Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Segjum frá sigrunum

Segjum frá sigrunum

       Björn Snæbjörnsson í höfuðstöðvum Einingar-Iðju á Akureyri. Myndir/Eining-Iðja.

 

 

Eftir 40 ár í framlínu verkalýðsbaráttunnar er tímabært að hægja á ferðinni - hóflega þó. Í samtali við Vinnuna lítur Björn Snæbjörnsson, fráfarandi formaður Einingar-Iðju, yfir farinn veg en ræðir einnig stöðu og framtíð verkalýðshreyfingarinnar á miklum ólgutímum.

 

Í RAUN hefur hann ekki skýringu á hvaðan þessi óstöðvandi félagsmálaáhugi er kominn. Tæpast er hann erfðafræðilegur; foreldrar hans voru ekki forgöngufólk á þessu sviði þótt finna megi skörunga á ská og aftur í ættum. Kannski skýrir félagsmálaáhuginn þá staðreynd að börn Björns Snæbjörnssonar, fráfarandi formanns Einingar-Iðju á Norðurlandi, hafa aldrei sýnt minnst áhuga á að feta í fótspor hans. Það krefst fórna að sinna svo krefjandi og tímafrekum störfum og fjölskyldulífið hefur ábyggilega mótast af miklum önnum heimilisföðurins. Björn hætti störfum sem formaður Einingar-Iðju nú í aprílmánuði en verður viðloðandi og ábyggilega rúmlega það fram á haustmánuði. Þá horfir hann til nýrra verkefna - þetta er ekki maður sem sest í helgan stein.  

Á lítilli skrifstofu sinni í Alþýðuhúsinu á Akureyri tekur Björn á móti sendisveini Vinnunnar að sunnan. Úti gnauða vindar og skyggnið er nær ekkert í hríðarkófinu. Hann skrýðist að vanda einkennisbúningnum, stuttermaskyrtunni, og leiðir gestinn á fund starfsfólksins - hann er eindregið þeirrar skoðunar að fulltrúar Alþýðusambandsins, háir sem lágir, þurfi að fá betri tilfinningu fyrir lífinu á landsbyggðinni og starfsemi stéttarfélaganna þar. Tæpast verður því á móti mælt.  

Tveggja heima maður

Björn er fæddur 1953 á Nolli í Grýtubakkahreppi. Sérkennilegt nafn Nollur, á netinu segir að nafnið þýði „Kuldahrollur”.  Svalbarðseyrin var næsti kaupstaður og tíðindi mikil þegar haldið var til Akureyrar. Hann gekk í Grenivíkurskóla og Laugaskóla og þaðan lá leiðin í verkamannavinnu í höfuðstað Norðurlands. Björn er maður tveggja heima;  í æsku kynntist hann búskaparháttum sem voru um flest æði fornlegir og kostuðu mikið og stöðugt streð. Nú ræðir hann af miklum áhuga þá möguleika sem tæknin veitir til að auka tengslin við félagsmenn og sýnir gestinum, stoltur, upplýsingabæklinga á ellefu tungumálum fyrir erlent launafólk.  

Félagsmálin virðast snemma hafa höfðað til Björns a.m.k. ef marka má þá minningu hans að hafa 12 ára gamall haldið fyrstu ræðu sína, þakkarræðu fyrir hönd æskulýðsfélags. Framan af leið honum reyndar ekki vel í ræðustól en hnúturinn í maganum rauk út í veður og vind á fyrsta eða öðru þingi ASÍ sem hann sat þegar félagi hans einn setti hann á mælendaskrá. Þá varð ekki aftur snúið og síðan þá hefur hann aldrei fundið fyrir taugatrekkingi þegar hann tjáir sig opinberlega, ávarpar fundi og samkundur.  

Björn tók sæti í stjórn Einingar árið 1981 og varð starfsmaður félagsins ári síðar. Árið 1986 tók hann við embætti varaformanns og sex árum síðar var hann kjörinn formaður. Árið 1999 varð Eining-Iðja til með samruna félaganna tveggja. Björn var því formaður í 31 ár.  

Björn var varaformaður Starfsgreinasambandsins (SGS) sem er fjölmennasta landssambandið innan ASÍ. Þaðan lá leiðin í stól formanns, Björn sinnti því starfi í 12 ár uns hann lét af embætti 2022. Björn sat í miðstjórn ASÍ í rúm 30 ár en lét af störfum á þingi ASÍ sem fram fór í liðinni viku.  

Mynd: Björn 3 (4)
Rauði fáninn á 1. maí á Akureyri.

