Fara yfir á efnissvæði
Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo Efnisyfirlit

Allsnægtakenningin

Guðrún Eva Mínervudóttir skrifar um jöfnuð og mannvirðingu

Allsnægtakenningin

Guðrún Eva Mínervudóttir skrifar um jöfnuð og mannvirðingu

Allt sem lífsanda dregur á skilið virðingu, án tillits til efnahags eða árangurs á tilteknum sviðum. Með öðrum orðum: Allir eiga allt gott skilið og enginn er öðrum æðri. Við erum öll jafn mikilvæg og merkileg hvað sem líður glysi, skrautfjöðrum eða sýnileika.

Guðrún Eva Mínervudóttir

Prófessor í læknisfræði hafði eitt sinn sem spurningu á prófi: Hvað heitir konan sem skúrar óhreinindin undan löppunum á ykkur? Hann lækkaði nemendur um einn heilan ef þau gátu ekki svarað spurningunni. Fyrir þetta uppskar hann enga sérstaka ánægju nemendanna en þetta var löngu áður en réttindi háskólanema urðu jafn hátt á baugi og nú er raunin. Fæst þeirra vissu svarið, enda ekki við því að búast; uppátæki prófessorsins var táknrænn gjörningur; aðferð til að kenna þeim – þannig að þau gleymdu því aldrei – að ef þau hefðu ekki áhuga á og bæru ekki virðingu fyrir fólkinu í kringum sig gætu þau ekki orðið góðir læknar.

Saga þessi rifjaðist upp fyrir mér nú undir lok vetrar þegar yfirvofandi verkföll hótuðu að setja allt á annan endann. Fólk á lægstum mögulegum launum, vegna þess að störf þeirra þóttu svo ómerkileg, báru allt í einu svo mikla ábyrgð að leggðu þau niður störf var sjálft orðspor Íslands í hættu. Tilveru okkar sem þjóðar hér á þessari eyju var ógnað ef fólk tæki sér vald yfir eigin lífi. Þarna kom berlega í ljós að lægst launuðu störfin voru ekki jafn léttvæg og launaupphæðin fyrir þau gaf til kynna.

Andlegur risi

Í þeirri stórmerku pistlaröð Fólkið í Eflinguvar eitt sinn rætt við unga konu sem vann við að þrífa á elliheimili. Hún sagðist smám saman hafa gert sér grein fyrir því hvað þrif eru mikilvægt og göfugt starf og mikill grundvöllur mannlegrar reisnar og vellíðunar. Ég horfði á myndina af henni, brosandi og klæddri hvítu stofnanalíni, og hugsaði: Þessi stúlka er andlegur risi. Ef einhver á skilið að vera á ofurlaunum þá er það hún. Það er að segja: ef ofurlaun væru einhvers virði í sjálfu sér en ekki sá vandræðalegi misskilningur sem þau eru.   

Fólk ætti ekki að þurfa að berjast fyrir mannsæmandi launum. Það ætti að vera sjálfgefið að í skiptum fyrir átta tíma vinnudag (og þótt tímarnir væru aðeins sex eða fjórir) getum við lifað án þess að hafa áhyggjur af beisikk afkomu. Á hinn bóginn eru verkföll, jafn óþægileg og óhentug og þau kunna að vera, svo vitundarvekjandi; vegna þess að þau varpa ljósi á það hversu háð við erum framlagi hvers annars. Engin störf eru ómerkileg. Öll störf eru mikilvæg, göfug og góðra gjalda verð. Með örfáum undantekningum: Ekki vildi ég til dæmis þiggja laun úr klóm gamma. Eða vera talsmaður risa-matvælaframleiðanda sem boðar að aðgangur að drykkjarvatni sé ekki mannréttindi heldur aðeins fyrir þá sem geta borgað. En það er önnur saga.

Vinnandi fólk er ekki lítil tannhjól í vél sem malar gull fyrir einhvern annan. Við erum raunveruleg, við skiptum máli og tími okkar er verðmætur.

Nú fer ég hálf partinn hjá mér yfir því að hafa svona mörg orð um augljósa og sjálfsagða hluti. En það geri ég einungis vegna þess að samfélagið endurspeglar ekki þessa augljósu og sjálfsögðu hluti.

Manneskjur eru óendanlega mikils virði

Reiðileg viðbrögð sumra atvinnurekenda við yfirvofandi verkföllum komu upp um úrkynjaðan kapítalisma þar sem samband vinnuveitanda og starfsmanns er ekki viðskipti-eins-og-venjulega heldur byggt á þeim misskilningi að starfsmanninum beri skylda til að gera sér laun sín að góðu. Laun sem vinnuveitandinn sjálfur myndi væntanlega ekki sætta sig við. 

