Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Aija og Mehdi: Komin heim í Bjarg

Aija og Mehdi: Komin heim í Bjarg

Lettnesk sveitastelpa  

Aija var fimmtán ára lettnesk sveitastelpa þegar hún yfirgaf þorpið sitt og keypti miða aðra leið til höfuðborgarinnar. „Ég fékk nóg af eitraðri þorpsmenningu, slúðrinu og súrnuðu Sovéti í litla þorpinu heima.“  

Aija lauk skólaskyldunni í Riga og átján ára gömul lagðist hún á flakk um lendur Evrópu. Þetta var 2005, ári eftir að Lettar gengu í Evrópusambandið. Fyrsta stopp hinnar ungu, frjálsu Aiju var London en helmingur Letta sem starfa utan Lettlands í dag, í kringum eitt hundrað þúsund manns, dvelur einmitt í Englandi. London er grá og undarleg borg fannst Aiju og þaðan lá leiðin til Portúgal þar sem hún dvaldi um tíma. Úr suðri lá leið Aiju aftur norður en í sænskt þorp til fjölskyldu þar sem hún vann öll húsverk og þreif fiskikör fjölskyldufyrirtækisins. Aija var ennþá í ævintýraleit þegar vinkona hennar freistaði hennar að koma til Íslands. Aija pakkaði niður í tösku eina ferðina enn og kvaddi sænska þorpið, „Þetta var lítið samfélag ekki ólíkt gamla þorpinu mínu í Lettlandi“ og hún lenti í Keflavík árið 2009. 

Farandverkakona á Íslandi

Frá árinu 2010 hefur erlendum rík­is­borg­urum á Íslandi fjölgað um tæp 33 þúsund sem flest sækja hér vinnu en Aija er ein af þeim fjölmörgu sem hafa komið að ört stækkandi ferðaþjónustu. „Þegar ég kom til landsins fékk ég vinnu hjá ræstingarfyrirtæki og leigði herbergi á gistiheimili í Vogunum. „Á þeim tíma greiddi ég aðeins 35 þúsund krónur fyrir herbergi, sameiginlegt bað og eldhús, sem var mjög sanngjarnt, en samskonar herbergi er leigt út fyrir 60 eða 70 þúsund krónur í dag.“  

Aija segir alla eiga rétt á mannsæmandi húsnæði. „Við sem vinnum og borgum skatta hérna eigum ekki að þurfa að búa með tíu öðrum einstaklingum eða leigja kjallara herbergi á 100 þúsund krónur. Réttur allra er að fá að leigja ein eða einn eða eiga kost á því að búa með ástvini eða fjölskyldu okkar ef svo ber undir. Stundum verð ég svo reið þegar ég sé hvað fólk er að leigja út ömurlegt húsnæði fyrir okurverð. Leigusalar eru ekki heldur alltaf að fara eftir samningnum. Vinkonu minni var tilkynnt í janúar að losa íbúðina með mánaðar fyrirvara þegar dóttur leigusalans vantaði skyndilega samastað. Samningur hennar gildir samt fram í maímánuð. Útlendingar eru illa í stakk búnir til þess að berjast fyrir rétti sínum. Þeir þurfa að gæta að orðspori sínu í litlu samfélagi eins og okkar. Hér þekkja allir alla og þú átt á hættu að missa vinnuna ef þú gerir athugasemdir.“ 

Verkakona á leigumarkaði

Aija kynntist íslenskum manni og þau eignuðust saman dóttur, hana Amalie sem er tíu ára. Aija og barnsfaðir hennar bjuggu saman í nokkur ár en þegar sambandi þeirra lauk byrjaði flakkið á leigumarkaðnum. Flutningar Aiju á milli herbergja á íslenskum leigumarkaði minna helst á ástandið eftir stríð þegar verkafólk streymdi til borgarinnar og sprengdi af sér allar vistarverur í Reykjavík. Aija leigði herbergi með kunningjakonu, deildi íbúð með fleira fólki hjá leigufélaginu AFL en þegar félagið seldi íbúðina hálfu ári síðar tók hún á leigu herbergi yfir veturna sem þurfti að rýma á sumrin undir ferðamenn. „Í framhaldinu á þeirri vist tók ég á leigu tveggja herbergja íbúð ásamt vinkonu minni frá Lettlandi en loksins fann ég einstaklingsíbúð með svölum í Kópavogi. Mitt eigið húsnæði, loksins, í næsta nágrenni við barnsföður minn og skólann hennar Amalie. Leigan sem ég borgaði var 175 þúsund krónur á mánuði sem reddaðist á meðan ég var í fullu starfi á gistiheimili og hálfu ræstingastarfi aukalega með. Dóttir mín var þá orðin sjö ára. 