Áþekk verkefni í gjörbreyttu umhverfi

Björn hefur að sönnu lifað tímana tvenna en segir aðspurður að í grunninn hafi verkefnin ekki tekið svo miklum breytingum frá því hann hóf afskipti af verkalýðsmálum. Nú sem fyrr snúist hinn daglegi erill um að gæta réttinda félagsmanna og grípa inn í þegar þörf krefur. Sjá þurfi til þess að laun séu greidd og þau laun séu rétt og í samræmi við samninga. Þá kalli varðstaða um réttindamál félagsfólks á stöðuga vinnu. Síðan megi ekki gleyma þeirri grundvallarbreytingu á allri starfsemi stéttarfélaga sem mikil fjölgun erlends launafólks hafi haft í för með sér. Samskiptin hafi breyst og boðleiðirnar séu aðrar en áður.  

 

„Auðvitað hafa orðið alþekktar breytingar á samfélaginu. Fólk hefur nú mun betri aðgang að upplýsingum en áður. Það er ekkert svo rosalega langt síðan við vorum hér að raða saman og hefta blöð til útgáfu. Það tók heila viku fyrir allt starfsfólk skrifstofunnar að koma út blaði með nýjustu kauptöxtunum,” segir Björn og brosir í kampinn. Nú skellir einn starfsmaður þessum upplýsingum á netið á núllkommaeinni.   

Aðgengi að vinnustöðum er annað sem tekið hefur miklum breytingum. Fyrr á tíð gengu menn inn á vinnustaði sem voru öllum opnir t.a.m. frystihús og önnur framleiðslufyrirtæki matvæla.  Nú lúta slíkir staðir aðgangsstýringum hreinlætis og öryggis vegna. Björn telur þessa breytingu framför og segir verkalýðsfélög treysta á skipulagða fundi með félagsmönnum sem geri í senn auðveldara að ná til fleiri og tryggi ákveðna formfestu sem nauðsynleg sé í slíkri starfsemi. Oftast annast trúnaðarmenn á vinnustöðum slíka fundi.  

Eftirlit og leiðbeiningar

Vinnustaðaeftirlit hefur löngum verið einn hornsteina verkalýðsbaráttunnar og innan ramma þess er fulltrúum stéttarfélaga heimilt að sækja heim vinnustaði án þess að gera boð á undan sér. Björn segir eftirlitið lengi hafa verið einn grunnþátt starfseminnar en mikilvægi þess hafi aukist mjög með fjölgun erlends launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Hann nefnir kraftmikla starfsemi vinnustaðaeftirlits Alþýðusambandsins og er nokkuð ánægður með hvernig til hefur tekist hjá Einingu-Iðju.  

„Við leggjum upp úr því að leiðbeina, að kynna atvinnurekendum og starfsfólki réttindi og skyldur. Við viljum stuðla að jákvæðu sambandi við atvinnurekendur og reynum það án þess að gefa nokkuð eftir þegar réttindi og kjör launafólks eru annars vegar. Langflest mál má leysa með símtölum.,” segir Björn og bætir við að í flestum tilvikum sé um vankunnáttu atvinnurekenda að ræða þegar launafólk leiti til skrifstofunnar á Akureyri eða útibúanna á Dalvík og í Fjallabyggð.  

Trúverðugleikinn í húfi

Hann segir blessunarlega fá dæmi þess að atvinnurekendur brjóti meðvitað gegn réttindum og umsömdum kjörum starfsfólks. Hér koma vissulega upp erfið mál sem stundum kalla á beina aðkomu lögmanna sem starfa fyrir félagið. Afstaða okkar grundvallast á því að við lítum ekki á atvinnurekendur sem óvini okkar. Án þetta væri engin vinna og ekkert stéttarfélag! Með þessu erum við ekki að ganga í eina sæng með atvinnurekendum, öðru nær. Ég hef reyndar oft haldið því fram að krefjast ætti þess að verðandi atvinnurekendur fari á námskeið um réttindi sín og skyldur. Reynsla okkar er sú að við náum bestum árangri með því að leysa úr málum æsingalaust. Og reynsla okkar er einnig mjög eindregið sú að erfið mál verði enn þá snúnari viðfangs ef farið er með þau í fjölmiðla. Trúverðugleiki okkar er undir því kominn að við stöndum fagmannlega að verki þegar inngripa er þörf í erfiðum og iðulega mjög persónulegum málum.” 

