Fara yfir á efnissvæði
Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo Efnisyfirlit

„Um tíma leigði ég með 9 manns“

Flora Fernández segir frá reynslu sinni af íslenskum vinnumarkaði

„Um tíma leigði ég með 9 manns“

Flora Fernández segir frá reynslu sinni af íslenskum vinnumarkaði

Launin á Íslandi eru líka betri en á Spáni þar til þú áttar þig á hvað kostar að lifa hérna, hversu mikið fer í skatt, húsaleigu, mat og strætó.

Flora Fernández Agulló

Erlendu verkafólki á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Má áætla að um 33 þúsund útlendingar sé nú starfandi á Íslandi sem er 17% af heildarfjölda á vinnumarkaði. Undanfarin misseri höfum við heyrt margar ljótar sögur af launaþjófnaði, mansali, vondum aðbúnaði og illri meðferð á erlendu verkafólki. ASÍ mun halda áfram að vekja athygli á slíkum málum því ofbeldið verður að uppræta. Í Hlaðvarpsspjalli á öðrum stað í þessu vefriti er einmitt komið inn á þessi mál. En góðu heilli gengur mörgu erlendu verkafólki þokkalega að fóta sig hér á landi þótt yfirleitt sé það í lægstu þrepum launastigans og lifi langt því frá í vellystingum. Vinnan tók erlenda verkakonu tali sem hefur dvalið á Íslandi um skeið, til að heyra hennar reynslu af íslenskum vinnumarkaði og lífinu hér.

Erfitt að ná endum saman á Íslandi

Flora Fernández Agulló er 33 ára frá Galíseu á Spáni, hún starfaði við þrif og morgunverðaþjónustu á hóteli í Reykjavík en er nú á milli starfa. Flora kom hingað til lands fyrir þremur árum vegna þess að hún var orðin langþreytt á atvinnuleysi og basli í heimalandinu. „Ég á góðan vin sem hefur búið hér lengi sem hvatti mig til að koma hingað og prófa. Það vakti strax athygli mína hvað það var auðvelt að fá vinnu á Íslandi. Hér tók það mig sólarhring að finna starf á meðan slíkt tók yfirleitt fleiri mánuði heima á Spáni. Ég veit að þessi staða hefur breyst á síðustu mánuðum en enn er mun auðveldara að redda sér vinnu á Íslandi en á Spáni.“
Flora segir vinnutímann hér á landi henta sér betur en það sem tíðkast í heimalandinu.

„Ég kann betur við vinnufyrirkomulagið hér. Á Spáni er vinnudeginum skipt í tvennt með löngu hléi og er fyrir vikið mun lengri, hann nær frá morgni og fram á kvöld. Hér er ég búin að vinna eftir 8 tíma sem hentar mér vel. Launin á Íslandi eru líka betri en á Spáni þar til þú áttar þig á hvað kostar að lifa hérna, hversu mikið fer í skatt, húsaleigu, mat og strætó. Þá fer mestur glansinn af launaseðlinum. Það getur oft verið erfitt að ná endum saman.“

Ekki möguleiki að búa ein eða eiga bíl

Flora segist eingöngu ná að lifa af sínum mánaðarlegu launum vegna þess að hún deilir íbúð með öðrum. „Núna er ég að leigja með þremur öðrum sem er nú bara fínt miðað við að um tíma leigði ég með níu manns. Ég er að reyna að safna smá pening sem gerir það að verkum að ég neita mér um ýmislegt sem ég gerði áður eins og að fara í leikhús eða út að borða. Það er alveg klárt að ég gæti aldrei leyft mér þann munað að búa ein eða eiga bíl hér á Íslandi, hvað þá ferðast. Það er líka fjarlægur draumur að stofna fjölskyldu og lifa „eðlilegu“ lífi. Fjölskyldulífi á Íslandi er ekki einu sinni hægt að lifa á tvöföldum lágmarkslaunum. Í dag snýst þetta um að komast af frá mánuði til mánaðar.“

Þegar Flora er spurð hvort hún gæti lifað af launum fyrir sambærilegt starf á Spáni þá segir hún það vel mögulegt, sérstaklega utan stóru borganna, en það yrði þó alltaf erfitt. Það munar þó mikið um að húsnæðiskostnaður er ekki jafn yfirgengilega hár á Spáni og hér á landi.

