Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Öruggt skjól

Öruggt skjól

Vandinn liggur í ónýtum leigumarkaði

Söfnun upplýsinga um brunavarnir og aðbúnað fólks sem hefur búsetu í atvinnuhúsnæði leiddi í ljós fjölbreytilegan hóp og ólíkar félagslegar aðstæður.

Sumarið 2020 varð sá hörmungaratburður að þrír fórust í eldsvoða við Bræðraborgarstíg í vesturbæ Reykjavíkur. Fólkið, pólskir ríkisborgarar, var allt á þrítugsaldri. Rannsókn leiddi í ljós að kveikt hafði verið í húsinu og var pólskur karlmaður á sjötugsaldri sak­felldur fyrir verknaðinn en sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins þar sem enginn vafi þótti leika á að maðurinn hefði sökum veikinda verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Í dómsorði var ákærða gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.  

Rannsókn leiddi í ljós að brunavörnum var mjög ábótavant í húsinu. Jafnframt var upplýst að 73 ein­stak­ling­ar hefðu verið með skráð lög­heim­ili í húsinu þótt víst væri að margir byggju þar ekki lengur. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsnæðinu þvert á samþykktar teikningar og hafði m.a. verið innréttaður fjöldi lítilla herbergja. Þegar kveikt var í húsinu bjuggu þar rúmlega 20 einstaklingar, allir nema einn af er­lend­um upp­runa. 

Bruninn vakti athygli á aðbúnaði aðflutts verkafólks á Íslandi og því húsnæði sem það verður iðulega að gera sér að góðu. Fé­lags- og barna­málaráðherra fól Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un (HMS) að vinna að til­lög­um til úr­bóta á bruna­vörn­um í hús­næði þar sem fólk hef­ur bú­setu. Í því skyni stofnaði HMS sam­ráðsvett­vang sem lagði fram þrett­án úr­bóta­til­lög­ur. Ein tillagan var sú að kortlagt yrði hversu marg­ir ein­stak­ling­ar byggju í at­vinnu­hús­næði, ásamt því að safna upp­lýs­ing­um um ástand bruna­varna og fé­lags­leg­ar aðstæður. Ákveðið var að hefja þessa vinnu á höfuðborg­ar­svæðinu og þróa aðferðafræði sem nýt­a mætti um land allt. 

Slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins var falið að leiða verk­efnið í nánu sam­starfi við HMS, Alþýðusam­band Íslands (ASÍ) og sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu. Í apríl 2019 hafði verið myndaður vinnuhópur, undir stjórn HMS,  til að meta umfang óskráðra íbúða út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg var hópnum auk þess falið að fara yfir reglur um skráningu lögheimilis og aðseturs með tilliti til þess sem þá var nefnt óleyfisbúseta” og fjöldaskráninga í íbúðum og meta hvaða lærdóm mætti draga af þessum sorglega atburði. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, þá sviðsstjóri félags- og þróunarsviðs Eflingar, var fulltrúi Alþýðusambandsins í þessum samráðsvettvangi um brunavarnir í íbúðahúsnæði.   

Kortlagning búsetu fólks í atvinnuhúsnæði hófst í október 2021. Þær Aleksandra Leonardsdóttir og Saga Kjartansdóttir höfðu veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd verkefnisins fyrir hönd ASÍ. Báðar starfa þær á skrifstofu ASÍ, Aleksandra sem sérfræðingur í málefnum pólskumælandi launafólks og Saga sem túlkur og verkefnisstjóri vinnustaðaeftirlits.

