Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Vörður til framtíðar

Vörður til framtíðar

Kristín Heba Gísladóttir (t.v.) ásamt Mayu Staub, samstarfskonu sinni. Ljósmynd/Lárus Karl

 

Varða-Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins er samvinnuverkefni ASÍ og BSRB. Varða rannsakar hagi og lífskjör launafólks á Íslandi og á nána samvinnu við stéttarfélögin sem nýta niðurstöðurnar í starfi sínu.  Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, segir frá starfseminni og þeim áherslum sem liggja henni til grundvallar.

KANNANIR Vörðu - Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á stöðu launafólks í landinu hafa vakið verðskuldaða athygli og viðbrögð. Frá því að fyrsta könnunin birtist í febrúar 2021 hefur vegur þessarar litlu stofnunar farið vaxandi og er nú svo komið að hún hefur öðlast bolmagn til frekari og dýpri rannsókna sem nýtast munu launafólki og verkalýðshreyfingunni í viðleitni til að bæta lífsskilyrði alþýðu manna. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, segir í samtali við Vinnuna að áhugaverð verkefni séu fram undan og ástæða sé til að horfa bjartsýnum augum fram á veg.

Varða var stofnuð í maímánuði árið 2020 en þær Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Drífa Snædal, þáverandi forseti Alþýðusambands Íslands, höfðu haustið áður staðfest samkomulag um að koma á fót rannsóknarstofnun íslenska vinnumarkaðarins. Kristín Heba Gísladóttir er fyrsti framkvæmdastjóri Vörðu og leggur hún áherslu á að þær Drífa og Sonja Ýr sem hún kallar „mömmur Vörðu” hafi ásamt stjórninni haft skýra mynd frá upphafi um hvert stefnumiðið væri og hvernig hátta bæri starfseminni; gott og þaulhugsað veganesti stofnendanna hafi skipt miklu um þann árangur sem náðst hefur.

Nú hafa niðurstöður þriggja rannsókna á högum launafólks verið birtar. Kristín Heba segir rannsóknirnar geyma mikilvæg töluleg gögn um lífsskilyrði félagsfólks í víðu samhengi innan BSRB og ASÍ. Nýbreytnin við kannanir þessar er að þær eru ætlaðar öllu félagsfólki innan þessara stóru landssambanda þar sem saman koma ólíkir hópar. Jafnan hafa fengist um 10.000 svör og er óvanalegt að kannanir hér á landi byggi á svo miklum fjölda. Til marks um vaxandi áhuga félagsfólks er að í nýjustu könnun Vörðu, tóku 14.240 manns þátt.

Í könnunum Vörðu er sjónum beint að þeim málum sem forystufólk í verkalýðshreyfingunni er sífellt að fá inn á sitt borð. Þetta er fólk í nánu sambandi við sitt félagsfólk og hefur almennt góða tilfinningu fyrir stöðu mála. „Það er síðan verkefni Vörðu að leiða þennan veruleika í ljós og sannreyna hann,” segir Kristín Heba og útskýrir að þannig myndist mikilvæg tenging varðandi áherslur milli Vörðu og þeirra félaga og hópa sem hún þjónar. Jafnframt sé mikilvægt að verkalýðshreyfingin þróist í takt við samfélagið. Þannig sé það nú viðtekin krafa þegar rætt sé um afkomu og líðan fólks að krafist sé gagna.

Erfið staða láglaunahópa

Verkalýðshreyfinguna hefur sárlega skort þessar upplýsingar en nú hafa rannsóknir Vörðu varpað ljósi á afkomu og erfiða stöðu tiltekinna hópa launafólks. Þannig hefur komið í ljós að margt launafólk neyðist til að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar og jafnframt hafa kannanir þessar varpað skýru ljósi á erfiða stöðu leigjenda, kvenna, einstæðra foreldra og innflytjenda. „Okkur hefur tekist að fá fram skýra mynd af stöðu einstakra hópa. Með þessi gögn í handraðanum getur verkalýðshreyfingin mótað áherslur sínar og undirbyggt málstað sinn. Um leið fá stjórnvöld mikilvægar upplýsingar en það er svo vitanlega undir hælinn lagt hvort og hvernig þau bregðast við framkomnum upplýsingum,” segir Kristín Heba.

Hún vekur einnig athygli á að með árlegum könnunum fáist meira og betra samhengi í rannsóknir af þessum toga. Könnun hverju sinni mæli „punktstöðuna” þ.e. stöðuna eins og þátttakendur hverju sinni lýsa henni. Þá megi auðveldlega bæta við eða breyta spurningum í samráði við stéttarfélögin. Úr þessari stóru könnun geta einstök félög innan ASÍ og BSRB fengið upplýsingar um hag sinna félaga og hefur sú þjónusta fengið góðar viðtökur. Þannig geta einstök stéttarfélög einnig fengið upplýsingar um stöðu sína og félagsmanna í samanburði við önnur félög sem nýst getur vel við að móta stefnu og áherslur.

Kristín Heba nefnir auk þess að stofnunin vinni rannsóknir fyrir aðildarfélög innan ASÍ og BSRB og nefnir sem dæmi nýlega könnun á starfsskilyrðum lögreglumanna sem Varða vann fyrir landssamband þeirra. „Þetta eru sérlega áhugaverð verkefni fyrir okkur. Þarna erum við að vinna með gögn sem varða raunveruleika stéttar sem við þekkjum ekki. Margt kemur á óvart og oft eru niðurstöður í slíkum rannsóknum sláandi og áhrifamiklar.”  