Vanhæfir yfirmenn

Hún segir vinnuaðstæður almennt betri hér en í heimalandinu en henni finnst oft á tíðum óskipulag á vinnunni á Íslandi. „Ég hef bara reynslu af hótelstörfum en mér finnst áberandi hvað yfirmenn hér hafa oft lítið vit á því hvað við hótelþernurnar gerum. Maður fær stundum á tilfinninguna að þessir yfirmenn okkar hafi fengið starfið vegna þess að þeir eru Íslendingar en ekki vegna hæfni eða þekkingar. Það er pirrandi og ósanngjarnt að sjá fólk sem greinilega kann ekki til verka fá stöðu yfirmanns. Á Spáni gerist þetta einnig en þar er meginreglan samt sú að þeir sem eru vanhæfir eru látnir fara. Ég hef ekki upplifað það hér á landi,“ segir Flora. Hennar reynsla af vinnu á hóteli í Reykjavík er yfirleitt ágæt en hún hefur líka upplifað dökkar hliðar.

„Það er tilfinning mín, og þeirra erlendu starfsmanna sem ég hef kynnst, að þeir sem reka hótel séu ekkert alltof hrifnir af því þegar við útlendu starfsmennirnir erum farnir að þekkja rétt okkar og farnir að gera kröfur í samræmi við það. Ég lenti t.d. í því á hóteli þar sem ég vann að einn daginn var okkur starfsmönnunum tilkynnt að vaktirnar okkar yrðu styttar um helming. Við sem vorum í þrifum og þjónustu sættum okkur auðvitað ekki við það og sögðum upp. Þeir réðu í staðinn fólk sem var nýkomið til landsins og þekkti lítið til réttinda sinna. Ég held það hafi alltaf verið ætlunin að losna við okkur.“

Á milli starfa Flora Fernández Agulló er 33 ára frá Galíseu á Spáni, hún starfaði við þrif og morgunverðaþjónustu á hóteli í Reykjavík en er nú á milli starfa.

Maður fær stundum á tilfinninguna að þessir yfirmenn okkar hafi fengið starfið vegna þess að þeir eru Íslendingar en ekki vegna hæfni eða þekkingar.

Flora Fernández Agulló
Heillaspor að verða strax meðlimur í stéttarfélagi

Flora segist ekki hafa neitt sérstaka reynslu af því að vera í stéttarfélagi á Spáni. Hún hafi verið í félagi um tíma þar sem hún upplifði spillingu en það sé alls ekki algengt þar í landi, flest félögin starfi af heilindum. Hún hafi hins vegar verið í stéttarfélagi á Íslandi frá fyrsta vinnudegi. „Þetta var eitt af því sem kom mér mest á óvart þegar ég kom til Íslands. Um leið og ég byrjaði að vinna var ég orðin félagsmaður í Eflingu og það var heillaspor. Mér finnst frábært hvernig stéttarfélagið mitt er að vinna fyrir þá sem lægst hafa launin og eru viðkvæmastir fyrir því að svindlað sé á þeim, þ.e. innfleytjendur.“

En hvernig líkar henni lífið á Íslandi?

„Ég er heilt yfir mjög ánægð hérna. Það er alltaf góð reynsla að prófa að búa og vinna í nýju landi. Læra nýja hluti, kynnast nýju fólki og menningu og svo er Ísland auðvitað ótrúlega fallegt land. Með því að kynnast nýju samfélagi eins og því íslenska læri ég líka helling um mitt eigið land. Það er mikilvægt. Planið er nú ekki að setjast hér að, en hver veit, upphaflega ætlaði ég bara að vera í þrjá mánuði en þeir eru orðnir að þremur árum.“

Næsta grein Heimurinn er betri nú en fyrir 100 árum