Til þess að stefna ekki öryggi barnsins í hættu hefur Amalie verið skráð með lögheimili hjá föðurfjölskyldu sinni frá því að foreldrarnir slitu samvistum. Aija telur sig vera heppna með fjölskyldu dóttur sinnar. Þau eiga í góðum samskiptum og eru samhent þegar kemur að málum Amalie. 

Útlendingar á Íslandi

Það er litið niður á útlendingana, hvíta jafnt sem brúna og ég get ekki tekið undir orðspor Íslendinga um umburðarlyndi gagnvart útlendingum, allavega ekki þeim sem vinna við þrif á Íslandi.” Aija telur Íslendinga gangast upp í því líta vel út, eiga fína bíla og fínt dót. „Við lifum á miklum efnishyggjutímum og lífið á Íslandi snýst allt um peninga. Þegar ég vann á gistiheimili höfðu ferðamenn orð á því Íslendingar væru sérlega vingjarnlegir í viðmóti. Auðvitað brosa Íslendingar framan í ferðamann með peninga.” Mehdi eiginmaður Aiju tekur til máls: „Ég er nýr á Íslandi og þekki ekki allt þetta sem hún er lýsa, kannski af því ég er karlmaður, það er alltaf öðruvísi.“ Mehdi stendur á fætur og býr sig undir tólf tíma næturvakt. Mehdi er lærður lögfræðingur og starfaði í banka í Katar þar til fyrir tveim árum þegar hann flutti yfir hnöttinn til Aiju á Íslandi. Þegar enginn íslenskur banki svaraði umsóknum hans tók Mehdi starfi hjá ræstingarfyrirtæki, hinu sama sem Aija vann hjá í byrjun Íslandsdvalar sinnar árið 2009. „Sjáumst í fyrramálið,“ segir Aija og þegar Mehdi hverfur út um dyrnar notar hún tækifærið til þess segja frá kynnum þeirra. „Það er auðveldara tala um þessa hluti þegar hann er ekki á staðnum,” segir hún og hlær hátt eins og Aiju einni er lagið. Það glittir í styrkinn sem hin fimmtán ára Aija bjó yfir þegar hún lagði af stað út í heim á sínum tíma.

Sautján tíma vaktir

Stundum vann ég sextán til sautján tíma á dag. Ég vann tólf tíma vaktir, til sjö á morgnanna á gistiheimili og síðan tók við annað starf í bakarí til hádegis. Ég leigði ein og tók bílalán þegar gamli var farinn drepa á sér aðra hvora viku. Þetta bitnaði á heilsunni og ég átti til vinna yfir mig. Mitt ráð við þunglyndi var hverfa ein í nokkra daga upp í sveit eða til útlanda. Ef frí gafst fór ég á netið og fann eitthvað ódýrt, brunaði til Keflavíkur og flaug burt í nokkra daga. Jafnvel til mömmu, en hún á lítið hús út í skógi og þar er gott næði.“ 

Aija og ástin

Í einni slíkri utanlandsferð kynntist Aija ástinni sinni. „Örlög eða mexíkönsk sápa,” hrópar Aija og hristir hausinn. Hann starfaði í banka í Katar og ég á gistiheimili á Íslandi, við vorum bæði í leyfi að borða á sama veitingastað í Agadir í Marokkó þegar leiðir okkar lágu saman.“ Fjórum dögum síðar snéri Aija aftur heim til Íslands ástfangin upp fyrir haus. Eftir daglega fjarfundi í marga mánuði ákvað Mehdi að segja upp bankastarfi sínu í Katar og flytja til Aiju sem hefur ekki um annað val en að búa á Íslandi vegna Amalie.  

