Vinnan logo Vinnan logo ASÍ logo English EN Efnisyfirlit

Fordæmalaust atvinnuleysi erlends launafólks á Suðurnesjum

Fordæmalaust atvinnuleysi erlends launafólks á Suðurnesjum

Fordæmalaust atvinnuleysi erlends launafólks á Suðurnesjum

- Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Weronika Niemczyk atvinnulaus bílstjóri

Atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs hefur komið hvað verst niður á fólki af erlendum uppruna, sem hingað kom á tímum mikils uppgangs í ferðaþjónustu og mættu gríðarlegri eftirspurn eftir vinnuafli. Staðan er verst á Suðurnesjum. Þar búa hlutfallslega flestir innflytjendur á landinu og hafa gert um árabil, m.a. vegna nálægðar við flugvöllinn og Bláa lónið og því hefur þar verið næga vinnu að fá. Nú er öldin önnur, á meðan almennt atvinnuleysi á Íslandi er nú tæplega 12% er það 26% á Suðurnesjunum og þar af eru rúmlega 1700 innflytjendur án atvinnu.

Smellið á spilarann hér fyrir ofan til að sjá viðtölin.

Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK

„Þegar fjórðungur atvinnubærs fólks á svæðinu er atvinnulaust þá er það ekkert annað en neyðarástand.“

Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir ástandið ekki gott. Mikill fjöldi fólks sé að klára bótarétt sinn um þessar mundir og því að færast yfir á sveitarfélögin. Hún segir að þegar 26% atvinnubærs fólks á svæðinu sé atvinnulaust þá sé það ekkert annað en neyðarástand. Guðbjörg segist óttast langtíma afleiðingar atvinnuleysis fyrir fólk því þó vissulega sé kominn gangur í bólusetningar þá muni það taka töluverðan tíma fyrir hjólin að fara að snúast eins og fyrir Covid. Því lengur sem fólk er án vinnu því erfiðara er það fyrir það að fá vinnu eða jafnvel vera hæft til vinnu. Þetta er því vítahringur.

Weronika Niemczyk
Weronika Niemczyk

„Einangrunin er eitt það erfiðasta við núverandi ástand.“

Weronika Niemczyk er Pólverji búsett á Suðurnesjum og ein þeirra sem missti vinnuna við hrun ferðaþjónustunnar. Aðspurð segir hún einangrun vera eitt það erfiðasta við núverandi ástand. Atvinnulausir eigi þar að auki mjög erfitt með að ná endum saman. Þótt atvinnuleysisbætur hafi verið hækkaðar, hafi matarverð hækkað samhliða og bæturnar séu enn of lágar til framfærslu. Weronika segir samstöðu meðal Pólverja mikla og fólk aðstoði hvað annað eftir bestu getu á þessum erfiðu tímum.

Næsta grein Glæpasnúðar á vinnumarkaði