Neftóbak og hurðaskellir

Björn kveðst hafa kynnst mörgum skemmtilegum og sérkennilegum persónuleikum á sínum langa ferli. Hann rifjar upp gott samstarf við mikla foringja á borð við Björn Grétar Sveinsson, þáverandi formann Verkmannasambands Íslands, sem síðar sameinaðist Landssambandi iðnverkafólks og  Þjónustusambandi Íslands í Starfsgreinasambandinu, Sigurð Ingvarsson, verkalýðsljón til áratuga á Austurlandi, Hervar Gunnarsson á Akranesi, Ragnar Sigurðsson á Ísafirði, Halldór Björnsson heitinn, síðasta formann Dagsbrúnar, Sigurð Bessason, Eflingarformann um 20 ára skeið, Hrafnkel Jónsson heitinn, félagsmálafrömuð, verkalýðsleiðtoga og stjórnmálamann á Eskifirði, Kristján Gunnarsson í Keflavík og Rögnu Bergmann heitna sem var formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar til margra ára og um skeið fyrsti varaforseti ASÍ. Hann segir að sambúðin við forseta ASÍ hafi almennt verið friðsamleg og nefnir Benedikt Davíðsson heitinn, Grétar Þorsteinsson, Ásmund Stefánsson og Gylfa Arnbjörnsson. Björn fer fögrum orðum um Drífu Snædal, sem hann starfaði með í sex ár er hún var framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, áður en hún var kjörin forseti ASÍ árið 2018. Björn telur afsögn hennar í ágústmánuði 2022 hafa verið verkalýðshreyfingunni mikið áfall.  

Og svo er það goðsögnin sjálf, Guðmundur J. Guðmundsson - Gvendur Jaki. „Já, já, ég vann með Jakanum. Hann var mikill karakter,” segir Björn. „Ég man eftir að hafa komið inn á skrifstofu til hans í einhverri kjaradeilunni. Skrifborðið hans var alveg autt, ekki á því svo mikið sem pappírssnifsi. Hann hallaði sér aftur í stólnum, tók í nefið með talsverðum látum og kastaði síðan tóbakskorninu af handarbakinu aftur fyrir sig. Við borðið sat ungur og nýráðinn aðstoðarmaður hans, Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri. Jakinn ruddi út úr sér dimmum rómi alls kyns hugmyndum og upphæðum sem Ásgeir reiknaði út á pínulitla vasareiknivél. Það var kostuleg sjón.”  

Starf, hugsjón, lífsstíll

Björn segir það sína reynslu að aðeins þau sem hafa „bullandi áhuga” á verkalýðsmálum endist í þessu starfi. „Þeir sem eingöngu líta á þetta sem atvinnu endast ekki lengi. Þetta er allt í senn starf, hugsjón og lífsstíll. Það voru vissulega meiri tilfinningar í samningaviðræðunum hér á árum áður. Þá var ekki treyst svo mjög á útreikninga jafnvel í smæstu málum eins og nú. Mér finnst við oft draga fram lífið í Excel. Auðvitað hefur margt breyst til batnaðar en ég tel að gæti eigi hófs í allri tæknihyggjunni. Við megum ekki gleyma hinu mannlega,” segir Björn.  

Hann talar vel um viðsemjendur sína. Þar hafi að vísu ekkert breyst – aldrei séu forsendur til að bæta kjör launafólks. Sækja þurfi hverja einustu krónu með töngum. Hann rifjar upp að Þórarinn V. Þórarinsson, þá framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands forvera Samtaka atvinnulífsins, hafi oft verið harður í horn að taka og lifað sig inn i samningaviðræðurnar með hurðaskellum og tilheyrandi leikrænum tilburðum. Aðspurður kveðst hann hafa átt ánægjuleg samskipti við andstæðinga sína þegar stigið var upp frá samningaborðinu. Þar hafi hann ekki síður kynnst skemmtilegu fólki og skrautlegum karakterum. Björn segir Halldór Benjamín Þorbergsson, sem nýverið hætti sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sleipan samningamann og hreint bráðskemmtilegan viðræðu.  

Fráleitt umhverfi kjarasamninga

Björn nefnir miklar og löngu tímabærar breytingar á öllu umhverfi kjarasamninga í landinu. „Þetta var beinlínis ómanneskjulegt hér lengi framan af. Við héngum yfir þessu sólarhringum saman. Við máttum ekki fara út úr húsi. Ég man eftir 54 klukkustunda samningalotu. Einhverju sinni, sennilega 1988, komst ljósmyndari af Mogganum einhvern veginn inn hjá sáttasemjara og birti mynd af samningamönnum sem sváfu á gólfinu og undir borðum með úlpur sínar fyrir kodda. Þetta var algjört brjálæði. Ég man eftir því að hafa beðið í heilan sólarhring eftir einni setningu í samningum. Því var stundum haldið fram að þetta gæti ekki verið svo slæmt þar sem við værum nú að spóka okkur í Reykjavík. En þannig var það nú ekki. Í þá daga voru menn í fullri vinnu og viðræður hófust ekki fyrr en komið var undir kvöld. Oft hafði maður ekkert við að vera í Reykjavík og var bara í einhverju hangsi fram eftir degi. Þetta var hryllileg tímaeyðsla,” segir Björn og fagnar því að loks hafi verið horfið frá þessu glataða fyrirkomulagi. „Í síðustu samningum sem við kláruðum í desember voru vinnubrögð allt önnur og betri. Nú hefst vinnan að morgni dags og fyrirkomulagið er allt fastara í formi.” Björn ber lof á Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara. „Skipulagið var til algjörrar fyrirmyndar hjá honum og embættinu öllu.” 