„Við giftum okkur í september 2019 í Marokkó og biðum í þessa sex mánuði sem tekur Útlendingasstofnun að ganga úr skugga um heilindi hjónabands. Við vorum heppin að fá sambandið viðurkennt sem er því miður alls ekki sjálfgefið. Ég undirbjó komu hans og von var á Mehdi í apríl 2020 en þá skall heimsfaraldurinn á og sjöunda mars var landinu lokað. Ég hélt ég myndi missa vitið. Mánuðirnir liðu, en sem betur fer á ég góða vini á Íslandi og svo tók ég að mér alla vinnu sem ég komst yfir til þess að dreifa athyglinni. Í september 2022 var smuga til þess að þræða sig upp frá Marokkó til Íslands. Mehdi keypti miða með viðkomu í tveim löndum þrátt fyrir að líkurnar væru verulegar að hann yrði sendur til baka við landamæri Danmerkur. Ferðalagið tók tvo daga. Tveir lengstu dagar lífs míns en hann slapp í gegn og ég fékk hann heim til mín. Þessi hérna er Quarantine,“ segir Aija hlæjandi og bendir á Adam í fangi sínu, átta mánaða gamlan son þeirra Mehdis. 

Loksins eins og venjulegt fólk

„Það var skelfilega góð tilfinning að skrifa undir leigusamning hjá Bjargi í janúar á þessu ári, þvílíkur léttir. Við erum mjög þakklát. Við greiddum tryggingu og um hver mánaðarmót greiðum við sömu upphæð, 143 þúsund krónur að frádregnum húsaleigubótum. Íbúðin er 80 fermetrar, sérherbergi fyrir okkur þrjú elstu í fjölskyldunni.“ Aija er loksins með öruggt lögheimili til framtíðar og getur sótt um leikskólapláss fyrir Adam.   

„Loksins tilheyrum við samfélaginu eins og venjulegt fólk. Engin getur sagt okkur upp án fyrirvara. Ef Bjarg þarf að selja eða við að fara þá erum við með hálfs árs gagnkvæman uppsagnarfrest. Við erum svo nýflutt hingað inn en ég trúi ekki öðru en hér eigi eftir að vera samgangur í blokkinni. Mig dreymir um að við sem búum hérna verðum ein stór fjölskylda og lítum eftir hvort öðru. Ég er aðeins farin að kynnast fólkinu hérna. Úkraínsk kona býr á hæðinni og maðurinn hennar er í hjólastól. Ég sá hana álengdar koma úr Bónus og mér sýndist hún vera niðurlút þannig að ég bankaði upp á hjá henni til þess að athuga með líðan hennar og við ræddum saman um daginn og veginn. 

Í blokkinni búa mörg börn. Á báðum hæðum, fyrir ofan og neðan mig eru barnafjölskyldur og við eigum örugglega eftir að umgangast þegar vorar. Sérstaklega ef það kemur leikvöllur eins og okkur var lofað. Við erum með feisbúkkgrúppu og um daginn var fyrirspurn frá konu um það hvort einhver vildi slást í för með henni og börnunum hennar út að ganga.”  

Framtíðin

Aija veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. „Ég er að eldast og mig langar í öryggi. Ég vil helst ekki þurfa að vinna fyrir ræstingarfyrirtæki með 2.000 krónur á tímann það sem eftir er ævinnar. Ég horfi á manninn minn koma  heim á morgnanna eftir tólf stunda vakt og hann getur varla staðið í lappirnar. Mehdi fær ekki starf sem hæfir menntun hans og ég mun aldrei fá vel launað starf, alveg sama hvað ég legg mig mikið fram, það verður aldrei metið til fulls. Ég er hörku dugleg og legg mig fram við alla hluti en á endanum er stóra myndin sú að flestum er slétt sama um þig. 

Ég gæti vel hugsað mér að flytja til Marokkó í framtíðinni þegar Amalie er orðin eldri. Í Marokkó virðist fólk vera hamingjusamara en hérna og sátt við það sem það hefur. Fjölskylda Mehdis er stór og þau búa meira og minna í grennd við hvort annað. Gott fólk sem tók mér vel og trúarbrögð eru ekki að flækja okkar samskipti. En núna er um að gera að vera með báða fætur á jörðinni og sjá hvað tíminn leiðir í ljós.”  

 

 

Bjarg

Bjarg er óhagnaðardrifið leigufélag ætlað tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. 617 íbúðir hafa verið afhentar leigutökum.