tíma. Á henni bólar ekki þótt ljóst sé að ekki verður sigrast á vandanum án beinnar aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Þá aðkomu verður að setja í beint samhengi við öra fjölgun landsmanna, einkum aðkomufólks, og spár um þörf fyrir vinnuafl í landinu til næstu ára. Unnið er að því að auðvelda fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins að koma hingað til lands til starfa. Hvar á það ágæta fólk að búa? Bíða gámabyggðir þess? 

Staðan verður enn verri þegar allt bendir til að áform um mikla fjölgun íbúða verði ekki að veruleika sökum mikils fjármagnskostnaðar og skorts á lóðum undir nýbyggingar. Ekki verður betur séð en að mörg sveitarfélög megni ekki að tryggja nægt framboð lóða og er það vissulega rannsóknarefni að þau séu ekki fær um að uppfylla grunnskyldur sínar við borgarana og standa við gefin fyrirheit.  

Ljóst er að í algjört óefni stefnir í húsnæðismálum verði ekki brugðist hratt við vandanum. 

Ófremdarástand í húsnæðismálum er eins og samnefnari fyrir það áhugaleysi um kjör fólksins í landinu sem einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar og margra sveitarfélaga. Erlendis frá hafa á síðustu misserum borist fréttir af margháttuðum aðgerðum yfirvalda til að bregðast við afkomukreppunni sem einkum er til komin sökum verðbólgu, mikilla hækkana á orkuverði og matvöru. Bein inngrip til að lina höggið hafa verið reglan í flestum ríkjum í okkar heimshluta. 

Hér á landi hefur ríkisstjórnin gripið til aðgerða sem beinlínis hafa orðið til þess að skerða kjörin enn frekar. Nefna má skatta- og gjaldahækkanir um síðustu áramót sem í senn rýrðu kaupmátt beint og juku verðbólgubálið. Vitanlega bitnuðu þessar aðgerðar harðast á láglaunafólki líkt og jafnan áður en er jafn óásættanlegt og áður.  

Bein inngrip t.a.m. í formi skattalækkana á eldsneyti og matvöru hafa ekki komið til greina. Þess í stað er landsmönnum boðið upp á lítt útfærða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem boðaðar eru yfirferðir” og „endurskoðanir” af margvíslegum toga.  

Ekkert er þar að finna sem bætt getur hag heimila landsins á næstu mánuðum. Beinar aðgerðir til lækkunar verðbólgu eru ekki kynntar til sögu. Tilfærslukerfi velferðarsamfélagsins eru fjársvelt. Engin áform eru uppi um að bregðast við miklum vaxtamun, okri og yfirgangi banka sem þvert á málflutning ráðamanna hafa sogað til sín allan ávinning af lækkun bankaskatts.  Fjármögnun útgjalda er í skötulíki og enn á ný neita ráðandi öfl að verða við sjálfsagðri kröfu um að þjóðin fái notið afraksturs auðlinda í hennar eigu. Ofurlaun og fjármagnstekjur verða ekki skattlögð frekar. 

Sinnuleysi og vantraust

Rétt eins og gildir um húsnæðismálin opinberar fjármálaáætlunin sinnuleysi stjórnvalda gagnvart afkomukreppu launafólks, kaupmáttarhruni og verðbólgu. Þetta er mikið áhyggjuefni og víðfeðmt. Deila stjórnmálamenn ekki lengur kjörum með almenningi í landinu? Kannanir leiða í ljós minnkandi traust í garð Alþingis og fleiri grunnstofnana samfélagsins. Tengist sú afstaða einhvers konar rofi í sambandi ráðafólks og borgara? Furðu vekur að ekki fari fram meiri umræða um þá afstöðu almennings sem kannanir á trausti birta. 

Ágætu félagar, 

Í síðustu kjarasamningum sem eru til skamms tíma náðum við ágætum árangri. Afl verkalýðshreyfingarinnar birtist þar viðsemjendum okkar og landsmönnum öllum. Senn fer í hönd ný lota kjaraviðræðna og í því efni hefur almennt verið horft til lengri samninga. Óvissan sem réði því að samið var til skamms tíma hefur á hinn bóginn ekki minnkað. Færa má rök fyrir því að hún hafi þvert á móti aukist ekki síst sökum framgöngu stjórnvalda sem vekur í senn vonbrigði og furðu. Við þessar aðstæður verður ekki sagt að langtímasamningar birtist okkur sem fýsilegur kostur.  

Eins og ég hef hér rakið stendur launafólk á Íslandi frammi fyrir miklum áskorunum, réttnefndum tímamótum, sem kalla á samstöðu okkar og styrk, jafnvel umfram það sem við höfum lengi þekkt. Forsendur velferðar eru réttlæti og jöfnuður. Gegn gildum þessa baráttudags okkar standa öfl sem færa sér í nyt minnsta ágreining í okkar röðum í því skyni að veikja hreyfingu launafólks hér á landi.  

Verkalýðshreyfingin er stærsta afl framfara í samfélagi okkar. Við hugsum með þakklæti og virðingu til þeirra sem á undan okkur fóru; baráttu þeirra, hugsjóna, samstöðu og fórna. Horfum bjartsýn og baráttuglöð til þeirra verkefna sem við okkur blasa og strengjum þess heit að gefa hvergi eftir í baráttu okkur fyrir réttlæti, jöfnuði og velferð á Íslandi.  

Til hamingju með daginn! 

 

Næsta grein Segjum frá sigrunum