Aleksandra Leonardsdóttir

Áhersla lögð á traust og öryggi

Verkefnið var stórt og krafðist mikils undirbúnings, að sögn þeirra Aleksöndru og Sögu. Fyrst þurftum við að leggja mat á hvaða þekkingu og bakgrunn þau þyrftu að hafa sem fengin yrðu til að sinna þessu verkefni með því að heimsækja fólk með búsetu í atvinnuhúsnæði,” segir Aleksandra. Fljótlega komust þær að þeirri niðurstöðu að þörf væri á fjölbreyttri tungumálakunnáttu þar sem geta til tjáskipta á tungumáli viðmælenda væri örugglega ein frumforsenda þess að takast myndi að skapa nauðsynlegt traust í þessum samskiptum. Þá töldu þær sýnt að sem fjölbreytilegastur bakgrunnur eftirlitsfulltrúa væri æskilegur með tilliti til þess að ekki væri unnt að gefa sér að um einsleita hópa væri að ráða. Hæfileiki á sviði mannlegra samskipta var einnig augljóslega mikilvægur eiginleiki í þessu verkefni. Ég tel að vel hafi tekist til við að skilgreina hvernig nálgast bæri þetta verkefni,” segir Saga. Í þessu ferli kom reynsla Aleksöndru af störfum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar að góðum notum. 

Þær stöllur komu að ráðningu eftirlitsfulltrúa en alls voru átta slíkir fengnir til starfa á vegum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ákveðið var að leita til Vinnumálastofnunar og ráða fólk til tímabundinna starfa í gegnum átakið Hefjum störf. Þetta var ansi fjölskrúðugur hópur og í honum var að finna fólk með ólíka menntun og reynslu. Hópurinn talaði pólsku, litháísku, rússnesku, spænsku, kínversku og arabísku auk ensku sem gerð var krafa um að allir hefðu á valdi sínu. Að auki hafði einn hinna rúmenskumælandi mjög gott vald á íslensku,” segir Saga og bætir við að síðan hafi verið ákveðið að fá til aðstoðar tvo fulltrúa með reynslu af vinnustaðaeftirliti ASÍ. Hún segir mikla ánægju hafa ríkt innan hópsins með aðkomu þeirra m.a. vegna þeirrar reynslu sem þeir bjuggu yfir af því að heimsækja fyrirtæki og þeirrar innsýnar sem þeir höfðu fengið í kjör og aðstæður launafólks með því móti.  

Eftirlitsfulltrúarnir átta fengu umfangsmikla þjálfun sem alls stóð yfir í heila viku. ASÍ tók að mestu að sér að skipuleggja þá fræðslu og var áhersla einkum lögð á málefni innflytjenda, brunavarnir og kröfur á sviði íbúðarhúsnæðis, félagslega þætti á borð við barnavernd, leigusamninga, vinnurétt og öryggismál. Drífa Snædal, forseti ASÍ, flutti erindi um mansal.

Þá var miðlað til þátttakenda fræðslu um hvernig haga bæri nálgun og samtölum og var þar stuðst við reynslu úr vinnustaðaeftirliti ASÍ. Jafnframt voru fulltrúarnir fræddir um þau úrræði sem væru í boði fyrir innflytjendur og erlent launafólk og var það Ráðgjafarstofa innflytjenda sem hafði það verk með höndum. Aleksandra segir að sú fræðsla hafi reynst sérlega mikilvæg. Það var algengt að fólkið sem rætt var við skorti margvíslegar upplýsingar og það var mjög ánægjulegt að geta bent á þau úrræði sem eru fyrir hendi,” segir hún.  

Saga upplýsir að í undirbúningi kortlagningarinnar hafi fljótlega orðið ljóst að hætta þyrfti notkun hugtaksins óleyfisbúseta” þar sem það fengi tæpast staðist og væri þar að auki gildishlaðið. Þess í stað hafi verið ákveðið að verkefnið ætti að snúast um að afla upplýsinga um búsetu fólks í atvinnuhúsnæði. Í þessu samhengi er mikilvægt að fram komi að áherslan var öll á að skapa traust og því var okkur umhugað um að koma því skýrt á framfæri að ekki væri ætlunin að grípa með einhverju móti inn í líf íbúanna, hvað þá að hafa afskipti af búsetu þeirra.” 