Nú vilja ýmsir auka völd sáttasemjara - varla líst þér á það? 

„Jú, ég vil að völd sáttasemjara verði aukin. Hann hefur oft verið í hlutverki eins konar fundarstjóra og í raun ekki haft getu til að miðla málum. Þessu þarf að breyta - sáttasemjari þarf að eiga meiri möguleika á inngripum. Mér finnst ekki óeðlilegt að hann geti frestað verkfalli telji hann að á þann veg megi greiða fyrir samningum.”  

Ja hérna!   

 „Já, ég hræðist ekki að hann fái meiri völd.”  

Björn á skrifstofunni, vísast á tíunda áratugnum.

Fjarfundirnir mikil dýrð

Önnur breyting sem tæknin hefur haft í för með eru fjarfundir. Björn segir að sennilega hafi engar tækniframfarir aðrar haft svo jákvæð áhrif á líf hans og störf. Honum er hlýtt til Teams. „Þessi breyting skall nánast fyrirvaralaust á í Covid-faraldrinum.  Þessi tækni svínvirkar, fjarfundirnir eru miklu betri og markvissari, þvílíkur tíma- og peningasparnaður! Ég myndi vilja fjölga slíkum fundum á vettvangi Alþýðusambandsins. Allir nefndafundir ættu að vera á Teams.”  

Hann segir landsbyggðarfólk opnara fyrir þessari frábæru tækni enn höfuðborgarbúa. Ef til vill er það eðlilegt þar sem fjarfundir tryggja ákveðna jafnstöðu þeirra sem þá sækja en ekki síður er að nefna að fyrir fólk af landsbyggðinni sem sinnir félagsmálastörfum er tímasparnaðurinn gífurlegur. Björn nefnir að 40 til 50 ferðir til Reykjavíkur séu ekki fjarri lagi í meðalári. Nú fari annar af tveimur fundum miðstjórnar Alþýðusambandsins í mánuði hverjum fram um netið og telur hann að þeim mætti einnig fjölga. Hann segir Starfsgreinasambandið nýta þessa tækni vel og getur þess að auðveldara sé að halda uppi samskiptum við trúnaðarmenn með þessu móti. Það skipti miklu auk þess sem kalla megi allan hópinn saman til skrafs og ráðagerða.  

En er nú ekki nauðsynlegt fyrir fólk að hittast? Í Kófinu töluðu margir um hve erfitt væri að geta ekki hitt félagana í baráttunni. 

„Auðvitað er það nauðsynlegt og til þess eru fyrir hendi viðeigandi vettvangar. Þeim mætti þess vegna fjölga. Miðstjórn hélt nýlega tveggja daga vinnufund í Borgarfirði sem þótti takast afar vel. Við ættum ábyggilega að fjölga slíkum samkundum. En venjubundnum fundum miðstjórnar um netið mætti fjölga, að mínu mati. Þeir verða svo miklu skilvirkari þannig.” 

Stjórnlaust brjálæði á samfélagsmiðlum

Talandi um tækni og nærveru. Björn er ekki mikill aðdáandi samfélagsmiðla. Telur þá raunar neikvætt afl í samfélaginu. „Orðræðan er alveg yfirgengileg. Fólk hraunar yfir aðra án þess að hafa hundsvit á því sem það er að fjalla um. Síðan fylgja aðrir í kjölfarið og þannig magnast þetta upp og verður að stjórnlausu brjálæði.” Björn og félagar hafa kynnst þessu en það er ekki i eðli hans að taka slíkri framkomu þegjandi. „Ég hef hringt í fólk sem hefur verið að djöflast á okkur á samfélagsmiðlum. Þá verður nú oftast fátt um svör. Ég hef líka stoppað fólk á götu sem hefur látið ófögur orð falla um mig eða hreyfinguna. Þá taka nú bara ýmsir á rás! Almennt þora þeir sem lengst ganga ekki að standa við ummæli sín persónulega,” segir hann og dæsir.  

Björn segir að eftir desembersamningana nú síðast hafi hrikalega ósanngjarnri og andstyggilegri orðræðu verið haldið uppi á netinu. „Þetta var bara helvítis kjaftæði og rugl. Samningarnir voru mjög góðir í stöðunni. Félög innan Starfsgreinasambandsins sýndu bæði hörku og þor þegar þau tóku af skarið og sömdu,”  bætir hann við.  

