Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Óréttlæti er óréttlátt

Arnar Eggert Thoroddssen poppfræðingur skoðar hverjir hafa verið að búa til íslenska verkalýðssöngva eftir hrun.

Óréttlæti er óréttlátt

Arnar Eggert Thoroddssen poppfræðingur skoðar hverjir hafa verið að búa til íslenska verkalýðssöngva eftir hrun.

„Því þarftu svona, mikinn pening? Hvað ætlarðu að kaupa sem Guð ekki gaf?“

Bjartmar Guðlaugsson Skrýtin veröld Skrýtin veröld

Þegar allt hrundi 2008 beið ég, poppfræðingurinn, eftir sterkri öldu mótmælasöngva sem myndi stinga á kýlum hægri vinstri. Ég var sannfærður um að fram kæmi ný kynslóð dægurtónlistarmanna sem tækju sér baráttuanda sjöunda og áttunda áratugarins til fyrirmyndar og heil sena myndi spretta fram þar sem glúrnir textar um verkalýðsbaráttu, misrétti og strit yrðu legíó. Aðstæðurnar voru sannarlega fyrir hendi þá og eru það enn í dag. Ég skrifaði nokkrar greinar í Morgunblaðið rétt eftir hrun og hreinlega kallaði eftir þessu. Hvar eru hljómsveitirnar sem lýsa því sem í gangi er í haglega ofnum, stingandi textum, sungnum af ástríðu, reiði og ALVÖRU? Og ég er til í alls konar brigði af þessu. Gefið mér grimma kaldhæðni, gefið mér eldspúandi allt-er-að-fara-til-fjandans-nálgun eða bara fágaða, hugsandi tónlist sem hefur eitthvað að segja. Bara gefið mér, okkur, eitthvað!

Skemmst er frá því að segja að ekkert slíkt gerðist. Við og við er ég spurður að þessu, er verið að syngja sérstaka verkalýðssöngva í dag? Og ég er ávallt jafn tómur og alltaf kemur sama svarið upp í hugann. Bubbi!? Sem er afar iðinn við þann kola, hefur alltaf verið, og læðir inn lagi og lagi af þeim toga reglubundið inn á plötu sínar. En fjandakornið, ekki er hann einn um þetta? Erum við í alvörunni að tala um himinhrópandi skort, alveg eins fjármagnsskortinn sem verkalýður þessa lands glímir sannanlega við? Kaldhæðni þessa alls er eftir allt saman grimm.

Andóf í textum fer þverrandi

Ég ákvað því að fara á stúfana og rannsaka þetta mál aðeins betur. Og hér eru helstu niðurstöður: Nei, það hefur ekki myndast ákveðin sena í kringum svona söngva, það get ég staðfest. Í Suður-Ameríku í eina tíð gátu söngvarar hrakið heilu ríkisstjórnirnar í burtu og í Bretlandi níunda áratugarins var mikil stemning og andóf á meðal poppsveita sem fóru með verkalýðssöngva inn á vinsældalista trekk í trekk. Nei, við búum ekki svo vel á Íslandi samtímans en um leið get ég staðfest að það er verið að skrifa svona lög, og í nokkuð meiri mæli en ég gerði mér grein fyrir. Þessi tillegg eru hins vegar, meira og minna, á stangli. Þessi eða hinn listamaðurinn hrærir í lag eða plötu sem tekst á við misskiptingu kökunnar og ægivald frjálshyggjunnar en listamennirnir tengjast ekki formlega, þó þeir viti hugsanlega af hvor öðrum í fámenninu. Listamennirnir eru á ýmsum aldri, og tilheyra ýmsum stefnum, en eins og segir, ekkert bindur þá saman nema umfjöllunarefnið.

Samfélagslega andófið birtist þá venjulega ekki í eins harkalegri mynd og það gerði í eina tíð, þegar sungið var til þjáðra manna í þúsund löndum eða þegar Bubbi setti niður eilífðaróð sinn til verkamannsins sem átti Stál og hníf að sínu merki. Þetta er lúmskara, tökum t.a.m. rappið sem býr yfir einum helsta vaxtarbroddinum í dag hvað tungumálið okkar og texta áhrærir. Samfélagslega pólítikin þar er þó meira hversdags, ungt fólk að yrkja almennt séð um verund sína í heiminum. Kvenrapparar fara þó nálægt þessu á óbeinan hátt, Reykjavíkurdætur hafa t.d. verið öflugar í vísum sem lúta að feminískri pólitík sem tengist auðvitað óhjákvæmilega kröfum um bætt kjör.