Þessi nálgun ásamt vel heppnaðri auglýsingaherferð sem m.a. fólst í að útbúin var upplýsingasíða á netinu (homesafety.is) á sex tungumálum telja þær Saga og Aleksandra að ráðið hafi mestu um hversu vel eftirlitsfulltrúunum var almennt tekið í heimsóknunum. Íbúar fundu almennt ekki fyrir neinum ótta, mörgum fannst gott að geta rætt um sín mál á móðurmálinu og tóku vel á móti fulltrúunum. Margir íbúar leituðu upplýsinga og skýringa og báru ráðningar- og leigusamninga sem þeir höfðu gert undir fulltrúana,” segir Aleksandra. 

Könnunin náði til alls atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og var hvert slíkt rými heimsótt. Þar var stuðst við upplýsingar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og þjóðskrá auk þess sem ekið var og/eða gengið um viðkomandi hverfi. Í ljós kom að flestir íbúanna voru í vinnu og því var ákveðið að koma á dag- og kvöldvöktum til að ná til sem flestra.  

Saga segir að alls hafi eftirlitsfulltrúarnir náð að hafa tal af um 1.000 manns. Það er um helmingur þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Könnunin leiddi í ljós að ástandið var um margt betra en margir höfðu talið og fjöldi íbúa heldur minni,” segir Aleksandra. Í því efni ber þó að taka fram að COVID-faraldurinn geisaði á meðan verkefnið stóð yfir með alkunnum afleiðingum fyrir atvinnulífið. Má ætla að margir erlendir verkamenn hafi haldið af landi brott þegar heilu atvinnugreinarnar, þ. á m. veitinga- og hótelgeirinn, hættu starfsemi. Aleksandra telur að gera megi ráð fyrir að íbúum í atvinnuhúsnæði fjölgi þegar ferðaþjónusta nær aftur fyrri styrk.

Saga Kjartansdóttir

Fjöldi Íslendinga kom á óvart

Pólverjar reyndust stærsti hópur íbúanna, um þriðjungur, en næstir komu Íslendingar, þá Litháar og Rúmenar. Á óvart kom hversu margir íslenskir ríkisborgarar reyndust halda til í atvinnuhúsnæði en þær Saga og Aleksandra segja í ljós hafa komið að nokkuð sé um að Íslendingar búi við hlið eða fyrir ofan verkstæði og aðra vinnustaði sem þeir reka. Þetta er mjög fjölbreytilegt húsnæði og oft stóðust þessi híbýli fyllilega samanburð við glæsilegar íbúðir að innanverðu,” segir Aleksandra. Líkt og hinir aðkomnu halda margir Íslendingar einnig til í atvinnuhúsnæði af fjárhagsástæðum. Híbýli aðkomufólks voru almennt heldur lakari. 

Aleksandra leggur áherslu á að könnunin hafi leitt í ljós hversu varhugavert er að alhæfa eða tala í breiðum strokum um búsetu fólks í atvinnuhúsnæði. Þessi athugun leiddi í ljós mikinn fjölbreytileika bæði hvað varðar húsnæðið en ekki síður aðstæður íbúanna. Hingað til lands kemur fjöldi fólks til tímabundinna starfa. Þetta fólk sættir sig við lakara húsnæði enda er tilgangurinn sá að afla sem mestra tekna á stuttum tíma. Karlmenn eru í miklum meirihluta og vinnudagurinn yfirleitt langur. Þannig er algengt að karlar deili herbergi tveir, eða jafnvel fleiri með sameiginlegri eldhús- og snyrtiaðstöðu og borgi hver 65 til 80 þúsund krónur fyrir á mánuði. Algengt verð fyrir búsetu í gámi er 80 til 90 þúsund á mánuði. Þessir menn velja ódýrasta fáanlega kostinn og við vitum að fyrir þessa upphæð er ekki hægt að fá leigða íbúð. Ástand þessa húsnæðis er afar mismunandi. Margt er í góðu lagi en þarna rákust fulltrúar okkar líka á mjög léleg híbýli og slæmar aðstæður almennt. Íslendingarnir búa betur sem telja má eðlilegt að því marki að þeir eru oft eigendur húsnæðisins og búa þar til lengri tíma.” 