Ekki til vinsælda fallið

Félagar í Einingu-Iðju eru nú um 9.000; þetta er stærsta stéttarfélag landsbyggðarinnar. Áður voru 22 stéttarfélög á starfssvæðinu. Á skrifstofunni starfa 16 manns og eru þá meðtaldir fulltrúar VIRK starfsendurhæfingarsjóðsins og svæðisfulltrúar félagsins á Dalvík og Siglufirði. Þetta vekur spurningu um hvort veruleikinn sé annar í stéttarfélögum á landsbyggð miðað við höfuðborgina. Nándin er augljóslega meiri. 

„Hún er það,” segir foringinn og telur kostina fleiri en gallana. „Við bregðumst við nándinni með ýmsu móti. Komi upp stór og persónuleg mál hjá skrifstofunum á Dalvík og Siglufirði látum við starfsfólk hér á Akureyri annast þau. Styrkurinn liggur í stærð félagsins og þótt við séum hér í nábýli við atvinnurekendur og aðra sem við þurfum að eiga samskipti við held ég að allir geri sér ljóst að við erum ekki undirlægjur eins né neins og tökum á því sem við teljum þurfa af fullri hörku ef svo ber við. Í þessari grein er vonlaust að ætla sér að vera vinur allra og maður leggur þetta ekki fyrir sig til að afla sér vinsælda, svo mikið er víst,” segir Björn og brosir breitt.   

Almenn ánægja félagsfólks

Hann segir stoltur frá árlegum könnunum sem leiða í ljós mikla ánægju félagsfólks með starfsemi félagsins. Hún mælst vel yfir 90%. Þetta er sá mælikvarði sem Björn tekur mark á. Hann segir starfsfólk hafa orðið vart við ákveðinn „menningarmun” þegar erlendu félagsfólki tók að fjölga. Tekið hafi talsverðan tíma að sannfæra aðkomna verkafólkið um að stéttarfélagið væri í vinnu fyrir það og gegndi mikilvægu hlutverki varðandi kaup og kjör. Margir hafi komið frá löndum þar sem viðmið séu önnur sem og hefðir og saga. „Við höfum lagt mikla vinnu í að skapa traust og ég held að okkur hafi tekist ágætlega upp,” segir Björn og leggur áherslu á mikilvægi trúnaðar í samskiptum við félagsfólk, íslenskt sem erlent. „Þetta liggur alveg ljóst fyrir hérna á skrifstofunni; trúnaðarbrot er brottrekstrarsök.” 

Björn kveður einhverja atvinnurekendur hafa reynt að nýta sér viðkvæma stöðu aðkomufólks og varað það við samskiptum við stéttarfélög með þeim orðum að þannig geti viðkomandi kallað yfir sig brottvísun úr landi. Blessunarlega séu þessi dæmi ekki mörg og sér hann ekki betur en aðkomufólkinu líði almennt vel.  

Þjónusta við erlent launafólk

Eining-Iðja hefur útbúið margvíslegt fræðsluefni fyrir aðkomið launafólk á fjölmörgum tungumálum. Björn kveður engan vafa á að þetta efni hafi nýst erlenda verkafólkinu sem nú telur um 13% félagsmanna. Hann segir fjölgun erlends verkafólks á starfssvæði félagsins í raun vera „byltingu”. Flest sé fólkið „komið til að vera” og hlutur þess innan félagsins fari vaxandi. Það eigi við um stjórn og trúnaðarráð auk þess sem fjöldi trúnaðarmanna af erlendu bergi brotinn sé að störfum. „Þetta er áskorun og tækifæri. Nú eru túlkar á fundum félagsins og ég held að öllum þyki það alveg sjálfsagt. Það viðhorf að þau geti bara lært íslensku fyrst þau vilji starfa hérna er alveg út í hött. Auðvitað verður félagið að koma til móts við fólkið.” Á vettvangi Einingar-Iðju stendur nú fyrir dyrum stórátak til að bæta félagaskrána og auðvelda þannig samskipti við félagsfólk um internet og síma. Björn bindur miklar vonir við það verkefni og telur það geta valdið straumhvörfum í að auka þátttöku félagsfólks í starfi og ákvörðunum.  