„Deilir svo út gæðunum / eftir eigin hagsmunum / Stórir strákar, þeir fá mest, litlu peðin deila rest.“

Valdimar Slétt og fellt Slétt og fellt

 

Klerkur messar pönk

Þegar nánar er að gáð hefur réttmætur pirringur út í stöðu mála verið að læðast út víða. Mánar, hin fornfræga rokksveit, sungu til verkamanna í samnefndu lagi nýrrar plötu, Nú er öldin önnur (og kölluðust þar á við lagið „Villi verkamaður“ sem þeir höfðu gefið út nærfellt hálfri öld fyrr). Benóný Ægisson, Kamarorghesturinn og samfélagsrýnirinn henti meira að segja laginu „Grillum á kvöldin“ inn á youtube árið 2011 og lagði þar með sín lóð á vogarskálar.

Þá eru Austurvígstöðvarnar, hljómsveit sem leidd er af séra Davíð Þór Jónssyni, með plötu rétt handan við hornið þar sem messað er yfir mönnum af fítonskrafti.

Svei mér þá, það er eins og þetta sé ívið meira en ég kvað um í upphafi. Og auðvitað enda ég svona grein á því að tala um Bubba, sem hefur alltaf og alla tíð sungið inn í þetta málefni, hvernig sem viðrar. Tökum t.d. „Þorpið“, sem út kom 2012, þar sem hann kveður: „Unga fólkið fór suður til að dreyma / Um gullið sem enginn átti heima / Og gammar yfir gömlu fólki sveima / Þorpið er að þurrkast út.“ Að misréttið það hverfi, og hallinn sé réttur af, virðist stundum vonlaus draumur. En Bubbi leyfir sér að vera bjartsýnn í enda „Þorpsins“ og ég geri þau orð að lokaorðunum hér. Vonandi hjarna hlutirnir við, rétt eins og þorpið: „Hér vil ég vera hér á ég heima / En tækifærin virðast burtu streyma / Það er ekkert rangt við það að dreyma / Að þorpið mitt það hjarni við“.

 

Hæðni og vígtennur Bjartmars

En vindum okkur í dæmi um lög sem geta fallið undir verkalýðssöngva, efni sem hefur verið að koma út á allra síðustu árum. Bjartmar Guðlaugsson gaf út hörkuplötu árið 2010 (Skrýtin veröld) þar sem er að finna haglega orta texta um lífsbaráttu Jóa á bolnum. Bjartmar beitir hæðni, vopn sem hann mundar af mikilli list, en lætur líka glitta í vígtennurnar. „Konan á allt“ er frábært dæmi þar um. Valdimar tók á banksteramálum fyrir stuttu í laginu „Slétt og fellt“ þar sem spil hins þjáða manns eru lögð á borðið með glerhörðum hætti. Hljómsveitin Rass, með ráðherrann Óttarr Proppé í broddi fylkingar, voru með grínaktugt verk, Andstaða, þar sem m.a. var sungið  „Burt með kvótann“ og í laginu „Óréttlæti“ mátti finna þessar smellnu línur: „Óréttlæti er óréttlátt“.

Fiskverkakonan sem lét þá heyra það

Eins og segir, þessi lög og verk eru á stangli. Jónas Sig. beitti fyrir sig samfélagslega meðvituðum textum á plötunni Allt er eitthvað („Skuldaólin“ o.fl.) og Jónína Björg Magnúsdóttir, fiskverkakona hjá HB Granda á Akranesi lét sér ekki nægja að mótmæla kröftuglega launahækkunum stjórnarmanna þar í orði heldur og söng. Í lagi hennar „Svei mér þá“, segir m.a. Á fólkinu sérðu svo tár bæði og bauga / En hendurnar sínar „þeir“ hvítþvo og lauga“. Í öðru lagi, „Morgunljós móðgun“, þar sem sjálfur Bubbi syngur með segir „Hvert andvarp frá vinnandi sál hvert verk sem er unnið og gert / Ég vanvirði og kasta á bál þú ert ekki kröfunnar verð“.

Yngri tónlistarmenn hafa og látið til sín taka. Hatari hafa gagnrýnt neysluhyggju hvers kyns af miklum krafti og surgandi pönksveitir á borð við Börn og Dauðyflin spýta út sér reiðum mótmælatextum í anda Crass og Conflict. Pönkarar hafa alla tíð staðið þennan vörð, ég nefni lagið „Höfðatorg“ með kennaratríóinu Blóð (sem kom út á forláta kassettu m.a.!) og Suðurlandspönkarana í Saktmóðigur („Sannleikurinn“).