Rannsóknin leiddi í ljós að búseta barna í atvinnuhúsnæði er heldur fátíð. Eftirlitsfulltrúarnir staðfestu búsetu 19 barna og var engin athugasemd gerð um aðbúnað þeirra,” segir Saga. Brunavarnir reyndust almennt í lagi en nokkrir kvörtuðu undan áhugaleysi eigenda húsnæðis um viðhald þess. Saga segir ljóst að í mörgum tilvikum búi erlent launafólkið í húsnæði í eigu atvinnurekandans og það skapi aukna hættu á misneytingu. Þannig geti eigandinn krafið launafólk um óeðlilega háar leigugreiðslur og starfsmaðurinn eigi of mikið undir góðu sambandi við atvinnurekandann, bæði laun sín og húsnæði.  „Við höfum ákveðnar áhyggjur af slíkum ráðningarsamböndum. Við þekkjum of mörg dæmi þess að erlent launafólk fari illa út úr slíkum aðstæðum,” segir hún. Ástand á leigumarkaði sé þó þannig að oft er húsnæði á vegum atvinnurekandans eini raunhæfi kosturinn í boði fyrir aðflutt launafólk sem hingað kemur. Það vanti fleiri valkosti.

Sumar leiguíbúðir tæpast mannabústaðir

Þær Aleksandra og Saga eru sammála um að verkefnið hafi leitt í ljós hvílíkt ófremdarástand ríkir á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. „Það ríkir húsnæðiskreppa og hún veldur því að verð á húsnæði hækkar mjög. Leiguverð er mjög hátt og almennt langt umfram það sem þetta fólk ræður við. Búseta í atvinnuhúsnæði er því fyrst og fremst birtingarmynd ófremdarástands í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu,” segir Aleksandra og bætir við að þegar megi sjá merki þess að gámabyggðir séu teknar að myndast. Hins vegar verði að hafa í huga að búseta í íbúðargámi geti verið betri kostur en að leigja dýru verði lélegt húsnæði á opnum markaði. „Sumar þeirrar íbúða sem leigðar eru út á opna markaðinum geta tæpast flokkast sem mannabústaðir og þá er búseta í atvinnuhúsnæði betri kostur,” segir hún og kveður þetta enn eina sönnun þess ófremdarástands sem ríkir.  

Að auki nefna þær Saga og Aleksandra sjálft regluverkið. Þannig getur slökkvilið gert úttekt á brunavörnum í atvinnuhúsnæði en það á ekki við um íbúðarhúsnæði. Skráning lögheimilis er annar vandi sem taka þarf á en slík skráning er ekki heimil í atvinnuhúsnæði. Fyrir vikið skortir upplýsingar um raunverulega búsetu fjölda fólks. 

Eftir að verkefninu lauk á höfuðborgarsvæðinu var hafist handa um að safna upplýsingum um búsetu og aðstæður fólks í atvinnuhúsnæði á Suðurnesjum, Selfossi og Akureyri. Skýrsla um höfuðborgarverkefnið var gefin út fyrir nokkrum dögum.  

Saga og Aleksandra segja verkefnið hafa verið upplýsandi og mikilvæg reynsla hafi fengist sem nýtast muni til framtíðar. Samstarf þeirra sem að komu hafi verið náið og gott. Þær vísa til ummæla Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem sagði í viðtali að Alþýðusambandið hefði lagt mikið í þetta verkefni „enda lítum við svo á að þetta sé einn af stærstu smánarblettunum í okkar samfélagi.”

Næsta grein Aija og Mehdi: Komin heim í Bjarg