Almennt telur hann að verkalýðshreyfingin eigi talsvert mikið óunnið hvað aðkomna launafólkið varðar. Allir reyni sitt besta en því sé ekki að neita að nokkuð vanti á að tekist hafi að fanga það verkefni sem þessi mikla breyting á vinnumarkaði feli í sér. Allt stefni þetta þó í rétta átt en leggja þurfi meira afl í þennan þátt í rekstri stéttarfélaga.  Félögin verði sjálf að ráða för og miða verk sín við aðstæður á hverjum stað. Miðstýring sé ekki fallin til að leysa þetta verkefni. Hinu sé ekki að neita að mörg stéttarfélög hafi tæpast bolmagn til að veita erlendu launafólki nauðsynlega þjónustu. „Vinnustaðaeftirlitið er það tæki sem best gagnast til að ná sambandi við aðkomið verkafólk. Með því að efla það náum við fyrr árangri,” er niðurstaða hans.  

Fækkun og stækkun

Þarna komum við að máli sem þér hefur löngum verið hjartfólgið - það er fækkun og stækkun stéttarfélaga. 

„Fækkun og stækkun er óhjákvæmileg og því fyrr sem menn horfast í augu við þá staðreynd því betur mun þeim farnast. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins (SGS) voru alls 50 árið 2000. Nú eru þau 19. Vissulega framför en betur má ef duga skal. Ég tel að átta félög innan SGS væri eðlilegur fjöldi. Lágmarksstærð stéttarfélaga ætti að vera 1.000 til 1.500 manns. Félög af þeirri stærð geta rekið sjúkrasjóði og veitt félagsmönnum sínum góða þjónustu. Þróunin er víða í rétta átt - á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur tekist vel við fækkun og stækkun og samlegðaráhrifin hafa ekki látið á sér standa. Sama má segja um Snæfellsnes en víða er enn fyrirstaða,” segir Björn. 

Þetta minnir á umræðu um fækkun og stækkun á sveitarstjórnarstiginu, hrepparíginn og ótta við einhvers konar jaðarsetningu í kjölfar sameiningar.  

„Akkúrat. Hér á Eyjafjarðarsvæðinu voru áður 22 félög. Þau voru of lítil og náðu ekki að halda úti sjúkrasjóði. Sameiningin hér tókst vel og enn hef ég engan hitt sem vill fara aftur í gamla farið. Félagið okkar skiptist í þrjár starfsgreinadeildir, Iðnaðar- og tækjadeild, Matvæla- og þjónustudeild og Opinbera deild. Hver deild hefur sinn formann og varaformann. Þannig reynum við að sameina kosti stórra og smærri félaga.” 

Björn fullyrðir að við sameiningu stéttarfélaga rétt eins og sveitarfélaga skipti mestu að rétt sé að málum staðið.  Hjá Einingu-Iðju hafi allt varðandi sameiningu félaga verið uppi á borðum og gengið frá öllum endum svo sem fyrrnefndri deildaskiptingu og þjónustu á Dalvík og í Fjallabyggð. Svo er það tæknin.  

„Það er aldrei gott að ganga hræddur til leiks. Í umræðum um sameiningu sveitarfélaga - og þetta á líka við um stéttarfélögin - er klifað á því að þeir sem búa á jaðrinum verði óhjákvæmilega út undan. Reynslan hér á Eyjafjarðarsvæðinu hefur ekki verið þannig vegna þess að við sameiningu sveitarfélaga hefur verið komið á fyrirkomulagi sem hentar og er reyndar nauðsynlegt til að halda uppi nærþjónustu. Hvað stéttarfélögin varðar þá eyðir tæknin þörf fyrir rekstur örsmárra, staðbundinna félaga,” segir Björn. 

Landsbyggðin haldi vöku sinni

Hann telur að landsbyggðin þurfi að vera á verði gagnvart mögulegri ásælni stórra félaga í Reykjavík. „Við á landsbyggðinni þurfum að átta okkur á stöðunni. Stækkum við ekki og eflum okkur munu stóru félögin í Reykjavík breyta sér í landsfélög og gleypa þá litlu. Þá verða félögin úti á landi útibú frá höfuðstöðvunum í Reykjavík. Dettur einhverjum í hug að það sé betra fyrirkomulag? Sameining er nauðsynleg og félög munu neyðast til að sameinast áður en langt um líður. Félagsfólk mun ekki sætta sig við óbreytt ástand, það greiðir félagsgjaldið til að fá þjónustu. Smærri félög skortir sérhæfingu til að veita þá þjónustu og það er fólkið sem á félagið sitt,” segir Björn þungur á brún.  

Jákvæð og afgerandi áhrif

Aðspurður kveðst Björn telja að mjög skorti á að landsmenn geri sér almennt grein fyrir því að helstu stoðir nútíma velferðarríkis séu reistar á réttindabaráttu verkafólks. „Þetta eru ekki verk pólitíkusa. Kjörin og réttindin hafa fengist með linnulausri baráttu. Við höldum þessum árangri ekki nógu vel á lofti. Oft erum við upptekin af neikvæðum hlutum í forustu hreyfingarinnar. Af hverju ættu félagsmenn að vera ánægðir ef forustan er það ekki? Við höfum gert marga frábæra samninga, við höfum náð mjög miklum árangri og við höfum haft afgerandi áhrif á mótun samfélagsins, almenningi öllum til heilla. Auðvitað eigum við að segja frá þessu og standa keik fyrir því sem við gerum og höfum gert.”  

