Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Við erum ekki búin að afgreiða #metoo

Heiða Björg Hilmisdóttir og Tatjana Latinovic ræða #metoo byltinguna og næstu skref

Við erum ekki búin að afgreiða #metoo

Heiða Björg Hilmisdóttir og Tatjana Latinovic ræða #metoo byltinguna og næstu skref

 

Heiða Björg Hilmisdóttir

 

Tatjana Latinovic

#metoo er bylting á heimsvísu sem hefur haft mikil áhrif á samfélagslega ímynd okkar. Konur gera þá kröfu að kynferðislegt ofbeldi og áreiti verði upprætt á vinnumarkaði sem og annarsstaðar. Byltingin hófst í Bandaríkjunum í október 2017 og mánuði síðar skolaði henni á land hér á Íslandi.

Samstaðan kom þægilega á óvart

Fyrsti hópurinn sem kom fram hér á landi voru stjórnmálakonur undir myllumerkinu #ískuggavaldsins. Heiða Björg Hilmisdóttir stofnaði þann hóp og segir það eðlilegt að konur í stjórnmálum hafi stigið fyrstar fram. „Við erum hópur sem á að sýna fordæmi, þora að segja frá og þora að varpa ljósi á veruleikann eins og hann er,“ segir hún og bætir við að viðtökurnar hafi verið vonum framar. Hún hafði heyrt af því að sænskar stjórnmálakonur væru að stíga fram og hugsaði „nú prófum við þetta hér á landi líka“. Það flykktust konur í hópinn. „Ég vissi ekkert hvernig vinkonur mínar í hinum flokkunum myndu taka í þetta. Ég vonaðist til samstöðu og það tókst svo sannarlega að virkja hana. Ég sá ekki fyrir að við myndum ná svona mörgum konum á Íslandi með okkur í þetta.“ Frá því að Heiða stofnaði hópinn leið aðeins vika þar til þær voru búnar að senda frá sér sögur og yfirlýsingu og í kjölfarið fóru hópar kvenna í ólíkum starfsstéttum að myndast, sumir hafa komið fram opinberlega meðan aðrir halda sig enn til hlés af ýmsum ástæðum.

Konur af erlendum uppruna búa við margþætt ofbeldi

Viðkvæmasti hópurinn sem komið hefur fram með reynslusögur er líklega konur af erlendum uppruna. Þær upplifa ekki bara valdníðslu á vinnumarkaði heldur búa þær sumar við ofbeldi heima fyrir líka. Sögurnar þeirra snertu alla sem þær lásu og margir áttu erfitt með að trúa að þetta væri veruleikinn sem þær búa við.

„Var á barnum þegar formaðurinn þáverandi kom aftan að mér, strauk rassinn á mér. Ég brosti og gekk í burtu - hann elti mig að salerninu og spurði hvort hann ætti ekki að koma inn. Ég hló var vandræðaleg en sagði nei. Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem þetta gerðist.“

Saga sem birtist undir myllumerkinu #ískuggavaldsins

Tatjana Latinovic er ein þeirra erlendu kvenna sem stigu fram. „Við vorum nokkrar í öðrum hópum og sáum ekki mikið af erlendum konum. Við fórum því að velta fyrir okkur hvar þær væru. Í kjölfarið var stofnaður hópur erlendra kvenna sem stækkaði hratt og endaði í rúmlega 660 konum,“ segir hún.

Tatjana segir nafnleysi einkenna hóp erlendra kvenna, þær þori síður að stíga fram undir nafni. Þegar þær sendu frá sér yfirlýsingu voru aðeins 97 af 660 sem treystu sér til að skrifa nafn sitt undir. „Sögurnar voru mun grófari en við áttum von á. Án þess að ég ætli að gera lítið úr öðrum hópum þá er nauðsynlegt að fólk átti sig á því hversu fjölþætt ofbeldi margar konur af erlendum uppruna búa við – blanda af ofbeldi innan veggja heimilisins og utan þeirra. Það kom mér á óvart,“ segir hún og bætir við að hún sé þakklát stjórnmálakonum að hafa brotið ísinn. „Þær eru konur í forréttindastöðu í þjóðfélaginu og hafa þar rödd. Þær sýndu fordæmi greiddu leiðina fyrir okkur sem höfum enga rödd.Ef við hefðum stigið fyrstar fram þá hefði þetta líklega verið einangrað við að við værum útlenskar konur og við settar í fórnarlambahlutverk. Þegar við sendum sögurnar okkar þá vildum við ekki laga þær, laga íslenskuna eða neitt slíkt. Heldur bara láta þær koma fram eins og þær voru sagðar. Við komum líka á framfæri að við viljum ekki að litið sé á okkur sem fórnarlömb – þetta er valdefling og þær konur sem stigu fram eru mjög hugrakkar. Loksins fengur þær rödd.