Mikilvæg sérstaða stéttarfélaga

Framkvæmdastjórinn leggur áherslu á þá sérstöðu rannsókna Vörðu að þær nái öðrum könnunum betur til láglaunafólks og innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. „Við höfum fengið mjög góða svörun frá erlendu launafólki í landinu þar sem rúmur fimmtungur svaranna kemur frá því. Þetta teljum við gífurlega mikilvægt því reynslan hér sem annars staðar sýnir að það er erfitt að leiða veruleika þessa aðkomufólks í ljós. Kannanir hér á landi eru nær allar úrtaksrannsóknir þar sem þátttakendur eru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Við ákváðum að framkvæma þýðisrannsóknir þannig að allir félagar innan BSRB og ASÍ, um það bil 140.000 manns, geta tekið þátt. Með þessu móti fá hópar á borð við innflytjendur á vinnumarkaði rödd,” segir Kristín Heba.

Góða þátttöku innflytjenda skýrir framkvæmdastjórinn helst á þann veg að þar ráði sérstaða stéttarfélaganna í íslensku samfélagi miklu. „Stéttarfélögin eru öllum öðrum fremur í samskiptum við innflytjendur. Mörg þeirra hafa lagt mikla vinnu í að ná til þessa fólks og vilja sinna öllu sínu félagsfólki. Varða nýtur afraksturs þessa góða starfs,” segir Kristín Heba og bætir við að innflytjendum sé einnig hugað um að fá rödd í samfélaginu og koma á framfæri sínum veruleika sem hefur sýnt sig að er að frábrugðinn innfæddra.

Sú gagnrýni hefur komið fram að rannsóknir Vörðu sýni úr hófi fram dökka mynd þegar kemur að afkomu þeirra sem lægstra launa njóta. Þá hefur því verið haldið fram að þátttaka sé ekki nóg til að unnt sé að draga víðtækar ályktanir. Þessu andmælir framkvæmdastjórinn og tekur skýrt fram að hugsunin hafi alla tíð verið sú að ná til sem flestra. Reynslan sýni að úrtakskannanir nái betur til sumra samfélagshópa en annarra. Tíu þúsund svör séu ef til vill ekki hátt hlutfall þegar horft sé til heildarfjöldans en á móti komi að fjöldi svara sé fátíður í íslenskum rannsóknum. Forráðamenn Vörðu séu stoltir af því hversu vel hafi tekist til við að ná til hópa sem almennt fái ekki tilhlýðilega athygli. Góð þátttaka innflytjenda og útlendinga leiði fram upplýsingar um stöðu og veruleika fólks sem fram til þessa hafi verið hulin og lítt sinnt. „Svo virðist sem þessi veruleiki komi ýmsum á óvart og viðkomandi eigi erfitt með að meðtaka að staðan sé þessi. Þeir sem þannig tala eru einfaldlega ekki í góðum tengslum við líf lágtekjufólks í landinu,” segir Kristín Heba.

Hagir fjölskyldu og barna

Varða þarf að fjármagna rannsóknir sína með rannsóknarstyrkjum. Framkvæmdastjórinn segir vel hafa gengið að afla styrkja á þessum þriggja ára starfstíma Vörðu. Hún nefnir að nýlega hafi Varða fengið styrk úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur (VOR) til að rannsaka hvernig fjölskyldufólki gangi að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Þetta verði könnun framkvæmd í þremur áföngum þar sem leitast verði við að kafa djúpt í rannsóknarverkefnið. Stefnt sé að því að afla gagna sem brugðið geti ljósi á afar mikilvæga þætti í lífi fólks, fullorðinna en ekki síður barna, í landinu. „Ég held að þetta geti orðið afar mikilvæg könnun fyrir verkalýðshreyfinguna en ekki síður stjórnvöld, jafnt sveitarstjórnarstig sem ríki,” segir framkvæmdastjórinn.

Loks nefnir Kristín Heba rannsókn sem sé á teikniborði Vörðu og kallist á við kannanirnar sem sagt var hér að framan á almennum högum launafólks. „Þarna erum við að hugsa um langtímarannsókn þar sem sömu þátttakendur svara spurningum einu sinni á ári um afkomu sína og almenn lífsskilyrði,” segir Kristín Heba og bætir að með þessu móti megi byggja upp afar verðmætan gagnabanka.

Efniviðurinn á erindi við fólk

Allt frá því að Varða hóf starfsemi hefur rík áhersla verið lögð á miðlun þeirra upplýsinga sem rannsóknir leiða í ljós. Kristín Heba segir að stofnendur Vörðu hafi lagt áherslu á miðlun strax í upphafi starfsins og kveðið sé skýrlega á um mikilvægi upplýsingamiðlunar í stofnskránni. Hún segist ekki geta kvartað, stéttarfélögin hafi sýnt starfseminni áhuga og hið sama verði sagt um fjölmiðla. „Viðfangsefni okkar hafa vakið áhuga vegna þess hversu nærri þau eru almennu launafólki sem þekkir þennan veruleika. Tölurnar snerta okkur vegna þess að við þekkjum sögur á bak við þær í okkar samferðarfólki. Þegar efniviðurinn á erindi við fólk fær hann umfjöllun,” segir framkvæmdastjórinn.

„Varða er í eigu launafólks og í öllum okkar störfum miðum við að því að þau skili eigendunum ávinningi. Árlegar kannanir okkar og langtímarannsóknin munu skila okkur mjög góðum gagnagrunni um lífsskilyrði launafólks og hvernig þau þróast og breytast. Markmið okkar er alltaf að draga upp raunsanna mynd af stöðu fólksins og miðla henni. Slíkar upplýsingar eru öflugt vopn í baráttu fyrir betri framtíð,” segir Kristín Heba Gísladóttir.

Næsta grein Framvarðasveitin