Farið yfir réttindin á námskeiði með félagsfólki.

Vaxtaokur og verðbólga

Horft til nánustu framtíðar telur Björn við blasa að verkefni verkalýðshreyfingarinnar verði að berjast gegn vaxtaokri banka og verðhækkunum fyrirtækja sem þau réttlæti með tilvísun til mikillar verðbólgu. Vextirnir, okrið og húsnæðismálin séu stærstu hagsmunamálin nú um stundir sérstaklega með tilliti til viðkvæmari hópa á borð við ungt fólk, leigjendur og fyrstu kaupendur húsnæðis. „Annars hefur baráttan í þessi 40 ár jafnan verið sú að ná að hækka lægstu launin þannig að fólk geti lifað sómasamlegu lífi. Það breytist ekki.” 

Aðför að verkalýðshreyfingunni

„Fyrir hreyfinguna sjálfa held ég að stærsta verkefnið verði að halda í það sem við höfum þegar náð. Sterk öfl sækja gegn verkalýðshreyfingunni. Við höfum sofið á verðinum. Við verðum að gera félagsmönnum ljóst hversu dýrmætt það er sem við höfum náð fram,” segir Björn og bendir máli sínu til stuðnings á frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði sem lagt var fram síðasta haust. Hann segir tilganginn að baki frumvarpinu vera þann að tryggja atvinnurekendum rétt til að ákveða hvort og þá í hvaða stéttarfélagi starfsfólk þeirra verði. Þetta sé skipulögð aðför að sjálfum grundvelli hreyfingarinnar og félagskerfi launafólks í landinu. Hann vonast til að þessi furðusmíð endurspegli andúð jaðarfólks á verkalýðshreyfingunni og kveðst ekki trúa því að aðrir flokkar á þingi ætli að styðja slíkt óþurftarverk. „Ég vona að stjórnmálamennirnir geri sér ljóst hversu mikilvæg verkalýðshreyfingin er fyrir velferðarstigið og sjálfa samfélagsgerðina. Nái þetta frumvarp fram að ganga er framtíð hreyfingarinnar ekki björt.  

Björt framtíð

Talandi um bjarta framtíð víkur Björn máli að viðleitni Einingar-Iðju til að vekja áhuga ungra Norðlendinga á verkalýðs- og samfélagsmálum. Félagið hefur nú um 20 ára skeið heimsótt 10. bekkinga og framhaldsskóla á starfssvæðinu til að kynna starfsemina og þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Björn segir ekki fara á milli mála að þetta hafi skilað miklum árangri. Hann nefnir að í síðustu Gallup-könnun fyrir félagið hafi 25% þátttakenda verið undir 25 ára aldri. Krakkarnir í skólunum sýni starfseminni almennt áhuga og sjá megi beinan afrakstur þessarar viðleitni í því að þetta sama unga fólk komi nú á skrifstofuna og leiti úrlausnar sinna mála.   

Félagsmálin í miðstjórn

Björn sat í rúm 30 ár í miðstjórn Alþýðusambandsins og allt fram til þess er ný var kjörin á nýafstöðnu framhaldsþingi. Hann segir að fyrr á tíð hafi meiri umræða um félagsleg málefni farið fram á þessum vettvangi. Hann nefnir málefni landsbyggðar og einstakra starfsstétta. „Núna er meira pælt í hagfræði og sérfræðingamál er meira áberandi. Auðvitað er það nauðsynlegt líka og í gegnum tíðina hefur Alþýðusambandið notið þeirrar gæfu að hafa frábært starfsfólk á skrifstofunni.”  

Hann telur svæðisskiptingu vanta innan miðstjórnar til að tryggja eðlilegt vægi landsbyggðarinnar. Því sé það svo að innan þessa apparats sem stjórnar Alþýðusambandinu á milli þinga halli á landsbyggðinna. Tengdur þessu sé skortur á umræðu á þessum vettvangi um ráðandi greinar utan höfuðborgarinnar þ.e. landbúnað og sjávarútvegsmál. Að vísu telur að hann að andinn hafi breyst nokkuð eftir COVID-faraldurinn; sífellt fleiri innan ASÍ geri sér nú grein fyrir að skefjalaus innflutningur á matvælum og öðrum nauðsynjum sé ekki besta leiðin til að tryggja fæðuþörf þjóðarinnar. 