„Ég var að vinna hjá fyrirtæki í ræsting. Ég var ein á kvöld. Ein kvöld kom maður sem var að vinna þar, hann var með lykill. Ég hef aldrei sé hann áður ég vinna bara á kvöld ég sé aldrei fólk þar eða næstum aldrei og þau tala ekki með mig. Hann talaði með mig mikið. Hann var skemmtilegur mér fannst. Hann kom aftur og aftur margir kvöldir kannski hitti ég þennan maður tíu sinnum. Ein kvöld hann kom og mér finnst svo erfit að segja þetta hann RAPED (nauðga er ekki nóg að segja fyrir mér) mig. Þar á gólf sem ég skúra kvöld aftur kvöld. Hann sagði að ég vildi þetta hann fann það þegar ég talaði við hann. Hann sagði ég má ekki segja frá ég má ekki hugsa hann vildi meiða mig hann var bara vildi profa útlensk kona eins og mig ég var falleg og góð. Ég for aldrei aftur að vinna. Ég spurði vinkona mín að þrífa fyrir mig næstu dag. Þegar hún for í geymslu hvar ég geyma skúringu dót það var umslag með nafnið mitt á. Hún kom með það til mín. Inní umslag var 100.000 kr peninga. Please ekki segja nafnið mitt ég vil ekki leyfa fólk vita þetta um mig en ég vil að þennan mann skammar sig og lesa þetta í blaðið. Takk fyrir mig.“

(ein af þeim 34 sögum sem birtar voru frá konum af erlendum uppruna)

 

Réttur fólks að fá að vinna án áreitis

Heiða og Tatjana eru sammála um að umræðan í kjölfarið og viðbrögð fólks sýni að hægt sé að breyta viðhorfum. „Þær neikvæðu raddir sem hafa heyrst eru orðnar að miklum minnihluta. Almennt upplifi ég að fólk vilji laga og breyta. Það er nauðsynlegt að taka næstu skref og það hafa verið haldnar stórar ráðstefnur og margir fundir til að ræða um úrlausnir. Það þarf að tryggja að þetta ofbeldi eigi sér ekki stað. Það er mikið verið að tala um allskonar gæðakerfi og fræðslu fyrir stjórnendur – allt mjög mikilvægt – en oft eru til fullkomnar viðbragðsáætlanir sem svo eru ekki notaðar. Ég held að áhrifaríkasta leiðin sé að taka út að þolandinn beri þessa ábyrgð á herðum sér. Það er ábyrgð okkar allra, stjórnmálanna, fyrirtækjanna og verkalýðshreyfingarinnar. Fyrirtækin eiga að bera ábyrgð á að starfsmenn verði ekki fyrir áreiti eða ofbeldi í starfi. Einstakir starfsmenn eiga ekki að þurfa að leiða málin áfram. Ef þú ert að vinna með einhverjum og þú verður vitni að áreiti – þá er það þín skylda að láta vita. Sú staða sem við höfum boðið þolendum upp á hingað til er ósanngjörn. Málin eru ekki þeirra einkamál,“ segir Heiða og segir það rétt fólks að fá að vinna án áreitis. „Það er valdamisræmið sem við þurfum að ávarpa. Við eigum að koma fram við alla sem jafningja. Það skiptir ekki máli hvort viðkomandi sé lægra settur í vinnunni en þú – sé af öðru kyni – öðru þjóðerni eða hvað – þú átt bara ekki að nota vald þitt svona. Það verður að stoppa þá af sem nýta vald sitt á þennan hátt.“

„Fólki dettur bara ekki í hug að svona hlutir séu raunverulega að gerast á Íslandi. Að konu sé jafnvel meinað að sækja barnið sitt á leikskóla fyrr en hún er búin að afgreiða karlmann kynferðislega. Sumar búa við slíkan raunveruleika."

Tatjana Latinovic
#metoo er hugarfarsbylting

Tatjana tekur undir þau orð og segir að við megum ekki sofna á verðinum. „Við erum ekki búin að afgreiða #metoo. Nú þarf að vinna í hvað á að gera í framhaldinu. Þetta er í raun hugarfarsbylting sem er nauðsynleg okkur öllum. Það skiptir ekki máli hvort þú ert konan sem er forsætisráðherra eða sú sem skúrar Alþingi – við erum allar á sama stað í þessu,“ segir Tatjana og bætir við að þær lausnir sem hún sér er fræðsla og ná eyrum fólks, þá sérstaklega fólks af erlendum uppruna. Margir þekkja ekki rétt sinn og koma jafnvel frá löndum þar sem mikil spilling ríkir innan stjórnmála og verkalýðshreyfingarinnar. „Fólki dettur bara ekki í hug að svona hlutir séu raunverulega að gerast. Að konu sé jafnvel meinað að sækja barnið sitt á leikskóla fyrr en hún er búin að afgreiða karlmann kynferðislega. Sumar búa við slíkan raunveruleika. Sumum er hótað með útlendingalöggjöfinni og búa við stanslausan ótta við að vera sendar úr landi án barnanna sinna. Við verðum að stíga fram og búa til styrkari stoðir í samfélaginu fyrir erlent launafólk.“

Heiða og Tatjana eru sammála um að nú þurfi að taka þessar sögur, hlusta á þær og vinna með þetta áfram. Nú er kominn tími á næstu skref!

Næsta grein Hin hliðin - Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar