Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Sterkari saman

1. maí ávarp Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ

Sterkari saman

1. maí ávarp Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ

Ávarp

Gylfi Arnbjörnsson

Vinnan er tímarit sem Alþýðusambandið gaf fyrst út fyrir 75 árum. Í fyrsta tölublaðið, sem kom út árið 1943, skrifuðu m.a. Halldór Kiljan Laxness og Steinn Steinarr. Þessir jöfrar íslenskra bókmennta gáfu tóninn en síðan hafa margir mætir menn komið að útgáfunni sem hefur verið nær sleitulaus allan þennan tíma. Nú er hins vegar komið að tímamótum í sögu Vinnunnar sem breytist á þessu ári í vefrit. Með því er ASÍ að bregðast við nýjum tímum. Blaðalestur fer minnkandi, dreifing er kostnaðarsamari og flóknari en áður á meðan auðveldara er að ná til fjöldans á netinu og með hjálp samfélagsmiðla. Þá er þessi nýja leið mun umhverfisvænni en sú fyrri þar sem prentuð voru 90. þúsund eintök á pappír sem dreift var víða um land. Vefritið bíður aukinheldur upp á fleiri möguleika í miðlun efnis. Í þessari nýju Vinnu eru t.d. tvö sjónvarpsinnslög. Við vonum að lesendur kunni að meta breytinguna.

 

Vandinn var hins vegar sá, að áður en að fyrstu útborgun kom á grundvelli nýjustu samninganna var ríkisstjórnin búin að fella gengið og verðbólgan búin að éta upp árangurinn.

Gylfi Arnbjörnsson
Tvær ólíkar leiðir í kjarabaráttu

Frá upphafi skipulagðrar verkalýðshreyfingar hefur verið deilt um hvernig nýta eigi það mikla afl sem felst í samstöðunni. Þar hafa deilt umbótasinnar sem vilja hægfara en stöðuga breytingu á kjörum og réttindum launafólks og þeir sem vilja fara mun harðar og í hraðari breytingar á aðstæðum, oft nefndir byltingasinnar. Með umbótaleiðinni vinnur verkalýðshreyfingin að því að tryggja launafólki réttmæta hlutdeild í þeim verðmætum sem verða til í samfélaginu. Með byltingaleiðinni snýst hlutverk hreyfingarinnar að tryggja launafólki eins miklar launahækkanir og afl hennar fær áorkað hverju sinni. Báðar þessar leiðir hafa verið reyndar á Íslandi.

Ef við lítum aftur til ársins 1961 má segja að byltingaleiðin hafi verið alls ráðandi frá 1961-1990 en það tímabil einkenndist af miklum launahækkunum á meðan launahækkanir voru frekar hógværar eftir 1990. En hverju ætli þessar ólíku leiðir hafi skilað í raunverulegum kjörum almennings – í kaupmættinum?

Á árunum 1961-1990 voru laun að hækka mjög mikið á hverju ári, 20-30% framan af og upp undir 60% á 8. áratugnum. Þetta voru auðvitað miklir sigrar og forystumenn verkalýðsfélaga gátu stoltir kynnt félagsmönnum sínum markverðan árangur af kjarabaráttunni. Vandinn var hins vegar sá, að áður en að fyrstu útborgun kom á grundvelli nýjustu samninganna var ríkisstjórnin búin að fella gengið og verðbólgan búin að éta upp árangurinn. Því var kaupmáttarferlið afar skrykkjótt með tíðum kollsteypum inn á milli – ekki færri en 10 sinnum á þessu 30 ára tímabili. Leiðin var auðvitað hluti af þeirri miklu ólgu sem ríkti hér á landi og var mörkuð hörðum átökum.

Eftir að hafa hækkað laun um 1600% milli 1970-1980 og 1500% milli 1980-1990 hafði kaupmáttur tímalauna lækkað! Það var því ákall um breytta aðferðafræði.

Strik dregið í sandinn árið 1990

Árið 1990 verða ákveðin kaflaskil í kjarabaráttunni hér á landi. Forystumenn aðildarfélaga ASÍ vildu reyna nýjar leiðir í baráttunni fyrir betra lífi. Ástæðan var einföld, gömlu aðferðirnar voru ekki að skila neinum varanlegum árangri í að byggja upp kaupmátt og ólga undanfarinna áratuga hafði komið illilega niður á atvinnusköpuninni sem var bæði einhæf og brothætt. Eftir að hafa hækkað laun um 1600% milli 1970-1980 og 1500% milli 1980-1990 hafði kaupmáttur tímalauna lækkað! Það var því ákall um breytta aðferðafræði og var það grundvöllurinn að Þjóðarsáttarsamningunum árið 1990, þar sem áhersla var lögð á hægfara umbótastefnu, þar sem hreyfingin tók tillit til aðstæðna í hagkerfinu en tryggði launafólki réttmæta hlutdeild í þeim verðmætum sem urðu til, en forðaðist kollsteypur í gengi og verðlagi – leið stöðugleika.

Með þessu vildi hreyfingin leggja nýjan grunn að hagvexti og atvinnusköpun sem gæti í senn verið byggð á nýsköpun og þróttmeiri fyrirtækjum sem staðið gætu undir betri kjörum.

Það er einfalt að bera þessi tvö tímabil saman. Fyrra tímabilið einkenndist af ólgu og átökum þar sem verðbólga lék aðalhlutverk í afkomu fólks og starfsskilyrðum atvinnulífsins. Kjörin stóðu nánast í stað eða versnuðu þrátt fyrir himinn háar prósentuhækkanir launa og atvinnulífið varð einhæft og veikburða. Seinna tímabilið, sem enn stendur, er tími þar sem lág verðbólga og stöðugleiki er í fyrirrúmi og áherslan er á réttmæta hlutdeild launafólks í þjóðarkökunni. Lífskjör Íslendinga hafa batnað umtalsvert meira á seinna tímabilinu en því fyrra. Það sýna allir mælikvarðar. Vill einhver hverfa aftur til gömlu leiðarinnar?

Verkalýðhreyfingunni hefur frá aldamótum tekist að hækka lægstu laun um 36% meira en almenn laun í landinu. Sú mikla reiði sem við heyrum úr röðum þeirra tekjulægstu er hins vegar ekki úr lausu lofti gripin, heldur eru þetta eðlileg viðbrögð við tvennu sem hvorutveggja á rót sína að rekja til stjórnvalda.

Stjórnvöld stálu árangrinum

Eitt af grundvallar markmiðum Alþýðusambandsins er varðstaðan um þá tekjulægstu. Upp á síðkastið hefur verið fullyrt að hagsmunum þeirra tekjulægstu hafi verið ,,fórnað á altari stöðugleikans‘‘ og að stöðugleiki feli í sér stöðnun í kjörum þeirra tekjulægstu. Á þetta við rök að styðjast? Var hagsmunum þeirra tekjulægstu betur borgið undir skilmálum þeirrar kjarastefnu sem hér ríkti á árunum fyrir 1990, þegar laun voru að hækka um allt að 60% á ári? Hvað segja tölurnar, hvernig var þróun launa þeirra tekjulægri samanborið við þá tekjuhærri?

Ef litið er á hlutfall lægstu launa af meðaldagvinnulaunum innan ASÍ þá eru þau árið 2018 að nálgast 80% en voru tæplega 50% af meðaldagvinnulaunum um 1990. Verkalýðhreyfingunni hefur frá aldamótum tekist að hækka lægstu laun um 36% meira en almenn laun í landinu. Sú mikla reiði sem við heyrum úr röðum þeirra tekjulægstu er hins vegar ekki úr lausu lofti gripin, heldur eru þetta eðlileg viðbrögð við tvennu sem hvorutveggja á rót sína að rekja til stjórnvalda. Annað er að ávinninginn af mikilli hækkun lægstu launa hafa stjórnvöld tekið af tekjulægsta fólkinu með því að hækka skatta á þann hóp og með verulegri skerðingu barna- og húsnæðisbóta til hans. Hitt er að á sama tíma og þetta á sér stað hafa stjórnvöld bæði lækkað skatta á þá efnameiri og leyft kjararáði að hækka laun þingmanna og æðstu embættismanna langt umfram það sem almennt hefur verið samið um. Ég tel afar mikilvægt að sameinuð verkalýðshreyfing verði að bregðast mjög hart við þessu og sameinast í baráttunni gegn óréttlætinu sem opinberast í þessum gjörningum. Við verðum að berjast gegn ríkisstjórnum sem lækka skatta á ríka fólkið en hækka skatta á þá sem sem verst standa. Það er hvorki réttlátt né siðlegt og verður að stöðva. Það er hins vegar alveg ljóst, að við getum þetta ekki nema að við stöndum saman – við erum svo miklu sterkari saman!

Ég óska öllu launafólki til hamingju með baráttudag verkalýðsins og hvet ykkur til að taka þátt í hátíðarhöldunum sem fara fram um allt land 1. maí.

Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ

Næsta grein Hvernig verður vinnumarkaðurinn 2030?