Björn telur miðstjórn sem skipuð er 15 fulltrúum hæfilega stóra. Hann er andvígur þeirri hugmynd að mynduð verði framkvæmdastjórn sem annist daglega stjórnun en kveðst fylgjandi því að formenn landssambanda séu sjálfkjörnir í miðstjórn. Þar með væru fimm sæti frátekin.  

Með félagsfólki í skemmtiferð í Flatey á Skjálfanda.

Skortir tengsl við stjórnvöld

Á árum áður áttu stjórnmálaflokkar fulltrúa í miðstjórn Alþýðusambandsins og fór fjöldinn þar eftir gengi í þingkosningum hverju sinni. Þannig tók Björn fyrst sæti í miðstjórn sem þriðji maður Framsóknarflokksins.  Hann glottir þegar hann rifjar þetta fyrirkomulag upp en segir að flokkarnir hafi þrátt fyrir þetta ekki haft mikil ítök í miðstjórninni og flokkspólitík alls ekki verið ráðandi. Hann kveðst þó ekki sakna þessa kerfis, það hafi verið barn síns tíma, þess tíma þegar stjórnmálaflokkar voru alltumlykjandi í þjóðlífinu.  

„Sem betur fer er þetta horfið. Hins vegar tóku stjórnvöld meira mark á Alþýðusambandinu hér fyrr á tíð. Við vorum líka þá oft ágætlega sammála um hvernig beita ætti stjórnvöld þrýstingi. Þarna hefur ýmislegt breyst, sumt til hins betra. Flokkarnir eru sjálfstæðari í dag og telja sig komast af án ASÍ nema á tilgreindum hátíðarstundum.”  

Hann segir marga stjórnmálamenn hafa ágæt tengsl við verkalýðshreyfinguna og sýna henni áhuga. Almennt sé þó ekki fyrir hendi sama pólitíska sambandið og áður. „Núverandi forusta ASÍ hefur ekki góð tengsl við ríkisstjórnina og hið pólitíska vald,” segir Björn og telur það áhyggjuefni. Hreyfingunni sé nauðsynlegt að forystumenn hennar séu í talsambandi við ráðherra og ríkisstjórn. 

Yfirgengileg orðræða veldur skaða

Þetta samtal Björns við Vinnuna fer fram áður en framhaldsþing ASÍ er haldið í lok apríl. Líkt og alkunna er leystist 45. þingið upp haustið 2022 vegna innbyrðis átaka í verkalýðshreyfingunni. Fór svo að þinginu var frestað á meðan leitað var sátta og fram fór umræða um leiðina fram á við.  

„Gegnum árin hafa verið uppi deilur innan verkalýðshreyfingarinnar - stundum hafa þær verið hatrammar en oftast hafa þær beinst inn á við. Þetta hefur nú breyst. Nú er deilunum beint út á við og orðræðan hefur á köflum verið yfirgengileg. Félagsmenn hafa komið til mín og sagt að þeir vilji ekki svona umræðu innan sinnar hreyfingar. Þessi orðræða skaðar okkur og fælir fólk frá þátttöku. Hrein skoðanaskipti á eðlilegu íslensku máli eru af hinu góða en skítkast og persónuárásir skemma.” 

Hann kveðst hæfilega bjartsýnn á sættir innan verkalýðshreyfingarinnar. „Mér þótti mjög sárt að sjá félaga mína ganga af þingi ASÍ. Margt af því fólki á eftir að sjá eftir því að hafa gert þetta og reyndar eru einhverjir þegar teknir að gera það. Verði hægt að sameina hreyfinguna á ný tekur það tíma. Þá verður fólk líka að geta talað saman með eðlilegum hætti. Við megum aldrei telja einstaklingana mikilvægari en hópinn. Einstaklingar sem telja sig stærri en hópinn eru ekki góðir til forustu.”    

Kjaramál aldraðra

Síminn gefur engin grið og ljóst að nú þarf foringinn að binda enda á spjallið og snúa sér að alvarlegri málefnum. Hann er staðinn upp frá skrifborðinu.  

Þú hættir ekki afskiptum af félagsmálum? Þú getur það ekki?  

Honum er skemmt, glottir strákslega.  

„Kjaramál aldraðra fá ekki nógu mikinn hljómgrunn. Það þýðir ekkert að reyna að kenna verkalýðshreyfingunni um það. Aldraðir eiga að hafa miklu meiri möguleika til að þrýsta á stjórnvöld um úrbætur í sínum kjaramálum. Aldraðir eru hins vegar ekki einsleitur hópur; þar er mjög breitt bil á milli þeirra sem hafa það best og síðan hinna sem ná tæpast að skrimta af því sem þeim er skammtað. Þarna vantar meiri festu. Nei, ég er ekki hættur.”  

Næsta grein Vörður til framtíðar