En burtséð frá öllu þessu – burtséð frá þeirri sjálfsögðu staðreynd að fólkið sem vinnur störfin sem allt grundvallast á eigi skilið eðlileg og sanngjörn laun – langar mig að fjalla um nokkuð sem flestir hljóta að samþykkja að séu algild sannindi. En það er að manneskjur eru óendanlega mikils virði, alveg óháð formlegu vinnuframlagi; hvort sem við erum launafólk, atvinnulaus, verktakar, öryrkjar, eigendur fyrirtækja eða á ellilífeyri. Allt sem lífsanda dregur á skilið virðingu, án tillits til efnahags eða árangurs á tilteknum sviðum. Með öðrum orðum: Allir eiga allt gott skilið og enginn er öðrum æðri. Við erum öll jafn mikilvæg og merkileg hvað sem líður glysi, skrautfjöðrum eða sýnileika. Manngildi hefur ekkert með fjárráð að gera og er heldur ekki háð vinnuframlagi.

Að auki gef ég mér það að allar manneskjur vilji láta gott af sér leiða. Og komi því í verk með ýmsu móti. Aðferðirnar eru óteljandi. Launuð vinna er bara ein aðferð af mörgum til þess að gera heiminum gagn. Með öðrum orðum: Þeir sem ekki vinna formlegan vinnudag eru alveg jafn ómissandi og allir hinir.  

Nú fer ég hálf partinn hjá mér yfir því að hafa svona mörg orð um augljósa og sjálfsagða hluti. En það geri ég einungis vegna þess að samfélagið endurspeglar ekki þessa augljósu og sjálfsögðu hluti.

Það gerir hins vegar lifnandi stemningin í stéttafélögum landsins. Skýr teikn eru á lofti um að fólk sé í auknum mæli að gera sér grein fyrir því hvers virði það er í sjálfu sér. Og að framlag þess er lífsblóðið sem rennur um æðar samfélagsins. Hver einasta manneskja er heill heimur. Það þarf ekki að kafa djúpt eða spyrja margra spurninga til að komast að raun um það. Vinnandi fólk er ekki lítil tannhjól í vél sem malar gull fyrir einhvern annan. Við erum raunveruleg, við skiptum máli og tími okkar er verðmætur.

Hvaðan kemur sú hugmynd að sumir þurfi að skríða í gólfinu?

Aftur að sam-mannlega viljanum til þess að láta gott af sér leiða. Hvað með þá sem virðast ekki hugsa um annað en eigin hag (í yfirborðslegasta skilningi)? Jú, viljinn til góðs er þar örugglega til staðar en kemst ekki að fyrir óttanum um að verða undir í lífinu. Ófullnægður vilji til að gera heiminum gagn ólgar undir niðri og brýst fram sem andleg fátækt; ótti og heift í garð þeirra sem ekki eru sama markinu brenndir, þeirra sem eru hjálpar þurfi og þeirra sem hafa ekki sama aðgengi að auði og völdum.

Bældur vilji til gagns birtist líka í leikhúsi fáránleikans á borð við brauðmolakenninguna. Hún var ekki aðeins fundin upp til að slá ryki í augu almúgans heldur einnig sem sjálfsréttlæting. Sjálfsefjun. Hvað með ábyrgðina sem fylgir auði og völdum? Ó, það vill svo vel til að við þurfum ekkert að velta fyrir okkur ábyrgð. Þetta gerist allt bara af sjálfu sér. Molarnir hrynja af gnægtaborðinu. 

Samkvæmt brauðmolakenningunni er lífið matarboð þar sem ríkir vægast sagt undarleg stemning. Það er pláss fyrir frekar fáa við borðið; hinir verða að skríða á gólfinu.

Hvaðan kemur annars sú hugmynd að sumt fólk þurfi að skríða? Að það sé ákveðinn pólitískur ómöguleiki að allir fái lifað uppréttir?

Til mótvægis leyfi ég mér að kynna til leiks allsnægtakenninguna: Jörðin er fyrir alla. Það er nóg til. Lífið er matarboð þar sem við getum öll setið til borðs og höfum í öllum tilvikum – engar undantekningar – eitthvað einstakt til málanna að leggja. Þeir sem vilja safna auði geta gert það. Það þarf alls ekki að vera á kostnað annars fólks, lífríkis á jörðinni og eigin samvisku. Aftur fer ég hjá mér yfir því að hafa orð á svo augljósum hlutum, en ég læt mig hafa það. Að lokum þakka ég þeim sem lásu til enda. Hvort sem þið eruð sammála þessum skrifum eða ekki og hvernig sem þið kjósið að verja deginum virði ég ykkur takmarkalaust. Ég bið ykkur að hafa hugfast að raungildi ykkar er óendanlegt. Eitt andartak af tíma ykkar er meira virði en allt gull jarðarinnar. 

Næsta grein Formaðurinn spurði hvort ég vildi ekki fá borgað fyrir þetta tuð